Fyrir rúmri viku síðan fékk ég netpóst frá Svíþjóð. Það kom mér á óvart að heyra frá gamalli vinkonu því við höfðum ekki heyrt af hvorri annarri í tólf ár. Eva-Linda hafði starfað með mér við Hässelbyverket í Stokkhólmi, en þó með vaktgrupp ett, en ég tilheyrði vaktgrupp två. Á þessum tólf árum hefur að sjálfsögðu margt gerst í lífinu, hún er hætt á gamla vinnustaðnum og komin til Storstockholms Lokaltrafik við stjórn tunnelbananetsins, en ég löngu komin til Reykjavíkur.
Eva-Linda birtist svo á Íslandi fyrir nokkrum dögum og hafði samband áður en hún lagði land undir fót ásamt eiginmanni og öðrum ferðafélögum til að ferðast um Ísland. Þau komu svo aftur til Reykjavíkur á fimmtudagskvöldið og notaði ég tækifærið og sýndi henni það helsta sem hægt var að sýna gömlum vinnufélaga með áhuga fyrir virkjunum, hitaveituna, kvennasöguna og gömlu Elliðaárstöð.
Ég held hún verði ekki svikin af fyrstu veru sinni á Íslandi, enda er hún ákveðin í að þessi ferð verði ekki hin síðasta.
Á fimmtudagseftirmiðdaginn hitti ég annan góðan vin, sjálfan Wolfgang Müller frá Berlin þar sem hann opnaði ljósmyndasýningu sína í húsakynnum Borgarbókasafns Reykjavíkur. Það eru ekki eins mörg ár síðan ég hitti hann síðast, reyndar einungis þrír mánuðir, en ég hitti hann í Berlín í byrjun maí, hafði reyndar kynnst honum ágætlega áður í gegnum bréfasamskipti og bók hans Neues von der Elfenfront.
Báðar þessar manneskjur, Eva-Linda og Wolfgang, önnur sænsk og búsett í Stokkhólmi, hin þýsk og búsett í Berlín, sýna okkur vesælum hve vinir geta verið mikils virði er þær birtast öllum að óvörum og halda áfram að deila með okkur af hjartahlýju sinni.
föstudagur, ágúst 08, 2008
8. ágúst 2008 - Góðir vinir
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 01:38
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli