Ég man ekki hvort það var í fyrra eða árinu fyrr sem mótshaldarar skemmtana á suðurlandi kvörtuðu sáran yfir vondum veðurspám, en spárnar gáfu til kynna að veðrið yrði mun verra en það varð.
Það var eitthvað annað í ár. Veðurfræðingar kepptumst um að lofa okkur sólskini og blíðu og árangurinn lét ekki á sér standa, fólkið flykktist á þjóðhátíð og unglingalandsmót, Kotmót og aðrar sólskinsskemmtanir. Sjálf sat ég heima á stuttbuxum og ermalausum bol og naut sólarinnar. Sólskinið var að vísu dálítið blautt en hvað er smávegis hellidemba á milli vina ef hægt er að plata nokkrar auðtrúa sálir á Þjóðhátíð. Þær komast hvort eð er ekkert í burtu aftur fyrr en birtir af nýjum degi og þokunni léttir, ekki frekar en blindfull kerlingin á þjóðhátíð 93 í ljóðinu góða.
Í sjónvarpsfréttum var sagt frá blíðunni fyrir norðan. Gylfi Ægisson átti vart orð yfir veðurblíðuna á Siglufirði, en á bak við hann sást til þokubakkanna læðast inn með Nesskriðunum.
Ég neita að trúa því að mótshaldarar hafi pantað þessa veðurspá. Allavega var sól í hjarta flestra sem hættu sér út fyrir bæjarmörkin og þá er takmarkinu náð.
mánudagur, ágúst 04, 2008
4. ágúst 2008 - Samsæri um veðurspá?
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 01:23
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli