Þessi stutti pistill fjallar ekki um svifryk af völdum nagladekkja. Ástæðan er einföld. Mig grunar að ein stærsta ástæðan fyrir myndun svifryks á götum Reykjavíkur og nágrennis sé vegna lélegra efna sem notuð eru í gatnagerð hér og sem tætast upp við minnstu snertingu dekkja við malbikið. Allavega finnst mér mjög óeðlilegt að sjá hve göturnar í Reykjavík koma miklu verr undan vetri á sama tíma og nagladekk eru mjög algeng í Stokkhólmi án þess að sjái á götunum á sama hátt og þrátt fyrir saltburð á báðum stöðum. Að auki stórsér stundum á nýlögðu malbikinu að hausti.
Frá vinnustað mínum blasir við hjólbarðaverkstæði eitt í Reykjavík. Það virðist ekki hafa verið mikið að gera þar að undanförnu, allavega ekki fyrir páska, en síðustu dagana hefur verið löng röð af bílum fyrir utan sem bíða eftir dekkjaskiptum. Það virðist hafa verið opið þar í morgun því löng röð bíla var þar fyrir utan allan morguninn, en eftir að lokaði eftir hádegið, hefur mátt sjá einn og einn bíl renna þar að í von um að enn væri verið að skipta um dekk.
Þetta er dæmigert fyrir Íslendinga. Það er ekki farið að huga að sumardekkjunum fyrr en komið er að síðustu dagsetningu leyfilegrar notkunar á nagladekkjum og þá einvörðungu til að spara sér tuttuguþúsund kallinn sem það kostar að trassa dekkjaskiptin og þá fer allt í óefni. Á sama hátt fara fæstir á dekkjaverkstæði fyrr en eftir að fyrsti snjór fellur að hausti til að skipta aftur yfir á vetrardekkin. Þeir aðilar sem ekki ná því að skipta fyrstu dagana eftir fyrstu snjókomu haustsins, bíða þá þar til snjókoma númer tvö að hausti skellur á okkur því engum dettur í hug að skipta yfir á vetrardekkin á meðan sól skín í heiði þótt kominn sé vetur.
Sjálf ek ég um á heilsársdekkjum og hefi ekki miklar áhyggjur af dekkjaskiptum að vori né hausti. Ég á að vísu nagladekk á felgum heima í geymslu, en hefi ekki fengið tækifæri til að nota þau að vetri til undanfarin ár þar sem ekki hefur verið farið í langferð að vetri til og fá tækifæri hafa gefist til að nota þau innanbæjar þessi sömu ár. Ef ég þarf að skreppa út úr bænum tekur það mig einungis um klukkutíma að sækja dekkin og koma þeim undir bílinn og hinum dekkjunum inn í geymslu í staðinn.
-----oOo-----
Ég ítreka svo þakklæti mitt til Sjálfstæðismanna á Vesturlandi sem auglýstu að Samfylkingin væri hlynnt nánari samvinnu við Evrópuþjóðir Með orðum þeirra þykir eðlilegast að ætla að þeir berjist áfram fyrir áframhaldandi einangrunargildum gömlu borgarastéttarinnar.
laugardagur, apríl 18, 2009
18. apríl 2009 - Um vetrardekk
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 16:34
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli