þriðjudagur, febrúar 28, 2006

1. mars 2006 - Að vinna vinnuna sína

Þegar ég mætti á vaktina mína á þriðjudagsmorguninn var allt í fári. Nokkrum mínútum áður hafði þrýstingur fallið á helstu flutningsæðunum heitavatnsins frá heitavatnstönkunum á Grafarholti að heitavatnstönkunum á Öskjuhlíð og ljóst að alvarlegur leki hafði orðið á annarri heitavatnslögninni.

Þar sem ég var á vakt í stjórnstöð Orkuveitunnar og ágætlega kunnug hitaveitukerfinu, lenti það að sjálfsögðu á mér að stýra kerfinu í gegnum þessi vandamál í samráði við þá vélfræðinga sem voru á þönum á milli dælustöðva að loka fyrir einstöku kerfi og opna önnur. Ekki mátti þó missa sig í æsingi sem er mjög auðvelt við þessar aðstæður þar sem mikil hætta er á slysum ef eitthvað bregður útaf og með fleiri yfirmenn yfir öxlunum að gefa ráð og fylgjast með. Útivinnuvélfræðingar áttu í basli með að komast leiðar sinnar á milli dælustöðva vegna umferðaröngþveitis og tafði það verkið nokkuð, en þó ekki svo mikið að yrði til skaða.

Þetta gekk ljómandi vel þótt ég segi sjálf frá. Um leið sýnir þessi bilun ágætlega hve reynsla og þekking á víðfeðmu hitaveitukerfinu er mikilvæg. Þótt ekki væri enn lokið við að fylla á biluðu hitaveituæðina er ég fór heim tólf tímum síðar, gat ég með stolti sagt að við hefðum öll gert skyldu okkar með sóma, Reykvíkingum til hagsbóta.

mánudagur, febrúar 27, 2006

28. febrúar 2006 - Stutt blogg

Ég veit að fólk ætlast til að ég fari að skrifa um Olof Palme í tilefni af því að tuttugu ár eru liðin frá því er hann féll í valinn fyrir morðingjahendi. Ég held samt að það verði nóg af öðru fólki til að skrifa um hann. Að auki var hann myrtur áður en ég settist að í Svíþjóð og þrátt fyrir virðingu mína á Olof Palme sem persónu, þá er ég ekki rétta manneskjan til að fjalla um hann. Því sleppi ég þeirri minningargreininni.

Það væri freistandi að skrifa um annað morð, hatursmorð sem var framið suður í Portúgal í síðustu viku og sýnir gerlega hve mannskepnan er komin stutta leið frá villidýrseðli sínu. Ég ætla að geyma mér það þar til annað kvöld. Ég þarf að hugsa þetta mál áður en ég næ að orða það á nægilega varfærnislegan hátt. Auk þess er ég of syfjuð til að nenna að hnoða saman lítilli grein um mikið mál.

-----oOo-----

Þriðjudagur eftir hádegi

Ég vil taka fram að ég er saklaus af umferðartöfum sem áttu sér stað á Reykjanesbraut í morgun rétt fyrir klukkan átta. Ég byrjaði ekki á vaktinni fyrr en klukkan átta og þurfti að koma öllu í samt lag aftur. Það var eins gott að það var ábyrgt fólk á vaktinni bæði fyrir og eftir klukkan átta til að tryggja að allt endaði vel. AMEN.

27. febrúar 2006 - Að bera ábyrgð

Enn er ekki hafin rannsókn á öllum þeim mistökum og flausturshætti sem einkenndi björgun tveggja manna úr sprungu á Hofsjökli á laugardag, en ýmislegt hefur þó lekið út. Landhelgisgæslan var óstarfhæf eins og áður hefur komið fram, fjarskiptasamband í molum, erfiðleikar við að koma tækjum upp á jökulinn.

Í sjónvarpsfréttum hefur komið fram að ýmislegt fór úrskeiðis vegna þess að Landhelgisgæslan er í fjársvelti. Það er hinsvegar til nóg af peningum til að senda stríðsóða stráklinga í byssuleiki austur til Afganistan og til að stofna til allskyns stríðsleikja á borð við leyniþjónustu og öryggislögreglu. Í viðtali við sjónvarpið hélt Georg Kristinn Lárusson því fram að þrjár þyrlur væri idealstærð björgunarþjónustu af stærð Landhelgisgæslunnar, þar af ein þyrla í eftirliti eða skoðun. Herinn á Miðnesheiði telur að þeirra lágmark sé fimm þyrlur, fjórar tilbúnar til verkefna og sú fimmta í skoðun. Ég get ekki séð að heil þjóð þurfi minna en einn herflokkur fullfrískra ungmenna.

Er ekki kominn tími til að einhverjir axli ábyrgð á þeim mistökum sem gerð hafa verið, hvort heldur þau voru framin af ásetningi með fjárvelti Landhelgisgæslunnar eður ei?

-----oOo-----

Du gamla du fria er sungið hástöfum í Svíþjóð þessa dagana. Það er eðlilegt því strákarnir okkar unnu gull í íshokki og stelpurnar unnu gull í krullu auk fimm gullverðlauna að auki. Ekki veit ég hversu mörg verðlaun Svíar unnu alls á þessum ólympíuleikum auk þessara sjö gullverðlauna.

Þjóðin sem kennd er við ís vann engin verðlaun fremur venju og hafa aldrei gert á vetrarólympíuleikum. Það breytir engu hvort miðað er við höfðatölu eða öðrum reiknikúnstum beitt. Árangurinn verður áfram jafnlélegur og áður. Hið eina sem Ísland virðist hafa umfram aðrar þjóðir í íþróttum er montið yfir eigin getu sem engin er.

Meistarinn á járnsmíðaverkstæðinu þar sem ég tók smiðjutímann sagði einhverju sinni að sá sem ekki kann að sópa verður aldrei meistari. Sendum því íslenska íþróttamenn á námskeið í krullu, alla sem einn og sjáum hvort ekki rætist úr þeim.

sunnudagur, febrúar 26, 2006

26. febrúar 2006 - Skammastu þín Björn!

Enn einu sinni hefur það skeð að engin íslensk björgunarþyrla var til taks þegar á þurfti að halda og leita þurfti á náðir erlendra hersveita til að taka þátt í björgunaraðgerðum innan íslenskrar lögsögu. Í þetta sinn uppi á miðju hálendinu, ekki langt frá útreknaðri miðju Íslands, á sjálfum Hofsjökli. Það er ekki mjög langt síðan svipuð staða kom upp, að báðar þyrlurnar voru frá vegna viðhalds og bilunar þegar á þurfti að halda. Þá má ekki gleyma því atviki er þyrluvaktin var heima að hvíla sig og mátti ekki fljúga þegar neyðarkall kom.

Þessar tvær björgunarþyrlur Landhelgisgæslunnar eru orðnar gamlar og þreyttar þótt þær hafi fengið ágætis viðhald í gegnum árin og verið miklir kostagripir. Það er því löngu kominn tími á að endurnýja þyrlurnar og fjölga þeim. Þá þarf og að skipuleggja fleiri vaktir og bakvaktir á þyrlurnar þannig að ávallt séu minnst tvær þyrluflugsveitir tiltækar til björgunaraðgerða

Ekki þýðir að kenna starfsfólki Landhelgisgæslunnar um þennan slóðaskap. Það eru aðrir æðri aðilar sem eiga að skammast sín og jafnvel taka pokann sinn fyrir að sinna ekki þessum nauðsynlegu þörfum. Þá hefi ég sérstaklega í hug manninn sem vill stofna íslenskan her og leyniþjónustu og öryggislögreglu í stað þess að sinna því sem honum ber að sinna lögum samkvæmt, að sjá til þess að Landhelgisgæslan sé nægilega vel búin björgunarbúnaði að hún geti sinnt, ekki einungis einu slysi, heldur og fleirum á sama tíma.

Ég veit ekkert um það hvort fljót viðbrögð hefðu bjargað einhverju í gær, en það verður að hafa í huga að rúmar átta klukkustundir liðu frá því jeppinn lenti ofan í sprungunni og þar til búið var að ná fólkinu úr bílnum. Var þá önnur manneskjan látin. Ég reyni ekki einu sinni að ímynda mér líðan þessa fólks sem sat fast í jeppanum allan þennan tíma. Það væri nær að Íslendingar fari að sinna sínu eigin öryggi á fjöllum sem á sjó í stað þess að herja á bláfátækar þjóðir austur í Asíu undir þungvopnaðri “Friðargæslu”.

-----oOo-----

Nú eru mínir menn í Halifaxhreppi í vondum málum. Eftir að hafa óvart unnið Litlu lömbin í Tamworth í haga hinna síðarnefndu sitja kapparnir nú í 2. sæti kvenfélagsdeildarinnar og mega muna fífil sinn fegri. Það er því ljóst að þeir fá ekkert nammi í pokann sinn á öskudag heldur verða sendir á völlinn að æfa sig í að sparka boltanum framhjá markinu. Þeir eiga einungis eftir að leika tíu leiki það sem af er keppnistímabilinu, þar af sex leiki á heimavelli og flestir þessara tíu leikja eru við lið í neðri hluta kvenfélagsdeildarinnar. Það er því ljóst að mikið má ganga á, svo unnt verði að forða þeim frá þeim hræðilegu örlögum að þurfa að leika í langneðstu deild að ári.

laugardagur, febrúar 25, 2006

25. febrúar 2006 - Af Vetrarhátíð í Reykjavík

Það var menning sem réði ríkjum hjá mér í gær.

Eftir góðan nætursvefn og tvöfalt gott og heitt bað og allt það sem þarf að gera að degi til, var haldið til byggða í gærkvöldi og mætt á Önnuhátíð í Nýlistasafninu við Laugaveg. Þar var skrafað við fleiri aðrar Önnur um nýstofnaðan félagsskap sem kenndur er við Önnur áður en Árni Bergmann flutti erindi um Önnur í sögulegu samhengi. Í framhaldinu flutti Magnús Tumi Guðmundsson jarðfræðingur erindi um Brennandi jökla, erindi sem á fullt erindi inn á Önnuhátíð því brennandi jöklar eru hið einasta sem getur toppað Önnur.

Þegar hér var komið sögu var komið fararsnið á mína því að ég var þegar klukkutíma á eftir áætlun og var því tryllt niður í Borgarskjalasafn til hlýða á erindi Guðfinnu Ragnarsdóttur um ættfræði sem því miður var búið þegar ég kom á staðinn. Ég náði samt erindi um varðveislu presónulegra skjala áður en haldið var út í nóttina.

Þegar ég labbaði út frá Borgarskjalasafninu hitti ég fyrir Gylfa Pál Hersi skólafélaga minn úr gaggó og konu hans, (Sigurlaugu?) Þetta var í annað sinn sem ég hitti hann eftir tvítugsaldurinn og hefðu þau skipti mátt verða margfalt fleiri. Vonandi að næstu skipti verði fleiri.

Síðan var rölt á Næstabar. Þegar þangað var komið þekkti ég einungis rekstrarstjórann og barþjóninn (þar komst upp um byttuna mig) Eftir að hafa svipast um eftir einhverjum andlitum sem ég þekkti settist ég hjá bláókunnugu fólki sem sá aumur á mér vesælli. Eftir að hafa setið hjá þeim um stund kom stúlka sem ég vinn með framhjá og ég færði mig um set og að hennar borði. Svo sá ég hjón úr Reykjavík sem ég gjörþekki koma á barinn og aftur færði ég mig um set. Svo hitti ég fyrir sjálfa Vælu Veinólínó í öllu sínu veldi og fannst mér hún öllu laglegri og léttari en fyrirmyndin gefur mér hugmyndir um. Á leiðinni út hitti ég svo heila familíu sem ég þekki og átti ég erfitt með að losna frá Næstabar sökum allra þeirra sem ég þekki og þá sérstaklega þess fólks sem ég ber mikla virðingu fyrir

Semsagt. Vetrarhátíð í Reykjavík var velheppnuð fyrir minn smekk.

föstudagur, febrúar 24, 2006

24. febrúar 2006 - Bíódagur

Ég fór í bíó í gær og sá kvikmyndina Transamerica á alvöru tjaldi. Það sem helst truflaði mig, var að stúlka sem sat við hliðina á mér var í sífellu að taka á móti sms skilaboðum og senda slík. Af hverju geta þessir unglingar af SilvíuNæturkynslóðinni ekki slökkt á símanum sínum ef þeir fara í bíó?

Ég var ekki nógu ánægð með myndina og skil vel að hún hafi bara fengið tvær stjörnur hjá Ólafi H. Torfasyni kvikmyndagagnrýnanda ríkisútvarpsins. Seinnihluti myndarinnar fór út í einhverja endaleysu a la Hollywood með skírskotun til þeirra sem stjórna bandarískum kvikmyndaiðnaði, en ef marka má bandarískar kvikmyndir, eru gyðingar margfalt fleiri í Bandaríkjunum en þeir raunverulega eru. Ég held að það verði að kenna handritinu um verstu ágalla myndarinnar. Þó er margt áhugavert í myndinni og kannski sérstaklega þetta eilífðar baráttumál okkar sem höfum gengið þessa götu, að fá umhverfi okkar, fjölskyldur, ættingja, vini og aðra, til að viðurkenna okkur og tilfinningar okkar. Um leið vekur myndin upp þá spurningu, af hverju þarf að vera með feluleik í kringum kynáttunarvanda og leiðréttingu á kyni. Sjálf fór ég í gegnum stærstan hluta ferlisins með opnum huga og án þess að vera í feluleik. Þrátt fyrir það er enn til fólk sem telur að ég hefði átt að þegja yfir þessari aðgerð minni sem hverju öðru leyndarmáli.

Þá fannst mér íslenskur texti myndarinnar gjörsamlega misheppnaður. Ég þarf greinilega að skamma bekkjarsystur mína úr gaggó fyrir slæma textun myndarinnar. Að minnsta kosti er full þörf á að það fólk sem þýðir svona kvikmyndir fari á námskeið um kynlegt eðli. Það minnir mig svo aftur á það þegar kvikmyndin Das Boot var sýnd í íslenska sjónvarpinu. Þar sem kafbáturinn lá á hafsbotni með alvarlega vélarbilun fór vélstjórinn til skipstjórans og tilkynnti honum að það þyrfti að skipta um strokkfóðringu. Í textun myndarinnar fór hann til skipstjórans og tilkynnti að það þyrfti að skipta um bullukólfshólf.

