Þarf ég að segja meira? Auðvitað tók ég þátt í kertafleytingunni til minningar um fórnarlömb kjarnorkuárásanna á Hiróshima og Nagasaki. Ég hefi reyndar náð þeim öllum frá og með athöfninni 1997 og séð fjölda þátttakenda aukast flest árin.
Einhverntímann hélt ég því fram að kertafleytingin væri eins og hálfgert ættarmót gamalla vinstrisinna ásamt og friðargöngunni á Þorláksmessu og það er margt til í því. Um leið hefur öðrum friðarsinnum fjölgað við minningarathöfnina verulega, hvar í flokki sem þeir standa, enda má telja að hið eina sem sameinar fólk á þessum tveimur helstu friðarsamkomum ársins sé þráin eftir friði og réttlæti í heiminum.
Minningarathöfnin á miðvikudagskvöldið var ekki eins fjölmenn og þær fjölmennustu, en það var ótrúlegt hve margt fólk dreif að síðustu mínúturnar áður en sjálf kertafleytingin byrjaði þrátt fyrir nokkra rigningu. Um leið var þetta einasta kertafleytingin þar sem ég mætti með regnhlíf að vopni. Oftast hefur hann haldist þurr, kannski einu sinni sem nokkrir regndropar féllu rétt áður en sjálf athöfnin byrjaði.
En athöfnin er ávallt falleg og nokkru eftir að kertafleytingin hófst stytti aðeins upp og kertin náðu að dreifast út um tjörnina en lágu ekki föst við bakkana eins og svo oft áður. Ákaflega falleg sjón með stuttri kyrrðarstund að afloknu ávarpi kvöldsins.
http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/2008/08/06/kertum_fleytt_a_tjorninni/
miðvikudagur, ágúst 06, 2008
7. ágúst 2008 - Mín tólfta kertafleyting í röð og sú fyrsta með regnhlífina
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 23:53
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli