laugardagur, ágúst 09, 2008

9. ágúst 2008 - Einokunartilburðir Neins


Í gegnum árin hefi ég átt ágætis viðskipti við Gúmmívinnustofuna við Réttarháls, minnsta kosti tvisvar eða þrisvar keypt dekk undir bíla sem ég hefi átt og mælt með henni við annað fólk sem hefur þurft á hjólbarðaþjónustu að halda. Þannig keypti ég ný heilsársdekk undir bílinn minn á sanngjörnu og góðu verði fyrir um fimm árum, enda forðast ég notkun nagladekkja undir vinstrigræna eðalvagninn minn sem er fjórhjóladrifinn.

En nú er öldin önnur. Neinn hefur eignast fyrirtækið.

Um daginn kom ég við í Gúmmívinnustofunni og lét gera við eitt dekk og þjónustan var jafngóð og ódýr og fyrrum, en svo fór ég að kanna verð á nýjum heilsársdekkjum, enda þau gömlu farin að láta á sjá og vart nothæf til öruggs vetraraksturs enn einn veturinn. Verðið á nýjum dekkjum var komið upp úr öllu valdi, a.m.k. miðað við gömlu heilsársdekkin sem ég hefi notað öll þessi ár.

Þessi reynsla mín kom upp í huga mér er ég heyrði af nýjasta bensínokri Neins á sama tíma og heimsmarkaðsverð á olíu fer lækkandi. Eigendur Neins eru einfaldlega búnir að leggja undir sig stóran hluta markaðarins á dekkjum, dekkjaþjónustu og almennum bílavörum. Gúmmívinnustofan, Hjólbarðahöllin, Hjólbarðaviðgerð Vesturbæjar, Mosdekk, Bílanaust ofl. eru komin í þeirra eigu. Vafalaust mörg önnur.

Það er lítið gagn að því að tala um að hætta að kaupa bensín hjá Neinum eins og sumir bloggarar hafa hótað á meðan fyrirtækið er að leggja bílamarkaðinn undir sig á öðrum sviðum án þess að samkeppnisyfirvöld grípi inn í.

Það væri fróðlegt að vita hversu margar dekkjaþjónustur eru enn til án þess að vera að hluta til eða algjörlega í eigu Neins og hugsanlega einnig Baugs?

http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/2008/08/08/misjafnt_bensinverd_a_stodvum_n1/


0 ummæli:







Skrifa ummæli