Tónlist er eitthvað sem rifjar upp endurminningar. Þú heyrir gamalt dægurlag og með þér rifjast upp minningar frá því þú dansaðir fyrsta dansinn við förunaut lífs þín. Sama lag er einskis virði fyrir öðrum þótt það veki upp sælar minningar hjá þér.
Ég man þegar ég byrjaði til sjós og lagið Monday Monday með Mamas & the Papas var á toppnum. Í hvert sinn sem ég heyri þetta lag rifjast upp fyrir mér dagurinn sem ég byrjaði til sjós. Mörg önnur lög eiga svipaðar tilfinningar, Down town, Rosegarden, My sweet Lord, og fleiri og fleiri.
Jólalög eiga líka sína sögu. Mín fyrstu jól á sjó eru bundin laginu White Christmas því nokkrum dögum fyrir jólin 1971 var ég í Massachusetts í Bandaríkjunum og þetta lag var spilað í öllum verslunarmiðstöðvum. Jólin 1984 eru sömuleiðis bundin Bandaríkjunum, en þá vorum við í Norfolk og New Jersey einhverjum dögum fyrir jól áður en haldið var til Halifax í Kanada og síðan Íslands eftir nokkurra mánaða útilegu í Transatlantic siglingum.
Í New Jersey notaði ég tækifærið og skrapp í bæinn, átti erindi til Woodbridge Center í New Jersey að versla jólagjafir. Þar keypti ég kassettu með jólalögum sem jafnframt var einasta jólatónlistin sem hægt var að hlusta á í tækjum skipsins þar sem við vorum á úthafinu á leið til Íslands jólin 1984.
Síðan þetta var rifjast alltaf upp fyrir mér furðuvélin Doxford og flutningaskipið Laxfoss (City of Hartlepool) í hvert sinn sem ég heyri Dolly Parton og Kenny Rodgers flytja jólalög sín.
þriðjudagur, desember 22, 2009
22. desember 2009 – Ljúfsárar endurminningar
laugardagur, nóvember 28, 2009
29. nóvember 2009 - Gert víðreist í skóginum
Þegar ég ákvað að taka þátt í transráðstefnunni í Linköping ákvað ég strax að nota tækifærið og heimsækja sem flesta af gömlum vinum sem ég á í Svíþjóð eftir ráðstefnuna og taka mér gott frí frá barlómnum á Íslandi. Ég held að það hafi tekist alveg ljómandi vel.
Ég byrjaði Svíþjóðarheimsóknina í gamla bænum þar sem ég bjó, með því að heimsækja gamlan nágranna í Jakobsberg áður en haldið var áfram suður á bóginn. Eftir góðan kaffisopa var ekið í gegnum eftirmiðdagsumferðina suður á bóginn, í gegnum Södertälje þar sem ég bjó eitt sinn í heilt ár og áfram til vinafólks míns í Vingåker þar sem sofið var eina nótt áður en haldið var til Linköping á ráðstefnuna.
Á ráðstefnunni kynntist ég mörgu skemmtilegu fólki, meðal annarra Del LaGrace Volcano og hinni þekktu Sandy Stone sem þrátt fyrir aldurinn er enn uppfull af eldmóði. Það geta víst fáar manneskjur montað sig af því að skrifaðar hafa verið heilu bækurnar í hatri gegn einni manneskju eins og Sandy Stone kynntist er Janice Raymond færði hatur sitt á henni í letur í bókinni The Transsexual Phenomenon.
Eftir þriggja daga skemmtilega ráðstefnuna var haldið út á þjóðvegina á ný og nú suður til Småland þar sem fleira vinafólk varð fyrir barðinu á heimsóknaþörf minni. Þá notaði ég tækifærið og heimsótti einnig prestinn í nágrannasókninni sem ég hefi nefnt áður í bloggfærslum mínum.
Eftir að hafa eytt þremur dögum í skóginum norðan við Växjö var enn á ný haldið út í óvissuna í skóginum, en nú til nágrennis Oskarshamn þar sem frændi minn og eiginkona hans búa. Eftir tvo daga hjá þeim var enn haldið út í skóg, en nú norður á bóginn og eftir góðan kaffisopa og með því í Norrköping var enn haldið inn í skóginn og nú til Sala í Vestmanland til vinafólks sem þar býr í skógarjaðrinum. Þaðan hefur svo verið farið um nágrannahéruð, til Skinnskatteberg og Stokkhólms og drukkið öl á kvöldin.
Nú er aðeins einn staður eftir á heimsóknalistanum, gamli vinnustaðurinn minn. Eftir morgundaginn get ég því haldið heim á leið með söknuði í hjarta, en um leið með góðar minningar í farteskinu eftir tvö þúsund kílómetra ferðalag.
föstudagur, nóvember 27, 2009
27. nóvember 2009 – Christine
Þegar ég valdist sem formaður í föreningen Benjamín í Svíþjóð í ársbyrjun ársins 1994 fékk ég úrvals fólk með mér í stjórnina, m.a. meðstjórnandann Christine, transstúlku sem ég hafði allan vafa á í byrjun, en reyndist gull þegar á reyndi.
Hún var mörgum árum yngri en ég, framhleypin og vottaði fyrir athyglissýki hjá henni að mínu mati, en um leið manneskja sem hægt var að senda í hvaða verkefni sem var án þess að hún hikaði. Þennan kost hennar notaði ég án þess þó yfirkeyra stelpuna.
Eitt sinn vorum við beðnar um að mæta í sjónvarpsþátt í TV3 í Svíþjóð og auðvitað var Christine með í erfiðum klukkutíma þætti þar sem allt var látið flakka, okkar þarfir og langanir, meðferðarferlið og framtíðin.
Ári síðar lauk ég mínu aðgerðarferli og Christine ári á eftir mér. Ég flutti heim og missti tengslin við fólkið mitt í Svíþjóð. Ég fékk þó um skeið eina og aðra frétt af samtökunum okkar og örlögum virkustu meðlimanna, þar á meðal af Christine. Einhverjum árum síðar hvarf hún af sjónarsviðinu, flutti norður í land til foreldra sinna og ég missti öll tengsl.
Það var í fyrra að hún birtist mér á ný, á Facebook. Fjölskyldan hafði selt jörðina norður í Jämtland og flutt suður til Vestmanland og minnkað búskapinn og sjálf hafði hún gengið Facebook á hönd.
Á fimmtudaginn fór ég í heimsókn til Christine þar sem hún býr ásamt systur sinni og foreldrum nærri bænum Skinnskatteberg, talsvert fyrir norðvestan Västerås. Mitt í skóginum dundaði fjölskyldan sér við kindabúskap, lífrænt ræktaðar hænur af sömu gerð og margumtalaðar landnámshænur, endur og gæsir og seldi afurðirnar beint af býli, svona dæmigerður lífrænn sjálfsþurftarbúskapur. Þarna mátti ég hafa mig alla við að koma mér frá skapstyggum gæsasteggnum sem á að verða jólamaturinn í ár, merkilega skapgóðum kindum og heimilislegri sveitaverslun.
Einhvernveginn fékk ég á tilfinninguna að Christine væri á réttum stað í lífinu þar sem hún stóð í forinni í samfestingnum og talaði við ærnar, rétt eins og hver annar bóndi norður í landi á Íslandi.
En það var yndislegt að hitta hana aftur eftir þrettán ára aðskilnað.
fimmtudagur, nóvember 26, 2009
26. nóvember 2009 - Presturinn í Lammhult
Á sunnudaginn var hitti ég prestinn í Lammhult. Slíkt þætti venjulega ekki ekki í frásögur færandi þegar haft er í huga að ég hefi aldrei hafnað barnatrúnni og fremur talið mig kristna þótt sumir “kristnir” bókstafstrúarmenn vilji telja mig með því versta sem komið getur fyrir hinn kristna heim. Ég fór samt og bankaði upp á hjá presti á sunnudagskvöldið, enda eigum við ýmislegt sameiginlegt.
Annika Stacke er sóknarprestur í Lammhult. Á yngri árum var hún meðlimur í sérstrúarsöfnuði í sænska Biblíubeltinu og prestur þar, en einn góðan veðurdag sá hún að skoðanir hennar og sænsku þjóðkirkjunnar ættu frekar samleið en skoðanir pingströrelsen. Hún færði sig yfir í þjóðkirkjuna og hóf þá vegferð sem ég gekk einnig í gegnum og lauk aðgerðarferli til leiðréttingar á kyni árið 2002. Hún hafði einnig verið í hjónabandi í fortíðinni og eignast börn og hún varð einnig um skeið formaður í föreningen Benjamin þar sem ég hafði gegnt formennsku í tvö ár um miðjan tíunda áratug síðustu aldar.
Meðan á aðgerðarferlinu stóð, voru ýmsar hindranir lagðar fyrir Anniku Stacke, en hún stóð þær allar af sér með bros á vör og hlýju í hjarta. Haustið 2003 losnaði staða sóknarprests í Lammhult og Annika sóttu um og fékk stuðning biskupsins í Växjö til brauðsins. Eins og gefur að skilja varð allt vitlaust í sænska Biblíubeltinu þar sem pingströrelsen sleit öllu samstarfi við sænsku þjóðkirkjuna. Biskupinn gaf sig ekkert og Annika hélt brauðinu.
Sex árum síðar er allt dottið í dúnalogn. Pingströrelsen er löngu búin að sætta sig við ráðningu Anniku í embætti sóknarprests í Lammhult og sóknarbörnin eru mjög sátt við prestinn sinn sem bauð þeim hjartahlýju og bros er reynt var að hrekja hana í burtu með fordómum fyrir sex árum síðan.
laugardagur, nóvember 21, 2009
22. nóvember 2009 – Strákurinn sem varð heimsmeistari kvenna í bruni.
Fréttir fjölmiðla í haust af vafasömu kynferði Caster Semaneya frá Suður-Afríku sem varð heimsmeistari kvenna í 100 metra hlaupi er síður en svo einasta dæmið um að ekki hafi alltaf verið á hreinu með kynferði íþróttakvenna. Það eru nokkur dæmi um slíkt þekkt, t.d. Stanislawa Walasiewicz (1911-1980) frá Póllandi sem keppti í hlaupum á árunum fyrir stríð, flutti síðar til Bandaríkjanna og tók upp nafnið Stella Welsh. Hún lést er hún var úti að versla í Ohio árið 1980, varð óvart á milli í skotárás bófa og lögreglu. Eftir andlát hennar uppgötvaðist að hún var intersex.
Einnig má nefna Foekje Dillema (1926-2007) frá Hollandi sem sömuleiðis var intersex eins og Stella.
Eitt frægasta dæmið var samt um Eriku Schinegger (f. 19. júní 1948) frá Agsdorf í Austurríki. Erika var fræg skíðadrottning í bruni á unglingsárunum og árið 1966 varð “hún” heimsmeistari kvenna á heimsmeistaramótinu á skíðum í Portillo í Chile og voru þetta jafnframt einustu gullverðlaunin sem Austurríki fékk á þessu móti. Á þessum tíma var verið að byrja að framkvæma kynjapróf á keppendum kvenna í alþjóðamótum, fyrst á frjálsíþróttamótinu í Búdapest árið 1966 og síðan haustið 1967 fyrir ólympíuleikana í Grenoble í Frakklandi 1968. Erika var prófuð og svarið kom um að “hún” væri karlkyns. “Hún” fór í fleiri próf og ávallt var niðurstaðan hin sama, “hún” væri karlkyns. Erika var því dæmd úr leik fyrir umrædda ólympíuleika.
Erika hafði aldrei þróað eðlileg brjóst og aldrei haft blæðingar, en eftir að niðurstaða rannsóknanna lá fyrir, fór niðurbrotin manneskjan í frekari rannsókn í Innsbruck þar sem fyrri rannsóknir voru staðfestar, en jafnframt að “hún” hefði virk karlkynskynfæri falin á bakvið húðina. Erika ákvað þá að ganga hreint til verks, fór í erfiða aðgerð til leiðréttingar á kyni sínu þar sem besífanum var sleppt út og hann breytti nafni sínu í Erik. Hann hélt áfram að keppa um skeið í skíðaíþróttum en nú í karlaflokki, vann þrjú mót í Evrópumótaröð í bruni veturinn 1968-1969, en var þá beðinn um að hætta í austurríska landsliðinu vegna þeirra vandræða sem hann var talinn valda meðal annarra keppenda!
Þess má geta að eftir að Erik lauk aðgerðinni til leiðréttingar á kyni sínu, skilaði hann silfurverðlaunum sínum frá Portillo 1966 til keppandans sem lenti í öðru sæti á þeim heimsleikum, Marielle Goitschel frá Frakklandi.
Erik hefur lifað góðu lífi sem karl eftir þetta, rekur skíðaskóla fyrir börn í heimabæ sínum í Agsdorf, er kvæntur og á eina dóttur.
Ævisaga Eriks Schinegger, “Sigurinn yfir sjálfum mér, maðurinn sem varð heimsmeistari kvenna” (Mein Sieg über mich. Der Mann, der Weltmeisterin wurde)
kom út árið 1988 og heimildarmyndin Erik(a) gerð árið 2005 þar sem lífi hans er lýst.
fimmtudagur, nóvember 19, 2009
19. nóvember 2009 - Maður eða kona eða ...?
Fólk er gjarnt á að skipta heiminum í hvítt eða svart þótt oft sé heilmikið á milli. Það eru til strákar og það eru til stelpur, en er það jafneinfalt og hvítt og svart?
Þar sem ég sit spennandi transráðstefnu í Linköping, hlustaði ég á fyrirlestur Del LaGrace Volcano um stöðu intersex fólks í heiminum. Hann er fæddur árið 1957 í Kaliforníu í Bandaríkjunum, fæddur með kynfæri beggja kynja og lifði fyrstu 37 ár ævinnar í kvenhlutverki. Eftir það ákvað hann að reyna að draga það besta fram í kostum kynjanna og hóf að lifa á milli kynja.
Hann hefur búið lengi í Englandi en býr nú í Svíþjóð. Hann sýndi okkur vegabréfið sitt þar sem fram kemur að hann er skráður sem kona, en þegar hann endurnýjar vegabréfið er hann vanur að setja kross á milli reitanna fyrir M og F og þótt hann sé með smáhökuskegg, dettur engum til hugar að spyrja hann hvað hann sjálfur vill, en það væri þá hvorugtveggja eða hvorugkyns.
P.s. Það er val Del LaGrace Volcano að vera ávarpaður í karlkyni út á við til að minnka hættuna á ofsóknum og barsmíðum.
Del LaGrace er lærður ljósmyndari og sjónlistamaður og snilldarlegur fyrirlestur hans gaf alveg nýja sýn á stöðu intersex fólks í heiminum og annarra þeirra sem kjósa að lifa á milli kynja í heimi sem hatar þá.
Eigum við að flokka Del LaGrace sem mann eða konu eða eitthvað annað? Ég segi fyrir mína parta, það skiptir ekki máli. Hann er fyrst og fremst manneskja sem hefur sýnt okkur að það er allt of mikið til í heiminum til að hægt sé að skipta öllum heiminum í hvítt og svart!
laugardagur, nóvember 14, 2009
15. nóvember 2009 - Nýr ferðamannaskattur
Reiknað hefur verið að ætlaðir skattar á flugfarþega til Íslands muni færa íslenska ríkinu nærri milljarð íslenskra króna í tekjur á næsta ári ef af verður. Ekki er víst að af verði því miðað við reynslu annarra þjóða getur þessi skattur dregið stórlega úr komu erlendra ferðamanna til landsins og þá er ver af stað farið en heima setið.
Ég legg því til að í stað þessa nýja ferðamannaskatts verði Varnarmálastofnun lögð niður um áramót og þeim fjármunum sem eru ætlaðir henni verði notaðir til að greiða þær skuldir sem ferðamannaskatturinn átti að greiða. Um er að ræða 962 milljónir króna eða um það bil sömu upphæð og átti að ná inn með ferðamannaskattinum.
15. nóvember 2009 - Af þjóðfundi
Til eru fáeinir frasar sem allir geta tileinkað sér. Það eru orð eins og heiðarleiki, jafnrétti, virðing, réttlæti, en að auki lýðræði, kærleikur og mannréttindi. Vandamálið er bara að sínum augum lítur hver á þessi góðu orð. Margir af félögum mínum í Samfylkingunni tóku virkan þátt í þjóðfundinum og svo virðist sem margir alþingismenn úr öðrum flokkum og aðrir pólitíkusar hafi verið áberandi í Laugardalshöllinni.
Eiginlega þótti mér hin flokkspólitíska aðkoma að þjóðfundinum rýra nokkuð niðurstöðu fundarins. Sjálf komst ég ekki á fundinn vitandi að ég yrði á vakt þennan dag, þótt ég hafi fengið hvatningu um þjóðfundinn frá félögum mínum í Samfylkingunni sem þátt tóku í undirbúningi þjóðfundarins fyrir löngu án þess þó að svara í neinu. Því veit ég ekki hvort ætlunin hafi verið sú að ég ætti að sitja fundinn.
Einhvernveginn fæ ég á tilfinninguna að fögnuður atvinnupólitíkusa með fundinn segi mér að fundurinn hafi runnið út í sandinn og skili litlu sem engu eftir sig þó ef frá er talinn hagnaður þeirra sem njóta hagnaðar af sektarinnheimtum vegna stöðulagabrota.
Því miður.
föstudagur, nóvember 13, 2009
13. nóvember 2009 – Einstök óheppni
Í tilefni dagsins rifjast upp sagan af einum kunningja mínum sem fótbrotnaði fyrir framan tölvuna sína. Slíkt þætti alveg einstök óheppni ef ekki væri vitað um aðstæður.
Kunninginn hafði verið að vinna erfitt verkefni á tölvuna og verið lengi að. Er hann ætlaði að standa upp frá tölvunni, reyndist annar fóturinn algjörlega dofinn og við það að hann ætlaði að standa í fótinn, datt hann og fótbrotnaði í fallinu. Þótt um einskæra tilviljun hafi verið um að ræða, láta kunningjarnir ekki slíkt tækifæri til háðs úr hendi sér sleppa og nota hvert tækifæri sem gefst til að segja frá manninum sem fótbrotnaði fyrir framan tölvuna sína.
Í gærkvöldi heyrði ég af öllu grátbroslegra atviki ef hægt að tala um að slys sé broslegt. Það var um pilt sem sleit lærvöðva í stærðfræðiprófi!!!!!
Neitið því svo að stærðfræðin sé erfið!
13. nóvember 2009 - Gönguferð eða víðavangshlaup
Það var ganga á fimmtudagskvöldið hjá Gönguhóp gullfallega fólksins og ég var að sjálfsögðu með, gekk að heiman að venju klukkan 18.10, gekk Víðidalinn að Heyvaði og yfir göngubrúna og upp í efra Breiðholt, niður hjá kirkjunni og að Vatnsveitubrú. Þar tók ég stefnuna upp í efra Breiðholt að nýju og gekk síðan gegnum kjarrið neðan húsanna austur í átt að Höfðabakka og niður slóða sem þar liggur niður að Árbæjarstíflu þar sem ég hitti gönguhópinn undurfagra klukkutíma eftir að ég hafði farið að heiman.
Að venju gekk hópurinn saman niður Elliðaárdalinn, yfir hitaveitustokkinn og upp aftur Rafstöðvaveginn, framhjá gömlu Elliðaárstöð og upp brekkuna að stíflunni þangað sem við komum móð og másandi eftir kraftgöngu kvöldsins að venju. Síðan var gengið með rólega hópnum umhverfis Árbæjarlónið og endað að venju við stífluna, sum eftir hálftíma labb, önnur eftir röskan klukkutíma gang og ég eftir rösklega tveggja tíma gang.
Þar sem við komum yfir stífluna og ætluðum að njóta samræðna, kom hópur hlaupafólks hlaupandi framhjá okkur. Fljótlega komu fleiri og enn fleiri. Þessi hlaupahópur ætlaði aldrei að taka enda. Eftir að ég kom heim gjörsamlega útkeyrð eftir gönguna fékk ég heimsókn frá einu pari þar sem annar helmingurinn hafði tekið þátt í svonefndu Powerade hlaupi. Hún blés ekki úr nös eftir að hafa hlaupið 10 km á rétt um einum klukkutíma, ein af um 300 manns sem tóku þátt í hlaupinu.
Svo er ég að monta mig af afrekum mínum í gönguhóp fallega fólksins!!!!
miðvikudagur, nóvember 11, 2009
11. nóvember 2009 - Að kasta sér fyrir lest!
Þjóðverji einn kastaði sér fyrir lest á dögunum og dó, maður á besta aldri og toppmaður í íþróttum, landsliðsmaður í fótbolta, maður sem hafði barist við þunglyndi og gefist upp.
Aðstandendur mannsins eiga alla mína samúð sem og allir aðstandendur allra þeirra sem sjá enga aðra leið út úr erfiðleikum sínum en þá að svipta sig lífi. Um leið er verður að gera alvarlega athugasemd við þá aðferð sem maðurinn beitti við að svipta sig lífi.
Það er ákaflega ruddaleg aðferð við sjálfsmorð að kasta sér fyrir lest. Það er hægt að svipta sig lífi á annan hátt, hljóðlega og í kyrrþei. En hin árásarfulla aðferð skaðar marga aðra en þann sem sviptir sig lífi, þá fyrst og fremst lestarstjórann í þessu tilfelli. Líf hans eða hennar er í rúst á eftir og verður viðkomandi í flestum tilfellum ófær um að stjórna lest á eftir, verður jafnvel andlegur öryrki á eftir.
Mörg þau tilfelli þar sem einhver kastar sér fyrir lestina eiga sér stað á fjölmennum brautarstöðvum þar sem fjöldi fólks verður áhorfandi að sjálfsvíginu. Flestir áhorfendur verða miður sín á eftir, oft í langan tíma og það verður ávallt hræðileg minning sem brennir sig í vitundina það sem eftir er.
Ég held að fæst það fólk sem sviptir sig lífi á ruddalegan hátt, geri sér grein fyrir þeim afleiðingum sem sjálfsvígið veldur öllu því fólki sem koma að slysinu því annars myndi það velja aðrar aðferðir við að stytta sér aldur.
mánudagur, nóvember 09, 2009
9. nóvember 2009 – Um "Keflavíkurgöngur" síðari tíma
Ég rifja upp gömlu góðu Keflavíkurgöngurnar sem voru gengnar af hugsjón, göngur sem voru nærri 50 kílómetrar og hófust við vallarhlið Keflavíkurflugvallar á Miðnesheiði og lauk á Lækjartorgi. Þær göngur sem voru styttri fengu önnur nöfn og má þar nefna Straumsvíkurgönguna árið 1977, en þá var gengið frá hliðum álversins í Straumsvík og endað á Lækjartorgi. Við vorum ekki alltaf mörg sem gengum af stað í Keflavíkurgöngurnar, einhver hundruð í upphafi en svo fjölgaði eftir því sem á leið og þegar komið var inn í Hafnarfjörð fjölgaði göngufólki verulega uns komið var til Reykjavíkur á útifund á Lækjartorgi.
Í gær var farin ganga sem kölluð var Keflavíkurganga þótt hún hvorki byrjaði né endaði í Keflavík. Hún byrjaði reyndar á miðjum Keflavíkurveginum, við Vogaafleggjarann og svo var gengin Strandarheiðin og gefist upp í Kúagerði þótt í blíðskaparveðri væri. Þetta var því ekki Keflavíkurganga í neinum skilningi þess orðs, heldur aumleg Strandarheiðarganga undir forystu frændanna Johnsen & Johnsen.
Ég hefi fullan skilning á þörf Suðurnesjamanna fyrir aukinni atvinnu. Atvinnuleysi er vont hlutskipti. Það hlýtur að vera hægt að fara einhvern milliveg í byggingu álvers í Helguvík án þess að reist verði risaálver eins og ætlunin er að byggja. Það er ekki til næg orka í það án þess að slíkt komi niður framtíðinni ef farið verður of geyst í framtíða gufuaflsvirkjanir. Það er hinsvegar tómt mál að kalla fram framkvæmdir með blekkingagöngum eins og þeirri sem farin var í gær og reynt þannig að tengja þægilegan sunnudagsgöngutúrinn við alvöru Keflavíkurgöngur.
Slíkt er móðgun við minninguna um auma fætur eftir alvöru Keflavíkurgöngur.
sunnudagur, nóvember 08, 2009
8. nóvember 2009 – Illa gengur hjá Halifaxhrepp
Ég var að skoða nýjustu stöðuna í enska boltanum og líst illa á blikuna. Halifaxhreppur er kominn niður fimmta sæti eftir að hafa tapað fyrsta leik haustsins í dag gegn köplunum í Prescott. Það var kannski ekki við miklu að búast eftir að hafa ekki spilað leik í nærri mánuð og á liðið nú fimm leiki til góða á toppliðin svo ekki er öll von úti enn.
Við skulum vona að Halifaxhreppur nái að taka sig saman í andlitinu fyrir næsta leik á þriðjudaginn svo við aðdáendur liðsins getum aftur tekið gleði okkar, enda lítið spennandi að vera alltaf á botninum í langlanglangneðstu deild.
laugardagur, nóvember 07, 2009
7. nóvember 2009 – „Er karlinn alveg að missa sig“...
.... hugsaði ég er ég sá Fréttablaðið í dag og á forsíðu blaðsins var stór mynd af forseta Íslands og eiginkonu hans þar sem þau voru að sýna sig í Smáralind, en undir myndinni var feitletruð fyrirsögn:
„Ljósritar viðkvæm málsgögn úti í bæ“
Sem betur fer sá ég að um misskilning var að ræða því fréttin átti alls ekki við myndina af forsetanum, heldur um hið blanka embætti ríkissaksóknara sem hefur ekki efni á ljósritunarvél öfugt við forsetann og biskupsembættið þar sem ávallt er til nóg af peningum.
þriðjudagur, nóvember 03, 2009
3. nóvember 2009 - Konur á rauðum sokkum
Var að horfa á kvikmyndina Konur á rauðum sokkum í sjónvarpinu. Mér þótti myndin mjög athyglisverð og skemmtileg á köflum, ekki síst fyrir þá sök að svo stutt er síðan rauðsokkurnar voru upp á sitt besta og um leið stutt síðan raunveruleg stéttabarátta kvenna á Íslandi hófst fyrir alvöru.
Ég viðurkenni alveg að ég hefði viljað sjá meira af samtímamyndbrotum frá þessum tíma og þá helst kvennafrídeginum 1975. Hann var mér minnisstæður enda fór ég með tveggja og hálfs mánaðar gamla dóttur mína með mér í skólann um morguninn. Í löngu frímínútunum um morguninn var haldinn kynningarfundur rauðsokkahrefingarinnar í hátíðarsalnum. Ég þurfti að byrja á að skipta á stelpunni áður en ég fór inn í hátíðarsal með hana í barnavagninum sem hafði verið keyptur notaður og í fremur bágbornu ástandi. Þegar ég keyrði barnavagninn inn í hátíðarsalinn byrjaði að ískra í einu hjólinu, allur salurinn heyrði og starði á mig með barnavagninn og það varð þessi generalhlátur í salnum.
Konan sem var í púltinu að tala misskyldi hláturinn og tók honum sem háði í minn garð og hóf að skamma salinn fyrir fordóma gegn einasta nemandanum sem tæki foreldrahlutverkinu alvarlega. Eftir fundinn var gefið frí í skólanum það sem eftir var dagsins enda erfitt að halda uppi aga þegar fjöldi nemenda voru með börn sín með sér og mikið um að vera í bænum.
Að sjálfsögðu fórum ég og dóttir mín niður í bæ á útifundinn eftir hádegið og trúlega hefur hún verið með yngstu þátttakendunum á útifundinum 24. október 1975, aðeins tveggja og hálfs mánaðar gömul.
mánudagur, nóvember 02, 2009
2. nóvember 2009 - Köttur með valkvíða
Eins og það fólk sem þekkir mig veit, þá er of hátt af svölunum hjá mér og niður á jörðina og því komast kisurnar mínar ekki út af sjálfsdáðum, heldur verða að fá fylgd niður stigana þar sem opna verður fyrir þeim útidyrnar.
Í morgun átt Hrafnhildur ofurkisa þá helstu þrá að komast út í náttúruna og mér fannst sjálfssagt að verða við bón hennar, fylgdi henni niður stigann og opnaði út í garð. Hún hljóp út og komst að því að það var rigning úti, sneri við og kom inn aftur. Það hlyti að vera miklu betra veður götumegin og hún hljóp að dyrunum að aðalinngangnum. Ég opnaði fyrir henni og hún hljóp út, fann að það var líka rigning þeim megin og flýtti sér inn aftur. Önnur tilraun garðmegin og aftur götumegin. Loks ákvað hún að hrista af sér óttann við regndropana og fór út í garðinn og enn einhversstaðar þarna úti. Ég er hinsvegar búin að fá hreyfingu dagsins í tilraunum mínum við að þjóna kettinum.
Mikið skelfing er stundum erfitt að eiga við kött sem þjáist af valkvíða
2. nóvember 2009 - Hér blaktir aldrei hár á höfði!
Fyrir nokkru áttum ég og vinnufélagi minn hjá OR erindi upp á Akranes í þeim tilgangi að kynna okkur verklega starfsemi fyrirtækisins þar og þær framkvæmdir sem við erum smám saman að bæta inn á eftirlitskerfi okkar í vinnunni. Við fengum prýðilega góða leiðsögn hjá svæðisstjóranum um hina ýmsu þætti starfseminnar, hitaveitu, vatnsveitu og fráveitu.
Þar sem við vorum úti á berangri að skoða ofan í nýjan fráveitubrunn, varð mér á orði að spyrja svæðisstjórann að því hvort ekki væri næðingssamt hérna? Ekki stóð á svarinu:
„Ég get svarið það sannleikanum samkvæmt, að hér blaktir aldrei hár á höfði“ svaraði hann um leið og hann strauk sér um sköllótt höfuðið!
sunnudagur, nóvember 01, 2009
1. nóvember 2009 - Hvernig geturðu gert okkur þetta?
Ég var að horfa á viðtal Evu Maríu við ÁrnaTryggvason leikara og þar kom í viðtalinu er hann lýsti því hvernig hann skrifaði sig frá þunglyndinu með hjálp Ingólfs Margeirssonar árið 1991. Í viðtalinu nefnir Árni viðbrögð sumra sem lýstu vonbrigðum sínum með frásögnina af veikindunum með orðunum:
„Hvernig geturðu gert okkur þetta?“
Ég hefi lent í nákvæmlega sömu lífsreynslunni þótt ekki sé um þunglyndi að ræða.
Ég hafði verið í tilfinningalegum feluleik gagnvart umhverfi mínu allt mitt líf þegar varnirnar brustu og ég þurfti að leita leiða til að fá bót meina minna, gekk á milli sérfræðinga hér heima og erlendis og óskaði aðstoðar. Það var erfitt, ekki síst vegna þess að tilfinningar mínar voru ekki viðurkenndar á Íslandi á þeim tíma og viðbrögðin mörkuðust nokkuð af kunnáttuleysinu.
Er ég tjáði fólki ætlun mína, að ég ætlaði til Svíþjóðar að freista þess að fá aðstoð voru algeng viðbrögð þau að ég mætti alls ekki segja frá þegar heim væri komið að nýju, ég yrði að loka fortíðina niðri í rykföllnum geymslum minninganna. Eins og sumum ætti að vera kunnugt, gekk það fremur illa.
Við sem vorum að ganga í gegnum aðgerðarferlið í Svíþjóð á árunum 1992-1995 urðum illilega fyrir barðinu á fordómum þegar falskar grunsemdir vöknuðu um morðingja í okkar hópi. Öfugt við það sem ætlast var til, var forystufólk litla félagsins okkar fyrst af öllum til að hlaupa í felur og enginn var eftir úti að halda uppi vörnum fyrir málstað okkar.
Eftir að hafa tekið þátt í að gagnrýna gömlu stjórnina fyrir aðgerðarleysið árið 1994 þurfti ég sjálf að taka að mér formennskuna í félaginu og þegar enn ein fordómaárásin kom á okkur í blöðum skömmu eftir að ég tók við stjórnarformennskunni, komst ég ekki lengur hjá að verja málstað okkar í blöðum og sjónvarpi í Svíþjóð. Eftir það var sakleysi tilfinningalega feluleiksins fyrir bí.
Eftir að heim var komið árið 1996 var ég orðin nokkuð þekkt af endemum og þá fékk ég oft að heyra þessi sömu orð frá vinum og ættingjum:
„Hvernig gastu gert okkur þetta?“
Hjartahlý ráð þurfa ekkert að vera góð þótt sögð séu af hjartans meiningu með velferð þess sem talað er við í huga.
föstudagur, október 30, 2009
30. október 2009 - Enn af rjúpnaveiðum
Það var runninn upp sá frægi dagur 15. október 1975. Um nóttina hafði fiskveiðilögsagan verið færð út í 200 sjómílur um leið og rjúpnaveiðitímabilið hófst. Einn bekkjarfélaginn sem átti heima fyrir austan fjall kom við á Hellisheiðinni á leið í skólann um morguninn og náði að veiða eina rjúpu og kom með hana sigrihrósandi í skólann.
Okkur fannst ómögulegt annað en að nota tækifærið og gera smásprell, ekki síst vegna andstöðu dansks efnafræðikennara okkar við útfærsluna í 200 mílur, en karlinn var (og er) hinn mesti mannvinur og dýravinur af trúarsannfæringu, en hann var virkur í trúarsamfélagi Votta Jehóva og ritstjóri Varðturnsins ef mig misminnir ekki, þoldi ekki blóð og hugsanlega grænmetisæta.
Til að hrella karlinn aðeins vegna andstöðu hans, límdi ég miða framan á hræið hvar á stóð, ÉG VAR Á MÓTI 200 MÍLUNUM, svo settum við snöru um hálsinn og hengdum hræið síðan upp í dyrnar á kennslustofunni og lokuðum. Þegar kennarinn kom í tíma, opnaði hann dyrnar og við honum blasti hræið. Hann smeygði sér framhjá hræinu og gaf okkur ágæta lexíu um dýravernd en lét síðan sem ekkert væri það sem eftir var tímans.
Vesalings rjúpan fékk að hanga í dyrunum til hádegis, en í matartímanum hvarf hún skyndilega og enginn vissi hvað af henni hafði orðið, ekki fyrr en daginn eftir að lítil frétt birtist á blaðsíðu 3 í dagblaðinu Vísi um stuðning Vélskólanema við útfærsluna í 200 mílur með mynd af Hallgrími Guðfinnssyni (sem eitt sinn gekk undir viðurnefninu Strandagraður) með rjúpuna hangandi í snörunni. Við gengum á Hallgrím og kröfðumst skýringa á hvarfi rjúpunnar og í einlægni sinni svaraði hann:
„Ég var bara svangur og sá þennan dýrindis mat sem beið eftir mér í dyrunum. Þegar ég sótti matinn, kom ljósmyndarinn og smellti mynd af mér með rjúpuna og ekki gat ég farið að segja nei við einni myndatöku. En rjúpan, jú hún smakkaðist ágætlega.“
P.s. Til að skoða myndina hér að neðan betur er best að klikka á hana.
30. október 2009 - Rjúpnaveiðitímabilið
Í tilefni af því að nú fer rjúpnaveiðitímabilið af stað, rjúpum og okkur aðdáendum þeirra til sárrar armæðu, rifjaði ég upp gamalt atvik frá skólaárunum.
Endur fyrir löngu voru algengir þýskir eðalvagnar á götunum frá þýsku Ford verksmiðjunum sem báru nafnið Taunus (framborið Tánus) og höfðu þeir tegundarnúmer í samræmi við vélarstærð, Tánus 12M, Tánus 15M og Tánus 20M.
Einn skólafélaginn fór ásamt fleirum til fjalla með alvæpni í hönd. Þeir gengu lengi um Hellisheiðina en urðu ekki varir. Eftir að hafa gengið daglangt án neins árangurs annars en góðrar líkamshreyfingar, sneru þeir til baka að bílnum. Þar sem félagi minn steig inn í bílinn hljóp skot úr haglabyssunni og af fór önnur stóratáin. Eftir þetta var vinurinn aldrei kallaður annað en Tánus 9M meðal bekkjarfélaganna.
Svo eru menn að tala um einelti í dag.
fimmtudagur, október 29, 2009
29. október 2009 - Flensugræðgi!
Flestir vinnufélagar mínir eru að einu leyti verri en aðrir starfsmenn í fyrirtækinu. Við vinnum á bakvið lokaðar dyr eða ein á ferð og því fátt um smitleiðir að okkur. Þetta hefur m.a. komið fram í því að færri veikindadagar eru að meðaltali á hvern starfsmann en gengur og gerist, hvort heldur miðað er við aðra starfsmenn eða þjóðfélagið allt að sjómönnum undanskildum, en eins og íslenskum almenningi ætti að vera kunnugt, eru íslenskir sjómenn harðgerari, heilsubetri og jákvæðari en aðrir Íslendingar. Það er eðlilegt því lítið þýðir að kveinka sér yfir kvefi eða flensu þegar trollið er fullt af fiski.
Öll hlutum við eldskírn okkar í vinnu á sjó og skítugum smiðjum. Því bítur fátt á okkur og ef einhver á það til að fá hjartaáfall, nýrnakast eða ótímabært andlát, er ávallt einhver aukavinnuhungraður vinnufélaginn tilbúinn að hlaupa í skarðið uns sá látni mætir aftur til vinnu hress og endurnærður eftir alltof stutt veikindafrí. Ekki bætir úr að engum dettur til hugar að víkja af vaktinni eða ljúga til um veikindi nema bráður bani sé yfirvofandi.
Þegar fregnir bárust af yfirvofandi svínapest horfðu menn bjartsýnir fram á veginn og mættu á vaktina með dollaraglampa í augunum og sáu í hillingum aukavaktirnar klingja í kassanum á meðan vinnufélagarnir lágu á gjörgæslu með dælutruflanir og vandræði í skolloftsgöngunum, en enn hefur ekkert skeð ef frá eru taldar martraðir á frívaktinni um stórubólu og svartadauða. Því er fólkið farið að örvænta um skjótfenginn flensugróða til nota í jólainnkaupin.
Ætli flensugræðgin sé hluti af græðgisvæðingunni?
miðvikudagur, október 28, 2009
28. október 2009 - Oasis of the Seas
Ég þori varla að skrifa mikið um hið nýja og glæsilega skemmtiferðaskip „Oasis of the Seas“, ekki í ljósi þess að einn af þessum sjö sem lesa reglulega bloggið starfar hjá útgerð skipsins og annar flúinn sæluna og farinn að stunda Norðursjóinn af miklum móð.
Samt get ég ekki hætt að dást að flottheitunum um borð. Frekar en að segja mikið, ætlaði ég að bjóða Þórði stórkaptein í kaffi og pumpa hann um herlegheitin áður en hann fer um borð í sitt skip sem er næstum því eins glæsilegt, (hverjum þykir sinn fugl fagur o.s.frv) en því miður var ég of sein því hann er á leiðinni um borð á fimmtudag og kemur ekki aftur í land fyrr en á næsta ári. Einhver fugl hvíslaði þó að mér að verð skipsins hafi verið 1,3 milljarðar dala, (um 162 milljarðar ísl kr), en það er óstaðfest.
Ég læt því gamlar tölvumyndir fylgja sem ég hef átt í tölvunni minni frá því fyrst fréttist af smíði skipsins ásamt einni nýrri frá reynslusiglingunni á dögunum.
P.s. Þessu stal ég frá Þórði : http://www.oasisoftheseas.com/
þriðjudagur, október 27, 2009
27. október 2009 - Einelti!
Kæra lesönd. Ég ætla ekki að halda langan fyrirlestur yfir þér um einelti. Nóg er komið af slíkum fyrirlestrum í dag samt.
Umræðan um einelti er þekkt vandamál í íslenskri umræðu um hin ýmsu dægurmál. Í allan dag hafa útvarps og sjónvarpsstöðvar verið undirlagðar í umræðuna um einelti. Á morgun verður umræðan gleymd. Sama má segja um baráttuna gegn umferðarslysum, baráttuna gegn krabbameini og geðsjúkdómum, einn dag á ári eru allar ljósvakastöðvar sem og dagblöð undirlögð í málefnið og svo ekki söguna meir fyrr en eftir heilt ár ef umræðan verður þá vakin upp, gjarnan í tengslum við einhverja söfnun eða upphaf áróðursherferðar. Áður en dagurinn er allur verða allir búnir að fá nóg af umræðunni og hættir að taka við meiru.
Ég er ekkert á móti umræðunni um einelti. Ég hefi sjálf orðið fyrir slíku. Umræðan er mjög þörf og þarf að heyrast mun oftar og víðar í samfélaginu, en með því að allir fjölmiðlarnir hafa fjallað um málið í dag eru þeir búnir að gera skyldu sína og ekkert heyrist meira fyrr en eftir ár í fyrsta lagi.
Mátti ekki hafa aðeins minna í dag, en eitthvað á morgun og alla hina dagana, kannski ekkert endilega um einelti, heldur um svo mörg mikilvæg málefni sem nauðsynlegt er að hafa ávallt í umræðunni svo að við verðum ávallt þess meðvituð að ýmislegt er að í samfélaginu?
27. október 2009 - Um varnarmálastofnun
Þegar blaðað er í nýjasta fjárlagafrumvarpinu kemur í ljós að 962 milljónir króna eru ætlaðar til Varnarmálastofnunar, þrátt fyrir þá stefnu stjórnvalda að leggja þennan óþarfa niður. Er ég gerði fyrirspurn um þennan lið til alþingismanna fyrir nokkru, fékk ég þau svör að hér væri sennilega um að ræða gamlan kostnað vegna radarstöðvanna sem enn er verið að greiða
Nú hefur komið í ljós að þótt þessi spillingarstofnun sé komin að fótum fram þrátt fyrir að vera tiltölulega nýleg, þá er allt vaðandi í spillingu þar og því enn frekari ástæða til að leggja hana niður hið bráðasta og gefa starfsfólkinu tækifæri á endurmenntun á öðrum og skynsamlegri sviðum mannlífsins. Það má til dæmis byrja með því að strika út þessar 962 milljónir og nota þær í brýn verkefni á sviði mannúðarmála.
http://www.dv.is/frettir/2009/10/27/fraendi-forstjora-varnamalastofnunar-i-leynithjonustuna/
mánudagur, október 26, 2009
26. október 2009 - Sparnaður?
Það var eitthvað rólegt hjá mér á vaktinni og ég greip rúmlega mánaðargamalt DV, enda er ég farin að spara mér áskrift á glænýjum Morgunblöðum, hóf að lesa mér til dægrastyttingar og bar þá niður í grein um sparnað og hvernig ég gæti sparað rúmlega hálfa milljón á ári. Ég varð margs vísari við lestur greinarinnar og brátt vissi ég allt um það hvernig ég gæti sparað nærri fimmtíu þúsund krónur í hverjum mánuði
Til þess að geta sparað þessar fimmtíu þúsund krónur verða meðal annars eftirfarandi forsendur að vera fyrir hendi: Ég sé með dýrustu nettengingu sem völ er á. Borða flatböku í hverri viku og ávalt þá dýrustu sem völ er á. Þamba gos í öll mál. Flýg norður til Akureyrar annan hvern mánuð. Drekk dýrasta öl sem völ er á í Ríkinu og reyki dýrustu sígaretturnar. Að sjálfsögðu fer ég í bíó í hverri viku, stunda myndbandsleigurnar af miklum móð, keyri í vinnuna og sendi SMS eins og fingrafimasti unglingur.
