Fyrir þá sem ekki vita, þá var ég áhugasamur frímerkjasafnari á unglingsárum, reyndar svo að jafnvel á fullorðinsárum á ég það til að bjóða í eitt og eitt fágætt merki sem ég hafi saknað úr safninu mínu í nokkra áratugi og er enn að. Frá unglingsárunum hefur margt breyst, heimurinn hefur tekið risastökk fram á við og frímerkjasöfnun löngu orðin að fágæti fyrir sérvitringa eins og mig.
Á þessum árum sem liðin er búið að finna upp heimilistölvuna. Eitt af notagildum tölvunnar er skráning á gamla frímerkjasafninu í Excel. Ég er auðvitað löngu búin að skrá íslenska safnið mitt á þann hátt og hefi notað dauða tíma að undanförnu til að skrá norskan hluta safns míns á sama hátt. Þar sem ég var að hressa upp á skráninguna á mánudagskvöldið rak ég augun í frímerki sem voru gefin út í Noregi árið 1950 og voru til að minna almenning á baráttuna gegn lömunarveiki.
Ég fékk nostalgíukast. Ekki þar fyrir að ég muni mikið eftir lömunarveikifaraldrinum sem gekk hér á landi árið 1955. Það var eðlilegt því ég lá sjálf og man lítið eftir eigin veikindum, ekkert eftir upphafi þeirra, en frekar eftir eftirstöðvunum, þá helst þegar læknirinn kom í vitjun og notaði hamar til að lemja mig og lækna. Það var því ekki fyrr en löngu síðar sem ég kynntist raunverulegum fórnarlömbum lömunarveikinnar, fólki sem lamaðist fyrir lífstíð eða hlaut vægari örkuml, sem mér skildist hve ég var heppin í bernskunni, að komast frá þessari hræðilegu veiki heil heilsu. Það má svo deila um hversu heppin ég var í augum þjóðarinnar.
Reyndar er ég heppnari en þetta, því ég hefi verið óvenjuheppin og verður sjaldnast misdægurt, svo mjög að veikindadaga mína síðasta áratuginn má telja á fingrum annarrar handar.
-----oOo-----
Með þessum orðum vil ég óska Gurrí, uppáhalds bloggvinkonu minni sem jafnframt er góð vinkona mín í raunheimum, innilegar hamingjuóskir með stórafmælið í dag.
þriðjudagur, ágúst 12, 2008
12 ágúst 2008 - Um lömunarveiki
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 00:43
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli