Á jóladagskvöld var flutt frétt um gleymt jólatré við Reykjavíkurhöfn. “Ha, er búið að gleyma Hamborgarjólatrénu?” hugsaði ég og sperrti eyrun. Fréttin fjallaði um það að Íslendingar vissu ekki lengur hversvegna íbúar Hamborgar senda Íslendingum jólatré á hverju ári sem þeir hafa gert síðan 1965 og var síðan flutt viðtal við Unni Friþjófsdóttur útgerðarmanns á Patreksfirði, Ólafssonar Jóhannessonar, en eldgamlir sjóhundar muna vafalaust eftir nýsköpunartogara sem bar nafn Ólafs og einkennisstafina BA-77, en faðir Unnar var í hópi íslenskra útgerðarmanna og sjómanna sem blöskraði svo neyðin og fátæktin í þýskum hafnarborgum eftir lok seinni heimsstyrjaldar að þeir hófu matargjafir þangað. Það var svo 1965 sem félagsskapur fólks í Hamborg undir heitinu Wikingerrunde ákvað að þakka fyrir sig og í samráði við Hamborgarhöfn, hóf að senda árlega jólatré til hafnarstjórnar Reykjavíkur og var tréð lengstum reist framan við Hafnarbúðir.
Sjálf get ég ekki sagt að ég hafi gleymt tilefni þessa jólatrés, en með því að stór hluti hafnsækinnar starfsemi Reykvíkinga er farinn úr gömlu höfninni, verða erindin færri og færri niður á höfn með hverju árinu og smám saman gleymist að þarna er reist jólatré á hverju ári til minningar um vinarþel Íslendinga og þýsku þjóðarinnar.
Myndin er tekin af síðunni Togarar sjá http://www.togarar.homestead.com/bretog.html, en þar hefur Jóhann Jóhannsson unnið gott starf við að koma sögu íslenskrar útgerðar á netið.
-----oOo-----
Fyrir 22 árum síðan keypti ég mér hljómkassettu með jólasöngvum Dolly Parton og Kenny Rodger og hefi ég spilað þessa kassettu á hverju ári síðan þá og talið ómissandi í aðdraganda jóla og allt til þrettándans, þá sérstaklega þau ár sem ég hefi ekki verið í nálægð við íslenska jólatónlist. Í fyrra fannst mér tími til kominn að endurnýja þreytta kassettuna og keypti ég mér geisladisk með sama nafni og sömu flytjendum. Nú um jólin fór ég að undrast af hverju ég hefði ekki heyrt sum lögin þetta árið og fór að skoða geisladiskinn betur og viti menn. Enska útgáfan af Heimsumból (Silent night) var ekki á geisladiskinum, en eitthver brjóstsykursjól (Hard Candy Christmas) komin í staðinn. Gamla þreytta kassettan er nú komin á sinn stað, en geisladiskurinn ofan í skúffuna með jólaskrautinu frá Húsasmiðjunni.
-----oOo-----
Golfdruslan LN-131 er farin úr stæðinu mínu og ástæða til að fagna.
þriðjudagur, desember 26, 2006
26. desember 2006 – Hið gleymda jólatré
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 00:01
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli