mánudagur, ágúst 25, 2008

25. ágúst 2008 – Var þá sjómennskan í tísku?

Vilbergur Magni Óskarsson sviðsstjóri skipstjórnarsviðs Fjöltækniskólans heldur því fram að sjómennskan sé ekki lengur í tísku í viðtali á forsíðu Fréttablaðsins.

Þetta er miklar fréttir þykir mér. Eftir að fólk fór að flytjast á mölina úr sveitum landsins höfðu lítt menntaðir eða ómenntaðir Íslendingar fárra kosta völ. Víðast hvar var það slorið, frystihúsið eða sjórinn og fyrir marga sem vildu komast af dekkinu var það Stýrimannaskólinn eða þá Vélskólinn. Hinir héldu áfram á dekkinu.

Á seinni árum hefur verulega dregist saman á sjónum, útrýming blasir við farmönnum og verulega hefur dregið saman í sjávarútvegi. Atvinnutækifærunum á sjónum hefur fækkað verulega á Íslandi á sama tíma og kröfurnar hafa aukist og launin lækkað. Um leið og önnur atvinnutækifæri gáfust, var fólkið farið í land, í álverið, bankann eða eitthvað annað það sem gafst. Fyrir stýrimennina var fátt um fína drætti. Þeir voru lítt metnir til starfa í landi og margir kusu að fara á sjóinn erlendis.

Vélstjórar og vélfræðingar eru mun lánssamari með störf í orkugeiranum, stjórnun í álverum og öðrum verksmiðjum. Samt fækkar þeim óðum rétt eins og stýrimönnum því margir þeir sem útskrifast, halda áfram í verkfræðinámi, heima eða erlendis. Því fækkar vélstjórunum einnig verulega sem sést ágætlega á atvinnuauglýsingum í dagblöðum þar sem óskað er eftir vélstjórum á sjóinn.

En að tala um tísku í þessu sambandi eins og sagt er í Fréttablaðinu er rangt. Það var annað hvort að fara á sjóinn eða drepast drottni sínum. Síðar valdi fólk eitthvað annað starf, allt fremur en sjóinn og slorið.


0 ummæli:







Skrifa ummæli