fimmtudagur, apríl 23, 2009

23. apríl 2009 - Með blóðbragð í munni


Þessi ágæta grein eftir Stefán Benediktsson er tekin beint úr tímaritinu Herðubreið:

Smalamennska í Skaftafelli var ekki spennandi ferð á gæðingum um hálendi
Íslands með kviðlinga á vörum. Nei, hún var margra daga hlaup upp um fjöll
og firnindi með blóðbragð í munni og lafandi tungu af mæði.

Þannig séð mjög svipuð lífi Íslendings á seinni hluta 20 aldar.

Frá því að ég fæddist hefur krónað minnkað um 25% á ári og er nú um 1/2000 af því sem hún var fyrir tæpum 70 árum. Þetta þýðir að á hverju fullorðinsári hef ég eytt þremur mánuðum á hverju ári kauplaust í vinnu vegna krónunnar, sem hefur ekki stöðvast í hrapi sínu nema nokkur andartök á meira en hálfri öld.

Kostnaðinn af hrapinu hef ég greitt í lægri launum, hærra verðlagi, hærri sköttum, hærri vöxtum og lægra þjónustustigi en á öðrum Vesturlöndum. Yngsta barnabarnið mitt er tveggja ára og krónurnar sem það fékk í fæðingargjöf eru orðnar helmingi færri í dag.

Af hverju þarf þetta að vera svona?

Viljum svona óstjórn og óreiðu til eilífðarnóns?

Viljum við ekki búa við lægra verðlag, hærri laun, lægri skatta, lægri vexti og hærra þjónustustig en við búum við núna… að ég tali nú ekki um líf án verðbólgu?

Eiga börn okkar það ekki skilið að geta notað laun sín án þess að verðbólgan skerði þau um 25%?

Ég hef meiri áhyggjur af börnum okkar en 50 fjölskyldum sem þykjast eiga fiskinn í sjónum.

Á unglingsaldri hélt ég að lífið snerist um að flestir væru blankir, alltaf, en allt í einu birti til og menn gátu farið í nám til útlanda og keypt sér húsnæði og þegar maður var farinn að halda að svona yrði restin af lífinu hrundi allt og aftur tók maður til við að vera blankur.

Svo birti aftur og í heilan áratug kynti brjáluð verðbólga undir brjáluðum framkvæmdum og gengið var fellt reglulega á hverju ári og þegar maður hélt að svona myndi það vera um ókomin ár kom verðtrygging.

Hún gerði skipulag á sparnaði og eyðslu mögulegt, en það varð síðan að engu þegar verðtrygging launa var afnumin, húsnæðisverð hrundi og lánin uxu mönnum yfir höfuð.

Eftir nokkur ár í basli kom nokkurra ára logn en aftur tók við kjararýrnun og hrun á fasteignaverði og loks enn ein bólan í kringum álver.

Stuttu eftir aldamót varð síðan allt vitlaust og hræðsluraddir, sem efuðust um að svona yrði framtíðin, voru kveðnar niður með digurbarkalegum fullyrðingum um skyndilega snilligáfu okkar í fjármálum.

Nú er ég enn og aftur á kunnuglegum slóðum, því við höfum svo oft verið í þessari stöðu.

Nú þarf ég að kjósa milli flokka sem vilja áframhaldandi krónu með háum vöxtum og verðlagi ásamt lágum launum, lágu þjónustustigi, 25% verðbólgu og gjaldeyrishöftum eða þeirra sem vilja aðild að 300 milljón manna myntsvæði og einu verðlags- og þjónustusvæði án hafta og verðbólgu.

Það er góð tilfinning að eiga val.


Ég ítreka að þessi snilldargrein er eftir félaga Stefán Benediktsson


0 ummæli:







Skrifa ummæli