miðvikudagur, apríl 15, 2009

15. apríl 2009 – Fjölmiðlar og framtíðin í augum Bjarna formanns

Bjarni Benediktsson nýr formaður Sjálfstæðisflokksins kvartaði sáran í útvarpinu í gær yfir þeirri vonsku fjölmiðlafólks að vilja fremur eyða púðrinu í spillinguna innan Sjálfstæðisflokksins en að ræða framtíð íslensku þjóðarinnar og þau verkefni sem væru framundan.

Öfugt við Bjarna fundust mér athugasemdir fjölmiðlafólksins mjög eðlilegar því hvernig á að vera hægt að ræða um framtíð sem er byggð á spillingu? Byrjum fyrst á að hreinsa til innan Sjálfstæðisflokksins og svo skulum við ræða framtíð án spillingar.

-----oOo-----

Til að slá ryki í augu almennings hafa Sjálfstæðismenn reynt að benda á að þriðjungur þeirra styrkja sem komu í hendur Samfylkingunni árið 2006 kom frá fyrirtækjum tengdum Baugsveldinu. Ég efa ekki að þessar tölur séu réttar án þess að kanna þær, þótt komnar séu frá vafasömum pappírum. Um leið fer ég að velta fyrir mér hversu stór hluti af styrkjum Sjálfstæðisflokksins komu frá sömu aðilum og tel ég þá ekki með 30 milljóna mútugreiðslur til Sjálfstæðisflokksins í árslok 2006 frá Baugsfyrirtækinu FL-grúpp. Gaman væri ef Sjálfstæðismenn svöruðu mér þessu.

-----oOo-----

Ég var að sörfa á netinu og fann þá mynd af þeirri verstu galeiðu sem ég hefi starfað á um dagana. Þar var um að ræða gámaskipið Laxfoss III, ex City of Hartlepool, en skipið var eitt ár á þurrleigu hjá Eimskip undir fána Bahamas. Eftir að því var skilað til eigenda sinna fékk það nafnið City of Manchester. Hvar það er niðurkomið í dag hefi ég ekki hugmynd um. Það sem bar þó af í veru minni á skipinu var aðalvélin, en hún var af gerðinni Doxford 58JS3, þriggja strokka og sex stimpla vél, tilraunasmíð sem kom framleiðandanum á hausinn á stuttum tíma eftir afhendingu á fyrstu vélunum, en vélstjórunum látlausu svefnleysi og höfuðverk meðan á verunni um borð stóð.

Það er engin slík vél um borð í skipi í dag, en stofnað hefur verið Doxford-safn um einu vélina sem varðveist hefur en safnið mun vera skammt frá Newcastle upon Tyne í Englandi. Þar eru einnig höfuðstöðvar Doxford klúbbsins, en inngöngu í hann fá einungis þeir vélstjórar sem klappað hafa Doxu á leið yfir hafið sem og hönnuðir og smiðir Doxfordverksmiðjunnar í Englandi. Þeir eru flestir komnir til ára sinna.


0 ummæli:







Skrifa ummæli