Við vitum öll að Sjálfstæðismenn langar mikið til að komast í faðm Evrsópusambandsins þótt bannað sé að segja slíkt upphátt af ótta við refsingu bláu handarinnar og útgerðarauðvaldsins. Nú hafa þeir fundið upp þá leið að taka upp evru í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og auglýstu það í heilsíðuauglýsingum, t.d. í Fréttablaðinu í morgun.
Evrópusambandið hefur þegar mótmælt þessari ósk Sjálfstæðisflokksins og virðist hún því endanlega runnin út í sandinn sama dag og eytt var miklum fjárhæðum í að kynna hana.
Sjálfstæðismönnum, sem ekki eru múlbundnir af félagsskírteininu, skal því bent á aðra leið, en hún felst í að kjósa Samfylkinguna sem ein flokka hefur mjög ákveðna stefnu í efnahagsmálum sem meðal annarra gengur út á samningaviðræður við Evrópusambandið með aðild og tengingu krónunnar við evru og vonandi upptöku hennar í framhaldinu.
-----oOo-----
Það væri svo fróðlegt að fá svör við því af hverju Sjálfstæðismenn hafa klippt út mynd af Guðlaugi Þór Þórðarsyni úr einni auglýsinga sinna þar sem sýndir voru forystumennirnir í Reykjavík ásamt formanni og varaformanni og sett Kristján Þór Júlíusson í staðinn. Er Guðlaugur Þór þá orðinn álíka óhreinn innan flokksins og Árni Johnsen?
mánudagur, apríl 20, 2009
20. apríl 2009 - Klaufaleg auglýsingaherferð Sjálfstæðismanna
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 18:51
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli