fimmtudagur, apríl 30, 2009

30. apríl 2009 - Ítrasta krafa um ESB

Eins og allir vita sem vilja vita, er Samfylkingin stærsti stjórnmálaflokkur Íslands í dag. Stærsta félagið í Samfylkingunni er Samfylkingarfélagið í Reykjavík, grasrót Samfylkingarinnar, sú hin sama sem hélt frægan fund í Þjóðleikhúskjallaranum 21. janúar síðastliðinn með stórkostlegum árangri. Sjálf held ég góðum tengslum við öflugan hóp í grasrótinni allar götur síðan fundurinn var í Þjóðleikhúskjallaranum og fæst okkar erum áhrifamikil hjá toppunum í Samfylkingunni.

Ég hitti nokkra félaga úr grasrót Samfylkingarinnar á dögunum og við ræddum Evrópumál. Í spjalli okkar kom skýrt fram sú krafa margra okkar að þegar í stað yrðu lögð drög að aðildaumsókn í ESB með það að markmiði að komast að samkomulagi um aðildarsamning í Evrópusambandið og þjóðaratkvæðagreiðslu um samkomulagið í kjölfarið með lýðræðislegum hætti. Öll önnur niðurstaða í stjórnarmyndunarviðræðunum væri óásættanleg og myndi sennilega valda alvarlegum átökum innanflokks.

Allar ákvarðanir um frestum á aðildarviðræðum munu líklega leiða til þess að pottar og pönnur verða tekin á ný úr eldhússkápunum og skundað á Austurvöll með tilheyrandi látum og kröfum um lýðræðislegar umbætur. Þá verður hvorki gaman að vera sósíaldemókratískur endurskoðunarsinni né vinstrigrænn einangrunarsinni. Þá ætlast ég líka til þess að Samfylkingarfélagið í Reykjavík leiði baráttuna gegn uppgjöfinni fyrir andstæðingum okkar.

Við slíkar aðstæður er betra að vera í stjórnarandstöðu.


0 ummæli:







Skrifa ummæli