miðvikudagur, desember 13, 2006

14. desember 2006 – Gísli Baldur Garðarsson ...

...hélt því fram í viðtali við fjölmiðla, að verið væri að láta undan háværum kröfum dómstóls götunnar með því að birta forstjórum olíufélaganna ákærur vegna margumrædds olíusamráðs. Vel mælt, enda hafa verið uppi háværar kröfur að draga höfuðpaura málsins fyrir lög og rétt og láta þá svara til saka fyrir afbrot sín.

En hver er þessi dómstóll götunnar? Ekki er það almenningur sem oft á tíðum hefur lítið lagt til málanna samanber margumrætt Baugsmál sem þó er flesta daga í sjónvarpinu, flestum til ama og leiðinda. Er dómstóll götunnar þá kannski Jón Steinar Gunnlaugsson sem tókst að kjafta sig inn á Hæstarétt með réttum samböndum auk allskyns yfirlýsinga á síðum Morgunblaðsins? Eða er það kannski Sveinn Andri Sveinsson sem hefur rekið hvert málið á fætur öðru á vettvangi götunnar með sífelldum yfirlýsingum í fjölmiðlum um sekt eða sakleysi skjólstæðinga sinna? Kannski Gestur Jónsson og fjandvinir hans Jón H.B. Snorrason og Haraldur Johannessen sem hafa rekið hið viðamikla Baugsmál að miklu leyti á skjánum? (Ég vil taka fram að ég hefi ekki séð sömu athyglissýkina hjá stráknum hans Magnúsar heitins á Grafarbakka, enda væri hann þá ekki sonur hins mjög svo hógværa föður síns)

Gísli Baldur Garðarsson hefur ekki verið vanur að reka mál fyrir fjölmiðlum, heldur hefur hann verið manna duglegastur að láta verkin tala sínu máli og verið fremur hógvær á ótímabærar yfirlýsingar. Því þykir mér skjóta skökku við er hann blandar sér skyndilega í hinn eina sanna dómstól götunnar, lögmannahópinn sem rekur mál sín í fjölmiðlum fremur en í réttarsalnum og fer að kveða dóma í sjónvarpi og útvarpi, löngu áður en dómur fellur.

-----oOo-----

Þá er Stúfur væntanlega kominn til byggða. Öfugt við bræður hans tvo sem komu af fjöllum, kom Stúfur frá Namibíu, nokkuð á undan áætlun hefi ég sannfrétt, en samt kominn og veri hann velkominn eins og andlegir bræður hans.

-----oOo-----

Ég vil endilega fá sem flest álit á bryggjukantinum við Kleppsveg samanber færsluna mína frá því 11. desember.

-----oOo-----

Loks fær þýðandi kvikmyndarinnar 100% menneske sem sýnd var í sjónvarpinu á miðvikudagskvöldið falleinkunn fyrir hörmulega þýðingu myndarinnar. Sjálf valdi ég betri söngva en glassúrvæmna ástarsöngva er ég var komin á skurðarborðið og sönglaði Goodbye Cruel World fyrir hjúkkurnar síðasta augnablikið áður en ég kvaddi gamla lífið.


0 ummæli:







Skrifa ummæli