laugardagur, apríl 11, 2009

11. apríl 2009 - Hvað um felustyrki stjórnmálaflokkanna?

Á þeim árum sem ég starfaði hjá Eimskip fóru gjarnan einhverjir skipverjar í frí skömmu fyrir kosningar til atkvæðasmölunar fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Oftast voru þetta stýrimenn sem héldu launum hjá Eimskip meðan á smöluninni stóð og héldu svo til skips að nýju að afloknum kosningum. Þegar þeir vildu svo hætta til sjós og komast í land, opnuðust þeim allar dyr og þeir fengu þægileg störf í landi, ef ekki hjá Eimskip, þá hjá ríki eða borg (meðan íhaldið réði borginni) eða þá hjá fyrirtækjum og stofnunum sem tengdust flokknum.

Ég hefi heyrt að Framsóknarflokkurinn hafi einnig átt sitt fólk hjá Samskip sem sinnti sömu erindum fyrir kosningar. Ég er ekki viss um að þetta viðgangist lengur, ekki vegna þess að skipafélögin hafi ekki efni á þessu lengur, heldur vegna þess að skipverjar skipanna eru flestir útlendingar sem ráðnir eru í gegnum starfsmannaleigur í Lundúnum.

Ætli þessi „sjálfboðaliðastörf“ fyrir ofangreinda flokka hafi verið skráð í bókhald flokkanna? Ég held ekki. Það er talsverður kostnaður fólginn í þessari atkvæðasmölun, en með því að menn þessir voru á launum hjá viðkomandi skipafélagi, lagðist enginn kostnaður á stjórnmálaflokkana.

Það má vel vera að þessi aðferð sé enn við lýði á fiskiskipaflotanum. Ég þekki það ekki, en mér þykir það samt líklegt. Það getur verið nauðsynlegt að tryggja að atkvæðin skili sér í tíma ef skipið er á sjó á kosningadaginn. Ég efa þó að þetta sé gert af vinstri flokkunum. Að minnsta kosti var ég aldrei hvött til að kjósa utankjörstaðar meðan ég var á sjó, enda ávallt verið yfirlýst vinstri manneskja.

Þá eru það auglýsingarnar. Fyrir kosningarnar 2003 blöskraði mér hinar yfirgengilegu auglýsingar Framsóknarflokksins. Reyndar einnig fyrir kosningarnar 2006 og 2007. Sjálfur hefur Framsóknarflokkurinn mótmælt kostnaðinum, enda með lokað bókhald til 2007, og því erfitt að sannreyna auglýsingakostnaðinn. Það má líka vel vera að Framsókn hafi rétt fyrir sér og að einhver stórfyrirtæki úti í bæ hafi greitt auglýsingarnar fyrir hönd Framsóknarflokksins og skráð í bókhaldið hjá sér og hjá auglýsingastofunni sem auglýsingu fyrir Kaupþing, VÍS eða Samskip.

Ég held því að það sé ljóst að til að losna við spillinguna, þurfi að krefjast miklu meira gegnsæi en nú er.


0 ummæli:







Skrifa ummæli