-----oOo-----

Aðalfundur Ættfræðifélagsins var í gærkvöldi og man ég vart eftir jafn fljótafgreiddum aðalfundi. Það tókst að ljúka öllum aðalfundarstörfum á innan við klukkutíma og var síðan boðið upp á kaffi og með því. Allt það fólk sem ganga átti úr stjórn var endurkjörið og reksturinn náði að verða hallalaus þótt ýmsar blikur séu á lofti á næstu árum.

-----oOo-----

Af íþróttum er það helst að Svíar eru orðnir ólympíumeistarar í krullu kvenna. Krullan er íþrótt sem Íslendingar ættu að geta náð langt í, enda öllu hættuminna að sópa ísinn með kústi en að brjóta sig á skíðum.

-----oOo-----

Loks eru allar Önnur sem lesa bloggið mitt hvattar til að mæta á Önnuhátíðina á Nýlistasafninu Laugavegi 26, á föstudagskvöld klukkan 20.00.

fimmtudagur, febrúar 23, 2006

23. febrúar 2006 - Strákarnir á Borginni

Það hefur verið mikið að gera hjá mér að undanförnu, en ég fann mér ástæðu til að hvíla lúin bein í gærkvöldi, fá mér einn öl og hlýða á boðskap Bubba Mortens og hlusta á gamalt lag um strákana á Borginni.

Upp kom í hugann minning um strák sem var dæmigerður fyrir strákana á Borginni og sem ég kynntist á árunum eftir 1980. Hann var ungur og hann var með fallegustu strákum sem ég hefi fyrirhitt um dagana. Stelpur voru mikið á eftir honum, en hann hafði engan áhuga. Hann hét Sigurgeir og var stundum kallaður Flissfríður sem sagði heilmikið um karakterinn, enda hafði hann gaman af að leika stelpu og hann var hommi af guðsnáð í samfélagi sem hatar þá.

Á þessum árum voru enn skörp skil á milli kynjahlutverka og Sigurgeir fór ekki varhluta af þessum fordómum samfélagsins. Einhverju sinni var hann í kvenhlutverki og var að skemmta sér í miðborg Reykjavíkur og gengu lætin út í nokkrar öfgar, svo mjög að lögreglan sá ástæðu til aðgerða. Er lögreglumennirnir (sem voru greinilega ráðnir fyrir daga upplýsingar um mannlegt eðli) uppgötvuðu hvers kyns var, tóku þeir drenginn inn í Svörtu Maríu og tuskuðu til að hætti þess sem valdið hefur. Þetta hefi ég eftir fólki sem var með honum, en sem gat ekki hönd við reist þegar yfirvaldið var annars vegar og engin urðu kærumálin í kjölfarið. Sjálf var ég víðsfjarri, í útlöndum eða á hafi úti og frétti ekki af þessu fyrr en löngu síðar.

Sigurgeir bar sitt barr aldrei eftir þetta. Um það bil hálfu ári síðar lést hann af völdum alnæmis og var hann í hópi allrafyrstu Íslendinganna sem létust af þeim völdum. Hans var sárt saknað, en fátt hægt að gera nema að reyna að bæta skoðanir almennings á öðruvísi viðmiðum á kynjahlutverkum.

Á þessum árum var ég í krísu. Ég hafði gengið í gegnum misheppnað hjónaband og eignast þrjú yndisleg börn, en hafði ávallt upplifað mig á röngum stað í tilverunni. Ég átti að leika eitthvað sem ég var ekki, eitthvað sem var fjarri eðli mínu. Kynni mín af Sigurgeir, kenndu mér að halda mér á mottunni, að gæta hófsemi og auglýsa ekki eðli mitt. Úr því yfirvöldin beittu þá sem ekki voru jafnöfgakenndir og ég taldist vera á þessum tíma, slíku harðræði sem raun bar vitni, hvernig færu þeir þá að mér? Ég tók enga áhættu og flúði land nokkru síðar, þó ekki af þessum ástæðum sem þó voru ærnar..

Ég vil taka fram að ég hefi löngum átt ágætis samstarf við lögregluna, bæði á Íslandi og í Svíþjóð og veit engan þann starfandi lögreglumann á Norðurlöndum í dag sem vildi feta í fótspor félaga sinna fyrir tveimur áratugum, en hugsið ykkur. Það eru bara tveir áratugir síðan Sigurgeir var laminn af lögreglunni á Lindargötunni í Reykjavík.

miðvikudagur, febrúar 22, 2006

22. febrúar 2006 - Að kanna hugi fólks

Í gær birtist skoðanakönnun sem Félagsvísindastofnun gerði fyrir Samfylkinguna og sýndi að ef gengið yrði til borgarstjórnarkosninga í dag, fengju Sjálfstæðisflokkur og Samfylking sjö fulltrúa hvor flokkur, en Vinstri hreyfingin grænt framboð einungis einn.

Sama dag var sagt frá annarri skoðanakönnun sem Gallup gerði fyrir Vinstrihreyfinguna grænt framboð og þar kom berlega í ljós að meirihluti fólks er á móti nýjum álverum.

http://www.ruv.is/main/view.jsp?branch=2574128&e342RecordID=124231&e342DataStoreID=2213589

Niðurstöður þessara tveggja skoðanakannanna eru þess merkilegri fyrir þá sök að áður hafa verið gerðar skoðanakannanir sem sýna gerólíka niðurstöðu. Það er ekki langt síðan einhver skoðanakönnun var gerð fyrir Sjálfstæðisflokkinn ef mig misminnir ekki og sýndi sú könnun ásamt mörgum fleiri um svipað leyti að Sjálfstæðisflokkurinn hafði yfirburðastöðu í Reykjavík, reyndar mjög óeðlilega yfirburðastöðu, en þessi skoðanakönnun er líka jafn fáránleg.

Á sama hátt birtist könnun fyrir nokkru sem Landsvirkjun hafði látið gera sem sýndi mikið fylgi við stóriðjuframkvæmdir og uppbyggingu nýrra orkuvera.

Þessar tvær nýju skoðanakannanir sýna betur en margt annað, hve opinberar tölur úr slíkum skoðanakönnunum eru varasamar og um leið hve þau fyrirtæki og stofnanir sem selja þessar kannanir, sbr. Gallup og Félagsvísindastofnun, eru reiðubúin að selja sig ódýrt fyrir óskaðar niðurstöður að skapi þeirra sem biðja um þær.

þriðjudagur, febrúar 21, 2006

21. febrúar 2006 - Af Vilhjálmi Þ. og félögum

Það er greinilega kominn kosningaskjálfti í frambjóðendur til borgarstjórnarkosninga í vor. Ekki má birta viðtöl við neinn þeirra sem bera ábyrgð á þeim mistökum sem áttu sér stað varðandi útboðið á lóðum nærri Úlfarsfelli öðruvísi en að það þurfi líka að birta viðtal við Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson frambjóðanda Sjálfstæðisflokksins.

Vesalings maðurinn byrjar allar sínar ræður á að kenna R-listanum um allt það sem farið hefur miður í borginni og flytur sömu ræðuna aftur og aftur. Hann er orðinn verri síbylja en Kató gamli var gagnvart Kartþagó, afsakið ég meinti Guðlaugur Þór Þórðarson var gagnvart Orkuveitunni.. Að auki virðist sem vesalings Vilhjálmur sé einn á framboðslista Sjálfstæðisflokksins því það heyrist ekkert í öllum hinum frambjóðendunum. Ég er hrædd um að karlgreyið verði orðinn útbrunninn löngu fyrir kosningar ef heldur áfram sem horfir.

Það er kannski ágætt að Vilhjálmur skuli standa einn í framboðinu í þetta sinn. Guðlaugur Þór Þórðarson og Hanna Birna Kristjánsdóttir studdu dyggilega við R-listann með kjánalegri framkomu sinni fyrir síðustu kosningar. Því þykir vissara að halda þeim aðeins frá sviðsljósinu í þetta sinn og setja málefnalegri og hógværari einstaklinga í sviðsljósið að þessu sinni. En það heyrist bara ekkert í þeim. Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir sást einu sinni við íhaldsborð Ingva Hrafns á NFS um daginn. Þar var hún innan um öfgasinnaða frjálshyggjupúka sem þurftu að láta ljós sitt skína og auglýsa hve þeir væru klárir og hún komst varla að. Þá hefur Gísli Marteinn hefur verið of upptekinn við að vinna að framgangi Silvíu Nætur fyrir Júróvisjónkeppni vorsins að hann hefur ekki tíma fyrir kosningaslag.

Það er kannski engin ástæða til að kalla fram þetta lið að sinni. Ef yfirlýsingar Steinunnar Valdísar eru réttar, er þetta mál vegna þessara lóðamála við Úlfarsfell eins og stormur í vatnsglasi.

Þar fyrir utan er ég hjartanlega sammála þeim sem átelja þetta útboð á lóðum, því einungis forríkt fólk hefur efni á að leggja út 20 milljónir í lóðarspildu áður en hægt er að byrja að pjakka í jörðina. Svona brjálæði í lóðaverði hlýtur að spenna upp íbúðaverðið enn frekar en orðið var. Ég treysti bara ekki íhaldinu heldur til að stjórna borginni minnug þess hvernig spillingin var í stjórn borgarinnar í marga áratugi.

-----oOo-----

Að lokum vil ég taka fram að ég var ekkert að hóta því að hætta bloggi. Á meðan ég get haldið áfram að hrella fólk með ósvífnum skrifum mínum, mun ég halda áfram að ljúga að lesendum mínum. Það var bara svo skrýtið hve lesendunum fækkaði skyndilega seinnihluta vikunnar, rétt eins og ef ég hefði gert eitthvað á hluta Silvíu Nætur, Andrésar Fó og landsliðsins í tunnustafarennsli.

mánudagur, febrúar 20, 2006

20. febrúar 2006 - Játningar syndara

Ég játa. Ég játa að hafa hæðst að íslenska landsliðinu á tunnustöfum sem nú gerir garðinn frægan og rakar saman gullmedalíum á ólympísku tunnustafakeppninni á Ítalíu. Ég játa líka að hafa hæðst að hinnu frábæru söngstjörnu Silvíu Nótt sem er rétt í þann mund að leggja heiminn að fótum sér.

Ætlið þið nú, mínir kæru lesendur sem hafið yfirgefið mig, að halda áfram að lesa bloggið mitt? Nei? Ég er búin að játa syndir mínar. Ég skal bara halda áfram.

Ég játa hér og nú að Kristinn Björnsson er langbesti skíðamaður sem hefur rennt sér á tunnustöfum norðan Tröllaskaga og þótt víðar sé leitað, jafnvel eftir þverum og endilöngum Eyjafirði.

Ég játa líka að hafa gert grín að viðtalinu við Silvíu Nótt í Kastljósinu. Hún var ekkert dauðadrukkin og rugluð. Hún var bara að leika dauðadrukkinn hálfvita. Ég játa einnig að hafa kallað hana trúð. Hún á ekki skilið slíkt viðurnefni. Öll trúðastéttin er þessa stundina að mótmæla orðum mínum og niðurlægingu sinni á stéttinni fyrir framan húsið hjá mér. Ég skal aldrei aftur kalla Silvíu Nótt fyrir trúð. En má ég kalla hana skoffín?

Ég grátbið ykkur um að yfirgefa mig ekki í neyð minni þegar lesendafjöldinn er kominn langt niður fyrir hundraðið á dag. Ég skal aldrei aftur tala illa um Silvíu Nótt eða skíðalandsliðið. Þau eru alveg ógisslea kúl, skillurru!

Loks bið ég danska forsætisráðherrann afsökunar á að hafa krafist þess að hann bæðist afsökunar fyrir hönd dönsku þjóðarinnar vegna þess að einhver ógisslea góður Dani lítillækkaði þessa múslímsku heiðingja skillurru! Ég ætla ekki heldur að tala illa um þennan ógisslea fína Anders Fó Rasmussen. Skillurru!

laugardagur, febrúar 18, 2006

19. febrúar 2006 - Af Tryggingastofnun og ósigrum

Í sunnudagsblaði Morgunblaðsins kvartar Karl Steinar Guðnason sáran yfir þeirri ósvífni öryrkja að hringja í Tryggingastofnun vegna ósvífinna endurgreiðslukrafna þeirrar stofnunnar gagnvart öryrkjum undir fyrirsögninni: Skjótið ekki sendiboðann!

Mér vitanlega stendur ekki til að skjóta vesalings illa launaða póstburðarfólkið sem ber út þessar tilkynningar frá Tryggingastofnun til fólks. Öryrkjarnir vita sem er að Tryggingastofnun krefur öryrkjana um þessar endurgreiðslur fyrir hönd ríkisvaldsins. Öryrkjar hafa hingað til ekki fengið annað en vont frá ríkisstjórninni sem vill helst ekkert vita af öryrkjum. Því verður að ráðast að þeim sem næstur stendur og það er Tryggingastofnun. Þess þá heldur þegar niðurlag viðtalsins fjallar um mjög gott samstarf Tryggingastofnunar við Jón Kristjánsson heilbrigðisráðherra. Karli Steinari ætti því að vera í lofa lagið að koma þessum skilaboðum frá öryrkjum til ráðherrans næst þegar hann talar við hann.

-----oOo-----

Þrír slæmir ósigrar dundu yfir okkur lítilmáttug á laugardag. Fyrst lenti Dagný Linda Kristjánsdóttir í 28. sæti af 30 keppendum sem luku keppni í svonefndri alpatvíkeppni á vetrarólympíuleikum í Tórinó á Ítalíu. Öfugt við það sem ætla mátti, var þessu tapi fagnað ákaft meðal Íslendinga og má segja að þar sé ólympíuhugsjónin ljóslifandi komin.

Þá tapaði Gránufélagið (Grays Athletics) fyrir hetjunum hugumstóru í Halifaxhreppi í fótbolta. Rétt eins og í fyrra tilfellinu var tapinu fagnað ákaft af stuðningsmönnum Halifaxhrepps þótt þetta sendi þær upp í 2-4 sæti í kvenfélagsdeildinni og auki þar með líkurnar á því að þær þurfi að spila í langneðstu deild að ári.

