Ég kom við í samkvæmi hjá Orkuveitustarfsfólki á föstudagskvöldið. Þar hitti ég gamlan félaga minn frá Vestmannaeyjum og eiginmann konu sem starfar hjá OR og við tókum tal saman. Hann fór að segja mér frá því að hann hefði nýlega komið inn í stærsta ketil á Íslandi, þ.e. ketilinn hjá Sementsverksmiðjunni á Akranesi. Og nostalgían fór á kreik að venju.
Það var 1992 sem verið var að endurbyggja stærsta ketilinn okkar við Hässelbyverket í Stokkhólmi, ketill hvers rafalinn gaf 160 Megavött út á netið, en eitt af því sem þurfti að framkvæma, voru loftstreymismælingar í rafsíum útblásturs frá katlinum. Það var farið af stað að leita einhvers starfsmanns sem þyrði að láta loka sig inni í rafsíunni og mæla flæðið eftir fyrirfram ákveðinni áætlun og eftir að nokkrir starfsmenn höfðu afþakkað boðið ákvað ég að slá til og lét loka mig inni með mælitæki og vasaljós.
Rafsían var stór, tíu metrar á hvern kant og ég þurfti að príla fram og aftur, upp og niður eftir grind í miðjunni í kolsvarta myrkri á meðan fullur loftþrýstingur var á kerfinu. Þrátt fyrir allar mínar fóbíur, tókst mér að yfirvinna innilokunarkennd, myrkfælni, einmanaleika og lofthræðslu þessar klukkustundir sem mælingin stóð yfir og þar sem engin hjálp gat komið til inni í risastórum kassa af stáli ef eitthvað færi úrskeiðis meðan á mælingunni stóð.
Verkefnið gekk ljómandi vel, en fegin var ég þegar ég losnaði úr prísundinni tveimur tímum síðar. Þess má geta að ketillinn sem sendi sótið í gegnum þessa rafsíu er 35 metrar á hæð, en um 15 metrar á breidd og dýpt og fimmtán olíubrennarar sem halda 154 bar þrýsting og allt að 540°C gufuhita í katlinum.
föstudagur, apríl 03, 2009
4. apríl 2009 - Innilokunarkennd – myrkfælni
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 23:57
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli