Það er engin ástæða til að gráta fráfarandi borgarstjórnarmeirihluta undir stjórn Hans hátignar Ólafs F(jórtánda). Um leið er nýr borgarstjórnarmeirihluti íhalds og Framsóknar um leið einasti möguleikinn í stöðunni til að Sjálfstæðisflokkurinn komi frá undirlægjuhætti sínum gagnvart Hans hátign með reisn þótt þeir fari um leið skaddaðir frá því samstarfi.
Miðað við reynsluna af Tjarnarkvartettinum er erfitt að sjá hann endurnýjaðan. Hann hélt í aðeins 100 daga uns Kjartan og Hans hátign brugguðu fræg launráð sín með ærnum kostnaði fyrir borgarbúa. Því er einfaldast að enda kjörtímabilið eins og það byrjaði þótt Binga njóti ekki lengur við.
Það á eftir að gera margt til hreinsunar í borginni. Ýmis þau mál sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur étið ofan í sig til að halda friðinn við Hans hátign má nú taka upp aftur, henda út ýmsum vafasömum einkavinum hátignarinnar úr stjórnkerfinu og ráða fólk sem vonandi vinnur af heilindum fyrir borgarbúa.
Það sem er þó mikilvægast er að verstu stjórn Reykjavíkur frá upphafi vega er lokið og kemur slíkur hörmungarmeirihluti vonandi aldrei aftur. Hans hátign Ólafur F(jórtándi) getur gert okkur enn meiri greiða með því að kveðja pólitíkina og snúa sér að öðrum mikilvægari störfum í framtíðinni.
Við skulum svo rifja upp þennan ömurlega tíma í borginni fyrir næstu kosningar eftir tæp tvö ár.
fimmtudagur, ágúst 14, 2008
14. ágúst 2008 - Kolfallinn borgarstjóri - með núll komma níu!
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 23:13
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli