laugardagur, desember 30, 2006

30. desember 2006 – Manneskja ársins

Að undanförnu hefur mikill fjöldi fólks verið dreginn fram í kastljósið og gert að manni ársins eða konu ársins eða einhverju öðru ársins af misstórum dómnefndum eða tilmælum. Dorrit var valin sem kona ársins vegna þess hve góð hún hefur verið við hann Óla sinn og Róbert Wessmann var valinn maður ársins af því að hann græddi svo mikla peninga og Villi Vill var valinn maður ársins af inhverri útvarpsstöð. Ung stúlka var valin Íslendingur ársins fyrir einstaklega kjarkmikla baráttu sína fyrir fjölskyldu sinni þrátt fyrir erfitt krabbamein (og mættu aðrir taka hana sér til fyrirmyndar) og í dag heyrði ég ungan mann tilnefna afa sinn sem mann ársins á Rás 2.

Tímaritið Time valdi þig sem mann ársins og er þá fátt orðið um fína drætti og vafalaust er önnur hver bloggsíða búin að tilnefna eða velja einhvern sem mann eða konu ársins rétt eins og blöðin og ljósvakafjölmiðlarnir. Sjálf get ég ekki verið minni en allt hitt fólkið og af því að þú hefur verið valinn maður ársins hjá Time, er ekki nema sjálfsagt að ég velji mig, þó ekki væri nema vegna þess að ég á afmæli í dag.

Lofgjörð sú sem ég flutti mér til heiðurs fyrir einu ári verður ekki endurtekin, en ef aðdáendur mínir vilja endilega njóta hennar, er hana að finna hér. Að þessu sinni vil ég fremur birta lítt breytta lofgjörð um mig sem ég skrifaði fyrir tveimur árum, ef einhverjir lesenda minna skyldu hafa gleymt henni:

Það var á þessum degi fyrir 55 árum síðan, að lítið barn sá dagsins ljós í litlu koti við suður í Reykjavíkurkaupstað. Þrátt fyrir stöku áföll fyrstu æviárin var framtíðin björt og í litla dalnum þar sem barnið ólst upp að miklu leyti, var talið víst að það tæki við prestakallinu þegar fram liðu stundir. Aldrei fór þó svo, því ævintýraþráin kallaði og dalurinn yfirgefinn, björt framtíð skilin eftir að baki og haldið til Reykjavíkur og síðar til sjós og framandi stranda.

Þessi ómerkilega snift tók bílpróf á sautján ára afmælisdaginn, fjórum dögum áður en heimsmethafinn geðþekki í góðakstri fæddist og hefur það komið fram í aksturslagi hennar. Hún virðist halda að hraðamælisnálin eigi alltaf að vísa til hægri í hægri umferð og fáir þora að ferðast í bifreið með henni og enginn oftar en einu sinni. Þetta þykir þess merkilegra að ekkert hefur gengið að fá hana til að feta hægri stigu í þjóðmálum og telst hún enn vera vinstri rauð.

Félagsmálin kölluðu og ákaft prédikað úr ræðustól á félagsfundum í skólafélaginu. Það var barist gegn hernum og NATÓ, setnir sellufundir og farnar Keflavíkurgöngur og haldnar messur á torgum á 1. maí gegn auðvaldi og arðráni. Það var gengið í heilagt hjónaband, en hún reyndist óþolandi í hjónabandi og því var henni skilað aftur. Börnin urðu þrjú og voru þau skírð og fermd. Síðar bættust við nokkur barnabörn og hlutu þau sömu örlög. Það nægir af fjölskyldumálum afmælisbarnsins. Það var flúið til útlanda og starfað þar um nokkurra ára skeið og það var flutt aftur til fósturjarðarinnar og sest að efst á Breiðholtsjökli, en síðar flutt niður í Árbæjarhverfið

Það vantaði vinnu og afmælisbarnið fór til starfa við að vitja dælustöðva og borhola í dalnum góða neðan við Víghólinn fræga þar sem aldraður Egill er sagður hafa banað þrælum sínum og andspænis kirkjunni sem var reist fyrir erfðafé Stefáns hreppstjóra Þorlákssonar. Eftir nokkurra ára störf í dalnum og nágrannasveitarfélögum, var loks ljóst að lítið gagn væri að kellu og var henni þá komið fyrir í kjallaranum í Royal Alfreð Hall (nafnið á víst ekki við lengur, en ætli Sviðastaðir þættu móðgandi?) þar sem hún eyðir vinnustundunum í dag við að bora í nefið og naga neglurnar.

Þetta voru helstu æviatriði þessarar vesælu persónu sem á afmæli í dag og fáu hægt að bæta við um lífshlaupið. Það er þó ljóst að þar hefur mikil og vegleg ævi farið fyrir lítið. Spurningin er hvort ekki sé kominn tími til að senda kerlingarhróið í Prestaskólann og láta hana síðan sækja um prestakallið góða í æskudalnum?

Ætli þessi ævisaga myndi gefa ævisögu Hannesar Hólmsteins eftir?

Aðdáendur þessarar merku persónu, þ.e. aðdáendur mínir, munu halda flugeldasýningu mér til heiðurs og verður hún um gjörvalla Reykjavík á sunnudagskvöld klukkan 24.00.

-----oOo-----

P.s. Ég og sumir aðstandendur Moggabloggs höfum náð mjúkri lendingu í þrætum okkar og ekki orð um það meir.


0 ummæli:







Skrifa ummæli