mánudagur, ágúst 11, 2008

11. ágúst 2008 - Um risaskip og risavélar



Á árunum 2006 og 2007 fékk Mærsk Line í Danmörku afhent átta ný risaskip til gámaflutninga, svokallaða E-gerð, en þessi skip eru skráð geta flutt 11000 gámaeiningar í einu, en talin geta flutt allt að 15000 gámaeiningum hvert fyrir sig. Þessi átta skip eiga að anna vikulegum flutningum á flutningaleiðinni á milli Vestur-Evrópu og Austur-Asíu. Til samanburðar má þess geta að öll skip sem sigla með vörur í gámum á milli Íslands og annarra landa ná samanlagt kannski helmingi þessarar tölu, þ.e. helmingi gámafjölda eins þessara skipa.

Til þess að knýja þessi skip áfram þarf vélar og eru vélar þessara skipa í hópi stærstu díeselvéla í heimi. Þær eru af gerðinni Wärtsilä-Sulzer 14RTA96-C (myndin er af 12 strokka vélinni, en athyglisvert að sjá manninn á myndinni) og eru að hámarki 108920 hestöfl við 102 sn/min. og þyngd hverrar vélar er 2300 tonn. Sveifarásinn einn vegur 300 tonn og skrúfan á þessum skipum er um 115 tonn á þyngd.


Miðað við geysimikla burðargetu þessara skipa eru þau talin mjög hagkvæm í rekstri og má þess geta að þegar keyrt er á fullu álagi eyða þau einungis 0,127 kg/h/hp, en það þótti gott að fara niður í 0,155 kg/h/hp þegar ég var í námi fyrir rúmum 30 árum.
Á hagkvæmnisferðinni eyða þessi skip enn minna, allt niður í 0,12 kg/h/hp.

Þegar öll átta skipin eru keyrð á hagkvæmnisferð, eyða þau því samtals aðeins áttatíu tonnum af olíu á klukkutímann. Á vikusiglingu eyða þau því samanlagt aðins 13440 tonnum af dýrmætri olíu sem fer þverrandi í heiminum, en fer reyndar upp í 18400 tonn á viku á fullu afli. (allar tölur eru einfaldaðar)

Samanlagt hámarksafl sem knýr öll skipin áfram er 640 Megavött. Kárahnjúkavirkjun er 690 Megavött og hún er knúin með vatni.


0 ummæli:







Skrifa ummæli