laugardagur, apríl 04, 2009

4. apríl 2009 - Breiðavíkurdrengir og Múhameðsteikningar

Fyrir fáeinum misserum var farið fram á það við þáverandi forsætisráðherra Geir Haarde, að hann bæðist afsökunar fyrir hönd íslenska ríkisins á illri meðferð sem Breiðavíkurdrengir urðu fyrir, löngu fyrir setu hans í stjórnarráðinu. Hroki Geirs reyndist of mikill til að hann gæti sagt þessi fáu orð sem segja þurfti til að öllum liði betur. Það reyndist hinsvegar léttur leikur fyrir Jóhönnu Sigurðardóttur er hún hafði tekið við embætti, að biðjast afsökunar á meðferð ríkisins á þessum drengjum mörgum áratugum eftir að Breiðavíkurheimilið var lagt niður og rétti þannig fram sáttahönd.

Nú hefur annar slæmur pólitíkus bitið í skottið á sjálfum sér í slíkum málum. Þar á ég við Anders Fough Rasmussen forsætisráðherra Danmerkur og ábyrgðaraðila fyrir þátttöku Danmerkur í innrásinni í Írak. Nú vill hann gerast forstjóri fyrir Nató og þá segja Tyrkir nei, að vísu ekki vegna innrásar Danmerkur í Írak sem væri yfrið nóg, heldur vegna þess að hann bað múslíma ekki afsökunar á móðgunum danskra þegna á hendur hinum mjög svo fjölbreyttu trúarbrögðum þar sem andstaða gegn persónudýrkun á spámanninum er álíka heilög og krossinn í kristinni trú.

Hvorki Geir Haarde né Anders Fough Rasmussen eru persónulega ábyrgir fyrir hegðun þegna sinna né heldur atburða í fortíðinni. Með því að biðjast afsökunar eru þeir því ekki að sýna fram á iðrun á einhverju sem þeir hefðu getað gert öðruvísi, heldur eru þeir að sýna fórnarlömbum annarra og trúarbrögðum annarra virðingu, því virðing fyrir öðrum er allt sem þarf til að biðjast afsökunar.

En rétt eins og Geir er á hraðri leið til gleymsku, þá helst fyrir hroka gagnvart þjóð sinni og þá ekki einungis í Breiðavíkurmáli, þá stefnir Anders Fough í sömu átt, því sá sem sýnt hefur öðrum hroka í stað virðingar uppsker sem hann sáir.

http://velstyran.blogspot.com/2006/02/8-febrar-2006-af-mhame-spmanni.html
http://velstyran.blogspot.com/2006/02/11-febrar-2006-ll-drin-skginum.html

Til að geta lesið þær skammir sem ég hlaut eftir pistlana mína fyrir rúmum þremur árum verður að ýta á „comments“ með pistlunum.


0 ummæli:







Skrifa ummæli