þriðjudagur, desember 19, 2006

19. desember 2006 – Á Hlemmi

Það var vorið 1996. Ég hafði farið í umdeilda aðgerð árinu áður, en var ákveðin í að flytja heim aftur og hafði skroppið til Íslands í nokkra daga í þeim tilgangi að leita mér að vinnu á Íslandi. Þar sem ég var á gangi framhjá Hlemmi einn góðviðrisdag, rakst ég óvænt á gamlan kunningja sem ég hafði ekki séð síðan ég flutti af landi brott sjö árum áður. Kunninginn hafði það að atvinnu að aka strætisvagni og beið hann eftir vagninum sínum á vaktaskiptum er mig bar þar að.

Ég gekk auðvitað rakleitt að kunningjanum og heilsaði honum, en öfugt við það sem ég átti von á, muldraði hann eitthvað, svaraði fálega, leit undan eins og hann væri að leita að flóttaleið og hendur hans grófust djúpt í vasana eins og væri hann í vasabilljarð. Hann notaði síðan fyrsta mögulega tækifæri til að losna undan þessari pínlegu aðstöðu sem ég virtist hafa sett hann í með því að heilsa honum og hljóp inn í húsið, en ég hélt áfram göngu minni niður Laugaveginn. Ég hefi ekki séð ástæðu til að kasta á hann kveðju síðan þetta var og reyndar ekki séð hann nema einu sinni síðan og þá í nokkurri fjarlægð.

Verst þótti mér þó að hafa ekki getað laumað því að strætisvagnsstjóranum, að kynáttunarvandi væri atvinnusjúkdómur meðal þessarar ágætu stéttar, en í samtökum þeim sem ég veitti forystu um tveggja ára skeið, voru þrír strætisvagnsstjórar auk leigubílstjóra og eins lestarstjóra.


0 ummæli:







Skrifa ummæli