Já, ég er hluti af elítunni sem átti að vera nýtt skammaryrði Steingríms Jóhanns Sigfússonar um okkur sem styðjum aðildarviðræður við ESB. Það þarf ekki annað en að skoða allar myndbandsupptökurnar sem eru til af mér í hinum ýmsu sjónvarpsstöðvum og úrklippurnar úr gömlum dagblöðum og tímaritum til að sannfærast enn betur um að ég sé hluti af þessari ágætu elítu.
En ég hefi gert meira til að vinna fyrir þessari ágætu nafnbót. Ég hefi vakað fleiri klukkustundir en Steingrímur Jóhann við að draga björg í bú og ég hefi líka dýft höndunum í kalt vatn sem er meira en hægt er að segja um Steingrím Jóhann. Þessvegna er ég líka hluti af elítunni sem Steingrímur kallar svo. Það er eitthvað annað en þetta strangheiðarlega lið sem berst svo hjartanlega gegn aðildarviðræðum við ESB. En ég hefi líka lent í því að fá ekki greitt fyrir vinnu mína á sjó, en það verður að hafa það hugfast að þar var strangheiðarlegt útgerðarauðvald á ferðinni sem, rétt eins og Steingrímur Jóhann, berst einarðlega gegn aðildarviðræðum við ESB.
Langar vinnulotur á sjó og svikin laun hafa gert mig að hluta elítunnar sem berst fyrir aðildarviðræðum við ESB, því þótt við höfum samið um aukaaðild að ESB sem fært hefur okkur ýmsar tryggingar gegn vinnuþrælkun, má betur ef duga skal. Þess vegna ítreka ég stuðning minn um aðildarviðræður við ESB.
Það er líka ágætt fyrir Steingrím Jóhann að vita að í elítunni er fólk sem er alið upp í fátækt fjarri miðbænum, hefur þurft að vinna fyrir hverri krónu í sveita síns andlits og býr í lítilli blokkaríbúð ofan við Ártúnsbrekkuna.
Ef barátta Steingríms Jóhanns er honum jafnmikið hjartans mál og hann vill vera láta, þá er einfaldast fyrir hann að setjast í stjórnarandstöðu með Sjálfstæðisflokknum og bjóða Framsóknarflokknum og Borgarahreyfingunni að taka keflið þar sem hann skildi það eftir og semja um aðild að bandalagi siðaðra þjóða undir merkjum Evrópubandalagsins. Þessir tveir hópar hafa lýst sig reiðubúna að taka þátt í viðræðum um Evrópusambandsaðild. Þessvegna erum ég og Samfylkingin ekki ein um að vera elítan, heldur einnig meirihluti þeirra sem sitja á Alþingi eftir nýafstaðnar kosningar.
sunnudagur, apríl 26, 2009
26. apríl 2009 - Ég er hluti af elítunni
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 23:21
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli