Það er orðið langt síðan ég lagði Framsóknarflokkinn síðast í einelti. Kominn tími til að bæta úr því.
Í maí síðastliðnum voru haldnar borgarstjórnarkosningar í Reykjavík. Annað sæti Framsóknarflokksins vermdi Óskar Bergsson trésmiður eftir að Anna Kristinsdóttir hafði afþakkað sæti á framboðslista flokksins. Reykvíkingar höfnuðu Óskari Bergssyni. Með atkvæðum okkar létum við það heyrast svo ekki væri um villst að við höfnuðum þeim skoðunum sem Óskar Bergsson stóð fyrir, sem og því hvernig hann óð yfir bílastæði fatlaðra á skítugum EXBÉ herjeppanum sínum. Með atkvæðum okkar tilkynntum við stjórnvöldum að við treystum ekki þessum gerspillta stjórnmálaflokki sem var leiddur inn í kosningarnar af aðstoðarmanni manns sem studdi innrás og fjöldamorð í fjarlægu landi.
Það nægði ekki.
Hinn nýi borgarstjóri, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, dró Framsóknarflokkinn upp úr foraðinu og hlóð á hann bitlingum sem aldrei fyrr. Ekki einungis fékk aðstoðarmaðurinn fyrrverandi ótrúleg völd miðað við atkvæðamagn á bakvið sig, heldur fékk trésmiðurinn sem við höfnuðum algjörlega, tæpar 380 þúsundir í laun á mánuði fyrir setu í Framkvæmdaráði borgarinnar og skipulagsnefnd auk þess sem hann tók að sér skipulagsvinnu fyrir Faxaflóahafnir fyrir litlar 6500 krónur á tímann. Samtals eru þetta 770 þúsundir á mánuði. Var einhver að tala um spillingu?
Nú hanga þeir Björn Ingi Hrafnsson fyrrverandi ættingi minn og félagi hans Óskar Bergsson í pilsfaldi og þiggja völd að launum fyrir stuðning við Sjálfstæðisflokkinn, ef ekki pilsfaldinum hans Villa, þá í pilsfaldi Hönnu Birnu sem er nánast sú eina í borgarstjórnarmeirihlutanum sem hægt er að hanga í pilsfaldinum á. Ekki líst mér á stöðu mála.
-----oOo-----
Ekki get ég skorist undan ættartengslum við annan Framsóknarmann, sjálfa Valgerði Sverrisdóttur, en við erum sexmenningar í beinan kvenlegg, báðar komnar af Brigittu Þorvarðardóttur í Stíflisdal í Þingvallasveit, en slæmar þykja mér fréttirnar sem hún ber okkur af samningaviðræðum sínum við Dani um að þeir taki að sér varnir Íslands.
Við höfum ákaflega slæma reynslu af þeim aðilum sem hafa boðist til að vernda okkur. Sturlungar seldu varnir okkar til Noregs sem síðar framseldu samninginn til Danmerkur og allir vita hvað það kostaði okkur í möðkuðu mjöli. Í gær rakti ég lauslega hina vondu reynslu okkar af Dönum, en við má bæta að Bretar sem gerðu innrás á Ísland árið 1940 sendu síðar herskip á Íslandsmið í þeim tilgangi að knésetja íslensku þjóðina og hagsmunabaráttu hennar í fiskveiðistjórnunarmálum. Samkvæmt blaðinu sem ég las í gær, reyndu Framsóknarmenn að fá Dani til að gæta landhelgi Íslands á fjórða áratugnum, en það tókst ekki. Nú reynir Valgerður að fá þessa sömu bjórþambandi Bauna til að verja okkur. Af fenginni reynslu ber íslensku þjóðinni að hafna öllum tilraunum til að færa valdið yfir landinu og miðunum og loftinu fyrir ofan okkur í hendur þessari þjóð sem kúgaði okkur um margar aldir.
Kannski er kominn tími til að rifja upp orð þjóðhetju vorrar frá þjóðfundinum í gamla Latínuskólanum, er hann mælti: VÉR MÓTMÆLUM ALLIR.
-----oOo-----
Velkominn Giljagaur. Vegna ummæla um Stekkjarstaur en ekki Stekkjastaur í bloggfærslum og dagblöðum gærdagsins spyr ég sem sú sem ekki veit: Af hverju er Bolungarvík ávallt skrifuð sem Bolungarvík, en ekki Bolungavík? Ef ég man rétt, hefi ég ýmist séð nafnið Bolungavík á Ströndum skrifað sem Bolungavík eða Bolungarvík. Hvar eru íslenskufræðingarnir og hvar eru bæjarstjórahjónin í Bolungarvík?
miðvikudagur, desember 13, 2006
13. desember 2006 – Óskar Bergsson og Framsóknarflokkurinn
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 06:52
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli