Eins og allir vita sem vilja vita, er Samfylkingin stærsti stjórnmálaflokkur Íslands í dag. Stærsta félagið í Samfylkingunni er Samfylkingarfélagið í Reykjavík, grasrót Samfylkingarinnar, sú hin sama sem hélt frægan fund í Þjóðleikhúskjallaranum 21. janúar síðastliðinn með stórkostlegum árangri. Sjálf held ég góðum tengslum við öflugan hóp í grasrótinni allar götur síðan fundurinn var í Þjóðleikhúskjallaranum og fæst okkar erum áhrifamikil hjá toppunum í Samfylkingunni.
Ég hitti nokkra félaga úr grasrót Samfylkingarinnar á dögunum og við ræddum Evrópumál. Í spjalli okkar kom skýrt fram sú krafa margra okkar að þegar í stað yrðu lögð drög að aðildaumsókn í ESB með það að markmiði að komast að samkomulagi um aðildarsamning í Evrópusambandið og þjóðaratkvæðagreiðslu um samkomulagið í kjölfarið með lýðræðislegum hætti. Öll önnur niðurstaða í stjórnarmyndunarviðræðunum væri óásættanleg og myndi sennilega valda alvarlegum átökum innanflokks.
Allar ákvarðanir um frestum á aðildarviðræðum munu líklega leiða til þess að pottar og pönnur verða tekin á ný úr eldhússkápunum og skundað á Austurvöll með tilheyrandi látum og kröfum um lýðræðislegar umbætur. Þá verður hvorki gaman að vera sósíaldemókratískur endurskoðunarsinni né vinstrigrænn einangrunarsinni. Þá ætlast ég líka til þess að Samfylkingarfélagið í Reykjavík leiði baráttuna gegn uppgjöfinni fyrir andstæðingum okkar.
Við slíkar aðstæður er betra að vera í stjórnarandstöðu.
fimmtudagur, apríl 30, 2009
30. apríl 2009 - Ítrasta krafa um ESB
30. apríl 2009 - Gönguferðir í náttúrunni
Það fylgdi heilmikið ferðablað með Mogganum sem kom í hús á miðvikudagsmorguninn. Ég fór að fletta bæklingnum og inni í blaðinu sá ég mynd frá orkuverinu á Nesjavöllum og með grein um þjónustu Orkuveitunnar var mynd af gönguhóp að klöngrast yfir erfitt svæði.
Æ, hvað ég öfunda þetta fólk að vera svona frjálst úti í náttúrunni hugsaði ég með mér. En það er eins og að fremsta manneskjan á myndinni sé með bakpoka frá Orkuveitunni velti ég fyrir mér er ég skoðaði myndina betur um leið og mér fannst ég kannast við úlpuna og göngustafina og húfuna á manneskjunni.
Þar sem ég horfði á myndina í blaðinu, rann smám saman upp fyrir mér að ég var að dást að mynd af sjálfri mér.
miðvikudagur, apríl 29, 2009
29. apríl 2009 - Þráinn Bertelsson
Þessa dagana eru háværar kröfur upp þess efnis að Þráinn Bertelsson afsegi sér heiðurslaunum listamanna í ljósi þess að hann hefur verið kosinn á Alþingi. Ég er ósammála þessu.
Þráinn hefur sýnt af sér mikla listamannshæfileika með kvikmyndum sínum og bókum og þessir hæfileikar hans hafa valdið því að Alþingi Íslendinga hefur valið hann til þeirrar heiðursviðurkenningar að vera sannur og góður listamaður. Þótt hann fái launað starf á Alþingi Íslendinga á hann að njóta áfram heiðurslaunanna, enda má reikna með því að hann hætti ekkert að vera snillingur þótt hann setjist inn á Alþingi.
Látum hann því njóta vafans og halda viðurkenningum sínum rétt eins og aðrir listamenn á undan honum þótt þeir hafi þegið heiðurslaun meðfram öðrum greiðslum sínum. Það er engin spilling fólgin í slíku!
mánudagur, apríl 27, 2009
28. apríl 2009 - Ég kaus Evrópusambandið
Eftir kosningar gengur hver vinstri græninginn fram og heldur því fram að ekki hafi verið kosið um Evrópusambandið í kosningunum heldur einvörðungu endurreisn efnahagslífsins. Þetta er rangt hvað snertir minnst 30% þjóðarinnar. Við kusum endurreisn efnhagslífsins með hjálp inngöngu í Evrópusambandsins og létum alla vita sem vildu vita að fyrsta baráttumál Samfylkingarinnar í kosningunum var aðildarumsókn að Evrópusambandinu.
Er ég flutti heim frá Svíþjóð árið 1996 hélt ég áfram að styðja Alþýðubandalagið af gömlu vana, því einnig R-listann. Eftir að Alþýðubandalagið lagðist af og Vinstri hreyfingin – grænt framboð tók við, hélt ég áfram að styðja VG þó með hálfum huga. Ég var þó efins, því hvorki studdi ég Evrópusambandsfjandskap Vinstri grænna né öfgafulla náttúruverndarstefnu þeirra. Það sem gerði þó útslagið var sú ákvörðun VG að slíta R-listasamstarfinu fyrir sveitastjórnarkosningarnar 2006 og í framhaldinu gekk ég með í Samfylkinguna.
Ég hefi ekki alltaf verið sátt við verk Samfylkingarinnar, sérstaklega eftir efnahagshrunið síðastliðið haust. Ég fann þó að ég var ekki ein um óánægjuna og á fundinum í Þjóðleikhúskjallaranum 21. janúar s.l., náði ég góðri sátt við Samfylkingarfélagið í Reykjavík sem tóku af skarið og létu alla vita að stjórnarsamstarf Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks væri hið versta mál og bæri að slíta hið bráðasta.
Ég tók þátt í kosningabaráttunni á dögunum. Ég var sátt við kosningabaráttuna og ég var miklu meira en sátt við kraftmikla Evrópustefnu Samfylkingarinnar. Evrópustefnan sameinaði okkur og við urðum stærsti stjórnmálaflokkur á Íslandi.
Ef Samfylkingin verður ekki við kröfum kjósenda sinna og gerir ekki alvöru úr kröfum sínum um aðildarumsókn að Evrópusambandinu, mun fylgið hrynja af henni, mun hraðar en það kom, því fjöldi fólks veit að besta kjarabótin er aðild að Evrópusambandinu.
sunnudagur, apríl 26, 2009
26. apríl 2009 - Ég er hluti af elítunni
Já, ég er hluti af elítunni sem átti að vera nýtt skammaryrði Steingríms Jóhanns Sigfússonar um okkur sem styðjum aðildarviðræður við ESB. Það þarf ekki annað en að skoða allar myndbandsupptökurnar sem eru til af mér í hinum ýmsu sjónvarpsstöðvum og úrklippurnar úr gömlum dagblöðum og tímaritum til að sannfærast enn betur um að ég sé hluti af þessari ágætu elítu.
En ég hefi gert meira til að vinna fyrir þessari ágætu nafnbót. Ég hefi vakað fleiri klukkustundir en Steingrímur Jóhann við að draga björg í bú og ég hefi líka dýft höndunum í kalt vatn sem er meira en hægt er að segja um Steingrím Jóhann. Þessvegna er ég líka hluti af elítunni sem Steingrímur kallar svo. Það er eitthvað annað en þetta strangheiðarlega lið sem berst svo hjartanlega gegn aðildarviðræðum við ESB. En ég hefi líka lent í því að fá ekki greitt fyrir vinnu mína á sjó, en það verður að hafa það hugfast að þar var strangheiðarlegt útgerðarauðvald á ferðinni sem, rétt eins og Steingrímur Jóhann, berst einarðlega gegn aðildarviðræðum við ESB.
Langar vinnulotur á sjó og svikin laun hafa gert mig að hluta elítunnar sem berst fyrir aðildarviðræðum við ESB, því þótt við höfum samið um aukaaðild að ESB sem fært hefur okkur ýmsar tryggingar gegn vinnuþrælkun, má betur ef duga skal. Þess vegna ítreka ég stuðning minn um aðildarviðræður við ESB.
Það er líka ágætt fyrir Steingrím Jóhann að vita að í elítunni er fólk sem er alið upp í fátækt fjarri miðbænum, hefur þurft að vinna fyrir hverri krónu í sveita síns andlits og býr í lítilli blokkaríbúð ofan við Ártúnsbrekkuna.
Ef barátta Steingríms Jóhanns er honum jafnmikið hjartans mál og hann vill vera láta, þá er einfaldast fyrir hann að setjast í stjórnarandstöðu með Sjálfstæðisflokknum og bjóða Framsóknarflokknum og Borgarahreyfingunni að taka keflið þar sem hann skildi það eftir og semja um aðild að bandalagi siðaðra þjóða undir merkjum Evrópubandalagsins. Þessir tveir hópar hafa lýst sig reiðubúna að taka þátt í viðræðum um Evrópusambandsaðild. Þessvegna erum ég og Samfylkingin ekki ein um að vera elítan, heldur einnig meirihluti þeirra sem sitja á Alþingi eftir nýafstaðnar kosningar.
laugardagur, apríl 25, 2009
25. apríl 2009 - Örlagadagur Jóhönnu
Kosningadagurinn 2009 er örlagadagur fyrir Jóhönnu Sigurðardóttur. Vissulega kom hún, sá og sigraði er hún tók að sér að leiða ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, en meira má ef duga skal.
Það er alveg ljóst að stærsta flokknum á Alþingi eftir kosningarnar verður falið að leiða nýja ríkisstjórn og sjálf treysti ég Jóhönnu Sigurðardóttur best til slíkra starfa. Þess vegna ætla ég á kjörstað og kjósa Samfylkinguna því þótt Jóhanna sé ekki í framboði í Reykjavík suður þar sem hún ætti þó að vera miðað við búsetu hennar, þá nýtast öll atkvæði greidd Samfylkingunni, Jóhönnu til framdráttar. Því vona ég heitt og innilega að fólk sjái sér fært að styðja hana og Samfylkinguna til áframhaldandi forystu í ríkisstjórn og til að leiða samningsviðræður við Evrópusambandið.
Enn og aftur ítreka ég, merkjum x við S.
föstudagur, apríl 24, 2009
24. apríl 2009 - Er komið bullandi góðæri?
Ég heyrði áðan auglýsingu þar sem ung stúlka er sögð segja, að hún ætli að kjósa Sjálfstæðisflokkinn, af því að þá muni greiðslurnar af íbúðaláninu hennar lækka úr 120 þúsundum niður í 60 þúsund. Á sama tíma býður Framsóknarflokkurinn 20% lækkun lána eins og ekkert sé. Fleiri slík tilboð hefi ég heyrt að undanförnu, öll jafnfáránleg.
Ég næ þessu ekki. Er komið góðæri á Íslandi? Allt frá því ég man eftir mér hefur íslenskt efnahagslíf verið keyrt áfram í einni allsherjar rússíbanareið þar sem fólk er ríkt einn daginn og bláfátækt hinn næsta. Á síðstliðnu hausti hrundi allt og talað var um fleiri ára kreppu með miklu atvinnuleysi og erfiðleikum. Örfáum mánuðum síðar keppast hægri flokkarnir um að bjóða gífurlegan afslátt af húsnæðislánunum og benda meira að segja á að það kosti ekki neitt. Hverjir eiga þá að borga?
Einn þeirra sem standa fyrir þessum góðærisauglýsingum heitir Illugi Gunnarsson og hann telur ástæðulaust að ræða um styrki til sín í undanfara kosninga og vill halda umræðunni við hina alvarlegu stöðu efnhagsmála sem vart eru mikið mál ef marka má góðærisauglýsingarnar. Sjálf er ég ósammála manninum því ég vil vita hvort fólki í framboði sé treystandi áður en ég merki við flokkinn þeirra.
Annar sem stendur fyrir góðærisauglýsingum heitir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og hann boðaði annað efnahagshrun í gær, en heldur samt áfram að boða 20% niðurfellingu lána. Skýringin á hruninu sem hann boðar felst kannski í þessum 20% sem hann ætlar að veita okkur.
Sjálf ætla ég að greiða ósk minni um stöðugleika í framtíðinni atkvæði mitt og sá stöðugleiki fæst einvörðungu með því að tengja efnahagslífið við efnahag annarra þjóða með inngöngu í Evrópusambandið og síðar upptöku alvöru gjaldmiðils.
24. apríl 2009 – Soffía frænka og ræningjarnir
Við jafnaðarfólk gumum okkur stundum af því að vera með Soffíu frænku í forystu okkar, því rétt eins og Soffía frænka var oft reið í Kardemommubænum, er Jóhanna Sigurðardóttir oft reið út í óréttlátt samfélag gagnvart þeim sem minna mega sín.
Sjálfstæðismenn reyndu að koma með svar við þessu og á sumardaginn fyrsta kölluðu þeir til, svo ekki var um villst, helstu andstæðinga Soffíu frænku til að skemmta blessuðum íhaldsbörnunum í rigningunni.
Eins og allir vita sem hafa séð Kardemommubæinn, tókst Soffíu frænku að siða ræningjana til svo um munaði og verður sá leikur vonandi endurtekinn nú á laugardag þegar Soffía frænka í líki Jóhönnu Sigurðardóttur mun siða til þá félaga Kasper, Jesper og Jónatan í líki Illuga, Guðlaugs og Sigurðar Kára.
fimmtudagur, apríl 23, 2009
23. apríl 2009 - Með blóðbragð í munni
Þessi ágæta grein eftir Stefán Benediktsson er tekin beint úr tímaritinu Herðubreið:
Smalamennska í Skaftafelli var ekki spennandi ferð á gæðingum um hálendi
Íslands með kviðlinga á vörum. Nei, hún var margra daga hlaup upp um fjöll
og firnindi með blóðbragð í munni og lafandi tungu af mæði.
Þannig séð mjög svipuð lífi Íslendings á seinni hluta 20 aldar.
Frá því að ég fæddist hefur krónað minnkað um 25% á ári og er nú um 1/2000 af því sem hún var fyrir tæpum 70 árum. Þetta þýðir að á hverju fullorðinsári hef ég eytt þremur mánuðum á hverju ári kauplaust í vinnu vegna krónunnar, sem hefur ekki stöðvast í hrapi sínu nema nokkur andartök á meira en hálfri öld.
Kostnaðinn af hrapinu hef ég greitt í lægri launum, hærra verðlagi, hærri sköttum, hærri vöxtum og lægra þjónustustigi en á öðrum Vesturlöndum. Yngsta barnabarnið mitt er tveggja ára og krónurnar sem það fékk í fæðingargjöf eru orðnar helmingi færri í dag.
Af hverju þarf þetta að vera svona?
Viljum svona óstjórn og óreiðu til eilífðarnóns?
Viljum við ekki búa við lægra verðlag, hærri laun, lægri skatta, lægri vexti og hærra þjónustustig en við búum við núna… að ég tali nú ekki um líf án verðbólgu?
Eiga börn okkar það ekki skilið að geta notað laun sín án þess að verðbólgan skerði þau um 25%?
Ég hef meiri áhyggjur af börnum okkar en 50 fjölskyldum sem þykjast eiga fiskinn í sjónum.
Á unglingsaldri hélt ég að lífið snerist um að flestir væru blankir, alltaf, en allt í einu birti til og menn gátu farið í nám til útlanda og keypt sér húsnæði og þegar maður var farinn að halda að svona yrði restin af lífinu hrundi allt og aftur tók maður til við að vera blankur.
Svo birti aftur og í heilan áratug kynti brjáluð verðbólga undir brjáluðum framkvæmdum og gengið var fellt reglulega á hverju ári og þegar maður hélt að svona myndi það vera um ókomin ár kom verðtrygging.
Hún gerði skipulag á sparnaði og eyðslu mögulegt, en það varð síðan að engu þegar verðtrygging launa var afnumin, húsnæðisverð hrundi og lánin uxu mönnum yfir höfuð.
Eftir nokkur ár í basli kom nokkurra ára logn en aftur tók við kjararýrnun og hrun á fasteignaverði og loks enn ein bólan í kringum álver.
Stuttu eftir aldamót varð síðan allt vitlaust og hræðsluraddir, sem efuðust um að svona yrði framtíðin, voru kveðnar niður með digurbarkalegum fullyrðingum um skyndilega snilligáfu okkar í fjármálum.
Nú er ég enn og aftur á kunnuglegum slóðum, því við höfum svo oft verið í þessari stöðu.
Nú þarf ég að kjósa milli flokka sem vilja áframhaldandi krónu með háum vöxtum og verðlagi ásamt lágum launum, lágu þjónustustigi, 25% verðbólgu og gjaldeyrishöftum eða þeirra sem vilja aðild að 300 milljón manna myntsvæði og einu verðlags- og þjónustusvæði án hafta og verðbólgu.
Það er góð tilfinning að eiga val.
Ég ítreka að þessi snilldargrein er eftir félaga Stefán Benediktsson
miðvikudagur, apríl 22, 2009
22. apríl 2009 - Kæra Framsókn!
Ég er móðguð. Í DV í dag birtist listi yfir verstu óvini Framsóknarflokksins að ykkar mati og mig er þar hvergi að finna! Hvað þarf ég eiginlega að gera til að teljast í hópi óvina Framsóknarflokksins? Af hverju er ég ekki á listanum. Ég fer í bullandi fýlu.
Í mörg ár lagði ég Framsóknarflokkinn í einelti, hæddist að forystumönnum hans og dró þá Halldór, Guðna og Jón Sig. sundur og saman í háði og spotti. Áður skaut ég mörgum föstum skotum á sjávarútvegsstefnu Framsóknarflokksins undir stjórn Halldórs Ásgrímssonar erfðaprins útgerðarinnar Skinneyjar á Hornafirði. Ekki bætti ég frekar úr með háði mínu gagnvart Guðna beljukyssi og nuddaði salti í sárin með orðum mínum í garð Jóns Sigurðssonar fyrrum Seðlabankastjóra og ekkiþingmanns. Ekki urðu orð mín neitt betri eða mýkri við innrás þeirra Halldórs og Davíðs inn í Írak né við fjölda annarra mála sem upp komu í staðfestri sambúð þeirra félaga sem síðan endaði með skilnaði eftir að Geir hitti sætustu stelpuna á ballinu og skildi Framsókn eftir úti í kuldanum fyrir tveimur árum.
Ég vil í þessu sambandi benda á fjölda pistla minna á http://velstyran.blogspot.com/ sem beindust beint að Framsóknarflokknum og einstöku forystumönnum og ollu vinaslitum nokkurra flokksbundinna Framsóknarmanna við mig og sýna þannig hversu mikill óþverri ég er í garð Framsóknar. Þá eru nefndir til sögunnar, auk þeirra sem áður eru nefndir, menn á borð við Björn Inga og Óskar Bergsson. Ekki má gleyma Hömmernum sem varð mér að ótæmandi uppsprettu bloggskrifa og svo hjónabandi Binga og Villa viðutan í borgarstjórn Reykjavíkur.
Ég viðurkenni að ég hefi ekki verið mjög dugleg við að leggja Framsókn í einelti á undanförnum tveimur árum. Ástæðan er einföld. Maður ræðst ekki á liggjandi andstæðing. Það er algjört lágmark að hann rísi á fætur áður en ráðist er að honum aftur, en því miður virðist ekki mikil von til þess miðað við síðustu skoðanakannanir.
Ef þið lofið að taka mig aftur á lista óvina ykkar, lofa ég ykkur á móti að ég skal sparka í ykkur af öllu afli, hvort heldur þið eruð standandi eða liggjandi.
Með kærum sumarkveðjum
Anna K. Kristjánsdóttir
22. apríl 2009 – Dugnaður Ríkisútvarpsins
Þá er Ríkisútvarpið sjónvarp að ljúka yfirferð sinni um kjördæmin fimm. Kjördæmin eru að vísu sex, en íbúar eins þeirra eru ekki í húsum hafandi og því var ákveðið að halda tvo kosningafundi í Reykjavík norður en sleppa því að halda fund í slömminu í Reykjavík suður, þ.e. Breiðholti, Árbæ og Smáíbúðahverfi auk Camp Knox. Selásblett og fleiri álíka hörmungarsvæðum.
Þessi ákvörðun sjónvarpsins er að vísu enginn fögnuður fyrir okkur íbúa í Reykjavík suður, en við erum líka annars flokks þegnar í þessu samfélagi sem sést best á því að flestir frambjóðendurnir í okkar kjördæmi koma úr Reykjavík norður og skiptir þá litlu hvaða stjórnmálaflokk er um að ræða.
þriðjudagur, apríl 21, 2009
21. apríl 2009 – Ólík sjónarmið frambjóðenda Vinstrigrænna
Að undanförnu hafa heyrst ólík sjónarmið á meðal frambjóðenda Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs á afstöðunni til Evrópusambandsins. Á meðan sumir frambjóðendur hér á höfuðborgarsvæðinu hafa rætt um hógværu leiðina, það er opnað á þann möguleika að fyrst verði kannað hvað hægt er að fá í samningum við Evrópusambandið áður en boðað verði til þjóðaratkvæðagreiðslu, vilja aðrir eins og Jón Bjarnason og Atli Gíslason viðhalda harðlínustefnu að hætti Hjörleifs Guttormssonar.
Það er allstór hópur Evrópusinna sem segjast ætla að styðja Vinstrigræna í kosningunum á laugardag. Með afstöðu Atla og Jóns er stuðningi þeirra við samningaviðræður við Evrópusambandið kastað á glæ með atkvæði greiddu fólki á borð við Atla og Jón. Þetta er í reynd sama hugsanavillan og þegar Evrópusinnar flokksbundnir í Sjálfstæðisflokknum ætla samt að styðja gamla flokkinn sinn eins og hingað til.
Ef kjósendur vilja samningaviðræður við Evrópusambandið, er aðeins ein leið fær og hún er fólgin í stuðningi við Samfylkinguna.
21. apríl 2009 - Af spíttbátum og speedbátum
Í gamla daga lét maður sig dreyma um að fá sér hraðbát og fylla af sprútti og öli, skreppa yfir hafið og losa í einhverjum eyðifirði og síðan út aftur. Aldrei varð neitt úr þessum hugmyndum enda dýrt að flytja nokkra ölkassa og fáeinar flöskur af brennivíni yfir hafið á þennan hátt og þyrfti að vera í talsverðu magni til að ferðin borgaði sig en þetta var á meðan enn ríktu áfengishöft á Íslandi með banni á sölu á áfengu öli. Nú hefur önnur kynslóð Íslendinga framkvæmt þessa sömu hugmynd, en ekki með sömu vörur og við höfðum í huga. Munurinn er þó sá að þeir nota ekki speedbáta (þ.e. hraðbáta) til flutninganna heldur spíttbáta með seglbúnaði.
Mér finnst þetta fáránlegt. Fyrir tveimur árum var hópur ungra manna gripinn fyrir dópsmygl með spíttbát og dæmdir til langrar fangelsisvistar. Núna lendir annar hópur í þessu sama og maður spyr sig hvort þessir ungu menn læri ekkert af reynslunni? Af hverju voru bátverjar ekki á gangmiklum mótorbát, bát sem gengur á minnst 30 mílna hraða?
Um leið fer ég að velta fyrir mér hvort þetta sé fyrsta ferðin eða hvort svona ferðir hafi verið farnar áður, þ.e. aðrar en þær tvær sem komust upp og svo ein ferð nokkru fyrr þar sem mjög ákveðinn grunur var um stórfellt fíkniefnasmygl. Einnig má spyrja sig þess hvort þessir menn hafi ekki verið undir eftirliti í lengri tíma og þá skiptir auðvitað engu máli hvort þeir sleppi aftur yfir hafið á hraðbátnum, þeir verða gripnir samt. Loks er álitamál hvort markaðurinn fyrir dýru efnin eins og kókaín sé búinn með efnahagshruninu þegar haft er í huga að samkvæmt upplýsingum lögreglu er stór hluti smyglsins hass og marjúana.
En við getum samt huggað okkur við að þessi farmur náðist og muni vonandi virka sem fælingarmáttur á næsta hóp dópsmyglara.
mánudagur, apríl 20, 2009
20. apríl 2009 - Klaufaleg auglýsingaherferð Sjálfstæðismanna
Við vitum öll að Sjálfstæðismenn langar mikið til að komast í faðm Evrsópusambandsins þótt bannað sé að segja slíkt upphátt af ótta við refsingu bláu handarinnar og útgerðarauðvaldsins. Nú hafa þeir fundið upp þá leið að taka upp evru í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og auglýstu það í heilsíðuauglýsingum, t.d. í Fréttablaðinu í morgun.
Evrópusambandið hefur þegar mótmælt þessari ósk Sjálfstæðisflokksins og virðist hún því endanlega runnin út í sandinn sama dag og eytt var miklum fjárhæðum í að kynna hana.
Sjálfstæðismönnum, sem ekki eru múlbundnir af félagsskírteininu, skal því bent á aðra leið, en hún felst í að kjósa Samfylkinguna sem ein flokka hefur mjög ákveðna stefnu í efnahagsmálum sem meðal annarra gengur út á samningaviðræður við Evrópusambandið með aðild og tengingu krónunnar við evru og vonandi upptöku hennar í framhaldinu.
-----oOo-----
Það væri svo fróðlegt að fá svör við því af hverju Sjálfstæðismenn hafa klippt út mynd af Guðlaugi Þór Þórðarsyni úr einni auglýsinga sinna þar sem sýndir voru forystumennirnir í Reykjavík ásamt formanni og varaformanni og sett Kristján Þór Júlíusson í staðinn. Er Guðlaugur Þór þá orðinn álíka óhreinn innan flokksins og Árni Johnsen?
sunnudagur, apríl 19, 2009
19. apríl 2009 - Illa undirbúin rógsherferð
Nýjasta útspil Sjálfstæðismanna á hendur Samfylkingunni felst í að koma því inn hjá fólki að Samfylkingin hafi staðið í álíka mútuþægni og Sjálfstæðisflokkurinn á árinu 2006. Með því að segja frá þessu án þess að geta þess hver fyrirtækin eru, ætla Heimdellingarnir að koma því inn hjá háttvirtum kjósendum að Samfylkingin hafi falið eitthvað á því ári.
Það er eðlilegt að það sé reynt. Nú er fylgi Sjálfstæðisflokksins vonandi komið í sögulegt lágmark eftir mútuhneykslið á dögunum og allt reynt í Valhöll til að slá frá sér. Ef Sjálfstæðismenn hefðu haft eitthvað á Samfylkinguna hefðu þeir vafalaust nafngreint fyrirtækin, en svo var ekki. Vafalaust geta þeir fengið einhverja flokksbundna fyrirtækjaeigendur sem eru í FL okknum til að ljúga sökum á Samfylkinguna, en þá standa orð á móti orði og einungis hægt að planta fræjum efa í hjörtu kjósenda en ekki mikið meir úr þessu. En úr því aðdróttanirnar hafa þegar verið framreiddar, verður miklu erfiðara að fá fólk til að trúa nýjum aðdróttunum en ef þær hefðu komið strax með nöfnum og tilheyrandi.
Því verður slíkur áróður aðeins vindhögg úr þessu, einungis sex dögum fyrir kosningar.
http://eyjan.is/blog/2009/04/19/vantadi-milljonastyrk-a-lista-samfylkingar/
laugardagur, apríl 18, 2009
18. apríl 2009 - Um vetrardekk
Þessi stutti pistill fjallar ekki um svifryk af völdum nagladekkja. Ástæðan er einföld. Mig grunar að ein stærsta ástæðan fyrir myndun svifryks á götum Reykjavíkur og nágrennis sé vegna lélegra efna sem notuð eru í gatnagerð hér og sem tætast upp við minnstu snertingu dekkja við malbikið. Allavega finnst mér mjög óeðlilegt að sjá hve göturnar í Reykjavík koma miklu verr undan vetri á sama tíma og nagladekk eru mjög algeng í Stokkhólmi án þess að sjái á götunum á sama hátt og þrátt fyrir saltburð á báðum stöðum. Að auki stórsér stundum á nýlögðu malbikinu að hausti.
Frá vinnustað mínum blasir við hjólbarðaverkstæði eitt í Reykjavík. Það virðist ekki hafa verið mikið að gera þar að undanförnu, allavega ekki fyrir páska, en síðustu dagana hefur verið löng röð af bílum fyrir utan sem bíða eftir dekkjaskiptum. Það virðist hafa verið opið þar í morgun því löng röð bíla var þar fyrir utan allan morguninn, en eftir að lokaði eftir hádegið, hefur mátt sjá einn og einn bíl renna þar að í von um að enn væri verið að skipta um dekk.
Þetta er dæmigert fyrir Íslendinga. Það er ekki farið að huga að sumardekkjunum fyrr en komið er að síðustu dagsetningu leyfilegrar notkunar á nagladekkjum og þá einvörðungu til að spara sér tuttuguþúsund kallinn sem það kostar að trassa dekkjaskiptin og þá fer allt í óefni. Á sama hátt fara fæstir á dekkjaverkstæði fyrr en eftir að fyrsti snjór fellur að hausti til að skipta aftur yfir á vetrardekkin. Þeir aðilar sem ekki ná því að skipta fyrstu dagana eftir fyrstu snjókomu haustsins, bíða þá þar til snjókoma númer tvö að hausti skellur á okkur því engum dettur í hug að skipta yfir á vetrardekkin á meðan sól skín í heiði þótt kominn sé vetur.
Sjálf ek ég um á heilsársdekkjum og hefi ekki miklar áhyggjur af dekkjaskiptum að vori né hausti. Ég á að vísu nagladekk á felgum heima í geymslu, en hefi ekki fengið tækifæri til að nota þau að vetri til undanfarin ár þar sem ekki hefur verið farið í langferð að vetri til og fá tækifæri hafa gefist til að nota þau innanbæjar þessi sömu ár. Ef ég þarf að skreppa út úr bænum tekur það mig einungis um klukkutíma að sækja dekkin og koma þeim undir bílinn og hinum dekkjunum inn í geymslu í staðinn.
-----oOo-----
Ég ítreka svo þakklæti mitt til Sjálfstæðismanna á Vesturlandi sem auglýstu að Samfylkingin væri hlynnt nánari samvinnu við Evrópuþjóðir Með orðum þeirra þykir eðlilegast að ætla að þeir berjist áfram fyrir áframhaldandi einangrunargildum gömlu borgarastéttarinnar.
föstudagur, apríl 17, 2009
18. apríl 2009 - Takk Sjálfstæðismenn :-)
Það er ekki oft sem hægt er að þakka pólitískum andstæðingum fyrir stuðninginn en það gerðu Sjálfstæðismenn í Stykkishólmi á dögunum er þeir auglýstu, að vísu með sínum orðum, að atkvæði greitt Samfylkingunni væri atkvæði með Evrópusambandsaðild. Þetta gerðu þeir með heilsíðuauglýsingu í Stykkishólmspóstinum ásamt meðfylgjandi mynd af Steingrími Jóhanni, einum stuðningsmanna sinna í andstöðunni gegn Evrópusambandinu.
Nú er bara að vona að þessi auglýsing Sjálfstæðismanna í Stykkishólmi verði öllum Evrópusinnum vestra til skilnings á því að einasta örugga leiðin fyrir Evrópusinna er að greiða Samfylkingunni atkvæði sitt.
17. apríl 2009 – Um stjórnlagafrumvarpið
Í morgun hrósuðu sér íhaldsmenn yfir því að hafa unnið fullnaðarsigur í deilunni um stjórnarskrána. Það er að vísu rétt að þeim tókst að tefja stjórnarskrárfrumvarpið um einhver þing, en rétt eins og valdaflokki fyrri hluta tuttugustu aldarinnar tókst ekki að koma í veg fyrir kjördæmabreytinguna 1959 sem þýddi fall Framsóknarflokksins, þá mun valdaflokki síðari hluta tuttugustu aldarinnar ekki takast að fresta stjórnarskránni til enda veraldar. Þvert á móti mun málþóf Sjálfstæðismanna og þumbaraháttur þeirra nokkrum dögum fyrir kosningar einvörðungu verða til enn frekari fækkunar atkvæða þeim til handa í kosningum.
Sjálf hefði ég kosið að Alþingi færi ekki heim fyrr stjórnarskrármálinu yrði lokið, en úr því ekki má læsa þingmenn inni á meðan þeir ljúka þessu máli, þá verða þeir sjálfum sér að fíflum og Alþingi til minnkunar með málþófinu. Með þessu hafa Sjálfstæðismenn sýnt sitt rétta andlit og hver virðing þeirra er fyrir lýðræðinu.
miðvikudagur, apríl 15, 2009
15. apríl 2009 – Fjölmiðlar og framtíðin í augum Bjarna formanns
Bjarni Benediktsson nýr formaður Sjálfstæðisflokksins kvartaði sáran í útvarpinu í gær yfir þeirri vonsku fjölmiðlafólks að vilja fremur eyða púðrinu í spillinguna innan Sjálfstæðisflokksins en að ræða framtíð íslensku þjóðarinnar og þau verkefni sem væru framundan.
Öfugt við Bjarna fundust mér athugasemdir fjölmiðlafólksins mjög eðlilegar því hvernig á að vera hægt að ræða um framtíð sem er byggð á spillingu? Byrjum fyrst á að hreinsa til innan Sjálfstæðisflokksins og svo skulum við ræða framtíð án spillingar.
-----oOo-----
Til að slá ryki í augu almennings hafa Sjálfstæðismenn reynt að benda á að þriðjungur þeirra styrkja sem komu í hendur Samfylkingunni árið 2006 kom frá fyrirtækjum tengdum Baugsveldinu. Ég efa ekki að þessar tölur séu réttar án þess að kanna þær, þótt komnar séu frá vafasömum pappírum. Um leið fer ég að velta fyrir mér hversu stór hluti af styrkjum Sjálfstæðisflokksins komu frá sömu aðilum og tel ég þá ekki með 30 milljóna mútugreiðslur til Sjálfstæðisflokksins í árslok 2006 frá Baugsfyrirtækinu FL-grúpp. Gaman væri ef Sjálfstæðismenn svöruðu mér þessu.
-----oOo-----
Ég var að sörfa á netinu og fann þá mynd af þeirri verstu galeiðu sem ég hefi starfað á um dagana. Þar var um að ræða gámaskipið Laxfoss III, ex City of Hartlepool, en skipið var eitt ár á þurrleigu hjá Eimskip undir fána Bahamas. Eftir að því var skilað til eigenda sinna fékk það nafnið City of Manchester. Hvar það er niðurkomið í dag hefi ég ekki hugmynd um. Það sem bar þó af í veru minni á skipinu var aðalvélin, en hún var af gerðinni Doxford 58JS3, þriggja strokka og sex stimpla vél, tilraunasmíð sem kom framleiðandanum á hausinn á stuttum tíma eftir afhendingu á fyrstu vélunum, en vélstjórunum látlausu svefnleysi og höfuðverk meðan á verunni um borð stóð.
Það er engin slík vél um borð í skipi í dag, en stofnað hefur verið Doxford-safn um einu vélina sem varðveist hefur en safnið mun vera skammt frá Newcastle upon Tyne í Englandi. Þar eru einnig höfuðstöðvar Doxford klúbbsins, en inngöngu í hann fá einungis þeir vélstjórar sem klappað hafa Doxu á leið yfir hafið sem og hönnuðir og smiðir Doxfordverksmiðjunnar í Englandi. Þeir eru flestir komnir til ára sinna.
þriðjudagur, apríl 14, 2009
14. apríl 2009 - Af heimilisbókhaldi
Frá síðustu áramótum hefi ég haft það fyrir venju að safna saman öllum greiðslukvittunum með það fyrir augum að koma mér upp heimilisbókhaldi. Þótt ég hafi haft ýmsar grunsemdir um bruðl á ýmsum viðum, var það ekki nóg og því nauðsynlegt að sjá bruðlið svart á hvítu.
Eftir nokkrar tilraunir við að flytja heimilisbókhald Landsbankans yfir á eigin tölvu gafst ég upp á stýringu annarra á fjármálum mínum, notaði páskahelgina í að útbúa mitt eigið heimilisbókhald í Excel og notaði seinnipartinn í gær til að færa inn á bókhaldið á eyðslunni allt frá áramótum. Ég viðurkenni alveg að mikið af ætluðu bruðli er ekkert bruðl, heldur eðlileg útgjöld, dýrir hlutir eins og klipping, fatnaður og lækniskostnaður, en samt. Ég fann fljótlega atriði þar sem má spara án þess að slíkt komi niður á mínu þægilega líferni. Vissulega mætti alveg fækka alveg ölinnkaupum, en það er ekki það versta. Það sem kom verst út miðað við ætlaða eyðslu voru daglegar nauðsynjavörur eins og matvæli og almennar heimilisvörur.
Mánaðarkostnaðurinn við heimilishaldið reyndist fjórðungi hærri en ég hafði áætlað. Er nema von að fólk eigi ekki fyrir mat lengur? Allt félagsmálabatteríið gengur út á að bjarga heimilinum frá því að missa húsin á uppboð, en sá hlutinn er hjá mér í nokkuð góðu jafnvægi og á það vafalaust við um fleiri. Á sama tíma hefur brauðið og viðbitið hækkað upp úr öllu valdi.
Vonandi að okkur takist að viðhalda núverandi stjórnarmynstri eftir kosningar og áhyggjurnar verða minni en ella.
-----oOo-----
Svo er sjálfsagt og eðlilegt að óska KR til hamingju með Íslandsmeistaratitilinn í körfubolta
mánudagur, apríl 13, 2009
13. apríl 2009 - Um heilindi Einars
Ég hefi ávallt litið á Einar Kr. Guðfinnsson sem heiðarlegan stjórnmálamann, að vísu stjórnmálamanns sem hefur orðið að lúta í gras í skoðunum fyrir útgerðarauðvaldi og kvótakóngum, en samt heiðarlegs manns sem á erfitt uppdráttar með skoðanir sínar í flokki sínum. Þó fór ég að efast eftir nýjasta pistil hans á heimasíðu sinni, en þar endar hann pistilinn á þessa leið:
„Með þessum hætti og fyrir atbeina forystu flokksins hefur verið varpað skýru ljósi á málið. Flokkurinn hefur játað mistök með því að endurgreiða upphæðina og menn axlað ábyrgð. Þannig hefur verið tekið heiðarlega á málinu og af myndarskap, rétt eins og okkur ber að gera við svona aðstæður.
Í þessum efnum eins og öðrum ber okkur að virða sannleikann og hafa heiðarleika í hávegum, eins og alltaf. Það hefur og er aðalsmerki Sjálfstæðisflokksins og því merki höldum við hátt á lofti.“
Einar Kr. Guðfinnsson kallar þetta mistök. Flokksforysta hans gerir sig seka, í besta falli, að hafa látið milljarðaglæpamenn bera á sig fé til að kaupa sér velvilja, í versta falli stórfelldar mútur. Slíkt eru engin mistök. Það má vera að þessi fjáraustur til Sjálfstæðisflokksins frá útrásarvíkingunum hafi verið löglegur, en siðlaus var hann tveimur dögum áður en lög tóku gildi sem bönnuðu slíkt athæfi.
Nei Einar minn. Þetta voru ekki mistök, hvort heldur Guðlaugur Þór Þórðarson lét félaga sína taka á sig sökina eður ei. Það voru enn síður mistök ef um var að ræða mútuþægni eins og suma grunar.
Ég ætla samt að vona að ég þurfi ekki að efast um heilindi Einars Kr. Guðfinnssonar, heldur vil ég fremur líta svo á að pistill hans hafi verið mistök sem honum beri að biðjast afsökunar á.
Pistillinn í heild sinni:
http://www.ekg.is/blogg/nr/1008
sunnudagur, apríl 12, 2009
12. apríl 2009 - Mary Poppins
Það mætti ætla að ég sé orðin meiri veimiltíta en á árum áður, en á laugardagskvöldið sat ég sem límd yfir 45 ára gamalli kvikmynd sem ég hafði séð oftar en einu sinni sem barn og tvisvar eða þrisvar áður á fullorðinsaldri, kvikmynd þar sem ég þekkti söguþráðinn ágætlega, en gat ekki slitið mig frá henni fyrr en henni lauk.
Ég viðurkenni alveg að ýmsar hugmyndir fóru í gegnum huga minn meðan á sýningu myndarinnar stóð í sjónvarpinu og þá held ég að Sigurjón Þ. Árnason komist seint með tærnar þar sem bankamaðurinn George Banks í kvikmyndinni Mary Poppins var með hælana, hvort heldur er í sönglist eða sporlipurð.
Ekki veit ég hvort það er merki um kreppuhugsun að hafa gaman af þessari gömlu barnamynd um bankastjóra sem kvæntur er róttækum femínista og með göldrótta barnfóstru eða hvort það er merki um þrá til fortíðar og barnæsku þegar árin eru byrjuð að færast yfir mig.
laugardagur, apríl 11, 2009
11. apríl 2009 - Hvað um felustyrki stjórnmálaflokkanna?
Á þeim árum sem ég starfaði hjá Eimskip fóru gjarnan einhverjir skipverjar í frí skömmu fyrir kosningar til atkvæðasmölunar fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Oftast voru þetta stýrimenn sem héldu launum hjá Eimskip meðan á smöluninni stóð og héldu svo til skips að nýju að afloknum kosningum. Þegar þeir vildu svo hætta til sjós og komast í land, opnuðust þeim allar dyr og þeir fengu þægileg störf í landi, ef ekki hjá Eimskip, þá hjá ríki eða borg (meðan íhaldið réði borginni) eða þá hjá fyrirtækjum og stofnunum sem tengdust flokknum.
Ég hefi heyrt að Framsóknarflokkurinn hafi einnig átt sitt fólk hjá Samskip sem sinnti sömu erindum fyrir kosningar. Ég er ekki viss um að þetta viðgangist lengur, ekki vegna þess að skipafélögin hafi ekki efni á þessu lengur, heldur vegna þess að skipverjar skipanna eru flestir útlendingar sem ráðnir eru í gegnum starfsmannaleigur í Lundúnum.
Ætli þessi „sjálfboðaliðastörf“ fyrir ofangreinda flokka hafi verið skráð í bókhald flokkanna? Ég held ekki. Það er talsverður kostnaður fólginn í þessari atkvæðasmölun, en með því að menn þessir voru á launum hjá viðkomandi skipafélagi, lagðist enginn kostnaður á stjórnmálaflokkana.
Það má vel vera að þessi aðferð sé enn við lýði á fiskiskipaflotanum. Ég þekki það ekki, en mér þykir það samt líklegt. Það getur verið nauðsynlegt að tryggja að atkvæðin skili sér í tíma ef skipið er á sjó á kosningadaginn. Ég efa þó að þetta sé gert af vinstri flokkunum. Að minnsta kosti var ég aldrei hvött til að kjósa utankjörstaðar meðan ég var á sjó, enda ávallt verið yfirlýst vinstri manneskja.
Þá eru það auglýsingarnar. Fyrir kosningarnar 2003 blöskraði mér hinar yfirgengilegu auglýsingar Framsóknarflokksins. Reyndar einnig fyrir kosningarnar 2006 og 2007. Sjálfur hefur Framsóknarflokkurinn mótmælt kostnaðinum, enda með lokað bókhald til 2007, og því erfitt að sannreyna auglýsingakostnaðinn. Það má líka vel vera að Framsókn hafi rétt fyrir sér og að einhver stórfyrirtæki úti í bæ hafi greitt auglýsingarnar fyrir hönd Framsóknarflokksins og skráð í bókhaldið hjá sér og hjá auglýsingastofunni sem auglýsingu fyrir Kaupþing, VÍS eða Samskip.
Ég held því að það sé ljóst að til að losna við spillinguna, þurfi að krefjast miklu meira gegnsæi en nú er.
föstudagur, apríl 10, 2009
10. apríl 2009 - Af sjóræningjum
Maersk Alabama er eitt minnstu gámaskipa Mærsk samsteypunnar, og lestar einungis um 1100 gámaeiningar, mun minna en Goðafoss og Dettifoss en nokkru meira en Arnarfell og Helgafell. Þá gengur skipið einungis 18 sjómílur og því auðveldari bráð en risaskip Mærsk af E gerð, en þau skip ganga 25 sjómílur og lesta á milli 11000 og 15000 gámaeiningar og fara reglulega um þetta varasama hafsvæði án vandræða.
Ég hefi að vísu haft lúmskt gaman af myndum af Maersk Alabama. Íslenskar sjónvarpsstöðvar sýna gjarnan myndir af tveimur ólíkum skipum, en þeim til gleði má þess geta að seinni myndin er af Maersk Alabama ex Alva Mærsk. Það er skipið með yfirbygginguna aftast. Allskyns skip hafa verið sýnd með fréttum af þessu sjóráni og þar má nefna að danska blaðið Politiken birti mynd af Emmu Mærsk (einu risaskipanna) og kallaði Maersk Alabama. Sjálf hélt ég vart vatni af hrifningu minni á þessu risaskipi þegar það fór í sína fyrstu ferð haustið 2006 sbr fyrri færslur mínar um Emmu Mærsk.
http://velstyran.blogspot.com/2006/09/14-september-2006-jremba-og-strsta.html
http://velstyran.blogspot.com/2006/09/15-september-2006-bloggkaffi.html
Með því að ráðist hefur verið að skipi með bandaríska áhöfn er möguleiki á að bandaríski flotinn skerist í leikinn og beiti sér af afli til að stöðva þessi sjórán. Nógu lengi hafa farmenn þurft að sigla um þetta hafsvæði í óvissu um örlög sín.
Besta lausnin er þó sú að alþjóðasamfélagið komi á virku stjórnkerfi í Sómalíu svo hægt verði að stöðva sjóránin innan frá.
fimmtudagur, apríl 09, 2009
9. apríl 2009 - Einustu múturnar?
Nú þegar Sjálfstæðisflokkurinn hefur viðurkennt að hafa tekið á móti tvennum mútum, samtals að upphæð 55 milljónir má fullyrða að þeir hafi aldrei áður og muni aldrei aftur þiggja mútur af þessu tagi, sem sést best af því hve fljótir þeir voru að lofa endurgreiðslu á aurunum. Eða hvað? Um leið má velta fyrir sér hvaðan þeir ætla að sækja aurana til endurgreiðslunnar því vafalaust eru þessar 55 milljónir löngu búnar og talsverðar skuldir eftir dýrar kosningabaráttur undanfarinn áratug. Kannski eru fleiri svona háar upphæðir í felum í einhverjum kjöllurum stórhýsisins á horni Skipholts og Bolholts.
Hin óheyrilega barátta Sjálfstæðismanna fyrir hagsmunum útgerðarauðvaldsins undanfarna daga styðja enn frekar þá skoðun sumra að talsverðir fjármunir séu enn á leiðinni inn í kosningabaráttuna bakdyramegin frá útgerðarfyrirtækjum. Þetta þarf ekkert að koma fram í bókhaldi flokksins. Ímyndum okkur að HB-Grandi kaupi heilsíðuauglýsingu á síðum Morgunblaðsins um ágæti Sjálfstæðisflokksins eða einstöku frambjóðenda. Slík auglýsing þarf hvergi að koma fram í bókhaldi Sjálfstæðisflokksins því HB-Grandi greiðir hana og Morgunblaðið gefur út kvittun til HB-Granda, en nafn flokksins kemur hvergi fram í bókhaldinu þótt auglýsingin sé hreinn áróður fyrir flokkinn. Auk þess heyrði ég, þótt óstaðfest sé, að einhverjir frambjóðendur í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins á dögunum hefðu bæði reynt að beita þessari aðferð og viljað auglýsa nótulaust til að koma í veg fyrir að gera grein fyrir kostnaðarbókhaldinu við prófkjörið.
Sjálfstæðismenn eru sennilega ekkert einir um stórfellda mútuþægni í kosningasjóði sína þótt þeir séu örugglega langverstir. Þar má benda á hrikalegar auglýsingaherferðir Framsóknarflokksins fyrir alþingiskosningarnar 2003 og 2007 svo ekki sé talað um Hummerherferðina 2006 sem skiluðu fáum sætum fyrir flokkinn þótt þeim tækist að lafa inni í borgarstjórn og á Alþingi. Þar væri gaman að vita hversu mjög útrásarvíkingar Framsóknarflokksins eins og Sigurður Einarsson og Ólafur Ólafsson studdu flokkinn.
Ég ætla ekki að halda því fram að múturnar séu einskorðaðar við þessa tvo flokka þótt vafalaust hafi þeir verið stórtækastir á þessu sviði. Það er hinsvegar ekkert gaman fyrir flokk á borð við Samfylkinguna að hefja kosningabaráttu í dag með tveggja ára kosningaskuld á bakinu og bendir ekki til að stórfelldar mútugreiðslur til hennar hafi verið í gangi. Það er samt mikilvægt að allar greiðslur til flokksins alla þessa öld verði gerðar opinberar til að hreinsa andrúmsloftið.
Stuðningsfólk Samfylkingarinnar hefur aldrei verið hrifið af ofþenslu og fjármagnsaustri í auglýsingum fyrir flokk né frambjóðendur. Þar sönnuðust ágætlega hrikalegar auglýsingaherferðir eins frambjóðanda í prófkjörum fyrir kosningarnar 2003 og 2007 með engum árangri sem leiddi loks til þess að hann yfirgaf Samfylkinguna sem og umframeyðsla eins frambjóðanda í prófkjörinu á dögunum sem olli verri útreið en stefnt hafði verið að.
sunnudagur, apríl 05, 2009
5. apríl 2009 - Hrapandi valdastjörnur
Að undanförnu hafa Sjálfstæðismenn klifað á því sínkt og heilagt að ekki hafi verið samþykkt stjórnarskrárbreyting í hálfa öld þar sem ekki hafi verið samkomulag á milli allra flokka. Þetta er alveg rétt og engin ástæða til að rengja það á nokkurn hátt, enda ástæðulaust að breyta stjórnskipunarlögum eins ríkis nema ástæða sé til þess.
Stjórnarskrárbreytingin 1959 var viðamikil. Þar voru tekin upp kjördæmi í stað sýslna sem var mikil þörf á í breyttu samfélagi þar sem íbúar í bæum og borg höfðu tekið við af bændasamfélaginu og vildu fá aukin réttindi til samræmis við fjöldann. Auðvitað var Framsóknarflokkurinn á móti þessari breytingu. Hann var hinn gamli valdaflokkur bændastéttarinnar og hafði haft mikil völd og marga þingmenn miðað við atkvæðafjöldann sem voru að baki hverjum þingmanni. Því var það eðlilegt að Framsókn berðist gegn breytingunni sem hinn fallandi valdaflokkur.
Í dag er það Sjálfstæðisflokkurinn sem berst fyrir völdum sínum gegn vilja meirihluta þjóðarinnar. Útgerðarauðvaldið krefst valda þeirra sem það öðlaðist smám saman frá aldamótum til 1959 og þjónarnir halda uppi málþófi á Alþingi og benda á þá staðreynd að ekki hafi verið stjórnarskrárbreyting án þátttöku allra flokka frá 1959. Það er eðlilegt. Sjálfstæðisflokkurinn er hin fallandi stjarna nýrrar aldar rétt eins og Framsóknarflokkurinn var fallandi stjarna fyrir hálfri öld.
Mér finnst eðlilegt að Alþingi fari ekki heim fyrr en að afloknu málþófinu og stjórnarskrárbreytingunni. Ef alþingismenn Sjálfstæðismenn vilja heldur syngja gamla söngva á Alþingi í stað þess að berjast fyrir endurkjöri meðal fólksins í landinu finnst mér sjálfsagt að lofa þeim slíku. Langt málþófið verður bara þeirra tap þótt helst vildi ég að næsta þingfundi verði ekki frestað heldur haldið áfram þar til Sjálfstæðismenn hætta málþófinu. Það yrði þá ekki í fyrsta sinn sem menn þurfa að standa í þrjá sólarhringa til að koma í veg fyrir að skútan fari á hliðina.
laugardagur, apríl 04, 2009
4. apríl 2009 - Breiðavíkurdrengir og Múhameðsteikningar
Fyrir fáeinum misserum var farið fram á það við þáverandi forsætisráðherra Geir Haarde, að hann bæðist afsökunar fyrir hönd íslenska ríkisins á illri meðferð sem Breiðavíkurdrengir urðu fyrir, löngu fyrir setu hans í stjórnarráðinu. Hroki Geirs reyndist of mikill til að hann gæti sagt þessi fáu orð sem segja þurfti til að öllum liði betur. Það reyndist hinsvegar léttur leikur fyrir Jóhönnu Sigurðardóttur er hún hafði tekið við embætti, að biðjast afsökunar á meðferð ríkisins á þessum drengjum mörgum áratugum eftir að Breiðavíkurheimilið var lagt niður og rétti þannig fram sáttahönd.
Nú hefur annar slæmur pólitíkus bitið í skottið á sjálfum sér í slíkum málum. Þar á ég við Anders Fough Rasmussen forsætisráðherra Danmerkur og ábyrgðaraðila fyrir þátttöku Danmerkur í innrásinni í Írak. Nú vill hann gerast forstjóri fyrir Nató og þá segja Tyrkir nei, að vísu ekki vegna innrásar Danmerkur í Írak sem væri yfrið nóg, heldur vegna þess að hann bað múslíma ekki afsökunar á móðgunum danskra þegna á hendur hinum mjög svo fjölbreyttu trúarbrögðum þar sem andstaða gegn persónudýrkun á spámanninum er álíka heilög og krossinn í kristinni trú.
Hvorki Geir Haarde né Anders Fough Rasmussen eru persónulega ábyrgir fyrir hegðun þegna sinna né heldur atburða í fortíðinni. Með því að biðjast afsökunar eru þeir því ekki að sýna fram á iðrun á einhverju sem þeir hefðu getað gert öðruvísi, heldur eru þeir að sýna fórnarlömbum annarra og trúarbrögðum annarra virðingu, því virðing fyrir öðrum er allt sem þarf til að biðjast afsökunar.
En rétt eins og Geir er á hraðri leið til gleymsku, þá helst fyrir hroka gagnvart þjóð sinni og þá ekki einungis í Breiðavíkurmáli, þá stefnir Anders Fough í sömu átt, því sá sem sýnt hefur öðrum hroka í stað virðingar uppsker sem hann sáir.
http://velstyran.blogspot.com/2006/02/8-febrar-2006-af-mhame-spmanni.html
http://velstyran.blogspot.com/2006/02/11-febrar-2006-ll-drin-skginum.html
Til að geta lesið þær skammir sem ég hlaut eftir pistlana mína fyrir rúmum þremur árum verður að ýta á „comments“ með pistlunum.
föstudagur, apríl 03, 2009
4. apríl 2009 - Innilokunarkennd – myrkfælni
Ég kom við í samkvæmi hjá Orkuveitustarfsfólki á föstudagskvöldið. Þar hitti ég gamlan félaga minn frá Vestmannaeyjum og eiginmann konu sem starfar hjá OR og við tókum tal saman. Hann fór að segja mér frá því að hann hefði nýlega komið inn í stærsta ketil á Íslandi, þ.e. ketilinn hjá Sementsverksmiðjunni á Akranesi. Og nostalgían fór á kreik að venju.
Það var 1992 sem verið var að endurbyggja stærsta ketilinn okkar við Hässelbyverket í Stokkhólmi, ketill hvers rafalinn gaf 160 Megavött út á netið, en eitt af því sem þurfti að framkvæma, voru loftstreymismælingar í rafsíum útblásturs frá katlinum. Það var farið af stað að leita einhvers starfsmanns sem þyrði að láta loka sig inni í rafsíunni og mæla flæðið eftir fyrirfram ákveðinni áætlun og eftir að nokkrir starfsmenn höfðu afþakkað boðið ákvað ég að slá til og lét loka mig inni með mælitæki og vasaljós.
Rafsían var stór, tíu metrar á hvern kant og ég þurfti að príla fram og aftur, upp og niður eftir grind í miðjunni í kolsvarta myrkri á meðan fullur loftþrýstingur var á kerfinu. Þrátt fyrir allar mínar fóbíur, tókst mér að yfirvinna innilokunarkennd, myrkfælni, einmanaleika og lofthræðslu þessar klukkustundir sem mælingin stóð yfir og þar sem engin hjálp gat komið til inni í risastórum kassa af stáli ef eitthvað færi úrskeiðis meðan á mælingunni stóð.
Verkefnið gekk ljómandi vel, en fegin var ég þegar ég losnaði úr prísundinni tveimur tímum síðar. Þess má geta að ketillinn sem sendi sótið í gegnum þessa rafsíu er 35 metrar á hæð, en um 15 metrar á breidd og dýpt og fimmtán olíubrennarar sem halda 154 bar þrýsting og allt að 540°C gufuhita í katlinum.
3. apríl 2009 – Okkar helstu og bestu vinir
Í morgun mótmælti þingmaður Sjálfstæðisflokksins því að Jóhanna Sigurðardóttir fór ekki á snobbfund leiðtoga Natóríkjanna í Strassburg, eða eins og þingmaðurinn orðaði það, á fund okkar helstu og bestu vinaþjóða.
Sér nú hver vináttuna þar sem þingmaðurinn ætlaðist til að Jóhanna mótmælti hryðjuverkalögum einnar þessara svokölluðu helstu og bestu vinaþjóða á hendur íslensku þjóðinni. Á sama tíma logar allt í óeirðum í Strassburg og kannski það sé skýringin á því af hverju Sjálfstæðisflokkurinn vill Jóhönnu burt. Svo má einnig velta fyrir sér hvort ekki sé af öðrum ástæðum sem þeir vilja Jóhönnu veg allrar veraldar, t.d. þeirrar að þeir óttast hana.
Loks má spyrja hvað Sjálfstæðismenn myndu segja ef Jóhanna færi burt, hvort þeir myndu þá ekki mótmæla fjarveru hennar?