Nú er bara að byrja á að reykja, drekka dýrt öl og gos af miklum móð, éta dýrar flatbökur í hverri viku, skreppa norður á Akureyri í bíó og leigja mér myndir, margfalda niðurhalið í nettengingunni og æfa fingrasetninguna á gemsann. Að sjálfsögðu hætti ég að ganga í vinnuna og kaupi mér heimabíókerfi af dýrustu og bestu sort.
Þegar ég hefi náð þessum markmiðum öllum, get ég farið að spara hálfa milljón á ári. Þá verður gaman að lifa, eða hvað?
sunnudagur, október 25, 2009
26. október 2009 - Hnípin þjóð í vanda!
Mikael Torfason hélt ágæta ádrepu yfir íslensku þjóðinni í þættinum hjá Sirrý á sunnudagsmorguninn. Þótt ég sé enn dálítið ósátt við Mikael síðan á síðustu dögum hans í ritstjórnarstól DV (mér er ekkert illa ritstjóra almennt þótt halda mætti annað) þá verð ég að viðurkenna að hann komst býsna vel að orði um íslenska þjóð.
Ekki get ég endurtekið orð hans orðrétt, en meiningin er samt eftirfarandi: Þegar Íslendingum gengur vel eru þeir stærstir og bestir, þegar þeim gengur illa eru þeir minnstir og vesælastir.
Í mínu ungdæmi var þjóðremba notuð um slíkt fyrirbæri sem álit íslensku þjóðarinnar er á sjálfri sér. Í nokkur ár hegðuðu íslenskir útrásarvíkingar og ræningjar sér eins og forfeður þeirra til forna, herjuðu á lönd Evrópu með matadorpeninga að vopni, töluðu niður til annarra þjóða og sýndu þeim fyrirlitningu. Íslenska þjóðin bætti um betur og tók undir með ræningjunum. Þegar efnahagskerfið hrundi vegna fáránlegrar hegðunar ræningjanna sem höfðu lagt íslensku þjóðina að veði fyrir skuldum sínum með samþykki stjórnenda þjóðarinnar, stóð þjóðin skyndilega uppi nánast vinalaus. Hún hafði sjálf rúið sig trausti og skildi nú ekkert í því að enginn skyldi vilja draga hana upp úr því forarsvaði sem hún hafði sjálf komið sér í. Hún hafði ekki einungis drullað upp á bak heldur yfir höfuð. Síðan hoppaði hún hæð sína í loft upp þegar gamlar vinaþjóðir kröfðust þess að hún stæði við skuldbindingar sínar áður en þeir hjálpuðu henni upp úr drullusvaðinu.
Nú er íslenska þjóðin aumust allra þjóða, minnst og fátækust. Henni er vorkunn enda er hún búin að mála sig út í horn í samfélagi þjóðanna þótt einhver ljósglæta virðist vera í myrkrinu eftir að samkomulag tókst með Englendingum og Hollendingum. Er nú óskandi að Alþingi samþykki það sem fyrst svo ekki komi til endalegs hruns Íslands sem þjóðar.
Þrátt fyrir allt er þjóðin í betri málum en margar aðrar þjóðir. Hér eru miklir möguleikar á útflutningi á sjávarafurðum og álframleiðslan er á fullu og það eru miklir möguleikir á auknum útflutningi til framtíðar. Atvinnustig er hátt, miklu hærra en í mörgum löndum, jafnvel hærra en hið æskilega atvinnustig nýfrjálshyggjupostulans sáluga Miltons Friedmans. Við búum í hlýjum og björtum húsum með öllum þægindum og skatturinn er lægri en það sem er eðlilegt í mörgum löndum sem við viljum miða okkur við.
Ég held að íslensk þjóð sé að setja heimsmet í sjálfsvorkunn.
föstudagur, október 23, 2009
23. október 2009 - Glápsýning í Smáralind
Seint um haustið 1966 var ég á ferð í strætisvagni fullum af fólki þegar einhver kallaði upp fyrir sig: Sjáið, þarna er Sigríður Ragna! Allt fólkið í vagninum sneri sér við og glápti á stúlkuna sem hafði verið ráðin sem þula hjá hinni nýju stofnun sjónvarpinu. Ekki veit ég hvort Sigríður varð þessa vör að heill strætisvagn með innihaldi glápti á hana, en einhvernveginn þótti mér þessi uppákoma niðurlægjandi fyrir fólkið í vagninum.
Þegar ég kom til Íslands sumarið 1996 var stara eitthvað farin að minnka hjá Íslendingum, en samt þótti mér það virkilega óþægilegt þegar fólk fékk störu og glápti á mig eins og naut á nývirki. Sem betur fer kunnu flestir sig alveg, en ein og ein manneskja missti sig gjörsamlega í glápinu, í einhverjum tilfellum svo illa að ég sá ástæðu til að gera arthugasemd við glápið. Smám saman vandist þetta og eftir einhver ár áttaði fólk sig á því að ég var og er bara venjuleg manneskja.
Glápið fékk á sig nýja mynd á dögunum þegar útgefendur heimsmetabókar Guinnes fengu hávaxnasta mann í heimi til að koma til landsins og vera mörlandanum til sýnis í einn dag eða tvo. Í þetta sinn gerði Rannveig Traustadóttir alvarlegar athugasemdir við þessa sýningu og er það vel. Að minnsta kosti sé ég enga ástæðu til að fara í Smáralindina til að skoða manninn.
Á tuttugustu og fyrstu öldinni eiga sirkussýningar af þessu tagi að vera aflagðar.
fimmtudagur, október 22, 2009
22. október 2009 - Hárrétt hjá strætisvagnastjórum
Framkvæmdastjóri Strætó var beðinn um að biðja afsökunar á framferði strætisvagnastjóra í gær er þeir hinir sömu reyndu að halda áætlun. Þvílík della. Þeir gerðu það sem var hárrétt í þessu tilfelli, fundu sér og vagninum leið til að komast framhjá fólkinu sem reyndi að stöðva umferðina, Strætó bs og farþegunum til léttis.
Að stöðva umferðina á þann hátt sem gert var í gær var ekki rétta leiðin til að mótmæla mikilli umferð. Fólk getur byrjað á sjálfu sér og byrjað á að leita sér að húsnæði nær vinnunni sinni en það gerir í dag. Það er einu sinni svo að íbúar Hlíðahverfis og Norðurmýrar er ekkert öðruvísi en annað fólk, fer ekki spönn frá rassi öðruvísi en á bílnum og með því að selja bílinn sinn og taka strætó er vafalaust hið besta mál fyrir þetta fólk og minnkar vafalaust umferðina í Reykjavík og sparnað hjá viðkomandi íbúum Reykjavíkum.
Sjálf sé ég enda ástæðu til að losa mig við minn bíl því ég ek miklu minna en flestir íbúar Hlíða og Norðurmýrar þótt ég búi í úthverfi, en sjálf geng ég oftast í vinnuna, enda stutt að fara.
miðvikudagur, október 21, 2009
21. október 2009 – Tilraun til að fækka lögregluþjónum?
Ég var á ferð austur eftir Miklubraut um klukkan 22.30 á miðvikudagskvöldið þegar ég veitti athygli torkennilegri þúst á milli akbrautanna inn við Elliðaár. Fyrst sá ég ekki hvað þetta var í myrkrinu og ekki var lýsingin neitt sérlega góð á þessum stað. Þegar ég kom að staðnum þar sem þústin var, sá ég að þetta var ekkert hættulegt, bara tveir leðurklæddir lögregluþjónar að spjalla saman hjá hjólunum sínum, ljóslausir og án þess að nein endurskin sæust á þeim.
Ég hefi séð bíl bila fyrir framan mig og kastast inn að miðju í þessum sama stað á Miklubrautinni. Þar sem ég var að koma af fundi þar sem fjallað var um hið hræðilega efnahagsástand þjóðarinnar og brýna þörf á að skera niður allt sem hægt er að skera niður í ríkisútgjöldunum, velti ég því fyrir mér hvort þessi staðsetning lögregluþjónanna sé í þeim tilgangi að skera niður í rekstrarkostnaði við lögregluna í Reykjavík?
þriðjudagur, október 20, 2009
20. október 2009 - Um Icesave
Fyrir löngu síðan ákvað ég að skrifa ekki eitt einasta orð framar um Icesave og hefi staðið við það þar til nú. Þótt ég sé enn ákveðin í að láta það eiga sig, get ég ekki þagað í ljósi þess að fleiri manns eru nú að reyna að kenna Samfylkingunni um Icesave eins og að ekkert sé sjálfsagðara.
Sjálfstæðismenn eru þessa dagana að reyna að kenna Samfylkingunni um Icesave eins og þessi viðbjóður hafi orðið til á Hallveigarstígnum árið 2009. Það er auðvitað rangt. Það varð nefnilega til í aðalstöðvum Sjálfstæðisflokksins árið 2003 (frekar en 2002). Þegar ónefndir aðilar í flokknum ákváðu upp á sitt einsdæmi að færa flokksfélögum sínum og vildarvinum Landsbankann að gjöf í stað þess að setja um hann reglur um almenningshlutafélög hófst spillingin sem var undanfari Icesave. Einnig hjálpuðu þessir sömu aðilar vinum sínum með því að afnema bindisskyldu bankanna gagnvart Seðlabankanum og léttu verulega á eftirlitsskyldu stjórnvalda gagnvart bönkunum. Í Fjármálaeftirlitið var settur ungur Sjálfstæðismaður sem virtist líta á það sem skyldu sína að gera sem minnst.
Icesave var stofnað haustið 2006 þótt það hafi ekki slegið almennilega í gegn fyrr en líða tók að vori 2007. Á þessum tíma sátu Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur í ríkisstjórn. Forystumenn þessara flokka hljóta því að hafa kynnst Icesave frá upphafi og ótrúlegt ef þeir hafa ekki vitað um þessa reikninga frá fyrsta degi. Þegar Samfylkingin tók við hækjunni af Framsóknarflokknum var flest annað í umræðunni en Icesave og því eðlilegt að flestir ráðherrar og þingmenn Samfylkingarinnar hafi ekki kynnt sér þessa baneitruðu bankareikninga. Það verður samt að teljast áfellisdómur yfir Samfylkingunni að hafa ekki varað við þessum reikningum svo fljótt sem mögulegt var eftir að hún komst til þátttöku í ríkisstjórn vorið 2007. Það er jafnframt helsta sök Samfylkingar í þessu máli, eitthvað annað en Framsóknarflokksins sem var virkur í spillingunni allt einkavinavæðingartímabilið.
Eftir hrunið reyndu Sjálfstæðisflokkur og Samfylking að bjarga því sem bjargað varð. Þessir flokkar vissu það sem var, að ekki yrði hjá samningum komist ef Ísland vildi vera áfram í samfélagi þjóðanna. Framsóknarflokkurinn hljópst á brott eins og sprúttsali sem neitar sök þótt staðinn sé að verki. Með búsáhaldabyltingunni tóku nýir aðilar við stjórnartaumunum, fólk sem harðast hafði gagnrýnt fyrra samkomulag tók við ábyrgðarfullum og óvinsælum embættum og luku verkinu.
Ég fullyrði hér og nú að enginn stjórnmálaflokkur á Íslandi myndi þora að hafna þessu samkomulagi um Icesave ef hann væri í stjórn. Ekki einu sinni Framsóknarflokkurinn myndi þora slíku, þ.e. með því skilyrði að hin nýja forysta sé með fullu viti. Það er einfaldlega alltof mikið í húfi. Hver vill bera ábyrgð á þjóðargjaldþroti og alþjóðlegri einangrun á þessum síðustu og verstu tímum? Enginn sem ber hag þjóðarinnar sér fyrir brjósti! Allt tal stjórnarandstöðunnar um niðurlægingu er því hjóm eitt.
Samningarnir um Icesave eru nauðasamningar og það verður bara að sætta sig við það. Að tala um niðurlægingu eins og forystumenn Sjálfstæðismenn gera þessa dagana er bull. Þjóð sem lætur taka sig í þurrt rassgatið eins og Sjálfstæðismenn gerðu henni 2002-2008 er þegar svo rækilega niðurlægð, að tæplega er hægt að ganga lengra gagnvart henni, þótt gerðir séu nauðasamningar um Icesave.
sunnudagur, október 18, 2009
18. október 2009 - Eitt örlítið ættfræðibrot
Uppi á vegg í stofunni heima hjá mér eru myndir af foreldrum föður míns þeim Jóni Hildiberg Sigurðssyni og Sesselju Þorgrímsdóttur, hjóna sem dóu bæði ung, hann árið 1916, hún árið 1922. Á sínum tíma eyddi ég geysimiklum tíma í að rekja ættir hennar, foreldra hennar og þá sérstaklega ættir móðurafa hennar Jóns Jónssonar frá Skipalóni í Eyjafirði, en hann átti 22 börn með þremur konum.
Af einhverjum ástæðum gleymdist einn leggur sem er mér nær, þ.e. hálfsystkini ömmu minnar, en faðir hennar var ekkill og margra barna faðir er hann hóf sambúð með langömmu minni með ömmu mína sem ávöxt.
Þar sem ég var að grúska í því mikla riti Minningarriti íslenskra hermanna á laugardagskvöldið rakst ég á Pál nokkurn Þorgrímsson sem hafði flust til Vesturheims árið 1900 frá Snæfellsnesi og verið skráður í kanadíska herinn í janúar 1916, tók þátt í flestum eða öllum orustum deildar sinnar í Frakklandi það sem eftir var stríðsins og snéri aftur heim til Kanada árið 1919. Auðvitað reyndist hann hafa verið bróðir ömmu minnar þótt hann sé sagður þremur árum yngri í bókinni en sagt er í prestþjónustubókum
Það er kannski fullmikið fyrir friðarsinna sem mig að monta sig af einhverjum karli sem tók þátt í stríði þar sem mottóið var að drepa eða verða drepinn, en samt finn ég fyrir stolti yfir manni sem lagði sitt af mörkum til að koma á friði sem átti að útrýma öllum styrjöldum.
Það er verk að vinna að finna fleiri ættingja í Kanada en ég vissi um áður.
laugardagur, október 17, 2009
17. október 2009 – Um prest sem situr í óþökk sóknarbarna
Ég vil taka fram að ég ber engan kala til séra Gunnars Björnssonar. Hann er vafalaust hinn ágætasti maður en um leið get ég ekki skilið þvermóðsku hans þegar sóknarbörnin eru búin að lýsa frati á störf hans.
Ásökun um kynferðislega áreitni gagnvart ungum stúlkum er mjög alvarleg. Það er alveg ljóst að þegar prestur er borinn slíkum sökum af hálfu sóknarbarna sinna, er ekki hægt að ná fram sáttum með dómi. Sættirnar geta því aðeins náðst fram að samkomulag sé um slíkt á milli prestsins og sóknarbarnanna. Það var ekki í tilfelli séra Gunnars. Þar er enn ískalt andrúmsloft á milli hans og sóknarbarnanna eftir sýknudóm Hæstaréttar. Því varð hann að víkja til að ekki yrði klofningur í söfnuðinum á milli stuðningsmanna og andstæðinga prests.
Ég velti fyrir mér hvernig tekið yrði á málinu í því tilfelli sem aðskilnaður ríkir á milli ríkis og kirkju og þar sem söfnuðirnir ráða alfarið hver situr í embætti prestsins. Slíkt hlýtur að leiða af sér klofning ef prestur fær að sitja áfram eftir dómsorð sem því sem lýst er að ofan. Á sama hátt held ég að kirkjuyfirvöld hafi ekki átt annan kost en þann sem þau framkvæmdu, að færa hann til í starfi á fullum launum.
Það grátlegasta er samt það að einustu sigurvegarar í slíkri rimmu sem hér um ræðir eru andstæðingar þjóðkirkjunnar og trúleysingjar.
fimmtudagur, október 15, 2009
15. október 2009 - Um skipulag nýrra bygginga
Fyrir tæpu ári var tekin í notkun ný heilsugæslustöð hér í hverfinu, reyndar svo nærri heimili mínu að ég er einungis tvær mínútur að rölta í apótekið sem er í sama húsi. Þetta er auðvitað allt gott og blessað og ekki er amalegt að geta lagt bínum sínum við innganginn, svo nærri að hægt er að komast inn í húsið úr bílnum án þess að blotna þótt hellirigning sé. Ekki er það til að gera málin verri að göngutíminn minn í vinnuna styttist um hálfa mínútu með tilkomu nýju heilsugæslustöðvarinnar, en þá verð ég líka að ganga á grasinu.
Af einhverjum ástæðum virðast allar aðkomuleiðir við opinberar byggingar miðast við aðkomu á bíl eða úr lofti. Allt er þetta æðislega flott á loftmyndum hvort heldur er átt við heilsugæslustöðina eða opinbera fyrirtækið hinum megin við götuna, Orkuveituna. Allir gangstígar eru þráðbeinir og hægt að gera reglustiku eftir þeim, en þegar gengið er að staðnum blasir önnur mynd við Við heilsugæslustöðina liggja allir göngustígar út í umferðina á götunni, en hinum megin götunnar er venjulega gras því göngustígurinn hinum megin er venjulega allt annars staðar.
Ég hefi aldrei séð nokkra manneskju ganga eins og spýtukarl eftir hinum hönnuðu göngustígum við heilsugæslustöðina. Hinsvegar er grasið niðurtroðið þar sem fólkið styttir sér leið, t.d. ef farið er frá heilsugæslustöðinni að gangbrautinni við hringtorgið við hornið á heilsugæslustöðinni, en þar er engin hönnuð leið. Sama er að segja um opinbera fyrirtækið hinum megin við götuna þar sem gleymdist að gera ráð fyrir gangandi vegfarendum, enda sú bygging hönnuð með árið 2007 að leiðarljósi.
Hvernig væri að kenna þessum svokölluðu skipulagsfræðingum að hugsa í stað þess að láta þá vinna verkin sín með reglustriku eða gera þá að forystumönnum ónefndra grínstjórnmálaflokka?
mánudagur, október 12, 2009
12. október 2009 - Um þýddan sjónvarpsþátt
Seint á mánudagskvöldum er sýndur í Ríkissjónvarpinu þáttur sem hlotið hefur heitið Fé og freistingar. Þótt ég hefi ekki náð því að horfa á heilan þátt af þessum sjónvarpsmyndum, þá fær Ásta Kristín Hauksdóttir þýðandi þáttanna stóran mínus í kladdann fyrir að þekkja ekki muninn á transgender og kynvillingum, afsakið kynskiptingum.
12. október 2009 - Svínaflensan
Að undanförnu hafa dunið yfir landslýð fréttir frá landlæknisembættinu um svínaflensuna illræmdu. Ég get vel skilið að fólk hafi áhyggjur af flensunni vitandi að hún er ný og að mikill fjöldi getur smitast og lagst í rúmið, margfaldur sá fjöldi sem þegar hefur smitast ef þeir sem smitast hafa að undanförnu eru þá smitaðir af flensunni.
Í fréttum er jafnframt ítrekað að heilbrigðisstarfsfólk fái fyrst flensusprautuna, síðan það fólk sem er með undirliggjandi sjúkdóma, en er ekki ástæða til að kanna hvort ekki sé nauðsyn á að fleiri þurfi ekki að vera í forgangi en heilbigðisstarfsfólk og löggur? Það er staðreynd að án virkra veitustofnana og þá án rafmagns, vatns og hita eru heilbrigðisstofnanir gjörsamlega lamaðar og þessi hópur er ekkert rosalega stór, kannski innan við 200 manns hjá Orkuveitu Reykjavíkur og mun færri hjá öðrum orku- og veitufyrirtækjum, kannski samtals um þúsund manns, enda er Þá gengið út frá því að einungis sá hluti starfsfólksins sem starfar beint að framleiðslu og dreifingu á rafmagni, vatni og hita séu í forgangshópnum.
Það væri fróðlegt að vita hvort slíkur listi sé fyrir hendi í dag hjá landlæknisembættinu og orkuveitufyrirtækjunum og þá hverjir sé í forgangshópunum? Ekki veit ég.
12. október 2009 - Amerískt lagafrumvarp um réttindi samkynhneigðra
Hommar hafa aldrei verið verið vinsælir sem hermenn. Það er eðlilegt, því tilfinninganæmni þeirra er hindrun í vegi fyrir því að þeir geti orðið góðir morðingjar, þá sérstaklega ef þeir þurfa að berjast maður við mann eins og hefur átt sér stað í landhernaði. Í sjóhernaði er ekkert um að menn berist á banaspjótum með byssustingjum og handsprengjum og því þykja hommar miklu hæfari í sjóhernaði en í landhernaði þótt þeir hafi einnig verið bannfærðir í bandaríska sjóhernum því eitt skal yfir alla ganga.
Þrátt fyrir bannið, hefur bandaríski sjóherinn gert sér grein fyrir hæfileikum margra homma í sjóhernaði. Því fengu þeir hýra söngkvintettinn Village People til að syngja hvatningarsöng fyrir sjóherinn í framhaldi af laginu YMCA á áttunda áratugnum, þ.e. lagið „In the Navy“, enda töldust hommar öðrum betri viðureignar í löngum útiverum þar sem saman voru komnir hundruðir ungra karlmanna í einangrun í þröngum vistarverum.
Í fyrradag flutti Obama Bandaríkjaforseti ræðu á þingi bandarískra homma þar sem hann lýsti því yfir að hann ætlaði að leggja fram lagafrumvarp um bætt réttindi LGBT einstaklinga í hernum. (LGBT = Lesbian, Gay, Bisexual, Transgender).
Sjálf hefi ég aldrei getað skilið þetta bann, þó með tilliti til formálans. Ég vil ekkert láta drepa mig og því er mér slétt sama hvort hermaðurinn sem er ráðinn til verksins er hommi eður ei. Helst vil ég að hann finni sér aðra og heiðarlegri atvinnu en þá að drepa fólk eða verða drepinn. Því sé ég enga ástæðu til að fagna þessu frumkvæði Bandaríkjaforseta sem er í eðli sínu andstætt þeim verðlaunum sem honum hlotnaðist síðastliðinn föstudag þótt vissulega eigi hommar að hafa sama rétt og aðrir á öllum sviðum mannlífsins, þá einnig til vondra verka.
Svo mælist ég til að Ríkissjónvarpið á Íslandi taki ríkisstjórnina og Morgunblaðið sér til fyrirmyndar og hætti að kalla transgender einstaklinga fyrir kynvillinga eða kynskiptinga eins og þeir gerðu í fréttatímanum á sunnudagskvöldið.
laugardagur, október 10, 2009
10. október 2009 – Mér þykir ennþá vænt um Framsóknarmenn
Ég hefi kynnst allnokkrum góðum Framsóknarmönnum þótt ég hafi ekki átt samleið með þeim í pólitík. Má þar nefna Alfreð Þorsteinsson, Sigrúnu Magnúsdóttur og fleiri.
Nú er ég farin að hafa virkilegar áhyggjur af íslenskum Framsóknarmönnum. Þótt deila megi hvort þeir hafi löngum haft óeðlilegan aðgang að miklu fjármagni úr sjóðum landsmanna, virðast þeir nú farnir að krefjast þess að norskum Framsóknarmönnum að þeir fái óeðlilegan aðgang að fjármagni úr norskum sjóðum og veiti þá Íslenskum Framsóknarmönnum.
Hvernig dettur þeim annars í hug að þjóð sem hefur neitað Íslendingum um lán þar til búið er að gera upp Icesave reikningana, fari allt í einu að veita íslenskum Framsóknarmönnum margfalt hærra lán án ábyrgðar. Grátlegast er þó að sjá Framsóknarmennina tvo sitja á blaðamannafundi með tveimur útrásarvíkingum og gráta það að Jóhanna Sigurðardóttir skyldi hafa kannað hvað til er í orðum þeirra. Það má kannski búast við að þeir fari næst að leita til Rússana eins og Davíð forðum?
Mér þykir enn vænt um Framsóknarmenn en er ekki kominn tími til að finna þeim annan formann sem er með fæturna niðri á jörðinni?
föstudagur, október 09, 2009
9. október 2009 - Friðarljós í Viðey
Ég var úti að aka á miðvikudagskvöldið þegar farþegi sem sat í bílnum hjá mér benti mér á að búið væri að kveikja á friðarsúlunni í Viðey. Það getur ekki verið sagði ég, þetta ljós sem við sjáum hlýtur að vera eitthvað allt annað.
Í gærkvöldi var ég úti að ganga með fallegu fólki og enn sá einhver geisla frá ljósatyppinu og kom með sömu athugasemd og farþeginn hjá mér kvöldið áður. Nú heyri ég í fréttum Stöðvar 2 að búið sé að fresta því að tendra friðarljósið í Viðey til morguns vegna veðurs.
Úr því að ekki er búið að tendra ljósið velti ég því fyrir mér hvort Yoko Ono hafi verið leita að friðarljósinu sínu með ljóskastara síðustu kvöldin.
-----
P.s. kl. 20.15 Og ljósið skín sem aldrei fyrr.
9. október 2009 - Friðarverðlaun Nobels
Friðarverðlaun Nobels voru stofnuð í ákaflega göfugum tilgangi, til að stuðla að friði manna á meðal og veita þeim viðurkenningu sem skarað hafa framúr á því sviði. Allnokkrir friðarverðlaunahafa hafa fengið þessa viðurkenningu fyrir fórnfúst lífsstarf þar sem þeir fórnuðu öllu fyrir vopnlausa baráttu eða mannkærleika. Má þar nefna Albert Schweitzer, Martin Luther King, Dalai Lama, Móður Teresu, Desmond Tutu og Aung San Suu Kyi. Fleiri mætti efalaust nefna sem hafa unnið fyrir verðlaununum með lífsstarfi sínu sem eru minna þekktir í dag auk þess sem ýmis samtök sem stuðla að friði og bættu mannlífi í heiminum hafa fengið verðlaunin, sbr Amnesty International.
Þrátt fyrir þennan lista hefur hópur einvalda og stríðsherra fengið verðlaunin, menn sem tóku við verðlaununum eins og blóðugir upp að öxlum í sláturtíðinni, menn á borð við Menahem Begin, Anwar Sadat, Henry Kissinger, Yasser Arafat, Shimon Peres og Le Duc Tho, en sá síðastnefndi hafnaði þeim góðu heilli. Þessir menn hafa hver fyrir sig verið sem hneisa fyrir friðarverðlaun Nobels þótt vafalaust megi finna eitt og annað jákvætt í fari þeirra t.d. að þeir hafi verið góðir við aldraða móður sína og farið reglulega út að ganga með hundinn sinn.
Enn aðrir hafa fengið verðlaunin í framhaldi af tilviljanakenndri atburðarás, menn eins og Mikhail Gorbachev, Jimmy Carter og Al Gore, allt menn sem sneru við blaðinu á miðri vegfarð og hófu að stuðla að friði í stað styrjalda.
Nú hefur Barack Obama fengið friðarverðlaun Nobels. Ekki veit ég fyrir hvað. Hann er að vísu sem friðardúfa í samanburði við stríðsglæpamanninn forvera sinn í embætti sem mig minnir að hafa fengið fleiri tilnefningar til verðlaunanna án árangurs, en hann þykir samt álíka mikill friðarsinni og Björn Bjarnason svo nefnd séu dæmi héðan af Klakaskerinu. Nægir þar að nefna stríðin í Afganistan og Írak sem eru að vísu arfur eftir forverann illræmda, en sem Obama hefur viðhaldið á þeim fáu mánuðum síðan hann tók við embætti.
Með síðustu úthlutun Nobelsverðlauna held ég að óhætt sé að endurnýja norsku Nobelsakademíuna að öllu leyti, en til vara að leggja hana niður þar til friðarsinnar fást í akademíuna.
fimmtudagur, október 08, 2009
8. október 2009 - Ólöf mágkona
Á fimmtudag, var borin til grafar mágkona mín Ólöf Jónsdóttir. Ég er kannski ekki rétta manneskjan til að minnast hennar, enda engin sérstök vinátta á milli okkar auk þess sem ég hefi einungis hitt hana í örfá skipti á síðustu tveimur áratugum, en get samt ekki setið á mér að segja nokkur orð um hana.
Fljótlega eftir að Jón bróðir minn skildi við fyrri eiginkonuna og tók við Ólöfu í lok sjöunda áratugar síðustu aldar, byrjaði einhverskonar erfiðleikasamband milli fjölskyldu minnar og Ólafar, ekki beinlínis haturssamband, fremur samskipti sem einkenndust af blöndu af vorkunnsemi og fyrirlitningu því Ólöf var ekki eins og fólk er flest. Hún lifði töluvert í sínum eigin ímyndunar- og draumaheimi og öfugt við þann stuðning sem hún þurfti á að halda til að losna úr þessum draumaheimi, gerði fólk gys að henni á laun, draumum hennar og tilfinningum. Ég var ekki mikið öðruvísi en annað fólk, þar á meðal ættingjar mínir, tók þátt í hæðninni á laun og má skammast mín fyrir það í dag.
Ólöf hlýtur að hafa fundið inn á þessa hæðni því smám saman einangruðust Jón og Ólöf frá öðrum ættingjum. Þessi einangrun var gagnkvæm, við forðuðumst þau og þau forðuðust okkur. Það var þó engin ástæða til slíks og samband þeirra við okkur var þolanlegt á áttunda áratugnum og fram á hinn níunda áratugnum en fjaraði að nokkru út þegar nálgaðist aldamótin, þó með nokkrum undantekningum.
Sjálf var ég í Svíþjóð í nokkur ár og missti tengslin, en er ég kom heim aftur 1996 virtist systkinakærleikurinn milli mín og elsta bróður míns hafa fjarað út að mestu, ekki síst eftir að ég hafði farið þá vegferð sem honum og mörgum öðrum var á móti skapi og tilfinningum. Ég vissi ekkert um afstöðu Ólafar á þeim tíma, enda var sambandið ekkert á milli mín og þeirra næstu árin á eftir. Ég hitti þó Ólöfu eitt örlítið augnablik við jarðarför móður minnar árið 2003, en síðan ekki söguna meir fyrr en ég rakst á hana og dóttur þeirra hjóna í verslunarmiðstöð fyrir fáeinum mánuðum. Var hún þá hin hressasta og báru þær mæðgur með sér að enginn kali væri af þeirra hálfu í minn garð, en ég hafði að auki fundið fyrir mildari afstöðu bróður míns í minn garð en mér hafði verið tjáð áður. Ég sá því ekki ástæðu til að erfa neitt þótt ekki yrði sambandið meira en áður við það.
Ólöf varð bráðkvödd á heimili sínu 29. september síðastliðinn. Mig langar til að votta Jóni bróður mínum, börnum þeirra Ómari og Arndísi og barnabörnum samúð mína.
miðvikudagur, október 07, 2009
7. október 2009 - Guð blessi hrunið?
Í gærkvöldi var sýndur fyrsti þátturinn af fjórum í sjónvarpinu um efnahagshrunið á Íslandi og fannst mér lítið til koma. Kannski er það vegna þess að hrunið situr enn of ferskt í mér til að ég geti horft á það úr fjarlægð tíma eða rúms. Fyrir bragðið virkaði það eins og endurtekinn fréttaauki eða kastljósþáttur.
Í gærkvöldi var einnig sýnd kvikmyndin Guð blessi Ísland í bíó. Ekki sá ég myndina, en að sögn þeirra sem ég þekki og sáu hana, var hún ekki peninganna virði. Án þess að ég geti lagt mat á myndina sjálf á meðan ég hefi ekki séð hana, þá grunar mig að ástæðan sé hin sama og með sjónvarpsmyndina, of skammt liðið frá hruninu og of margir þættir þess enn óupplýstir.
Kannski er ekki hægt að gera góða fræðslumynd um hrunið í dag. Við bíðum enn eftir skýrslu rannsóknarnefndarinnar undir stjórn Páls Hreinssonar um hrunið og grunar mig að þá muni mörg atriði líta dagsins ljós sem í dag eru mönnum hulin. Þá ganga útrásarvíkingarnir enn lausir og halda áfram að safna auði eftir gífurlegar afskriftir bankanna á kostnað okkar vesælla íbúa þessa lands. Fyrir bragðið er ekki hægt að gera raunhæfa kvikmynd um atburði liðins hrunárs þar sem endirinn er enn óljós, en verður örugglega erfiður mörgum, kvikmynd án enda.
Það er ekki langt síðan gerð var sjónvarpsmynd um Enron hneykslið þótt átta ár séu liðin frá því Enron fór á hausinn. Það tók nokkur ár að finna lausu endana og síðan dæma sökudólgana til réttlátrar refsingar.
Mig grunar að uppgjör Íslandshneykslisins muni taka að minnsta kosti jafnlangan tíma ef tekst nokkru sinni að kafa til botns í því. Þá fyrst verður hægt að gera þokkalega kvikmynd um hrunið, orsakir þess og afleiðingar.
þriðjudagur, október 06, 2009
6, október 2009 - Berin eru súr
Fyrir nokkrum árum síðan var ég á þriggja daga fundi í Tórínó á Ítalíu og vildi auðvitað kynna mér eitthvað meira af menningu borgarinnar en fundardagskrána og fundargestina sem ég þekkti alla ágætlega frá fyrri fundum. Ég spurði því hvar líkkklæði Krists væru niðurkomin í borginni og var mér þá tjáð að þau væru nánast í næsta húsi, í Jóhannesardómkirkjunni við enda götunnar þar sem fundurinn var haldinn, Via della Basilica.
Úr því að ég var komin alla þessa leið, fannst mér tilvalið að kíkja á djásnið þegar fundinum væri lokið, en þegar inn í kirkjuna var komið reyndust líkklæðin vandlega læst ofan í kassa á bak við eldtraustan glervegg og lítið spennandi þótt kirkjan sjálf væri glæsileg að sjá að innanverðu og sögurnar af Don Camilló þyrluðust upp í minningunni í þessari bílaborg þeirra Ítalanna.
Rétt eins og refurinn sem fannst berin súr þegar hann náði þeim ekki, sitja líkklæðin ekki sterkt í minningunni nokkrum árum síðar, ekki síst eftir að ég las pistil Illuga Jökulssonar um fölsuð líkklæðin sem hann hefur eftir Moggasnepli, en það vita nú allir hve mikið er að marka Moggasnepil á þessum síðustu og verstu tímum og því vissara að hafa einhvern þeim vitrari til að sannreyna sögurnar.
http://www.dv.is/blogg/tresmidja/2009/10/6/ruglid-um-likklaedid-i-torino/
http://public.fotki.com/annakk/ferir-og-vinna/43-torino---112006/
mánudagur, október 05, 2009
5. október 2009 - Um ónefndan ritstjóra og Moggablogg
Mér bárust til heyrna áðan að hinn nýi ritstjóri Morgunblaðsins væri farinn að úthúða þeim bloggskríbentum sem ekki eru á hans skoðun, þó að undanskildum Ómari Ragnarssyni og fáeinum öðrum. Ekki veit ég neitt um það. Morgunblaðið hefur ekki borist inn á heimili mitt í tvo daga og ætla ég að það komi ekki hingað að nýju um sinn. Þá sé ég enga ástæðu til að elta ólar við Morgunblaðsvefinn né Moggabloggið, en ég hefi sagt skilið við Moggabloggið fyrir nokkru síðan og held áfram að skrifa mín sóðablogg á blogspot þar sem ritstjórnarstefna Morgunblaðsins nær ekki til mín.
Það má vel vera að ritstjóri Morgunblaðsins hafi ekki verið að beina orðum sínum að mér sem mér þykir þó líklegt, en hann hafi frekar verið að kalla til sín hina nýju skoðanabræður sína og systur, hina nýju Sjálfstæðismenn sem þykjast vera í stjórn eru í reynd í stjórnarandstöðu. Hvað veit ég? Ég er hætt að lesa Morgunblaðið að sinni og reyndar er mér hjartanlega sama hverja skoðun ritstjórar Morgunblaðsins hafa á bloggskrifum eða öðrum landsins málefnum.
Rétt eins og síðustu fjögur árin, þá er ég enn með mitt grunnblogg á gamla staðnum, þ.e. http://velstyran.blogspot.com þar sem ég skrifa flesta daga, þó ekki alla. Þetta er ákaflega ljúft bloggsvæði, fæ fáar heimsóknir þangað og því blessunarlega laus við skítkast frá öfgasinnuðum nýfrjálshyggjusinnum og trúvillingum.
Það er hið besta mál.
sunnudagur, október 04, 2009
4. október 2009 - Gríðarlegur stjórnarandstæðingur
Guðfríður Lilja Grétarsdóttir stjórnarandstæðingur kom fram í Silfri Egils í dag þar sem hún bað Ögmundi Jónassyni stjórnarandstæðing griða og taldi gríðarlega mikilvægt að setja hann aftur inn í ríkisstjórn sem hann er í reynd á móti (ég taldi ekki hveru oft Guðfríður Lilja notaði orðið gríðarlega til að leggja áherslu á orð sín en mér vitrari maður sem nennti að horfa með athygli á þáttinn taldi 18 skipti þar sem hún notaði orðið gríðarlega). Guðfríður Lilja og Ögmundur eru ekki ein um andstöðuna gegn ríkisstjórninni innan Vinstri grænna. Þar má nefna Jón Bjarnason, Ásmund Einar Daðason og hugsanlega einnig Atla Gíslason, Það má eiginlega segja að Vinstri hreyfingin-grænt framboð sé hópur einstaklingshyggjusinna og því þar virðast jafnmargir þingflokkar og þingmenn þess eru margir. Það er alveg ljóst að það er mjög erfitt að vinna með þingflokki þar sem hver höndin er upp á móti annarri í flestum málum.
Hafa ber í huga að Framsókn er á móti Evrópusambandinu, þrátt fyrir samþykkt á síðasta landsfundi, Sjálfstæðisflokkur á móti sem og Vinstri grænir. Þegar haft er í huga að margir þingmenn Vinstri grænna og (Borgara)Hreyfingar eru einnig á móti möguleikum á því að koma á stöðugleika í fjármálum ríkisins með nauðasamningunum við Breta og Hollendinga, er eðlilegt að Vinstri grænir slíti stjórnarsamstarfi við Samfylkinguna og gangi til liðs við hægri öflin sem komu þjóðinni á vonarvöl. Þar eiga þeir heima miðað við hegðun þeirra að undanförnu.
Slíkt hlýtur að verða fagnaðarefni fyrir íhaldsmenn sem í þrælsótta sínum eru tilbúnir að koma íhaldi og Framsókn aftur til valda sama hvað það kostar, svo að þeir geti endanlega komið því litla sem enn er uppistandandi hjá íslenskri þjóð á hausinn og tryggt að þjóðin komist aldrei á lappir á ný.
laugardagur, október 03, 2009
3. október 2009 - Sýruárás?
Það fór um mig þegar ég sótti Fréttablaðið niður í póstkassa í morgun og sá fyrirsögn þess efnis að Rannveig Rist hefði orðið fyrir sýruárás í andlitið. Fyrst datt mér í hug að einhver hefði setið fyrir henni og slett á hana sýru, en við lestur fréttarinnar reyndist hún hafa fengið sýrudropa í andlitið er hún opnaði bílinn sinn fyrir tveimur mánuðum, atburður sem vitað var um fyrir löngu.
Einn sýrudropi er nógu alvarlegt atvik samt, þótt ekki sé verið að dramatísera hlutina á þann hátt sem Fréttablaðið gerði sig sekt um með fyrirsögninni. Þess þurfti ekki. Sömuleiðis yrði seint hægt að ákæra skemmdarverkafólkið fyrir sýruárás á Rannveigu nema auðvitað að ákæruvaldið taki að sér að leita hefnda fyrir atvikið.
Þetta breytir auðvitað engu um að þau skemmdarverk sem framin hafa verið á húsum og bílum starfsfólks orkufyrirtækja og verksmiðja sem og á eignum útrásarvíkinganna er engum til góðs. Í flestum eða öllum tilfellum lendir tjónið á saklausum almenningi sem þarf að greiða fyrir það með hækkuðum tryggingaiðgjöldum. Að auki veldur það dýpri gjá á milli auðmanna og yfirmanna stórfyrirtækja annarsvegar og almennings hinsvegar en við höfum séð áður og sú hætta getur skapast að farið verði að flokka fólk í svæði eftir efnahag á sama hátt og sjá má í sumum ríkjum Rómönsku-Ameríku og víðar. Því er betur heima setið en af stað farið.
Lögreglan hlýtur að vita hvaða fólk stendur að þessum skemmdarverkum, svo lík eru þessi skemmdarverk hverju öðru og fáir aðilar sem eru líklegir til slíkra ódæðisverka. Því verður að finna skemmdarverkafólkinu aðstöðu hið bráðasta, við smíði á bílnúmeraplötum og öðru slíku ef engu er hægt að ná af þeim upp í þær skemmdir sem þeir hafa unnið.
3. október 2009 - Enn um Moggann
Undanfarna daga hefur hver ritsnillingurinn á fætur öðrum bent okkur aumum á þá einföldu staðreynd að Morgunblaðið sé í einkaeigu og að eigendum þess sé alveg í sjálfsvald sett hvern þeir vilja ráða sem ritstjóra. Við sem sögðum upp Mogganum var þetta alveg ljóst, en einnig að fyrr á árinu þurftum við að greiða þrjá milljarða með blaði í einkaeigu úr almannasjóðum, þ.e. banka sem kominn er í eigu samfélagsins.
Þegar ég gerðist áskrifandi að Morgunblaðinu á síðari hluta tíunda áratugar síðustu aldar hafði Morgunblaðið breyst verulega. Það var ekki lengur þetta einstrengingslega flokksblað Sjálfstæðisflokksins sem það hafði verið frá því á þriðja áratug aldarinnar, orðið mun hófsamara þótt enn saknaði ég vissulega uppgjörs við fortíðina. Það var samt ástæða til að gerast áskrifandi og við Moggi gamli urðum dús.
Með nýjum eigendum að blaðinu á þessu ári var viðbúið að breytt yrði um áherslur við rekstur blaðsins. Það var þó ekki fyrr en við brottrekstur Ólafs Stephensen frá blaðinu sem ljóst var að breyta átti stefnunni og endurnýja flokksböndin við Sjálfstæðisflokkinn. Með þessu skildu leiðir mínar og Morgunblaðsins. Það gerðist ekki í einu vettvangi, en um leið og tilkynnt var að helsti foringi nýfrjálshyggjunnar yrði ritstjóri, varð þetta öllum ljóst og ég kvaddi Morgunblaðið með söknuði.
Bréfið sem nýju ritstjórarnir sendu fyrrum áskrifendum blaðsins og barst mér í fyrradag, breytti engu um uppsögn mína, en ég er tilbúin að endurnýja áskriftina að nýju um leið og ný og frjálslyndari ritstjórnarstefna verður gerð heyrinkunn með nýjum ritstjórum.
miðvikudagur, september 30, 2009
30. september 2009 - Vandræði með bifreiðar!
Eins og öllum sem þekkja mig er kunnugt, er ég helst þekkt fyrir að fara ótroðnar slóðir í lífinu og stundum gegn því sem talið er sjálfsagt og gott. Þegar kreppan var að komast í hámark, ellefu mánuðum eftir hrunið, keypti ég mér bíl. Það er auðvitað allt gott og blessað að kaupa sér Grand Cherokee með stórri vél þegar haft er í huga að ég held áfram að ganga í vinnuna og ek aðeins 5000 km á ári, en samt, það er kreppa í landinu.
Um daginn var ég að keyra Lyngdalsheiðina og í öllum hristingnum fór framljósapera og ég sem þoli ekki að vera á eineygðum bíl. Þegar ég komst að ljósaleysinu, renndi ég við á bensínstöð til að kaupa nýja framljósperu, en starfsfólkið þar hristi bara hausinn, vissi ekkert hverskonar pera ætti að vera í svona bíl. Ég ákvað þá að skoða peruna, en við athugun á bílnum virtist það ekkert áhlaupaverk að skipta um peruna, rafgeymirinn fyrir aftan og mikill bálkur fyrir ofan ljósastæðið. Mér fellust hendur og sá að peruskiptin yrðu meiriháttar mál, greinilega verri en á Toyotu þar sem rífa þarf rafgeymirinn í burtu þegar skipt er um peru, og sló peruskiptunum á frest.
Ég spurði tvo vinnufélaga mína sem eiga svipaða bíla, hvernig ætti að skipta um peruna, en hvorugur vissi. Ekki var mikið gagn að bæklingnum sem fylgdi bílnum, því hann var á frönsku og ég bölvaði mér í sand og ösku fyrir að hafa ekki keypt bílinn þegar Kristín vinkona mín „Parísardama“ var á landinu í sumar.
Allt í einu datt mér eitt þjóðráð í hug. Jóel æskuvinur minn hlýtur að vita af svona bækling, enda búinn að vinna við bílavarahluti í fjölda ára og er nú hjá Bíljöfri eftir að Ræsir lagði upp laupana. Ég sendi honum skeyti og spurði um slíka gersemi sem bæklingur fyrir svona bíl er á tungumáli sem ég skil. Ekki stóð á svörum og hann kvaðst eiga einn slíkan í vinnunni sem ég mætti fá.
Í dag renndi ég við hjá Bíljöfri, hitti Jóel og fékk bæklinginn, notaði tækifærið um leið og spurði hvernig ætti að skipta um framljósaperu á svona bíl.
„Ekkert mál, komdu bara inn með bílinn“.
Ég renndi inn með bílinn og einn starfsmaðurinn náði í topplykil og losaði eina langa skrúfu sem lá í gegnum allt ljósastæðið. Þar með losnaði ljósastæðið og eftir það gekk fljótt og vel að skipta um peruna og ég ók í burtu með öll ljós í lagi fyrir sárafáar krónur og þakklæti í huga.
Stundum borgar sig að spyrja ráða fremur en að rífa bílinn í sundur fyrir lítið verk.
þriðjudagur, september 29, 2009
29. september 2009 - Greiðsluverkfall?
Þegar ég var á leiðinni út áðan tók ég eftir því að búið var að troða bunka af miðum í póstkassann hjá mér. Ég fór að athuga miðana og reyndust þeir allir eins, þ.e. áskorun frá Hagsmunasamtökum heimilanna um greiðsluverkfall. Ég hirti einn miðanna til athugunar, en henti hinum.
Mig vantar meira kjöt á beinin frá þessum furðusamtökum. Af hverju á ég að taka þátt í uppreisn gegn kerfinu án neinna hugsjóna? Það má auðvitað fara í uppreisn til að krefjast niðurfellingar skulda minna, en það er ekki hugsjón heldur útópía og dagdraumar. Það dettur engri heilvita manneskju til hugar að fá heilu húsin og bílana frítt. Hitt atriðið sem kemur fram í áskorun þessara hagsmunasamtaka er óskin um uppsögn greiðsluþjónustu og á greiðslukortum bankanna. Til hvers? Er þetta til að koma óskipulagi á fjármál mín? Ég er mjög sátt við greiðsluþjónustu bankans míns sem og kortin mín og sé enga ástæðu til að breyta neinu þar þótt ég geti vel hugsað mér einhverja vaxtalækkun á skuldirnar mínar.
Af einhverjum ástæðum fæ ég það á tilfinninguna að Hagsmunasamtök heimilanna séu að reyna að skapa enn meiri upplausn í þjóðfélaginu en orðið er sem leiðir af sér tækifæri fyrir hrunflokkana að taka yfir, eða þá grundvöll fyrir öfgahópa á sama hátt og átti sér stað í Þýskalandi á þriðja áratug síðustu aldar.
Nei takk, ekki ég!
mánudagur, september 28, 2009
28. september 2009 - Estonia
Það eru liðin fimmtán ár og ég man það eins og það hefði gerst í gær. Ég var á næturvakt í orkuverinu þar sem ég vann í Stokkhólmi og rétt nýkomin frá ferð til Eystrasaltslandanna Eistlands og Lettlands, en þangað hafði ég farið ásamt góðum vinum.
Einhverntímann um miðja nótt, þegar ég hafði rétt lokið við pannrundan, þ.e. eftirlitsferð með þeim kötlum sem voru í gangi, fór ég upp í setustofu. Menn sátu þar og enginn sagði neitt. Sjónvarpið var í gangi og textinn sem rann yfir skjáinn minnti helst á eftirtexta eftir einhverja kvikmynd.
Eitthvað spennandi, spurði ég, en enginn svaraði. Ég fór að horfa á sjónvarpsskjáinn og sá að textinn var enginn eftirtexti kvikmyndar, heldur rammasta alvara. Ég settist með hinum og sagði ekki orð frekar. Það var verið að segja nýjustu fréttir af þessu hræðilega slysi þar sem 852 manneskjur fórust, versta slys í sögu Norðurlandanna.
Það er of langt mál að ætla sér að rekja þennan hræðilega atburð og minnast þess fólks sem fórst með skipinu. Þó get ég ekki látið hjá líða að rifja upp eitt smáatvik. Þegar listinn birtist með nöfnum þeirra sem fórust með Estonia, kannaðist ég lítillega við eina konu af finnskum ættum sem fórst með skipinu. Hún starfaði á lögreglustöðinni í Jakobsberg og hafði verið mér innanhandar í tveimur tilfellum þar sem ég þurfti að tilkynna innbrot í bíl og síðar stolinn bíl. Nokkrum vikum áður hafði ég hitt hana er ég þurfti að endurnýja vegabréfið mitt vegna ferðar minnar til Riga og Tallinn. Þá sagði hún mér frá ætlaðri fundarferð sem starfsfólk lögregluembættanna væri að fara með Estonia. Það reyndist vera hennar síðasta ferð í lífinu.
Ég er löngu búin að gleyma nafni nágrannakonu minnar, en minnist hennar þess í stað iðulega þegar ég heyri ferjuna Estonia nefnda.
sunnudagur, september 27, 2009
27. september 2009 - Ríkidæmi?
Árið 1993 voru ríkustu 1% Íslendingarnir með um 4% hlutdeild í ráðstöfunartekjum íslensku þjóðarinnar. Fjórtán árum síðar var þessi tala komin upp í 20%. Á þeim tíma voru ríkustu 10% þjóðarinnar með 40% af ráðstöfunartekjum þjóðarinnar sem aftur þýðir að hin 90% þjóðarinnar voru aðeins með 60% af ráðstöfunartekjunum. Þetta er afleiðingin af stjórnarstefnu Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks sem ríktu mestallan þennan tíma.
Er nema von að viljum breytingar?
föstudagur, september 25, 2009
25. september 2009 - Höfði
Mér þótti skelfilegt að heyra að Höfði væri byrjaður að brenna í dag, en jafnframt mikill léttir að heyra að slökkvistarfið tókst giftusamlega.
Öfugt við margbreytt Hótel Valhöll sem var orðið að hálfgerðum bastarð eftir flutning og breytingar austur á Þingvöllum, þá naut Höfði sín vel og viðgerðir sem framkvæmdar voru á húsinu á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar heppnuðust fullkomlega. Þá hefur húsinu verð sýnd tilhlýðileg virðing á undanförnum áratugum og er það vel.
Sjálf átti ég litlar sem engar minningar tengdar þessu húsi. Ég fæddist að vísu 150 metra frá Höfða og eyddi þar fyrstu árum ævinnar, en fæðingarstaðurinn er löngu horfinn án nokkurs saknaðar og búið að byggja banka á lóðinni. Það er kannski helsta óprýðin við Höfða, að sjá allar þessar Mammonshallir og Skýjaborgir í næsta nágrenni við þetta glæsilega hús sem á sér meiri sögu en öll önnur hús á Íslandi.
25. september 2009 - Morgunblaðið
Ég man þá tíð er Morgunblaðið var málgagn Sjálfstæðisflokksins og studdi flokksbundna Sjálfstæðismenn framar öllu öðru nema ef vera skyldi stjórnvöld í Bandaríkjum Norður Ameríku. Morgunblaðið tók iðulega afstöðu gegn jafnaðarmennsku og sósíalisma og skipti þá engu hvað átti að réttlæta, Adolf Hitler eða Roosevelt, kjarnorkusprengjur eða napalm því allt var leyfilegt í baráttunni gegn hinum vondu kommúnistum og sósíalistum. Þannig má nefna afstöðu Morgunblaðsins gegn Þórbergi Þórðarsyni er hann hélt því fram að Adolf Hitler væri byrjaður að ofsækja og myrða þýska vinstrimenn árið 1933 og Moggi virtist fagna notkun kjarnorkusprengjunnar er henni var kastað á Hiroshima og napalmi í Vietnam.
Með falli flokksblaða á vinstri vængnum fór Morgunblaðið að færa sig meira inn að miðju og um það leyti sem Þjóðviljinn lagði upp laupanna var Mogginn orðinn að hófstilltu málgagni frjálslyndra skoðana, en ekkert endilega hörðu málgagni íhaldsins þótt vissulega færi ekkert á milli málanna að flokksskírteini í Sjálfstæðisflokknum væri talið kostur fyrir starfsfólk og stefnu blaðsins.
Sjálf var ég áskrifandi að Þjóðviljanum á yngri árum og til að kynna mér skoðanir á hægri vængnum, lét ég mér nægja Dagblaðið á síðari hluta áttunda áratugarins. Eitthvað var samt farið að hrikta í hollustunni við flokksmálgagnið á árunum eftir 1980 og var ég steinhætt að lesa Þjóðviljann löngu áður en ég flutti til Svíþjóðar árið 1989.
Er ég flutti heim aftur árið 1996 var Morgunblaðið orðið hófstillt og íhaldssamt morgunblað sem var frekar íhaldssöm stofnun en baráttuglatt málgagn hægrimanna og þannig kunni ég best við blaðið og gerðist áskrifandi fljótlega eftir að ég flutti heim aftur. Það gekk meira að segja svo langt að þegar allt hrundi, tók ég þátt í skráningu í hóp fólks sem vildi bjarga Morgunblaðinu með stofnun almenningshlutafélags sem yrði frjálst og óháð stjórnmálaflokkunum. Í stað þess að samþykkja breiðan eigendahóp að blaðinu, kaus bankinn frekar að færa hann örfáum aðilum sem vildu færa blaðið aftur í hendur gömlu flokksklíku Sjálfstæðisflokksins. Ég hélt samt áfram að greiða blaðið uns ritstjórinn var rekinn og harðir nýfrjálshyggjusinnar settir í ritstjórastólana. Þá sá ég ekki lengur ástæðu til að styðja blaðið frekar og sagði því upp.
Ákvörðun mín er ekkert endanleg. Hún gildir einungis uns núverandi ritstjórar verða látnir taka pokann sinn og hin nýja ritstjórnarstefna blaðsins verður lögð til hliðar.
fimmtudagur, september 24, 2009
24. september 2009 - Bréf til Morgunblaðsins
Til áskriftardeildar Morgunblaðsins.
Hér með tilkynni ég uppsögn á áskrift minni að Morgunblaðinu sem ég óska að taki gildi þegar í stað eða eins fljótt og unnt er.
Ég var aldrei sátt við þá ritstjórnarstefnu sem var við lýði hjá Morgunblaðinu á kaldastríðstímanum, en með mildun á stefnu blaðsins frá lokum kalda stríðsins, ákvað ég að gerast áskrifandi eftir miðjan síðasta áratug síðustu aldar. Með ritstjóraskiptum og væntanlegri harðri nýfrjálshyggju sem nýjum ritstjórum fylgja og sem þegar hefur valdið hruni í íslensku fjármálalífi, er engin ástæða til að styðja við blaðið frekar en orðið er með þriggja milljarða styrk sem ég og aðrir skattgreiðendur greiddum með blaðinu í byrjun þessa árs og ég hefi þegar greitt með áskrift minni til þessa dags.
Með þessu óska ég brottreknu starfsfólki Morgunblaðsins velfarnar í framtíðinni og kveð Morgunblaðið með söknuði.
Virðingarfyllst
Anna K. Kristjánsdóttir kt. 301251-2979
Hraunbæ 56
110 Reykjavík.
netfang annakk@simnet.is
P.s. Með þessari uppsögn hefur bloggsvæði mínu á Moggabloggi verið eytt.
miðvikudagur, september 23, 2009
23. september 2009 - Sagði maðurinn ósatt?
Ég man fyrir ári síðan, eða þegar bankarnir voru að hrynja, að ég þurfti að ná mér í reiðufé í bankann. Þetta var að kvöldi til og ég byrjaði í hraðbankanum í bankanum sem er næstur vinnu minni og heimili, Hann var tómur. Ég fór í næsta banka rétt hjá og hann var líka tómur. Ég fór í þrjá aðra hraðbanka og þeir voru allir tómir. Daginn eftir sá ég að ekki þýddi að fara í opinn banka sökum örtraðar, enda voru þeir bankar sem ég fór framhjá þéttsetnir af ellilífeyrisþegum sem voru að taka út peningana sína. Á þriðja degi fann ég loksins banka þar sem hægt var að taka út aura úr hraðbanka og málunum var bjargað að sinni.
José Manuel Barroso, framkvæmdastjóri Evrópusambandinu kom inn á þessa fjárþurrð á reiðufé í íslenskum bönkum fyrir ári í ræðu sem hann hélt á Írlandi og þá fara bloggheimar, ríkisútvarpið og fleiri hamförum og mótmæla hástöfum. Merkilegt hve fólk er fljótt að gleyma hruninu. Allavega er ég ekki búin að gleyma þessum dögum og veit að maðurinn sagði satt.
Nú stefnir hraðbyri í að útrásarþjófarnir verði teknir í sátt að nýju og hæstvirtir kjósendur kalla yfir sig íhaldið að nýju. Meira að segja forseti Íslands er þegar búinn að gleyma þeirri skipulögðu glæpastarfsemi sem átti sér stað í starfsemi útrásarþjófana og farinn að kenna Evrópusambandinu um glæpinn.
Er nema von að íslensk þjóð sé í sálarkreppu og sé vart viðbjargandi?
þriðjudagur, september 15, 2009
15. september 2009 - Kisur
Eins og ég hefi stundum montað mig af, á ég ákaflega indæla nágranna, fyrir ofan mig, til hliðar við mig og fyrir neðan mig. Eru þar fáir ef nokkrir undanskildir. Meðal nágranna minna eru sómakær heiðurshjón á eftirlaunaaldri sem sjaldan bregða skapi og geislar yfirleitt af þeim lífsgleðin, .... nema.....
Í íbúðinni á móti eldri hjónunum búa hjón með börn og tvo unga fressketti. Annar kötturinn er oft úti að leika sér, en hinn er heimakær og heldur sig á heimavígstöðvunum og á það til að skreppa í heimsókn til hjónanna á móti. Þeim finnast þessar heimsóknir fremur hvimleiðar og hafa reynt ýmislegt til að fæla kettina í burtu án mikils árangurs, hótað þeim með kústi, byggt mikinn plexíglervegg á milli svalanna og nú síðast bætt víggirðingu ofan á plexíglerið og virtist það duga til að halda kisa í burtu.
Um daginn skruppu hjónin í búð sem oftar og skildu svaladyrnar eftir opnar á meðan þau fóru frá stutta stund. Venjulega er það í góðu lagi, enda er nágrannavarslan með ágætum þegar um utanaðkomandi aðila er að ræða. En er þau komu heim aftur sáu þau merki þess að óboðinn gestur hafði komið inn á meðan og skilið eftir merki um komu sína. Kisi hafði einfaldlega hoppað yfir, skitið á mitt stofugólfið og farið heim til sín aftur.
mánudagur, september 14, 2009
14. september 2009 - Hlaupadagar
Eftir að ég hætti að reykja fyrir níu árum byrjaði ég að fitna svo um munaði og á tveimur árum þyngdist ég um 26 kg. Ég mátti alveg bæta við mig nokkrum af þessum 26 kílóumen það var algjör óþarfi að fara yfir 90 kg og ég ákvað að gera eitthvað í málinu.
Nærri þremur árum eftir að ég hætti að reykja, hætti ég líka að vinna, kannski ekki vinna beint, en síðan árið 2003 hefur aðalstarfið falist í þægilegri innivinnu þar sem öllu er stýrt í gegnum tölvur og ég bætti enn meira við þyngdina. Síðan hefi ég barist við aukakílóin án mikils árangurs.
Ég fór að ganga og ég fór að ganga á fjöll, en þolið var orðið afleitt og lítið gekk að bæta þolið. Ef ég fór á Esjuna taldist ég góð ef ég komst upp fyrir hamrabeltið á Þverfellshorni á tveimur og hálfum klukkutíma og Selvogsgatan var gengin á minnst tíu tímum, gjarnan meira.
Að undanförnu hefi ég breytt um aðferð við að ná upp þolinu. Í stað þess að ganga langar og erfiðar göngur, kannski einu sinni í viku eða sjaldnar, geng ég nú stuttar vegalengdir og eitthvað á hverjum degi, ekkert endilega á mínum hraða, en reyni að fylgja eftir öðru fólki sem gengur hraðar jafnvel svo að ég neyðist til að hlaupa með til að geta fylgt fólkinu eftir. Árangurinn hefur ekki látið á sér standa. Um helgina komst ég í fyrsta sinn stóra Elliðaárdalshringinn á innan við 100 mínútum og finn að ég get farið þennan hring á 90 mínútum eftir nokkrar æfingar í viðbót með því að hlaupa hluta hringsins.
Nú gengur allt út á að keyra mig meira og meira áfram uns ég næ vart andanum eins og lekur fýsibelgur og ég finn hve árangurinn eykst með hverjum deginum sem líður. Kannski næ ég því að bræða aukakílóin af mér með hlaupunum, en þolið er allt að koma og ég finn hve heilsan er miklu betri en hefur verið um margra ára skeið.
laugardagur, september 12, 2009
12. september 2009 - Safaríkur kjúklingur!
Kunningi kvartaði sáran á blogginu sínu um daginn yfir vatnssósa kjúklingi sem hann hafði keypt sér ásamt hæfilegri kvörtun yfir brotnu Ritz-kexi sem hann fann í pakka sem hann hafði keypt. Æ, þetta er bara hann Þórður sem er of góðu vanur úr vinnunni sinni, hugsaði ég og skeytti ekki meira um þessa kvörtun kunningjans.
Um daginn keypti ég niðurbrytjaðan kjúkling á bakka sem ég ákvað að steikja mér í dag. Ég tók kjúklinginn úr pakkanum og kom honum fyrir á steikingabakka. Þessi hlýtur að duga mér alla helgina og eitthvað frameftir vikunni hugsaði ég með mér þegar ég sá magnið sem ég setti í ofninn. Þegar steikingartíminn var liðinn slökkti ég á ofninum og varð þá fyrir nokkrum vonbrigðum.
Vatnið sem eftir var í steikingarbakkanum þegar ég hafði tekið kjúklinginn upp úr, reyndist vera nærri 20 cl, nóg til að sjóða kjúklinginn í stað þess að steikja hann. Bragðið var líka af soðnum kjúklingi, en ekki steiktum og rýrnunin orðin slík að kjúklingurinn nægði einvörðungu í máltíð fyrir eina manneskju, en þá varð líka að hafa mikið af kartöflum með.
Ég hefði betur hlustað á Þórð, en það er ljóst að ég hugsa mig tvisvar um áður en ég kaupi aftur kjúkling frá Íslenskum matvælum hf.
föstudagur, september 11, 2009
11. september – Saga Caster Semeneya er ekkert einsdæmi
ÆÆ, hér sit ég og finn ekki prentuð gögn mín um forvera Caster Semeneya. Því verður fólk að sætta sig sig við orð mín eins og hverja aðra gróusögu þar til ég finn gögnin og studd með nöfnum hlutaðeigandi aðila.
Til að byrja með, þá er Caster Semeneya suðurafríska stúlkan sem var grunuð um að vera karl í heimsmeistaramótinu í frjálsum íþróttum í síðasta mánuði. Nú hefur einhver rannsókn leitt í ljós að hún er kona á ytra borði, en með karlkyns líffæri hið innra. Einhverntímann heyrði ég þetta fyrirbæri kallað „dold hermafrodit“ upp á ástkæra ylhýra sænskuna eða „falin tvíkynja“.
Það var fyrir vetrarólympíuleikana í Grenoble í Frakklandi árið 1968. Vegna grunsemda um breytingar á líkömum austur-evrópskra íþróttakvenna, var ákveðið að framkvæma litningapróf á keppendum til að úrskurða um kyn þeirra. Ein fyrsta manneskjan sem féll á prófinu og send heim með hraði fyrir leikana var austurrísk skíðadrottning (sem mig vantar nafnið á að sinni). Hún var sannanlega með kvenkyns kynfæri, en litningaprófið gaf henni einkunnina karlkyns (sennilega YXX).
Eftir þessi miklu vonbrigði fór hún í rannsókn í Vínarborg og þar reyndust hin ytri kynfæri vera fölsk, þ.e. það var engin tenging í innri kvenkynfæri, en innra með henni voru fullvirk karlkyns kynfæri. Það var því fátt annað eftir en að framkvæma á henni kynleiðréttingu, koma henni í gegnum nauðsynlegt ferli og sleppa út sprellanum. Þetta tókst með afbrigðum vel. Skíðadrottningin fyrrverandi tók upp nýtt nafn í samræmi við kynferðið, kvæntist stúlku og átti tvö börn samkvæmt þeirri grein sem ég las um hann fyrir mörgum árum og starfaði hann þá sem skíðakennari í austurrísku Ölpunum.
Sagan af austurrísku skíðadrottningunni endaði vel fyrir alla aðila. Nú er bara að vona að sagan af Caster Semeneya endi líka vel fyrir hana sjálfa og að hún láti ekki bugast gagnvart almenningsálitinu.
fimmtudagur, september 10, 2009
10. september 2009 - Um hraðamyndavélar í Hvalfjarðargöngunum
Um daginn heyrði ég af umferðarslysi í Hvalfjarðargöngunum þar sem bíll ók yfir á rangan vegarhelming og lenti framan á bíl sem kom á móti, en sem betur fór án alvarlegra meiðsla. Þetta var samt þriggja bíla árekstur þar sem einn bíllinn var nánast ónýtur eftir áreksturinn, en tveir aðrir bílar minna skemmdir.
Síðar heyrði ég sögusagnir þess efnis að sá sem ók yfir á öfugan vegarhelming hefði lent í blossa af hraðamyndavél í göngunum og hefði það hugsanlega valdið því að maðurinn blindaðist augnablik, nóg til að missa sjónar á miðlínunni og fór yfir á rangan vegarhelming.
Ég bar þetta undir fulltrúa hjá Vegagerðinni sem taldi þetta af og frá því þeirra myndavélar væru með innrauðu ljósi sem gefa ekki svona skæran blossa frá sér. Því er einvörðungu um að ræða hraðamyndavélar Spalar sem geta orsakað slíka augnabliksblindu.
Vinkona mín gleymdi sér eitt augnablik um daginn og álpaðist upp í 76 km hraða á röngum stað og var mynduð, nákvæmlega á þann hátt sem lýst er, með skærum blossa sem blindar eitt augnablik. Þar sem hún ók á þægilegum hraða, hélt hún ró sinni, hægði á sér sem nam þessum sex kílómetrum sem hún hafði farið umfram 70 km, en allt kom fyrir ekki. Nokkrum dögum síðar fékk hún sektarboð þar sem henni var gert að greiða 5000 krónur í sekt, en með möguleikum á afslætti ef hún greiddi strax.
Vinkona mín varð öskrandi reið og veit ekki í hvorn fótinn hún skal stíga, hvort hún eigi að greiða þessa sekt eða sitja hana af sér, enda atvinnulaus og með nægan tíma til að kynna sér fangelsismál innan frá, enda með háskólagráðu í mannlegum samskiptum.
Ég vil hinsvegar fá að vita, til hvers þarf tvöfalt hraðaeftirlit í Hvalfjarðargöngunum, bæði myndavélar frá Speli og Vegagerðinni? Þó eru Hvalfjarðargöngin sá staður á öllu Íslandi þar sem minnst er um hraðaakstur. Má ekki sleppa gömlu myndavélunum eða auka lýsinguna til að minnka hættuna á slysum eins og átti sér stað á dögunum?
Að lokum vil ég taka fram að ég hafi ávallt átt mjög góð samskipti við starfsfólk Spalar og kann þeim bestu þökk fyrir þjónustu þeirra, en þetta er bara allt annar hlutur sem skrifast á ábyrgð yfirstjórnenda Hvalfjarðarganganna ef satt er.
10. september 2009 - Orkumál í grænu hagkerfi
Á miðvikudagskvöldið var haldinn fundur um orkumál hjá Samfylkingarfélaginu í Reykjavík þar sem fram komu Guðni A. Jóhannesson orkumálastjóri, Skúli helgason formaður iðnaðarnefndar Alþingis og Sigrún Elsa Smáradóttir borgarfulltrúi og stjórnarmaður í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur. Fundarstjóri var Dofri Hermannsson varaborgarfulltrúi.
Þar var rætt á breiðum grundvelli um eignarhald á íslenskum orkuauðlindum, sölu á hlut OR í HS-Orku til Magma Energy og um lög og stefnumál meirihluta Alþingis í grænu hagkerfi framtíðar. Margt athyglisvert kom í ljós á þessum fundi, meðal annars sú staðreynd að verulegt og að hluta til ófyrirsjáanlegt tap verður af sölu OR á hlut sínum í HS-Orku til Magma Energy, tap sem ætti að nægja til að hætta þegar í stað við söluna á meðan leitað er annarra leiða til að losa hlut OR í fyrirtækinu.
Einnig kom skýrt fram á fundinum á hvern hátt salan á hlutnum er ólögleg, sé litið til anda laganna frá 1991. Sjálf beið ég af mestum áhuga eftir orðum Guðna A. Jóhannessonar orkumálastjóra, en hann ræddi orkumál í víðu samhengi og benti meðal annars á þá einföldu staðreynd að það er ekki til neitt sem er fullkomlega endurnýjanleg orkuauðlind og sem hann rökstuddi faglega.
Margt kom fram á fundinum sem of langt er upp að telja, en það var gaman að fylgjast með rökræðum Guðna og Ómars Ragnarssonar eftir fundinn og hvernig þeir náðu saman í umræðum sín á milli.
Einhvernveginn var ég vonbetri um orkuframtíð Íslands eftir fundinn en áður, þrátt fyrir skugga einkavæðingar Magma á HS-Orku sem hvíldi yfir fundinum.
P.s. Á myndinn eru frá vinstri, Guðni A. Jóhannesson orkumálastjóri, félagi Sigurður Ásbjörnsson og Ómar Ragnarsson baráttumaður.
þriðjudagur, september 08, 2009
9. september 2009 - Skýrslan um vistheimili
Á þriðjudagsmorguninn var loksins gerð opinber áfangaskýrsla um vistheimili, að vísu ekki um þau vistheimili sem ég hafði kynni af, heldur frá Kumbaravogi, Bjargi og Heyrnleysingjaskólanum. Ég get að sjálfsögðu ekki metið þessar skýrslur, það verða þeir aðilar að gera sem standa að þeim og þekkja málin.
Eitt þykir mér þó aðfinnsluvert við birtingu áfangaskýrslunnar. Í fréttum af áfangaskýrslunni var ávallt talað um Kumbaravog eins og að þar hefði einvörðungu verið rekið eitt barnaheimili í gegnum tíðina. Það er að sjálfsögðu ekki rétt. Það var rekið barnaheimili á vegum Reykjavíkurborgar (Reykjavíkurbæjar) í Kumbaravogi frá því á fimmta áratugnum og til ársins 1957 er það flutti í Mosfellsdalinn, fyrst til bráðabirgða að Hlaðgerðarkoti og síðan í Reykjahlíð. Forstöðukona á Kumbaravogi á þessum tíma var Guðbjörg Árnadóttir hjúkrunarkona frá Narfakoti í Njarðvík, en meðal starfsfólks var ráðsmaðurinn Magnús Sigurðsson og starfsstúlkan Jóna Haraldsdóttir, bæði frá Stokkseyri. Guðbjörg fór á eftirlaun haustið 1961 og Magnús hætti 1962 og flutti til unnustu sinnar og sonar austur að Grafarbakka í Hrunamannahreppi þar sem hann gerðist garðyrkjubóndi, en Jóna starfaði áfram í Reykjahlíð til ársins 1970 er hún flutti norður á Akureyri ásamt yngri syni sínum, en eldri sonur hennar bjó þá þegar á Akureyri.
Með því að gera ekki greinarmun á þessum tveimur barnaheimilum á sama stað á sinnhvorum tímanum, er auðvelt að rugla saman þessum tveimur heimilum þótt vissulega hafi komið fram í fréttum að heimilið hafi verið rekið af einkaaðilum er ofbeldi gagnvart börnum átti sér stað á Kumbaravogi. Það ber og að geta þess að þau þrjú sem ég nefni hér og öll látin fyrir löngu, voru öll hið besta fólk og til mikillar fyrirmyndar í umgengni sinni við börn og unglinga.
Ég bíð í ofvæni eftir næstu áfangaskýrslu þar sem fjallað verður um barnaheimilið í Reykjahlíð, en þarf víst að bíða fram á mitt næsta ár eftir þeirri skýrslu.