Mágur minn er býsna lagtækur bifvélavirki og kallar ekki allt ömmu sína í þeim efnum og þótt hann sé löngu hættur að vinna á bílaverkstæði, heldur hann áfram störfum við bíla, nú við að sinna bifreiðaskoðunum í skoðunarstöð Frumherja í Kópavogi.
Ég skrapp út í búð á laugardag og rakst þar á Dóra sameiginlegan kunningja okkar:
„Það er nú meira ástandið á honum mági þínum“
„Nú, hvað hefur hann gert af sér?“
„Hann blés lífi í mann fyrir utan vinnuna sína í gær!“
Dóri útskýrði nánar fyrir mér hvað hefði skeð. Við árekstur fyrir utan skoðunarstöðina á Dalvegi, klemmdist maður á milli tveggja bíla og lenti í andnauð eða eitthvað þaðan af verra. Maggi mágur hljóp út, áttaði sig á því hvað var að ske og blés lífi í manninn þar sem hann var orðinn blár í framan og enn fastur á milli bílanna. Það tókst svo að losa manninn og var hann fluttur á sjúkrahús talsvert slasaður, en á lífi.
Þegar ég hringdi í mág minn til að óska honum til hamingju með afrekið, vildi hann sem minnst gera úr sínum þætti, en bætti svo við:
„...en mikið svakalega létti mér þegar hann fór að anda!“
http://ruv.is/heim/frettir/frett/store64/item219726/
http://visir.is/article/20080801/FRETTIR01/672021039
http://mbl.is/mm/frettir/innlent/2008/08/01/klemmdist_a_milli_bila/
sunnudagur, ágúst 03, 2008
3. ágúst 2008 - Maggi mágur gerir góðverk!
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 00:17
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli