Eitthvað er ég farin að ryðga í Íslandssögunni en samt sitja í mér gamlar sögur frá Tyrkjaráni. Rifja ég þar upp sögur af því er einhverjir Íslendingar voru sendir í Barbaríið og þótti slíkt ekki góður endir á sögu. Aldrei spáði ég í Barbaríið fyrr á árum, en nýlega kom Barbaríið upp í hugann.
Eins og ég hefi áður greint frá, er ég mikil áhugamanneskja um póstsendingar, þó aðallega fyrr á árum. Auk ágætis frímerkjasafns á ég einnig ágætt safn póstkorta frá fyrri tíð. Áhugi minn fyrir póstkortum kemur þó ekki til af góðu. Frænka mín ein gaf mér safn póstkorta sem hún hafði eignast eftir einhvern vonbiðil sinn, en faðir vonbiðilsins var virkur í breska hernum eftir aldamótin 1900. Þá skilst mér að vonbiðillinn hafi sjálfur farist í hernaði breskra við heri Rommels í Norður-Afríku á styrjaldarárunum.
Þegar frímerkjasafnið mitt er komið í þær hæðir að vöntunin nær einungis til frímerkja sem ég mun aldrei eignast, fer ég að skoða önnur áhugasvið innan sömu greinar. Þá koma gömul póstkort helst til greina. Fyrir nokkru rakst ég á gamalt póstkort á ebay sem ég kolféll fyrir. Ástæðan var einfaldlega að það var sent frá Villa Real í Portúgal árið 1898 til náttúrufræðings sem hafði aðsetur í Barbaríinu. Auðvitað bauð ég örfáar krónur í kortið og fékk.
Eins og gefur að skilja, er auðvelt fyrir áhugafólk um sögu og landafræði að finna út hvar Barbaríið var út frá heimilisfanginu, en samt ætla ég ekki að segja frá en gefa fólki kost á að þefa út hvar Barbaríið var í raun og veru.
Þið sem vitið, vinsamlegast segið ekki frá í athugasemdum. Þeim athugasemdum verður eytt! Þið megið samt alveg láta mig vita hvort þið vitið eður ei.
-----oOo-----
Þessi bloggfærsla er ekki birt á Moggabloggi. :)
sunnudagur, ágúst 31, 2008
31. ágúst 2008 – Enn um póstsendingar.
laugardagur, ágúst 30, 2008
30. ágúst 2008 - Um íslensk frímerki
Íslensk frímerki þóttu lengi vel hin mesta gersemi. Þau voru fá, gefin út í litlum upplögum og útgáfurnar þóttu oft vandaðar, reyndar að undanskildri yfirprentuninni „þrír“ sem kom út 1897 og ruglinu í kringum „Í gildi“ yfirprentanir árið 1902. Eftir það jókst hróður íslenskra frímerkja um allan heim í nokkra áratugi, allt þar til nokkrar misheppnaðar útgáfur sáu dagsins ljós, þá helst Skálholtsfrímerkin frá 1956, hægri umferðarfrímerkin frá 1968 og 50 ára afmæli Hæstaréttar 16. febrúar 1970.
Eftir það var sæmilegur friður um íslenska frímerkjaútgáfu, en 1982 er byrjað að gefa út árlegar hátíðarblokkir í tilefni af sýningum og síðar í tilefni af árlegum Degi frímerkisins. Um leið stóreykst íslensk frímerkjaútgáfa og þar sem áður komu út sjö til átta útgáfur á ári, urðu þær skyndilega á annan tuginn og tilefnin urðu jafnmargvísleg og útgáfurnar á sama tíma og og notkun íslenskra frímerkja til póstsendinga snarminnkaði.
Árið 1994 var rækilega brotin sú góða hefð að gefa einungis út frímerki með mynd af látnu fólki er þáverandi forseti Íslands birtist á frímerki, í sjálfu sér myndarlegasta merki af glæsilegustu konu Íslandssögunnar, en um leið alvarlegt brot á gömlum og góðum hefðum. Fljótlega eftir þetta fór allt úr böndunum. Gefin voru út frímerki með myndum af gömlum bílum, flugvélum, skipum, jólasveinum, hitaveiturörum, hvölum og guð má vita hverju meiru, jafnvel af 50 ára afmæli silfurpenings á ólympíuleikum. Reglan virtist gjörsamlega farin veg allrar veraldrar og Ísland hóf hina hörðustu samkeppni við örríkin í Karabíska hafinu um frímerkjaútgáfu í nafni ferðamannaiðnaðar.
Ég á gott frímerkjasafn eftir að hafa safnað frímerkjum í 45 ár, á flest þau frímerki sem komið hafa út á Íslandi, vantar kannski örfá dýrustu merkin. Ný frímerki sem koma út heilla mig ekki og ég er í alvöru að velta fyrir mér að setja punkt aftan við söfnunina og þegar ég horfi á útgáfu í tilefni þess að lögð hafi verið hitaveita í eitt hús árið 1908 eða að komin séu út persónuleg frímerki, þá finn ég fyrir vanmætti fyrir gróðahyggjunni.
Þótt Ólafur Stefánsson og Sigfús Sigurðsson séu frábærir handboltakallar, langar mig ekki til að sjá þá á frímerki í tilefni af því að þeir töpuðu fyrir Frakklandi í boltaleik. Frekar legg ég söfnun á íslenskum frímerkjum á hilluna og held mig við gömlu merkin í framtíðinni.
-----oOo-----
P.s. Þrátt fyrir marga og góða vini á Moggabloggi, er ég búin að fá svo mikið upp í kok af besserwisserum að þessi færsla birtist einvörðungu á blogspot!
föstudagur, ágúst 29, 2008
29. ágúst 2008 - Ólafur Ragnarsson
Frændi minn, eðalbloggarinn, togarajaxlinn og farskipajálkurinn Ólafur Ragnarsson er sjötugur í dag. Það eru komin rúm 40 ár síðan við sigldum saman á togaranum Surprise frá Hafnarfirði og það er ekki fyrr en á allra síðustu árum sem hann fær að blómstra á bloggi eftir að hafa eytt ævinni á hinum ýmsu fleytum, stórum sem smáum, um öll heimsins höf.
Það eru fá ár síðan hann hætti til sjós og kastaði akkerum í Vestmannaeyjum þar sem hann ætlar að eyða ellinni.
Mig langar til að óska Óla til hamingju með afmælið.
http://solir.blog.is/blog/solir/
fimmtudagur, ágúst 28, 2008
28. ágúst 2008 - Letiblogg
Það er gúrkutíð í bloggheimum. Fremur en að blogga um að maður hafi ekið á hest á mótorhjóli eða um misþyrmingar á hundi í poka, er betra að þegja, ekki síst þegar ég er í fullri vinnu alla daga.
Mér finnst því heppilegt að hvíla mig í nokkra daga á blogginu. Vonandi að það gangi betur en síðast þegar ég ætlaði að fá mér smápásu frá bloggi.
Svo nenni ég ekki að blogga um hækkun á hámarkshraða á bestu vegum Svíþjóðar úr 110 km í 120 km. Besservisserarnir myndu sennilega reyna að skjóta mig í kaf um leið, en hvað um það. Þetta er staðreynd engu að síður.
þriðjudagur, ágúst 26, 2008
26. ágúst 2008 - Fáránlegt nafn!
Eftir atburðina í New York í september 2001 minnir nafn viðskiptamiðstöðvarinnar World Trade Center á hryðjuverk og morð. Því vekur það furðu og hlýtur að draga úr alvöru málsins að kalla viðskiptamiðstöð í Reykjavík fyrir World Trade Center samanber Morgunblaðið í dag. Aldrei myndi ég þora að stunda viðskipti í húsi sem heitir slíku nafni eftir atburðina fyrir sjö árum, myndi sennilega líða illa af því einu að koma inn í slíkt hús.
Þar fyrir utan væri skynsamlegt að finna eitthvað gott og gilt íslenskt nafn á húsið, t.d. Sparibaukinn eða Auramusterið.
Einn lagði til að húsið yrði kallað Babelsturninn :)
http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/2008/08/26/vidskiptamidstod_slegid_a_frest/
mánudagur, ágúst 25, 2008
25. ágúst 2008 – Var þá sjómennskan í tísku?
Vilbergur Magni Óskarsson sviðsstjóri skipstjórnarsviðs Fjöltækniskólans heldur því fram að sjómennskan sé ekki lengur í tísku í viðtali á forsíðu Fréttablaðsins.
Þetta er miklar fréttir þykir mér. Eftir að fólk fór að flytjast á mölina úr sveitum landsins höfðu lítt menntaðir eða ómenntaðir Íslendingar fárra kosta völ. Víðast hvar var það slorið, frystihúsið eða sjórinn og fyrir marga sem vildu komast af dekkinu var það Stýrimannaskólinn eða þá Vélskólinn. Hinir héldu áfram á dekkinu.
Á seinni árum hefur verulega dregist saman á sjónum, útrýming blasir við farmönnum og verulega hefur dregið saman í sjávarútvegi. Atvinnutækifærunum á sjónum hefur fækkað verulega á Íslandi á sama tíma og kröfurnar hafa aukist og launin lækkað. Um leið og önnur atvinnutækifæri gáfust, var fólkið farið í land, í álverið, bankann eða eitthvað annað það sem gafst. Fyrir stýrimennina var fátt um fína drætti. Þeir voru lítt metnir til starfa í landi og margir kusu að fara á sjóinn erlendis.
Vélstjórar og vélfræðingar eru mun lánssamari með störf í orkugeiranum, stjórnun í álverum og öðrum verksmiðjum. Samt fækkar þeim óðum rétt eins og stýrimönnum því margir þeir sem útskrifast, halda áfram í verkfræðinámi, heima eða erlendis. Því fækkar vélstjórunum einnig verulega sem sést ágætlega á atvinnuauglýsingum í dagblöðum þar sem óskað er eftir vélstjórum á sjóinn.
En að tala um tísku í þessu sambandi eins og sagt er í Fréttablaðinu er rangt. Það var annað hvort að fara á sjóinn eða drepast drottni sínum. Síðar valdi fólk eitthvað annað starf, allt fremur en sjóinn og slorið.
sunnudagur, ágúst 24, 2008
24. ágúst 2008 - Öskrað til sigurs
Ég bjó í Svíþjóð þegar heimsmeistarakeppnin í fótbolta fór fram í Bandaríkjunum og einhverju sinni þegar Svíar voru að keppa um miðja nótt á sænskum tíma, vaknaði ég með andfælum þegar Svíar skoruðu mark, enda hávaðinn slíkur að lá við að þakið færi af húsinu. Var húsið þó ágætlega einangrað. Þess má geta að þeir komu heim með koparpening úr keppninni.
Í morgun nennti ég ekki framúr til að horfa á handboltaleik, lá á milli svefns og vöku, hlustaði á malið í kisunum mínum og beið þess að glaðvakna við mikil fagnaðarlæti svo þakið fyki af blokkinni þar sem ég bý. Og ég beið eftir öskrinu og ég beið og beið. Loksins skreiddist ég fram og kveikti á tölvunni og fékk grunsemdir mínar staðfestar. Það er þó engin ástæða til annars en að segja:
TIL HAMINGJU ÍSLAND :-)
Og þá er það Felipe Massa sem er á ráspól í alvörukeppninni.
24. ágúst 2008 - Sigfús Sigurðsson
Ég lenti einu sinni í flugvél með íslenska landsliðinu í handbolta. Stór hluti liðsins var nokkuð niðurdreginn, enda hafði landsliðið spilað þrjá leiki í einhverri heimsmeistarakeppni suður í Slóveníu og tapað öllum ef ég man rétt. Þar sem liðið var á leið út í vélina gerði ég mér grein fyrir því hverskonar tröll Sigfús Sigurðsson var og er. Þegar út í vél var komið fékk ég á tilfinninguna að vélin væri fulllítil fyrir Sigfús Sigurðsson, ekki einungis vegna stærðar mannsins, heldur kannski frekar fyrir þá útgeislun sem stafaði af honum.
Þrátt fyrir að margir væru niðurdregnir, hló Sigfús og skemmti sér og hughreysti félaga sína með hlátri og ekki sást hann drekka áfengi meðan á flugferðinni stóð. Það var ekki hægt annað en að hrífast með og jafnvel kreista fram broskipru er einhver brandarinn flaug frá Sigfúsi og þvert yfir ganginn þar sem ég sat, falin á bak við Mogga sem sagði frá síðustu tapleikjum íslenska landsliðsins í handbolta.
Fjölmiðlar víða á Norðurlöndum eiga ekki orð yfir afrek Ólafs Stefánssonar í landsliðinu og vafalaust á hann það allt skilið. Sjálf fylgist ég lítið með handboltanum, man þó að Þorbergur Aðalsteinsson var oft umræddur í sænskum fjölmiðlum fyrstu árin mín í Svíþjóð, en þá var minn gamli skólafélagi úr Gaggó, Axel Axelsson löngu gleymdur á alþjóðavettvangi.
Ólafur Stefánsson er frábær leikmaður, en ég held að Sigfús Sigurðsson og allir hinir eigi ekki síður sinn þátt í frábæru gengi íslenska landsliðsins í handbolta. Allavega varð ég stórhrifin af skemmtilegri framkomu Sigfúsar Sigurðssonar í þessari flugferð forðum daga og hefur hann verið í hálfgerðu uppáhaldi hjá mér síðan þá.
Auðvitað vona ég að Ísland nái gullinu, en ég er alveg sátt við árangurinn hvernig sem fer úr þessu og minni jafnframt á að í upphafi leiks eru jafnmargir í hvoru liði, bara miklu betri strákar í íslenska liðinu.
laugardagur, ágúst 23, 2008
23. ágúst 2008 - Af pólitískri baráttu
Á yngri árum átti ég það til að taka þátt í pólitískri baráttu fyrir kosningar með misjöfnun árangri, allavega var árangurinn fremur rýr miðað við áhugann sem lagt var upp með. Síðan hefur margt skeð, ég orðin öllu hógværari en á árum áður og hætt tilraunum mínum til að frelsa heiminn frá sjálfum sér og hefi verið meðlimur í Samfylkingunni síðan um kosningar 2006.
Fyrir alþingiskosningarnar 2007 stóð ég vaktina í Kringlunni í nokkra daga með mun betri árangri en á árum áður, bæði hvað snertir viðmót fólks sem og árangur kosninga. Allavega lagði ég fram minn skerf til að flokkurinn kæmist vel frá kosningunum, en það hefur að sjálfsögðu ekkert að gera með það að ég flokka mig með verkalýðshlutanum og því hlynnt hógværri uppbyggingu í stóriðju.
Síðustu tvo dagana hefi ég aftur staðið vaktina í Kringlunni, nú ásamt þingmönnum, ráðherra og borgarfulltrúum Samfylkingar þar sem við höfum verið að vekja athygli á alvarleika borgarmálanna með jákvæðum hætti, þ.e. rauðum rósum og rauðum (sælgætis)pillum gegn rugli í borgarmálunum. Viðbrögðin voru ótrúleg. Það kom vart fyrir að við fengjum á okkur hreyting eða neikvæðni. Þótt vissulega tækju ekki allir við rósunum sem var boðin rós, en við náðum einungis hluta allra þeirra sem fóru framhjá, þá gefur það vonir um gott gengi í næstu kosningum.
föstudagur, ágúst 22, 2008
22. ágúst 2008 - Ramses og Björk!
Þegar sú vafasama ákvörðun um að vísa Paul Ramses úr landi var kærð, lýsti Björk Vilhelmsdóttir yfir því að hún yrði stjórnarandstæðingur þar til Björn Bjarnason breytti ákvörðun valdsins og léti taka mál hans til efnislegrar meðferðar hér á landi.
Nú hefur fyrri ákvörðun verið snúið og því ber að fagna. Björk getur getur jafnframt hætt að vera í stjórnarandstöðu. Um það má svo deila hvort ákvörðun Bjarkar Vilhelmsdóttur hafi haft úrslitaþátt í málinu eður ei. Allavega myndi ég ekki kæra mig um að fá Björk Vilhelmsdóttur upp á móti mér.
Það sem skiptir þó mestu í þessu máli er jákvæður viðsnúningur dómsmálaráðherra og ráðuneytisins.
22. ágúst 2008 - Enn af meirihlutaskiptum í borgarstjórn
Nú þegar enn einn meirihlutinn sér dagsins ljós í Reykjavík, tekur jafnframt við völdum fimmti stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur á kjörtímabilinu, á rúmum tveimur árum, mátti þó áður telja að mælirinn væri fullur.
Auðvitað gekk ég á torg á fimmtudag og mótmælti nýja meirihlutanum, reyndar ekki lengra en í Kringluna þar sem ég bauð fólki rauðar pillur gegn ruglinu í stjórn Reykjavíkur ásamt góðu fólki flokksbundnu í Samfylkingunni sem bauð fólki rauðar rósir til áminningar um að senn færi að styttast í næstu kosningar. Þetta mæltist mjög vel fyrir enda var reseptið á rauðu pillurnar skrifað af Degi B. Eggertssyni.
Þegar heim var komið hóf ég að kynna mér æviferil nýja stjórnarformannsins. Þar stendur meðal annars:
Guðlaugur Gylfi Sverrisson fæddist 2. febrúar 1961 í Reykjavík ... . ... hóf nám í MH en hætti 1980 og lauk 4. stigi í Vélskóla Íslands 1984. Hann var 2. vélstjóri hjá BÚR á Ingólfi Arnarsyni RE 1984-85, sölumaður hjá heildversluninni Bláfelli 1985-87, yfirvélstjóri framleiðsludeildar ÁTVR 1987-90, en hefur síðan verið aðstoðarverslunarstjóri ÁTVR í Hafnarfirði. Hann hefur starfað í Ferðafélagi Íslands og var ... . (Úr vélstjóra og vélfræðingatali útg 1996).
Guðlaugur er greinilega maður að mínu skapi og mun vafalaust sóma sér vel í stjórn Orkuveitunnar. Vafalaust mun ég halda áfram að skamma hinn nýja meirihluta í borgarstjórn eins og hann á skilið, en ef einhver dirfist að tala illa um þennan öðlingspilt að ósekju í mín eyru er mér að mæta. Og hananú!
fimmtudagur, ágúst 21, 2008
21. ágúst 2008 - Raunverulegur píslarvottur - Jan Palach
Þessi dagur fyrir 40 árum verður lengi í minnum hafður, þessi hræðilegi dagur þegar Sovétmenn réðust inn í Tékkóslóvakíu, eftir vorið í Prag. Þennan dag kæfðu Sovétríkin og undirsátar þeirra vorið i Prag undir stjórn Alexanders Dubcek, ýttu honum út í ystu myrkur og sýndu heiminum Sovétsins verstu hliðar.
Jan Palach var þá tvítugur stúdent við háskólann í Prag. Þann 16. janúar 1969, kveikti hann í sér á Vencelásartorgi í Prag til að mótmæla innrásinni og ritskoðun innrásarherjanna. Hann lést svo þremur dögum síðar af sárum sínum.
Ég minnist þess er fréttir bárust af innrásinni í Tékkóslóvakíu þennan hræðilega dag árið 1968. Ég var þá vestur á Bíldudal og við vorum í höfn þennan dag. Enginn hafði áhuga fyrir að fara á sjó. Jafnvel vestur á Bíldudal fylltist fólk depurð vegna atburða sem áttu sér stað hátt í tvö þúsund mílur í burtu. Við urðum þess áskynja hve risaveldin réðu yfir lífi okkar og líf okkar fylltist sorg.
Nokkrum mánuðum síðar greip Jan Palach til örþrifaráða. Megi minning hans vaka með okkur um ókomna framtíð.
21. ágúst 2008 – Þórður sjóari
Sagt er um Þórð sjóara að hann hafi meiri áhuga fyrir þilförum en konum sbr. ljóðið góða þar sem öldurnar breyttust í vín. Í dag er Þórður orðinn 39 ára og alltaf jafnhress, virðist ekki deginum eldri en hann virtist vera þegar hann varð 38.
Ekki dettur mér til hugar að yrkja neina lofgjörð um kappann, honum er hægastur sá leikur sjálfum. Mig langar bara til að óska honum til hamingju með daginn og vona að hann komi heill heim af Kyrrahafsmiðum í september og verði þá í formi til að rölta með eina eða tvær góðar göngur
miðvikudagur, ágúst 20, 2008
20. ágúst 2008 - Prúðmannlegir Ólympíuleikar?
„Þá er bara að fara lengra út og berja hann aðeins“ sagði útvarpsþulurinn um leik sinna manna í leik Íslands og Póllands í handknattleik.
Var nokkur að tala um ofbeldi?
þriðjudagur, ágúst 19, 2008
19. ágúst 2008 - Píslarvottur og fórnarlamb!
Ég var að hlusta á viðtal í útvarpinu við fórnarlamb samstarfs Sjálfstæðisflokksins og F-listans síðustu sjö mánuði. Ég fylltist samúð og vorkunn.
Ég skil ekki hvernig við kjósendur í Reykjavík vorum svo blind á heilagleika Hans hátignar að sjá ekki að hann var bara að gera öll góðverkin fyrir okkur. Og vondu verkin voru öll íhaldinu að kenna. Það var jú Villi Vill sem keypti fúatimbrið á Laugavegi 4-6 og það var borgarstjórnarflokkur íhaldsins sem samþykkti að reka Ólöfu Guðnýju. Þá má ekki gleyma að það var helvítið hún Þorbjörg Helga sem vildi reka sviðsstjóra leikskólanna, en hans heilagleiki kom í veg fyrir það. Hann gerði ekkert annað en það sem var borgarbúum fyrir bestu að vandlega yfirvegaðri athugun sinni.
Nei, Ólafur F. Magnússon var ekkert annað en píslarvottur og fórnarlamb hins vonda Sjálfstæðisflokks sem notaði hann bara til að tryggja sér völdin. Halelúja!
Svo á eftir að koma í ljós hvernig honum verður tekið í Frjálslynda flokknum.
-----oOo-----
Með þessu vona ég enn og aftur að ég þurfi aldrei aftur að fjalla um verk Hans heilagleika.
mánudagur, ágúst 18, 2008
18. ágúst 2008 - Seigur hann Matlock
Þá er boltinn farinn að rúlla í Englandi og langar mig til að fjalla um tvö uppáhaldslið þar í landi sem vert er að fylgjast með í framtíðinni.
Þar ber fyrst að nefna hið glænýja félag sem kennt er við Halifaxhrepp og spilaði sinn fyrsta leik á laugardag gegn Bamber Bridge (nafnið minnir mig á Leikfangaland) og skíttapaði, enda gleymdist að æfa leikmennina saman fyrir leikinn svo allir léku eins og væru þeir einir á vellinum. Ef einhverjir gerast svo djarfir að halda því fram að liðið sé eldgamalt, þá er það rangt því gamli Halifaxhreppur gaf upp öndina í sumar eftir að fógetinn bankaði upp á og gerði lögtak í boltanum og vellinum og þjálfaranum. Enginn var þar Hrói höttur til að bjarga málunum og því var ekki um annað að ræða en að stofna nýtt Fótboltafélag Halifaxhrepps og byrja í áttundu deild, þ.e. þremur deildum neðar en gamla félagið sem tókst naumlega að bjarga sér frá falli úr kvenfélagsdeildinni á síðasta keppnistímabili.
Eftir fyrstu umferðina er Halifaxhreppur kominn í næstsíðasta sæti í áttundu deild og enn frekari ástæða til að klifra hratt upp að nýju, nema þá að ólympíuhugsunin verði látin stjórna hetjunum hugprúðu eins og svo oft áður undir stjórn gamla þjálfarans, Kidda villta, sem var tekinn lögtaki í sumar og seldur hæstbjóðanda.
Hitt uppáhaldsliðið, United of Manchester sem stofnað var 2005 og byrjaði þá í tíundu deild, byrjaði einnig illa í fyrra í áttundu deild með því að tapa illa tveimur fyrstu leikjunum. Eftir það fundu þeir skotskóna á bakvið eldavélina og byrjuðu að skora, enduðu í öðru sæti í vor og því fluttir upp í sjöundu deild. Kapparnir kampakátu byrjuðu sömuleiðis illa í gær og gerðu grátlegt jafntefli við leynilögguna Matlock þar sem kapparnir skoruðu þrisvar gegn jafnmörgum mörkum leynilöggunnar.
sunnudagur, ágúst 17, 2008
17. ágúst 2008 - Um nefndir og ráð í borgarkerfinu
Í útvarpsfréttum á laugardagsmorguninn, eða var það í hádeginu, var það haft eftir Óskari Bergssyni að ekki verði endilega valið í ábyrgðarstöður í stjórnum og nefndum borgarinnar á vegum Framsóknarflokksins eftir því hvort fólk hafi verið á framboðslistum flokksins.
Ég fagna þessu auðvitað innilega og veit um mjög hæfan mann til að setjast í stjórn Orkuveitunnar á vegum Framsóknarflokksins þótt vissulega hafi viðkomandi verið neðarlega á lista flokksins við síðustu sveitarstjórnarkosningar. Maðurinn er ekki bara hæfur, heldur þekkir hann vel til innviða Orkuveitunnar og vel kynntur meðal margra starfsmanna fyrirtækisins, enda var hann stjórnarformaður í mörg ár.
Auk þess grunar mig að Alfreð sé á lausu um þessar mundir.
laugardagur, ágúst 16, 2008
16. ágúst 2008 – Um erfðafræðilegan samanburð Evrópuþjóða
Ég var að lesa áhugaverða grein í Dagens Nyheter þar sem sagt er frá erfðafræðirannsókn á 2500 einstaklingum meðal 23 þjóðflokka í 20 ríkjum og framkvæmdri af 21 rannsóknarstofu í Evrópu. Þar kemur fram að erfðamengi Svía eru líkari erfðamengi Norður-Þjóðverja en nágrönnum þeirra í Noregi og Danmörku. Ekki kemur það mér mikið á óvart miðað við kynni mín af þessum þjóðum.
Þessi rannsókn er á margan hátt athyglisverð. Þannig staðfestir hún að Vestur-Evrópubúar eru líkari Austur-Evrópubúum en Norður-Evrópubúar Suður-Evrópubúum, en að Finnar eru engum öðrum líkir. Um leið eru Ungverjar sem fyrirfram voru taldir líkjast Finnum, í raun líkari nágrannaþjóðum sínum en hinum fjarlægu frændum sínum í norðri.
Ekki er neitt minnst á Íslendinga í þessari rannsókn. Það kemur mér heldur ekkert á óvart.
http://www.dn.se/DNet/jsp/polopoly.jsp?d=597&a=816408
fimmtudagur, ágúst 14, 2008
14. ágúst 2008 - Kolfallinn borgarstjóri - með núll komma níu!
Það er engin ástæða til að gráta fráfarandi borgarstjórnarmeirihluta undir stjórn Hans hátignar Ólafs F(jórtánda). Um leið er nýr borgarstjórnarmeirihluti íhalds og Framsóknar um leið einasti möguleikinn í stöðunni til að Sjálfstæðisflokkurinn komi frá undirlægjuhætti sínum gagnvart Hans hátign með reisn þótt þeir fari um leið skaddaðir frá því samstarfi.
Miðað við reynsluna af Tjarnarkvartettinum er erfitt að sjá hann endurnýjaðan. Hann hélt í aðeins 100 daga uns Kjartan og Hans hátign brugguðu fræg launráð sín með ærnum kostnaði fyrir borgarbúa. Því er einfaldast að enda kjörtímabilið eins og það byrjaði þótt Binga njóti ekki lengur við.
Það á eftir að gera margt til hreinsunar í borginni. Ýmis þau mál sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur étið ofan í sig til að halda friðinn við Hans hátign má nú taka upp aftur, henda út ýmsum vafasömum einkavinum hátignarinnar úr stjórnkerfinu og ráða fólk sem vonandi vinnur af heilindum fyrir borgarbúa.
Það sem er þó mikilvægast er að verstu stjórn Reykjavíkur frá upphafi vega er lokið og kemur slíkur hörmungarmeirihluti vonandi aldrei aftur. Hans hátign Ólafur F(jórtándi) getur gert okkur enn meiri greiða með því að kveðja pólitíkina og snúa sér að öðrum mikilvægari störfum í framtíðinni.
Við skulum svo rifja upp þennan ömurlega tíma í borginni fyrir næstu kosningar eftir tæp tvö ár.
14. ágúst 2008 - Vinir!
Ég álpaðist í leikhús á miðvikudagskvöldið. Kannski ekki fullburða leikhús með risastóru sviði og fjölda listamanna, en leikhús var það samt. Þetta var generalprufan á leikritinu Vinir eftir Símon Birgisson og var hún haldin í húsnæði Listaháskólans á Sölvhólsgötunni í Reykjavík.
Frumsýningin verður á föstudagskvöldið 15. ágúst í gömlu síldarverksmiðjunni í Djúpuvík, þið munið „Blóðrautt sólarlag“ en svo verða sýningar á Ísafirði á sunnudagskvöldið í Edinborgarhúsinu á Ísafirði og svo verða fjórar sýningar í Reykjavík frá og með 19. ágúst sem enda með hátíðarsýningu á Menningarnótt 23. ágúst í Kassanum Þjóðleikhússins.
Ég verð að játa að þótt Símon Birgisson eigi náinn skyldleika í leikhúsið, þá datt mér ekki til hugar fyrirfram að hann gæti samið smellið og um leið flókið leikrit. Hann stóðst alveg væntingar mínar til hans.
Símon hafði sent nokkrum bloggskrifurum boð um að koma á generalprufuna, en eina manneskjan úr þeim hópi fyrir utan mig sem ég hitti þarna, var Lilja Guðrún og skemmti hún sér hið besta eins og aðrir gestir.
miðvikudagur, ágúst 13, 2008
13. ágúst 2008 - Afmælisveisla Gurríar
Gurrí bloggvinkona hélt upp á 37 ára afmælið plús á þriðjudag og ég var þar að venju, mætti fyrst allra með kaffikönnurnar og kaffið. Þar var múgur og margmenni að venju, Dóri „frændi“ og Páll Óskar, Guðrún Vala og Sigga Jósefs og öll hin.
Af öllu góðu fólki sem ég hitti, var samt skemmtilegast að rekast á einn fyrrum nágranna úr Mosfellsdalnum sem ég hafði ekki hitt í rúm 40 ár, Daða frá Reykjadal. Eins og gefur að skilja var erfitt fyrir mig að þekkja hann aftur enda talsvert breyttur frá því hann var fimm eða sex ára og ég fáeinum árum eldri. Ég lenti reyndar í því að eiga í erfiðleikum með að þekkja systur hans aftur sem þó er aðeins einu ári yngri en ég þegar ég hitti hana í fyrra. Elst þeirra systkina er slökkviliðsstjórinn á Selfossi og sá eini þeirra sem ég hefi enn ekki hitt í þessa fjóra áratugi, en jafnframt sá eini sem ég myndi þekkja aftur hvenær sem væri.
Þegar ég yfirgaf samkvæmið þá hæst það stóð, var fólk enn að streyma að færandi hendi, rétt eins og væri afmælisbarnið fimmtugt.
þriðjudagur, ágúst 12, 2008
12 ágúst 2008 - Um lömunarveiki
Fyrir þá sem ekki vita, þá var ég áhugasamur frímerkjasafnari á unglingsárum, reyndar svo að jafnvel á fullorðinsárum á ég það til að bjóða í eitt og eitt fágætt merki sem ég hafi saknað úr safninu mínu í nokkra áratugi og er enn að. Frá unglingsárunum hefur margt breyst, heimurinn hefur tekið risastökk fram á við og frímerkjasöfnun löngu orðin að fágæti fyrir sérvitringa eins og mig.
Á þessum árum sem liðin er búið að finna upp heimilistölvuna. Eitt af notagildum tölvunnar er skráning á gamla frímerkjasafninu í Excel. Ég er auðvitað löngu búin að skrá íslenska safnið mitt á þann hátt og hefi notað dauða tíma að undanförnu til að skrá norskan hluta safns míns á sama hátt. Þar sem ég var að hressa upp á skráninguna á mánudagskvöldið rak ég augun í frímerki sem voru gefin út í Noregi árið 1950 og voru til að minna almenning á baráttuna gegn lömunarveiki.
Ég fékk nostalgíukast. Ekki þar fyrir að ég muni mikið eftir lömunarveikifaraldrinum sem gekk hér á landi árið 1955. Það var eðlilegt því ég lá sjálf og man lítið eftir eigin veikindum, ekkert eftir upphafi þeirra, en frekar eftir eftirstöðvunum, þá helst þegar læknirinn kom í vitjun og notaði hamar til að lemja mig og lækna. Það var því ekki fyrr en löngu síðar sem ég kynntist raunverulegum fórnarlömbum lömunarveikinnar, fólki sem lamaðist fyrir lífstíð eða hlaut vægari örkuml, sem mér skildist hve ég var heppin í bernskunni, að komast frá þessari hræðilegu veiki heil heilsu. Það má svo deila um hversu heppin ég var í augum þjóðarinnar.
Reyndar er ég heppnari en þetta, því ég hefi verið óvenjuheppin og verður sjaldnast misdægurt, svo mjög að veikindadaga mína síðasta áratuginn má telja á fingrum annarrar handar.
-----oOo-----
Með þessum orðum vil ég óska Gurrí, uppáhalds bloggvinkonu minni sem jafnframt er góð vinkona mín í raunheimum, innilegar hamingjuóskir með stórafmælið í dag.
mánudagur, ágúst 11, 2008
11. ágúst 2008 - Um risaskip og risavélar
Á árunum 2006 og 2007 fékk Mærsk Line í Danmörku afhent átta ný risaskip til gámaflutninga, svokallaða E-gerð, en þessi skip eru skráð geta flutt 11000 gámaeiningar í einu, en talin geta flutt allt að 15000 gámaeiningum hvert fyrir sig. Þessi átta skip eiga að anna vikulegum flutningum á flutningaleiðinni á milli Vestur-Evrópu og Austur-Asíu. Til samanburðar má þess geta að öll skip sem sigla með vörur í gámum á milli Íslands og annarra landa ná samanlagt kannski helmingi þessarar tölu, þ.e. helmingi gámafjölda eins þessara skipa.
Til þess að knýja þessi skip áfram þarf vélar og eru vélar þessara skipa í hópi stærstu díeselvéla í heimi. Þær eru af gerðinni Wärtsilä-Sulzer 14RTA96-C (myndin er af 12 strokka vélinni, en athyglisvert að sjá manninn á myndinni) og eru að hámarki 108920 hestöfl við 102 sn/min. og þyngd hverrar vélar er 2300 tonn. Sveifarásinn einn vegur 300 tonn og skrúfan á þessum skipum er um 115 tonn á þyngd.
Miðað við geysimikla burðargetu þessara skipa eru þau talin mjög hagkvæm í rekstri og má þess geta að þegar keyrt er á fullu álagi eyða þau einungis 0,127 kg/h/hp, en það þótti gott að fara niður í 0,155 kg/h/hp þegar ég var í námi fyrir rúmum 30 árum.
Á hagkvæmnisferðinni eyða þessi skip enn minna, allt niður í 0,12 kg/h/hp.
Þegar öll átta skipin eru keyrð á hagkvæmnisferð, eyða þau því samtals aðeins áttatíu tonnum af olíu á klukkutímann. Á vikusiglingu eyða þau því samanlagt aðins 13440 tonnum af dýrmætri olíu sem fer þverrandi í heiminum, en fer reyndar upp í 18400 tonn á viku á fullu afli. (allar tölur eru einfaldaðar)
Samanlagt hámarksafl sem knýr öll skipin áfram er 640 Megavött. Kárahnjúkavirkjun er 690 Megavött og hún er knúin með vatni.
sunnudagur, ágúst 10, 2008
10. ágúst 2008 - Já, ég játa!
Já, ég játa syndir mínar. Ég svaf yfir mig og skrópaði frá Gleðigöngunni 2008. Það var reyndar viðbúið að svona færi því ég er á vaktatörn þessa dagana og á því erfitt með tíma til að skemmta mér og njóta lífsins. Ég verð því að velja á milli þess að sofa nægju mína eða vera með höfuðverk í fleiri daga vegna ónógs svefns. Þetta er ein afleiðingin af því að vinna vaktavinnu.
Ég get þó að minnsta kosti byrjað að hlakka til Gleðigöngunnar að ári, en þá verð ég nýbyrjuð í sumarfríi.
laugardagur, ágúst 09, 2008
9. ágúst 2008 - Einokunartilburðir Neins
Í gegnum árin hefi ég átt ágætis viðskipti við Gúmmívinnustofuna við Réttarháls, minnsta kosti tvisvar eða þrisvar keypt dekk undir bíla sem ég hefi átt og mælt með henni við annað fólk sem hefur þurft á hjólbarðaþjónustu að halda. Þannig keypti ég ný heilsársdekk undir bílinn minn á sanngjörnu og góðu verði fyrir um fimm árum, enda forðast ég notkun nagladekkja undir vinstrigræna eðalvagninn minn sem er fjórhjóladrifinn.
En nú er öldin önnur. Neinn hefur eignast fyrirtækið.
Um daginn kom ég við í Gúmmívinnustofunni og lét gera við eitt dekk og þjónustan var jafngóð og ódýr og fyrrum, en svo fór ég að kanna verð á nýjum heilsársdekkjum, enda þau gömlu farin að láta á sjá og vart nothæf til öruggs vetraraksturs enn einn veturinn. Verðið á nýjum dekkjum var komið upp úr öllu valdi, a.m.k. miðað við gömlu heilsársdekkin sem ég hefi notað öll þessi ár.
Þessi reynsla mín kom upp í huga mér er ég heyrði af nýjasta bensínokri Neins á sama tíma og heimsmarkaðsverð á olíu fer lækkandi. Eigendur Neins eru einfaldlega búnir að leggja undir sig stóran hluta markaðarins á dekkjum, dekkjaþjónustu og almennum bílavörum. Gúmmívinnustofan, Hjólbarðahöllin, Hjólbarðaviðgerð Vesturbæjar, Mosdekk, Bílanaust ofl. eru komin í þeirra eigu. Vafalaust mörg önnur.
Það er lítið gagn að því að tala um að hætta að kaupa bensín hjá Neinum eins og sumir bloggarar hafa hótað á meðan fyrirtækið er að leggja bílamarkaðinn undir sig á öðrum sviðum án þess að samkeppnisyfirvöld grípi inn í.
Það væri fróðlegt að vita hversu margar dekkjaþjónustur eru enn til án þess að vera að hluta til eða algjörlega í eigu Neins og hugsanlega einnig Baugs?
http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/2008/08/08/misjafnt_bensinverd_a_stodvum_n1/
föstudagur, ágúst 08, 2008
8. ágúst 2008 - Góðir vinir
Fyrir rúmri viku síðan fékk ég netpóst frá Svíþjóð. Það kom mér á óvart að heyra frá gamalli vinkonu því við höfðum ekki heyrt af hvorri annarri í tólf ár. Eva-Linda hafði starfað með mér við Hässelbyverket í Stokkhólmi, en þó með vaktgrupp ett, en ég tilheyrði vaktgrupp två. Á þessum tólf árum hefur að sjálfsögðu margt gerst í lífinu, hún er hætt á gamla vinnustaðnum og komin til Storstockholms Lokaltrafik við stjórn tunnelbananetsins, en ég löngu komin til Reykjavíkur.
Eva-Linda birtist svo á Íslandi fyrir nokkrum dögum og hafði samband áður en hún lagði land undir fót ásamt eiginmanni og öðrum ferðafélögum til að ferðast um Ísland. Þau komu svo aftur til Reykjavíkur á fimmtudagskvöldið og notaði ég tækifærið og sýndi henni það helsta sem hægt var að sýna gömlum vinnufélaga með áhuga fyrir virkjunum, hitaveituna, kvennasöguna og gömlu Elliðaárstöð.
Ég held hún verði ekki svikin af fyrstu veru sinni á Íslandi, enda er hún ákveðin í að þessi ferð verði ekki hin síðasta.
Á fimmtudagseftirmiðdaginn hitti ég annan góðan vin, sjálfan Wolfgang Müller frá Berlin þar sem hann opnaði ljósmyndasýningu sína í húsakynnum Borgarbókasafns Reykjavíkur. Það eru ekki eins mörg ár síðan ég hitti hann síðast, reyndar einungis þrír mánuðir, en ég hitti hann í Berlín í byrjun maí, hafði reyndar kynnst honum ágætlega áður í gegnum bréfasamskipti og bók hans Neues von der Elfenfront.
Báðar þessar manneskjur, Eva-Linda og Wolfgang, önnur sænsk og búsett í Stokkhólmi, hin þýsk og búsett í Berlín, sýna okkur vesælum hve vinir geta verið mikils virði er þær birtast öllum að óvörum og halda áfram að deila með okkur af hjartahlýju sinni.
miðvikudagur, ágúst 06, 2008
7. ágúst 2008 - Mín tólfta kertafleyting í röð og sú fyrsta með regnhlífina
Þarf ég að segja meira? Auðvitað tók ég þátt í kertafleytingunni til minningar um fórnarlömb kjarnorkuárásanna á Hiróshima og Nagasaki. Ég hefi reyndar náð þeim öllum frá og með athöfninni 1997 og séð fjölda þátttakenda aukast flest árin.
Einhverntímann hélt ég því fram að kertafleytingin væri eins og hálfgert ættarmót gamalla vinstrisinna ásamt og friðargöngunni á Þorláksmessu og það er margt til í því. Um leið hefur öðrum friðarsinnum fjölgað við minningarathöfnina verulega, hvar í flokki sem þeir standa, enda má telja að hið eina sem sameinar fólk á þessum tveimur helstu friðarsamkomum ársins sé þráin eftir friði og réttlæti í heiminum.
Minningarathöfnin á miðvikudagskvöldið var ekki eins fjölmenn og þær fjölmennustu, en það var ótrúlegt hve margt fólk dreif að síðustu mínúturnar áður en sjálf kertafleytingin byrjaði þrátt fyrir nokkra rigningu. Um leið var þetta einasta kertafleytingin þar sem ég mætti með regnhlíf að vopni. Oftast hefur hann haldist þurr, kannski einu sinni sem nokkrir regndropar féllu rétt áður en sjálf athöfnin byrjaði.
En athöfnin er ávallt falleg og nokkru eftir að kertafleytingin hófst stytti aðeins upp og kertin náðu að dreifast út um tjörnina en lágu ekki föst við bakkana eins og svo oft áður. Ákaflega falleg sjón með stuttri kyrrðarstund að afloknu ávarpi kvöldsins.
http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/2008/08/06/kertum_fleytt_a_tjorninni/
6. ágúst 2008 - Svo var það fyrir átta árum að ég kvaddi þig með tárum.
Um leið og ég rifja upp þessar ljóðlínur Tómasar vil ég taka fram að ekki bárust nein harmaljóð úr hafsins bárum og að tárin voru óttaleg krókódílatár, enda var fremur léttir að lítilli ákvörðun sem ég hafði tekið sex vikum fyrr og ákvað að láta rætast þennan dag, á afmælisdegi dóttur minnar þann 6. ágúst árið 2000.
Ákvörðunin var létt, en framkvæmdin öllu erfiðari. Ég hafði nokkrum sinnum reynt að hætta að reykja áður, en ávallt mistekist. Í hvert sinn sem ég reyndi að hætta hófst áróðursherferð Tóbaksvarnarnefndar og allt minnti mig á nautnina af því að reykja og ávallt endaði ævintýrið með því að ég féll á bindindinu.
Nú var ég ákveðin í að láta Tóbaksvarnarnefnd ekki hafa áhrif á framkvæmd ákvörðunar minnar, gaf ekkert fyrir öll „góðu“ ráðin frá hinu opinbera og hélt mig við öll möguleg nikótínlyf sem hægt var að komast yfir á meðan ég var að losa mig við vanann við að kveikja í sígarettunni, að kveikja í um leið og ég settist með kaffibollann, að fá mér bloss um leið og augun opnuðust á morgnanna.
Það liðu þrír mánuðir uns ég þorði að fækka nikótínefnunum og minnka notkun þeirra og það liðu aðrir þrír mánuðir uns ég hætti alveg notkun nikótíntyggjós með öllu. Þrátt fyrir að vera alveg hætt öllu kom augnablikslöngunin oft upp í hugann. Þessi augnablikshugskot mín koma enn upp í hugann, en nú orðið svo sjaldan að það líða vikur á milli.
Það er þó ekki vegna þess að ég er hætt sem ég fer orðið sárasjaldan á kráarrölt. Það er frekar vegna þess að núna finn ég vondu lyktina af hinum kráargestunum sem fannst ekki áður en reykingabann tók gildi á veitingastöðum á Íslandi.
-----oOo-----
P.s. Til hamingju með daginn Ragnhildur :)
þriðjudagur, ágúst 05, 2008
5. ágúst 2008 - Hvar eru feministarnir núna?
Ég var með útvarpið í gangi á mánudagsmorguninn og heyrði þá vinsælt dægurlag á Rás 2, lag sem karlahópur Feministafélagsins hefur enn ekki gert athugasemd við þótt meira en aldarfjórðungsgamalt sé. Í texta lagsins er manni hrósað sem beitir konur líkamlegu ofbeldi og stundar framhjáhald með hinum og þessum og er hann að auki sagður öðlingsdrengur.
Mér finnst þetta hið versta mál og hvet karlahópinn, sem og Katrínu og Sóleyju til að taka málið til sín og skila álitsgerð um málið. Þar sem mig grunar að þessi texti hafi verið fluttur á fjölskylduskemmtun í Laugardalnum í Reykjavík á sunnudagskvöldið, birti ég hann hér öðrum til viðvörunar.
Út í Eyjum
býr Einar kaldi,
er hann hér enn?
Hann var öðlingsdrengur,
já svona eins og gengur
um Eyjamenn.
Í kvenmannsholdið
kleip hann soldið.
klípur hann enn?
Hann sigldi um sæinn
svalan æginn
siglir hann enn?
Við spyrjum konur og menn
Allir saman nú! Tra la la...
hann bjargaði sér fyrir björgin dimm
Tra la la... þær báðu hans einar fimm.
Hann unni einni
Önnu hreinni,
ann hann henni enn?
En hvar er Anna, elsku Anna?
Við spyrjum konur og menn:
Hann sást með Guddu,
sætri buddu,
í suðlægri borg
En Anna situr
ein og bitur
í ástarsorg.
Allir saman nú! Tra la la…
Hann bjargaði sér fyrir björgin dimm
Tra la la…Þær báðu hans einar fimm.
Mér er sem ég sjái hann Einar kalda.
mér er sem ég sjái hann Einar hér.
::Er hann kannski búinn að tjalda við hliðina á þér?;:
mánudagur, ágúst 04, 2008
4. ágúst 2008 - Samsæri um veðurspá?
Ég man ekki hvort það var í fyrra eða árinu fyrr sem mótshaldarar skemmtana á suðurlandi kvörtuðu sáran yfir vondum veðurspám, en spárnar gáfu til kynna að veðrið yrði mun verra en það varð.
Það var eitthvað annað í ár. Veðurfræðingar kepptumst um að lofa okkur sólskini og blíðu og árangurinn lét ekki á sér standa, fólkið flykktist á þjóðhátíð og unglingalandsmót, Kotmót og aðrar sólskinsskemmtanir. Sjálf sat ég heima á stuttbuxum og ermalausum bol og naut sólarinnar. Sólskinið var að vísu dálítið blautt en hvað er smávegis hellidemba á milli vina ef hægt er að plata nokkrar auðtrúa sálir á Þjóðhátíð. Þær komast hvort eð er ekkert í burtu aftur fyrr en birtir af nýjum degi og þokunni léttir, ekki frekar en blindfull kerlingin á þjóðhátíð 93 í ljóðinu góða.
Í sjónvarpsfréttum var sagt frá blíðunni fyrir norðan. Gylfi Ægisson átti vart orð yfir veðurblíðuna á Siglufirði, en á bak við hann sást til þokubakkanna læðast inn með Nesskriðunum.
Ég neita að trúa því að mótshaldarar hafi pantað þessa veðurspá. Allavega var sól í hjarta flestra sem hættu sér út fyrir bæjarmörkin og þá er takmarkinu náð.
sunnudagur, ágúst 03, 2008
3. ágúst 2008 - Maggi mágur gerir góðverk!
Mágur minn er býsna lagtækur bifvélavirki og kallar ekki allt ömmu sína í þeim efnum og þótt hann sé löngu hættur að vinna á bílaverkstæði, heldur hann áfram störfum við bíla, nú við að sinna bifreiðaskoðunum í skoðunarstöð Frumherja í Kópavogi.
Ég skrapp út í búð á laugardag og rakst þar á Dóra sameiginlegan kunningja okkar:
„Það er nú meira ástandið á honum mági þínum“
„Nú, hvað hefur hann gert af sér?“
„Hann blés lífi í mann fyrir utan vinnuna sína í gær!“
Dóri útskýrði nánar fyrir mér hvað hefði skeð. Við árekstur fyrir utan skoðunarstöðina á Dalvegi, klemmdist maður á milli tveggja bíla og lenti í andnauð eða eitthvað þaðan af verra. Maggi mágur hljóp út, áttaði sig á því hvað var að ske og blés lífi í manninn þar sem hann var orðinn blár í framan og enn fastur á milli bílanna. Það tókst svo að losa manninn og var hann fluttur á sjúkrahús talsvert slasaður, en á lífi.
Þegar ég hringdi í mág minn til að óska honum til hamingju með afrekið, vildi hann sem minnst gera úr sínum þætti, en bætti svo við:
„...en mikið svakalega létti mér þegar hann fór að anda!“
http://ruv.is/heim/frettir/frett/store64/item219726/
http://visir.is/article/20080801/FRETTIR01/672021039
http://mbl.is/mm/frettir/innlent/2008/08/01/klemmdist_a_milli_bila/
laugardagur, ágúst 02, 2008
2. ágúst 2008 - Þjóðhátíð 93
Til að fyrirbyggja allan misskilning, þá ætla ég ekki að skrifa um þjóðhátíðina 93, enda bjó ég í Svíþjóð á þeim tíma og hafði allt öðrum hnöppum að hneppa en að djamma frá mér allt vit og rænu á þeim tíma.
Reyndar hefi ég ákaflega litla reynslu af þjóðhátíðum í Vestmannaeyjum þótt ég hafi búið þar um nokkurra ára skeið. Ég átti þess kost að mæta á þjóðhátíðina á Breiðabakka 1975, en komst ekki. Ég átti von á mínum fyrsta erfingja og því fór svo að þegar fólkið streymdi til Eyja með flugi voru tveir farþegar til Reykjavíkur í einni vélinni, ég og bæjarfógetinn. Ég vegna þess að frumburðurinn var væntanlegur á hverriu stundu í Reykjavík, en bæjarfógetinn vegna þess að hann var mest hataði maður Vestmannaeyja um þjóðhátíðina 1975. Hann hafði fyrirskipað lokun á Ríkinu í Eyjum strax á þriðjudeginum. Ég var víðsfjarri 1976, en kom að þjóðhátíðinni fyrstu árin í Herjólfsdal 1977-1980, reyndar ekki 1977 þegar erfingi númer tvö var á leiðinni, en ekki söguna meir eftir 1980.
Síðan ég flutti heim 1996 hefur læðst að mér þrái að koma við á þjóðhátíð og rifja upp gamla og yndislega stemmningu frá því fyrstu árin eftir gos þegar samkenndin var ráðandi í öllu sem Eyjamenn tóku sér fyrir hendur. Ég hefi enn ekki látið verða af því, en á hverju ári eftir húkkaraballið kemur gamla nostalgían upp í mér:
Ég skal mæta næst. Þetta næst er bara ekki komið ennþá!
föstudagur, ágúst 01, 2008
1. ágúst 2008 - Ég er í fýlu út í Mannlíf
Tekjublað Mannlífs er komið út og vinsælasta efnið í fyrra, miðað við umræðurnar á bloggsíðum, vantar í blaðið núna. Kaflinn um tekjur bloggara er horfinn.
Ég var búin að bíða eftir þessu blaði í heilt ár og ætlaði að nota það til að reka framan í starfsmannahaldið og stjórann og sýna þeim svona svart á hvítu hvað ég hefði það skítt launalega. Þá hefðu þeir örugglega bráðnað og hækkað launin mín umtalsvert.
Úr því Mannlíf vildi ekki birta launin mín eins og í fyrra er því einfaldast að tilkynna hér og nú, að í stofni til tekjuskatts lækkaði ég um þrjú prósent á milli áranna 2006 og 2007.
Það er kannski vegna lágra launa sem ég féll út af vinsældarlista tekjublaðsins þetta árið.