laugardagur, ágúst 30, 2008

30. ágúst 2008 - Um íslensk frímerki


Íslensk frímerki þóttu lengi vel hin mesta gersemi. Þau voru fá, gefin út í litlum upplögum og útgáfurnar þóttu oft vandaðar, reyndar að undanskildri yfirprentuninni „þrír“ sem kom út 1897 og ruglinu í kringum „Í gildi“ yfirprentanir árið 1902. Eftir það jókst hróður íslenskra frímerkja um allan heim í nokkra áratugi, allt þar til nokkrar misheppnaðar útgáfur sáu dagsins ljós, þá helst Skálholtsfrímerkin frá 1956, hægri umferðarfrímerkin frá 1968 og 50 ára afmæli Hæstaréttar 16. febrúar 1970.

Eftir það var sæmilegur friður um íslenska frímerkjaútgáfu, en 1982 er byrjað að gefa út árlegar hátíðarblokkir í tilefni af sýningum og síðar í tilefni af árlegum Degi frímerkisins. Um leið stóreykst íslensk frímerkjaútgáfa og þar sem áður komu út sjö til átta útgáfur á ári, urðu þær skyndilega á annan tuginn og tilefnin urðu jafnmargvísleg og útgáfurnar á sama tíma og og notkun íslenskra frímerkja til póstsendinga snarminnkaði.

Árið 1994 var rækilega brotin sú góða hefð að gefa einungis út frímerki með mynd af látnu fólki er þáverandi forseti Íslands birtist á frímerki, í sjálfu sér myndarlegasta merki af glæsilegustu konu Íslandssögunnar, en um leið alvarlegt brot á gömlum og góðum hefðum. Fljótlega eftir þetta fór allt úr böndunum. Gefin voru út frímerki með myndum af gömlum bílum, flugvélum, skipum, jólasveinum, hitaveiturörum, hvölum og guð má vita hverju meiru, jafnvel af 50 ára afmæli silfurpenings á ólympíuleikum. Reglan virtist gjörsamlega farin veg allrar veraldrar og Ísland hóf hina hörðustu samkeppni við örríkin í Karabíska hafinu um frímerkjaútgáfu í nafni ferðamannaiðnaðar.

Ég á gott frímerkjasafn eftir að hafa safnað frímerkjum í 45 ár, á flest þau frímerki sem komið hafa út á Íslandi, vantar kannski örfá dýrustu merkin. Ný frímerki sem koma út heilla mig ekki og ég er í alvöru að velta fyrir mér að setja punkt aftan við söfnunina og þegar ég horfi á útgáfu í tilefni þess að lögð hafi verið hitaveita í eitt hús árið 1908 eða að komin séu út persónuleg frímerki, þá finn ég fyrir vanmætti fyrir gróðahyggjunni.

Þótt Ólafur Stefánsson og Sigfús Sigurðsson séu frábærir handboltakallar, langar mig ekki til að sjá þá á frímerki í tilefni af því að þeir töpuðu fyrir Frakklandi í boltaleik. Frekar legg ég söfnun á íslenskum frímerkjum á hilluna og held mig við gömlu merkin í framtíðinni.

-----oOo-----

P.s. Þrátt fyrir marga og góða vini á Moggabloggi, er ég búin að fá svo mikið upp í kok af besserwisserum að þessi færsla birtist einvörðungu á blogspot!


0 ummæli:







Skrifa ummæli