Ég fór í hina hefðbundnu Þorláksmessugöngu friðarhreyfinga í dag niður Laugaveginn. Þar var fullt af góðu fólki að venju, herstöðvaandstæðingar, ýmsir vinstrimenn og marga sá ég bloggarana í göngunni. Hinsvegar engan fastan Moggabloggara, enda stunda þeir ekki friðargöngur, eru sýnu hrifnari af að hylla foringjann. Óvinir ríkisins voru fjölmennir en hvorki Jón Baldvin né Árni Páll Árnason voru þarna, enda flokkast þeir varla sem óvinir ríkisins og sjálfir hluti af gömlu ríkisvaldi. Þá sá ég tvo Framsóknarmenn. Sigmar B. Hauksson læddist meðfram veggjum á móti göngunni, en hinn Framsóknarmaðurinn sem ég veit að er utan af landi, þvældist um eins og hann væri villtur. Þegar fundinum lauk á Lækjartorgi gekk ég til baka upp Bakarabrekkuna og Laugaveginn og sá þá ónefnda Framsóknarmanninn þar sem hann var enn að ráfa um Laugaveginn bláedrú. Ég þóttist vita að einhver myndi vísa honum réttu leiðina út til landsbyggðarþorpsins Kópavogs þar sem hann á heima og lét hann því eiga sig.
-----oOo-----
Nú er komin Þorláksmessa og gluggaseríurnar sem ég keypti í Húsasmiðjunni eru komnar í ruslið. Þá er ég farin að hengja jólaljós frá Bykó á litla glænýja ljósleiðarajólatréð mitt frá Húsasmiðjunni þar sem mótorinn sem knýr litaspjaldið snýst ekki nema með hjálp. Svo á ég hér ákaflega sæta ljósakúlu frá Húsasmiðjunni sem ég ætlaði að hengja í einn glugga, en þar sem það kviknar ekki á henni, fær hún að vera í kassa þessi jólin. Næsta ár ætla ég ekki að kaupa mér jólaskraut frá Húsasmiðjunni.
laugardagur, desember 23, 2006
23. desember 2006 – 2. kafli – Friðargangan
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 20:33
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli