miðvikudagur, apríl 22, 2009

22. apríl 2009 - Kæra Framsókn!

Ég er móðguð. Í DV í dag birtist listi yfir verstu óvini Framsóknarflokksins að ykkar mati og mig er þar hvergi að finna! Hvað þarf ég eiginlega að gera til að teljast í hópi óvina Framsóknarflokksins? Af hverju er ég ekki á listanum. Ég fer í bullandi fýlu.

Í mörg ár lagði ég Framsóknarflokkinn í einelti, hæddist að forystumönnum hans og dró þá Halldór, Guðna og Jón Sig. sundur og saman í háði og spotti. Áður skaut ég mörgum föstum skotum á sjávarútvegsstefnu Framsóknarflokksins undir stjórn Halldórs Ásgrímssonar erfðaprins útgerðarinnar Skinneyjar á Hornafirði. Ekki bætti ég frekar úr með háði mínu gagnvart Guðna beljukyssi og nuddaði salti í sárin með orðum mínum í garð Jóns Sigurðssonar fyrrum Seðlabankastjóra og ekkiþingmanns. Ekki urðu orð mín neitt betri eða mýkri við innrás þeirra Halldórs og Davíðs inn í Írak né við fjölda annarra mála sem upp komu í staðfestri sambúð þeirra félaga sem síðan endaði með skilnaði eftir að Geir hitti sætustu stelpuna á ballinu og skildi Framsókn eftir úti í kuldanum fyrir tveimur árum.

Ég vil í þessu sambandi benda á fjölda pistla minna á http://velstyran.blogspot.com/ sem beindust beint að Framsóknarflokknum og einstöku forystumönnum og ollu vinaslitum nokkurra flokksbundinna Framsóknarmanna við mig og sýna þannig hversu mikill óþverri ég er í garð Framsóknar. Þá eru nefndir til sögunnar, auk þeirra sem áður eru nefndir, menn á borð við Björn Inga og Óskar Bergsson. Ekki má gleyma Hömmernum sem varð mér að ótæmandi uppsprettu bloggskrifa og svo hjónabandi Binga og Villa viðutan í borgarstjórn Reykjavíkur.

Ég viðurkenni að ég hefi ekki verið mjög dugleg við að leggja Framsókn í einelti á undanförnum tveimur árum. Ástæðan er einföld. Maður ræðst ekki á liggjandi andstæðing. Það er algjört lágmark að hann rísi á fætur áður en ráðist er að honum aftur, en því miður virðist ekki mikil von til þess miðað við síðustu skoðanakannanir.

Ef þið lofið að taka mig aftur á lista óvina ykkar, lofa ég ykkur á móti að ég skal sparka í ykkur af öllu afli, hvort heldur þið eruð standandi eða liggjandi.

Með kærum sumarkveðjum

Anna K. Kristjánsdóttir


0 ummæli:







Skrifa ummæli