mánudagur, desember 04, 2006

4. desember 2006 – Um tvöföldun Suðurlandsvegar

Í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins á sunnudag var rætt við Ágúst Mogensen sem vildi aðgreina bílaumferð í hvora átt á einföldum Suðurlandsveginumveginum. Um leið var þess getið að ekki væri á áætlun hjá Vegagerðinni að tvöfalda Vesturlandsveginn eða Suðurlandsveginn á næstu árum, en gera tveir+einn veg á nokkrum köflum á veginum. Þetta voru vond tíðindi, en þó ekki óvænt því í Samgönguráðuneytinu situr gamall karlfauskur sem berst hatrammlega gegn öllum samgöngubótum í nágrenni við Reykjavík.

Það er löngu kominn tími til að ráðast í Sundabraut og tvöföldun þjóðveganna frá Reykjavík til Borgarness og frá Reykjavík að Hellu. Fjöldi hagsmunaaðila hefur krafist þessara samgöngubóta og jafnvel boðist til að byrja framkvæmdir án þátttöku ríkisins. Það mun hinsvegar ekki ske á meðan Sturla Böðvarsson er samgönguráðherra. Því er nauðsynlegt að losna við hann sem fyrst. Vonandi losnar þjóðin við hann úr Samgönguráðuneytinu og ekki seinna en eftir Alþingiskosningarnar í vor.

Alfreð Þorsteinsson lagði til á sínum tíma, að vegurinn austur fyrir fjall verði lýstur upp, en talaði þar fyrir daufum eyrum samgönguyfirvalda sem og Vegagerðarinnar. Það er í sjálfu sér skiljanlegt í ljósi þess að ljósastaur réðist á ónefndan sveitastjórnarmann á Suðurlandi þegar hann var á ferð í nágrenni við ljósastaur í Reykjavík á síðastliðnu vori. Þótt ljósastaurinn hafi einungis gert það í sjálfsvörn, finnst flokksbróður sveitastjórnarmannsins sem situr í Samgönguráðuneytinu óþarfi að auka á hættuna á fleiri slíkum árásum með fjölgun ljósastaura í framtíðinni.

Sjálf var ég á ferðinni í Borgarfjarðarsýslu á laugardagskvöldið og fannst orðið óþægilegt að aka um í myrkrinu vegna dimmviðris á leið sem ég þekkti lítið til, þ.e. frá Akranesi og út að þjóðveginum til Borgarness. Hin fjölförnu vegamót Akranesvegar við þjóðveg nr 1 sem og vegamót Hvalfjarðarstrandarvegar voru ljóslaus og í myrkri. Það ætti ekki að vera mikið mál að lýsa upp jafnmikilvæga punkta í umferðarkerfinu. Vonandi verður það gert um leið og við fáum nýjan samgönguráðherra.

-----oOo-----

Allt frá barnæsku hefi ég heyrt að jólasveinarnir séu þrettán og byrji að koma til byggða þrettán dögum fyrir jól. Mér finnst það góður siður svo ekki sé talað um þann sparnað sem slíkur siður hefur í för með sér fyrir foreldra, að þurfa ekki að leika jólasvein löngu áður en Stekkjastaur byrjar að gefa í skóinn.

Það er því hið versta mál að einhverjir gerfijólasveinar sem enn eru á fjöllum séu að syngja og tralla fyrir blessuð börnin fyrir framan Alþingishúsið heilli viku áður en sá fyrsti kemur til byggða. Það ætti að vera nóg að sýna Vilhjálm borgarstjóra og Sturlu samgönguráðherra svo blessuð börnin sannfærist um tilvist jólasveinanna.


0 ummæli:







Skrifa ummæli