laugardagur, júlí 30, 2011

30. júlí 2011 - Madame Kerstin

 
Ein af þeim persónum sem verða mér ávallt eftirminnilegar í lífinu var Madame Kerstin. Hún var nokkrum árum árum eldri en ég og fór sömuleiðis í gegnum aðgerðarferli í Svíþjóð löngu á undan mér. Eftir að hún hafði lokið aðgerðarferlinu opnaði hún lítinn matsölustað undir heitinu Hjärter Dam við Polhemsgatan á Kungsholmen í Stokkhólmi, ekki fjarri lögreglustöðinni og Kronobergshäktet í Stokkhólmi.

Á kvöldin breyttist matsölustaðurinn hennar í næturklúbb með vafasamt orðspor þar sem sumir gestanna gerðu í því að borða ekki allan matinn sinn. Í refsingarskyni voru þeir teknir inn í pyntingarklefann og hýddir. Þetta var toppurinn á kvöldinu fyrir gestina sem ekki luku við matinn sinn. Ekki var laust við að einn og einn lögregluþjónn læddist þangað inn eftir vaktina til að fá "óþægileg" endalok á vaktinni.

Madame Kerstin var fremur stórgerð en samsvaraði sér samt vel. Hún var ávallt tilbúin að hlaupa frá barnum inn í hið allra heilagasta til að rassskella viðskiptavinina enda var ávallt barþjónn henni til aðstoðar á kvöldin sem afgreiddi kúnnana þegar Madame Kerstin dundaði sér við áhugamálin.

Ekki man ég hvaða ár ég hitti Madame Kerstin fyrst, en það hlýtur að hafa verið um páska því þegar ég kom þangað inn var barþjónninn klæddur í kjúklingagervi að frátöldum viðkvæmustu líkamshlutunum sem löfðu útfyrir. Að sögn barþjónsins var þetta kjúklingagervi hannað af Madame Kerstin. Í fyrstu vorkenndi ég barþjóninum en svo sannfærðist ég um að þetta var allt gert með samþykki piltsins. Ég kom oft til Hjärter Dam eftir þetta, hafði engan áhuga fyrir masókisma, en þess frekar fyrir skemmtilegum og öðruvísi félagsskap í góðra vina hópi og Madame Kerstin var ávallt sú sem hló hæst allra og virtist njóta lífsins umfram aðra.

Ég missti sambandið við Madame Kerstin eftir að ég flutti heim til Íslands sumarið 1996 og heyrði fátt af henni eftir það. Ég vissi þó að Hjärter Dam á Pólhemsgatan var lokað einhverjum árum síðar og síðar opnaður að nýju í einhverri af þröngum hliðargötunum í Gamla stan. Þá fréttist öðru hverju af Madame Kerstin þar sem hún rak þrælana sína áfram með svipuhöggum á Gay Pride í Stokkhólmi þeim til mikillar fullnægju en öðrum til skemmtunar, ekkert ósvipað skemmtilegum uppákomum Birnu vinkonu minnar Þórðardóttur á Gay Pride í Reykjavík.

Því miður verður Madame Kerstin ekki með á Gay Pride í Stokkhólmi í dag, 30. júlí 2011. Hún hafði kennt sér einhvers krankleika undanfarna mánuði og kvaddi þennan heim í gær. Hlátur hennar mun þó ávallt hljóma í minningum okkar sem þekktum hana og bárum virðingu fyrir henni.