Að undanförnu hafa Sjálfstæðismenn klifað á því sínkt og heilagt að ekki hafi verið samþykkt stjórnarskrárbreyting í hálfa öld þar sem ekki hafi verið samkomulag á milli allra flokka. Þetta er alveg rétt og engin ástæða til að rengja það á nokkurn hátt, enda ástæðulaust að breyta stjórnskipunarlögum eins ríkis nema ástæða sé til þess.
Stjórnarskrárbreytingin 1959 var viðamikil. Þar voru tekin upp kjördæmi í stað sýslna sem var mikil þörf á í breyttu samfélagi þar sem íbúar í bæum og borg höfðu tekið við af bændasamfélaginu og vildu fá aukin réttindi til samræmis við fjöldann. Auðvitað var Framsóknarflokkurinn á móti þessari breytingu. Hann var hinn gamli valdaflokkur bændastéttarinnar og hafði haft mikil völd og marga þingmenn miðað við atkvæðafjöldann sem voru að baki hverjum þingmanni. Því var það eðlilegt að Framsókn berðist gegn breytingunni sem hinn fallandi valdaflokkur.
Í dag er það Sjálfstæðisflokkurinn sem berst fyrir völdum sínum gegn vilja meirihluta þjóðarinnar. Útgerðarauðvaldið krefst valda þeirra sem það öðlaðist smám saman frá aldamótum til 1959 og þjónarnir halda uppi málþófi á Alþingi og benda á þá staðreynd að ekki hafi verið stjórnarskrárbreyting án þátttöku allra flokka frá 1959. Það er eðlilegt. Sjálfstæðisflokkurinn er hin fallandi stjarna nýrrar aldar rétt eins og Framsóknarflokkurinn var fallandi stjarna fyrir hálfri öld.
Mér finnst eðlilegt að Alþingi fari ekki heim fyrr en að afloknu málþófinu og stjórnarskrárbreytingunni. Ef alþingismenn Sjálfstæðismenn vilja heldur syngja gamla söngva á Alþingi í stað þess að berjast fyrir endurkjöri meðal fólksins í landinu finnst mér sjálfsagt að lofa þeim slíku. Langt málþófið verður bara þeirra tap þótt helst vildi ég að næsta þingfundi verði ekki frestað heldur haldið áfram þar til Sjálfstæðismenn hætta málþófinu. Það yrði þá ekki í fyrsta sinn sem menn þurfa að standa í þrjá sólarhringa til að koma í veg fyrir að skútan fari á hliðina.
sunnudagur, apríl 05, 2009
5. apríl 2009 - Hrapandi valdastjörnur
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 00:00
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli