mánudagur, ágúst 18, 2008

18. ágúst 2008 - Seigur hann Matlock

Þá er boltinn farinn að rúlla í Englandi og langar mig til að fjalla um tvö uppáhaldslið þar í landi sem vert er að fylgjast með í framtíðinni.

Þar ber fyrst að nefna hið glænýja félag sem kennt er við Halifaxhrepp og spilaði sinn fyrsta leik á laugardag gegn Bamber Bridge (nafnið minnir mig á Leikfangaland) og skíttapaði, enda gleymdist að æfa leikmennina saman fyrir leikinn svo allir léku eins og væru þeir einir á vellinum. Ef einhverjir gerast svo djarfir að halda því fram að liðið sé eldgamalt, þá er það rangt því gamli Halifaxhreppur gaf upp öndina í sumar eftir að fógetinn bankaði upp á og gerði lögtak í boltanum og vellinum og þjálfaranum. Enginn var þar Hrói höttur til að bjarga málunum og því var ekki um annað að ræða en að stofna nýtt Fótboltafélag Halifaxhrepps og byrja í áttundu deild, þ.e. þremur deildum neðar en gamla félagið sem tókst naumlega að bjarga sér frá falli úr kvenfélagsdeildinni á síðasta keppnistímabili.

Eftir fyrstu umferðina er Halifaxhreppur kominn í næstsíðasta sæti í áttundu deild og enn frekari ástæða til að klifra hratt upp að nýju, nema þá að ólympíuhugsunin verði látin stjórna hetjunum hugprúðu eins og svo oft áður undir stjórn gamla þjálfarans, Kidda villta, sem var tekinn lögtaki í sumar og seldur hæstbjóðanda.

Hitt uppáhaldsliðið, United of Manchester sem stofnað var 2005 og byrjaði þá í tíundu deild, byrjaði einnig illa í fyrra í áttundu deild með því að tapa illa tveimur fyrstu leikjunum. Eftir það fundu þeir skotskóna á bakvið eldavélina og byrjuðu að skora, enduðu í öðru sæti í vor og því fluttir upp í sjöundu deild. Kapparnir kampakátu byrjuðu sömuleiðis illa í gær og gerðu grátlegt jafntefli við leynilögguna Matlock þar sem kapparnir skoruðu þrisvar gegn jafnmörgum mörkum leynilöggunnar.


0 ummæli:







Skrifa ummæli