Loks tapaði íslenska þjóðin undankeppni í Júróvisjón og fagnaði jafnvel enn ákafar en í hinum tveimur tilfellunum. Í hverfinu þar sem ég bý var skotið upp flugeldum í tilefni tapsins þótt vitað sé, að með þessu eru litlar líkur fyrir því að Ísland komist í lokakeppnina í Júróvisjón í Aþenu í vor með trúðinn Silvíu Nótt í fararbroddi. Kannski var þetta hið einasta sem eftir er í áköfum tilraunum til að vinna Júróvisjón, að slá þessu öllu upp í háð og grín. Allt annað hefur verið reynt. Mínar samúðarkveðjur Ísland.

-----oOo-----

Að lokum fær Rakel Bára Þorvaldsdóttir verkfræðingur í Kaupmannahöfn alveg risastórt knús frá mér í tilefni af stórafmælinu. :)

föstudagur, febrúar 17, 2006

18. febrúar 2006 - Af vetrarólympíuleikum ofl.

Það standa yfir vetrarólympíuleikar í Tórínó á Ítalíu þessa dagana. Ég hefi lítt fylgst með þessu, enda með lítinn áhuga á vetrarsporti, nema þá helst hinni eðlu íþrótt skúringakvenna sem kallast krulla upp á íslensku.

Íslendingar hafa aldrei komist nálægt því að komast á pall á vetrarólympíuleikum, reyndar aðeins einu sinni komist á pall á alþjóðamóti á skíðum þegar Kristinn nokkur Björnsson lenti óvart í öðru sæti á einu móti á skíðum fyrir nokkrum árum. Ólafsfirðingar fylltust þá gífurlegu stolti yfir sínum manni og héldu því fram á eftir að þetta væri stærsta íþróttaafrek Íslendings fyrr og síðar. Þetta mont Ólafsfirðinga hljóp svo illa í vesalings Kristin, að hann hætti að geta staðið á löppunum þegar hann renndi sér niður brekkuna og datt. Að lokum hætti hann keppni á skíðum eftir hundrað byltur og tilheyrandi basl.

Í gær var sagt frá ólympíuleikunum í Tórínó í einhverjum fréttatímanum og byrjaði það á því að þulurinn tilkynnti að það væru góðar fréttir af Dagný Lindu Kristjánsdóttur. Svo kom sjálf fréttin þess efnis að hún hefði orðið næstsíðust í að renna sér niður brekku á skíðum. Mér þóttu það ekki góðar fréttir. Það eru auðvitað góðar fréttir ef Íslendingar komast niður eina brekku án þess að brjóta sig, en ef það eitt nægir, má spyrja sig þess hvers vegna er verið að senda fólk á vetrarólympíuleika?

Það er annars merkilegt hvað þessi þjóð sem kennd er við klaka hefur staðið sig frámunalega illa í vetraríþróttum. Hinar Norðurlandaþjóðirnar vinna hvern gullpeninginn í þessum íþróttum á meðan Íslendingar komast ekki nálægt verðlaunapallinum. Meira að segja Danir hafa unnið til gullverðlauna í vetraríþróttum sem enga eiga þó brekkuna til að renna sér í.

-----oOo-----

Um daginn var frá því skýrt í fjölmiðlum að viðgerðir á þakskeggi Þjóðleikhússins myndu kosta einhver hundruð milljóna. Í leiðinni var því bætt við að heildarkostnaður við að gera við allt húsið væru tveir og hálfur milljarður króna. Dýrt er Drottins orðið, segi ég bara. Ætli þessi tala þýði að það eigi að rífa húsið til grunna og byggja nýtt á lóðinni? Kostnaður við nýtt Þjóðleikhús af sömu stærð og gerð og hið gamla yrði varla yfir þessari upphæð. Það er kannski einfaldasta lausnin, að rífa og byggja nýtt.

-----oOo-----

Svo hefur Silvía Nótt verið valin sem kynþokkafyllsta kona landsins á Rás 2. Hvort ætli Andrés önd eða Hrollur hinn hræðilegi verði kosnir kynþokkafyllti karlinn næst þegar slík kosning fer fram á sömu útvarpsrásinni?

fimmtudagur, febrúar 16, 2006

17. febrúar 2006 - Um kvikmyndir og sjónvarpsþætti

Undanfarin fimmtudagskvöld hefi ég setið stjörf yfir ríkissjónvarpinu. Hetjur æsku minnar hafa verið skilgreindar þar í leiknum breskum fræðsluþáttum og ég hefi setið yfir þessum sjónvarpsþáttum, full af spenningi þótt ég hafi vitað söguþráðinn að mestu leyti fyrirfram. Þetta voru að sjálfsögðu þættirnir um frumkvöðla geimferðanna, þá Sergei Pavlovitch Korolev (örugglega vitlaust skrifað) og Werner von Braun.

Í æskuminningunum man ég það enn eins og það hefði gerst í gær er Bessi Bjarnason lék hinn óheppna Júlla Magarín í útvarpsþætti Svavars Gests og lýsti hremmingum sínum, er hann tókst óvart á loft í súrheysturninum sínum og sveif yfir hálfa jörðina í grínþætti þar sem fjallað var um Júrí Gagarín á gamansaman hátt haustið 1961. Síðan hið stórkostlega kapphlaup risaveldanna um yfirráðin í geimnum sem raunverulega lauk með því að menn komust alla leið til tunglsins árið 1969.

Það ber að þakka sjónvarpinu fyrir þessa frábæru þætti um helstu hetjur geimaldarinnar.

-----oOo-----

Loksins er kvikmyndin Transamerica komin í bíó á Íslandi og vil ég endilega hvetja alla sem geta, að skreppa í bíó og sjá þessa verðlaunakvikmynd. Bæði Morgunblaðið og Fréttablaðið fjölluðu um þessa kvikmynd í gagnrýni sinni í gær og annað blaðið gaf sér það að nafn myndarinnar stafaði af ferð mæðginanna þvert yfir Ameríku og kallaði aðalsöguhetjuna fyrir kynskipting. Þetta sýnir vel hve kvikmyndagagnrýnendur dagblaðanna vita lítið um mín hjartans mál og um innihald kvikmyndarinnar.

Þegar ég heyrði fyrst talað um þessa kvikmynd datt mér strax í hug, útfrá nafni myndarinnar, að fjallað væri um transsexual persónu sem reyndist rétt. Ég gef henni allar þær stjörnur sem ég á til.

16. febrúar 2006 - Óheppinn nágranni

Nágrannar mínir í næsta húsi voru að skipta um bíl um daginn. Nýi bíllinn var nýlegur stationbíll, en þau höfðu áður verið á eldri sjálfskiptum bíl.

Á þriðjudagsmorguninn var kalt í veðri, bílrúður hélaðar og rúðuskafan mikilvægari en oft áður. Nágranni minn í næsta húsi var að halda að heiman, teygði sig inn í bílinn eftir rúðusköfunni og gangsetti bílinn í leiðinni án þess að setjast inn fyrst. Því miður var bíllinn ekki sjálfskiptur eins og gamli bíllinn og því fór sem fór. Bíllinn fór í gang, hoppaði mannlaus yfir kantinn fyrir framan, yfir á bílastæðið á móti þar sem enginn var bíllinn og yfir á næstu bílastæðaröð, lenti utan í einum bíl á því stæði, en fór svo á milli þess bíls og míns vinstrigræna Subaru og yfir enn einn kantinn og beint framan á Subaru nágrannakonu minnar. Eftir stóð eigandinn með rúðusköfuna í hendinni og hefur vafalaust bölvað þessu beinskipta drasli í sand og ösku.

Nágranninn á alla mína samúð, en auk þess var hann heppinn að hafa ekki slasað sig og aðra á þessum óförum sínum. Vonandi að þau fái sér sjálfskiptan bíl næst, en svo þarf frúin á fyrstu hæðinni að fá sér nýjan Subaru.

miðvikudagur, febrúar 15, 2006

15. febrúar 2006 - Linda frænka

Það var í júní árið 2000 sem ég hitti Lindu Lyon í fyrsta sinn. Ég hafði kynnst henni rúmlega einu ári áður í gegnum netið þar sem hún var að grafast fyrir um uppruna sinn á Íslandi. Það urðu ánægjuleg kynni og fóru mörg kvöldin í að ræða um daginn og veginn auk eins helsta áhugamáls hennar, áhugann fyrir ættingjunum á Íslandi. Það var ekki til að rýra málin að samkvæmt gömlum ættartölum vorum við fimmmenningar, ættartölum sem síðar hafa verið hraktar, en Linda frænka hélt samt áfram að vera Linda frænka í Ameríku, fædd á hlaupársdaginn árið 1944.

Ein stærsta ósk Lindu var að koma í heimsókn til lands forfeðranna, en til Íslands hafði hún aldrei komið. Það var bara einn hængur á. Linda var með lungnasjúkdóm og hafði verið ráðlagt að fara ekki í flug sökum súrefnisskorts og hreyfihömlunar. Það var svo að vori aldamótaársins að Flugleiðir fundu hjá sér þörf á að bjarga málunum og Linda kom til Íslands 24 júní 2000.

Þarna var Linda ljóslifandi komin, sífellt hlæjandi, í hjólastól með súrefniskútinn, í góðum holdum og reykti mikið. Reykingar hennar við þessar aðstæður urðu mér slíkt áfall að ég ákvað að hætta að reykja og gerði svo alvöru úr því nokkrum vikum síðar, þann 6. ágúst og hefi ekki reykt síðan. Þessar tvær vikur sem hún var á Íslandi var góður tími. Það var farið um allt suðurland, skoðaðar menjar eftir náttúruhamfarirnar dagana á undan og annað það merkilegt sem hægt að komast yfir á stuttum tíma.

Rúmlega tveimur árum síðar kom Linda frænka aftur til Íslands. Þá var hún að verðlauna sjálfa sig, því með þrautseigjunni hafði henni tekist að ná af sér 84 kg af líkamsfitu á tveimur árum, var staðin upp úr hjólastólnum og búin að leggja súrefniskútnum um sinn, en reykti enn. Það var haldið áfram að skoða land og þjóð, dáðst að norðurljósunum og farin ferð norður í land þar sem Linda kynntist íslenskum vetri í fyrsta og eina sinn. Við komum þar að sem tveir bílar höfðu fokið af veginum án þess að slys yrðu á fólki og lentum í minniháttar aðstoð við fólkið í bílunum. Þá var nú Linda frænka í essinu sínu og ég held að ég hafi aldrei séð hana ljóma jafn innilega eins og eftir þetta ævintýri.

Eftir þessa Íslandsför Lindu héldum við áfram góðu sambandi þótt aldrei léti ég verða af því að fara vestur í heimsókn, allt þar til að hún hætti skyndilega öllum tengslum við Ísland fyrir tæpu ári síðan án þess að nokkur skýring væri gefin. Mig grunaði reyndar að þetta væri í tengslum við sjúkdóm hennar því lungnaþemban var farin að ágerast að nýju, en komst síðar að því að tölvunni hennar hefði verið stolið þar sem hún var á leiðinni heim úr viðgerð.

Ég hefi örugglega sagt sögurnar af Lindu margsinnis áður, en í gærmorgun bárust mér þær sorglegu fréttir að Linda hefði kvatt þetta jarðlíf 2. febrúar síðastliðinn og hefur útförin þegar farið fram í heimaborg hennar, Las Vegas í Bandaríkjunum.

Fjölskylda hennar og aðrir ættingjar, hvort heldur er á Íslandi eða Bandaríkjunum, eiga samúð mína alla.

þriðjudagur, febrúar 14, 2006

14. febrúar 2006 - Af Vilhjálmi Þ. ofl.

Af einhverjum einkennilegum ástæðum hefur sá dagfarsprúði og málefnalegi Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson farið mikinn síðan úrslit voru ljós í prófkjöri Samfylkingarinnar. Ég hefi ekki mælt þann tíma sem hann var í útsendingum útvarps í gær, en mig grunar að það hafi verið meira en frambjóðendur Samfylkingar til samans og einvörðungu í þeim tilgangi að skamma Dag B. Eggertsson og kjósendur Samfylkingarinnar.

Hvernig skyldi standa á því að Vilhjálmur sleppir sér svona? Getur virkilega verið að hann sé farinn að óttast um fylgið? Við vitum að tveir helstu andstæðingar Sjálfstæðisflokksins hafa tilkynnt efstu frambjóðendur sína og í báðum tilfellum er um að ræða öfluga málsvara þess fólks sem stendur í miðju eða til vinstri í íslenskum stjórnmálum. Það er kannski ástæða til að óttast fyrir Vilhjálm því nú hefst kosningabaráttan fyrir alvöru.

-----oOo-----

Síðastliðinn föstudaginn sá ég DV álengdar og blasti þar við mér Haukur Snorrason frá Siglufirði ásamt eiginkonu sinni. Mikið hefur verið á blessaðan manninn lagt frá þeim tíma er við sigldum saman fyrir 35 árum síðan. Í gegnum árin hefi ég reglulega heyrt af nýjum fyrirtækjum og uppátækjum sem Haukur og Örn bróðir hans voru að stofnsetja og áttu að verða að stórfyrirtækjum og gróðamyllum, en af einhverjum ástæðum runnu flestar hugmyndirnar út í sandinn áður en þær komu til framkvæmda.

Fyrir nokkrum árum síðan opnuðu Haukur og kona hans heilunarstöð eða eitthvað þvíumlíkt á Skúlagötunni og fengu þau birt viðtal við sig á einhverri sjónvarpsrásinni. “Hvað skyldi þetta endast lengi?” hugsaði ég með mér og skömmu síðar var búllunni lokað. Svo birtast þau aftur, nú í DV og með beint samband við himnaríki og eru þau nú farin að framkvæma lækningar með hjálp lækna sem komnir eru yfir móðuna miklu. Jahérna hugsa ég með sjálfri mér. Það hlýtur að vera einhver gróði af þessu samkrulli við himnaríkið úr því Haukur virðist ætla að endast í þessu!

Hvenær ætli hann stofni söfnuð í kringum loddaraskapinn?

mánudagur, febrúar 13, 2006

13. febrúar 2006 - Af prófkjöri og Toyotu

Nú þegar prófkjöri Samfylkingarinnar í Reykjavík er lokið verð ég að fagna. Miðað við frambjóðendur í prófkjörinu, get ég ekki ímyndað mér sterkari framboðslista en þann sem kjósendur völdu.

Dagur B. Eggertsson hefur staðið sig vel á líðandi kjörtímabili. Hann hefur gert mistök að mínu mati, en hann hefur einnig haft kjark í sér til að viðurkenna þau og batnandi manni er best að lifa. Ég hafði lítið álit á stjórnhæfni Steinunnar Valdísar í byrjun, en eftir að hún varð borgarstjóri hefur hún vaxið með vegsemd hverri. Stefán Jón Hafstein var ekki beinlínis rassskelltur, en hann kemur samt verst út úr þessu prófkjöri. Ég er alveg sátt við létta hirtingu, enda ósátt við hugmyndir hans um Elliðaárdalinn og óþarfa réttindakröfur laxveiðimanna. Að öðru leyti er ég sátt við Stefán Jón, góðan baráttumann og fylginn sér.

Það er athyglisvert að í tveimur af fjórum efstu sætunum sitja manneskjur sem hafa verið óflokksbundnar í Samfylkingunni, Dagur B. og Björk Vilhelmsdóttir í fjórða sæti. Hann er nýgenginn í flokkin, en hún yfirgaf Vinstrigræna og bauð sig fram á lista Samfylkingar án þess að bindast á klafa flokksins og náði góðum árangri. Loks ber að fagna Oddný Sturludóttur sem kom inn án þess að hafa verið áberandi í flokknum, fór hægt af stað og lenti í fimmta sæti.

Ég lendi í vandræðum. Svandís efst hjá Vinstrigrænum og Dagur hjá Samfylkingu. Mig grunar að yfirburðir Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík að undanförnu muni minnka verulega eftir þessi glæsilegu úrslit.

-----oOo-----

Undanfarin tvö sunnudagskvöld hafa verið á dagskrá sjónvarpsins þættir um Bítlabæinn Keflavík. Ekki ætla ég að deila um gæði þessara sjónvarpsþátta eða hvort þeir hafi verið lofgjörð til handa Rúnari Júlíussyni. Það var kannski ekki ætlunin, en ég sat yfir báðum þáttunum og naut þeirra í botn.

Í huganum þyrluðust upp minningar frá þeim tíma er ég var að svindla mér inn í Glaumbæ um helgar, en þá gilti 20 ára aldurstakmark til að komast þangað inn, en tekið vægar á því á fimmtudögum. Þá var nú gott að eiga frænda sem vann í Glaumbæ, Jón heitinn Hildiberg. Þess má geta að Glaumbær brann 26 dögum áður en ég náði tvítugsaldri. Þá var ég víðsfjarri og tvítugsafmælinu var eytt í hafi á leið frá Nýfundnalandi til Finnlands.

Seinni þátturinn var mér öllu skemmtilegri en hinn fyrri, Ðe Lónlí Blú Bojs og Lummurnar sáu til þess og allar minningarnar sem tengdust árunum eftir gos. Fleiri svona þætti takk.

-----oOo-----

Toyota-umboðið á Íslandi er talið eitt frábærasta bílaumboð landsins. Ekki er það einungis vegna góðra bifreiða, heldur og vegna einstaklega góðrar þjónustu við viðskiptavini sína. Ég minnist þess er ein góð vinkona mín og vinnufélagi fékk sér ársgamla Toyotu hjá umboðinu fyrir nokkrum árum. Það kom einhver smágalli upp í bílnum og hún þurfti að setja hann á verkstæði hjá Toyota. Hún fékk annan bíl lánaðan á meðan hennar var inni, endurgjaldslaust. Er hún sótti bílinn daginn eftir, var ekki einungis búið að gera við bílinn. Það var búið að þrífa hann hátt og lágt og á milli framsætanna lá lítill konfektkassi. Þessi stelpa er orðin tryggur viðskiptavinur Toyota til framtíðar.

Þegar ríkisstjórnin var sem mest í höndum útgerðarauðvaldsins um miðjan áttunda áratugarins og óðaverðbólgan hin versta sem sést hefur frá 1923 í Evrópu, var ég á togara í Vestmannaeyjum. Þegar við vorum í landi var gjarnan skroppið á ball og hlustað á Gylfa Ægisson og Ðe Lónlí Blú Bojs. Útgerðin átti eitt landfarartæki sem var Zetor dráttarvél og er til mynd af útgerðarstjóranum sem ekur um á Zetornum. Sá heitir Magnús Kristinsson og var sonur útgerðarmannsins Kristins Pálssonar.

Síðan eru liðin mörg ár. Togarinn er enn að, orðinn 33 ára gamall, en útgerðarstjórinn heldur betur farinn að færa út kvíarnar. Nú er hann orðinn Útgerðarmaðurinn, faðirinn látinn og er sárt saknað. Maggi hefur hinsvegar prófað ýmislegt á undanförnum árum. Hann var einn helsti hvatamaður kaupanna á enska knattspyrnuliðinu Stoke, en viðurkennir að þau kaup hafi verið mistök. Um áramótin keypti hann Toyotaumboðið. Fyrir helgina bætti hann um betur og keypti Bílaleigu Loftleiða (Hertz). Getur það verið? Samkvæmt orðum sjávarútvegsráðherra er útgerðin á hausnum?

http://www.mbl.is/mm/vidskipti/frett.html?nid=1184769


Ég þekki Magga Kristins ágætlega og hann er góður félagi. Ég veit og að hann fer vel með sitt og sinna. En er þetta ekki einum of? Hann kaupir besta bílaumboð landsins einn daginn og stærstu bílaleigu landsins hinn næsta. Allt á sama tíma og útgerð á Íslandi er á hvínandi kúpunni!!!!

-----oOo-----

Þá er það á hreinu. Bíllinn hans Steingríms J. Sigfússonar sem hann keyrði útaf um daginn er af gerðinni Toyota LandCruiser 100. Það sést greinilega á myndum sem fylgja vef VÍS þar sem bíllinn er auglýstur á uppboði tjónabíla

http://utbod.vis.is/items/auctionItem.aspx?idAuctionItem=1596

Það má svo velta fyrir sér þegar myndirnar eru skoðaðar, hvort rétt sé að Steingrímur hafi gleymt að spenna beltin í þessari örlagaríku ferð? Öll rifbein öðru megin brotna, lunga leggst saman, stýrið beyglast, dæmigert fyrir þann sem notar ekki bílbeltin. Er ekki kominn tími til að alþingismenn fari að nota bílbeltin sem þeir lögleiddu?

sunnudagur, febrúar 12, 2006

12. febrúar 2006 - Af prófkjöri

Norður á Akureyri fór fram í gær prófkjör Sjálfstæðisflokksins vegna sveitarstjórnarkosninganna í vor. Meðal þátttakenda var flóttafólk úr Samfylkingunni sem ætlaði sér stóra hluti í nýjum flokki, þau Sigbjörn Gunnarsson fyrrum sveitarstjóri í Mývatnssveit og Oktavía Jóhannesdóttir bæjarfulltrúi og kosin til starfans af meðlimum Samfylkingarinnar á Akureyri.

Ekki veit ég hvað olli því að Sigbjörn og Oktavía snéru baki við flokknum sínum og gengu til liðs við höfuðandstæðinginn, en með því að skipta um flokk, voru þau í reynd að hverfa frá þeirri stefnu Samfylkingarinnar að ganga í Evrópusambandið, en einnig hurfu þau frá ýmsum stefnumálum í velferðarmálum þó ekki vilji ég halda fram að þau hafi yfirgefið sósíalismann. Samfylkingin hefur yfirgefið þá stefnu fyrir löngu og stendur of nærri Sjálfstæðisflokknum í ýmsum þjóðfélagsmálum í dag þannig að það ætti vart að hindra störf þeirra í sveitarstjórnarmálum.

Úrslit prófkjörsins liggja nú fyrir og sitja þessir tveir frambjóðendur eftir með rauðan bossann eftir rassskellingu kjósenda Sjálfstæðisflokksins sem höfnuðu þeim alfarið, en Sigbjörn hafnaði í níunda sæti og Oktavía í því fimmtánda. Það má deila um af hverju kjósendur höfnuðu þessum reynsluboltum úr sveitastjórnarpólitíkinni, en vafalaust munu kjósendur Samfylkingarinnar á Akureyri geta haldið mikla kosningagleði eftir þetta prófkjör, því það er ljóst að ekki fór fylgið með Sigbirni og Oktavíu þegar þau yfirgáfu flokkinn sinn.

-----oOo-----

Ég var farin að hafa miklar áhyggjur af hetjunum hugumstóru í Halifaxhreppi eftir slæmt gengi liðsins að undanförnu í ensku kvenfélagsdeildinni þar sem þær unnu hvern leikinn á fætur öðrum og höfðu komið sér rækilega fyrir í öðru til þriðja sæti í deildinni. Í gær mættu þær nautunum í Héraford í steikhúsi hinna síðarnefndu, belgdu sig út af nautafillé með bökuðum kartöflum og bernaissesósu áður en þær hófu leikinn og þá tókst að bjarga andlitinu.

Hetjurnar okkar skiluðu nú því sem til var ætlast og töpuðu snilldarlega leiknum og féllu niður í sjötta sæti með þessum glæsilega ósigri. Að auki eygja þær möguleika á að komast enn neðar, en Útgönguborg fylgir fast á eftir þeim og á leik til góða gegn vonlausum andstæðingi.

laugardagur, febrúar 11, 2006

11. febrúar 2006 - Öll dýrin í skóginum ...

...eiga að vera vinir, var megininntak leikritsins um Dýrin í Hálsaskógi. Það getur verið erfitt að uppfylla þessa ósk á lítilli jarðarkringlu með sex milljarða íbúa af mannkyni auk allra hinna dýranna. Af þessum sex milljörðum eru um tuttugu prósent múslímar og eru þeir taldir vera önnur fjölmennustu trúarbrögð í heimi. Hvort sem okkur líkar betur eða verr hérna uppi á Klakaskerinu, þá verðum við að taka tillit til þeirra rétt eins og til hinna dýranna í skóginum.

Ég er ekkert hrifin af íslam, hefi aldrei verið og mun aldrei verða, ekki fremur en ýmsum öfgahópum innan kirkjunnar. Það er þó margt jákvætt í íslam eins og afneitun skurðgoðadýrkunar sem kristnir íbúar þessa heims mættu alveg taka til sín. Nú hefur að auki komið í ljós hyldýpisgjá á milli þessara tveggja trúarbragða sem trúa á sama guðinn vegna þessarar sömu skurðgoðadýrkunar.

Er ég ritaði pistilinn minn fyrir þremur dögum um Múhameð spámann, voru margir til að mótmæla skrifum mínum. Ég spyr á móti, hvað eigum við að gera? Við getum gert eins og George Dobbljú Bush og Anders Fó Rasmussen og ráðist inn í lönd múslíma og hersetið þau og við getum líka reynt að beita sömu aðferð og Hitler beitti gagnvart gyðingum og reynt að útrýma þeim. Hvorug aðferðin er góð, ekki heldur sú að senda einhverja smælingja frá Íslandi og Noregi með byssudellu til að leika stríðsleik í hersetnum löndum þeirra undir nafni friðarsveita. En eitt getum við gert. Við getum boðið fram sáttarhönd án þess að gera það með byssunni eins og Anders Fó.

Einhver benti mér á að Anders Fó hefði beðið múslíma afsökunar á birtingu teikninganna í Jyllandsposten. Ég skoðaði blöðin og sá ekkert. Ég sá í Morgunblaðinu afsökunarbeiðni af vægustu gerð, setta fram af Jyllandsposten, en hvergi sá ég afsökunarbeiðni Anders Fó. Ég sá hinsvegar frétt þess efnis að hann ætlaði ekki að gera það. Ég skal þó ekki fullyrða að Anders Fó hafi ekki beðist afsökunar. Hann gæti hafa gert það svo lágmæltur að fáir heyrðu til hans, en ég les ekki dönsku blöðin daglega svo það gæti farið framhjá mér.

Það skiptir ekki máli héðanaf. Boltinn er farinn að rúlla og þessar teikningar og aumingjaleg framkoma Anders Fó Rasmussen í þessu máli eru búin að skaða dönsku þjóðina til lengri tíma. Þeir gætu vissulega rétt aðeins úr bakinu með því að kalla innrásarher sinn heim tafarlaust áður en fer á enn verri veg.

Ég á hinsvegar ekki von á því að Anders Fó Rasmussen sé nógu gáfaður til þess að beita aðgerðum sem eru dönsku þjóðinni fyrir bestu og rétta fram sáttarhönd.

föstudagur, febrúar 10, 2006

10. febrúar 2006 - Mikið að gera

Ég er í miðri vaktatörn í vinnunni og hefi ekki haft tíma til að blogga eitt né neitt. Það er ekki til að bæta úr, að nýja danska skipaskráin hefur átt hug minn síðastu dagana og hefi ég verið að blaðra í henni, bera saman við ýmsa þætti á netinu og blaðrað meira í þeim tilgangi að gleypa alla þá visku sem bókin hefur að geyma. Þrátt fyrir bókina hefi ég skilað mínu og fullyrði ég, að enginn skilvís neytandi heitavatnsins á höfuðborgarsvæðinu hafi þurft að líða skort á heitu vatni mín vegna.

Þega heim var komið fékk ég góða heimsókn og eyddi kvöldinu með skemmtilegu fólki, en ekki bara kisum í uppreisnarhug. Því verður lítið um djúphugsandi pistla hér þar til á föstudagskvöld.

miðvikudagur, febrúar 08, 2006

9. febrúar 2006 - Af dópistum

Ljóst er að orð mín frá því í gær ollu nokkurri geðshræringu meðal lesenda minna og hefi ég því ákveðið að fresta frekari skrifum um Múhameð spámann um sinn. Það er líka nóg annað sem ég er að velta fyrir mér.

Fíkniefnadeild lögreglunnar hefur vakið athygli á því að læknar hafi aðstoðað fíkniefnasmyglara við að losa efni úr innyflum þeirra, hafi þau stoppað á leiðinni út. Jafnframt þessu hafa þeir gert þá kröfu til lækna, að þeir tilkynni til lögreglu ef þeir þurfa að hjálpa fólki við að ná efnunum út, en læknar bera við þagnarskyldu sinni gegnvart sjúklingnum. Landlæknir hefur bent á þá leið að lagabreytingu þurfi á Alþingi til að unnt sé að létta á þagnareið lækna og að það þurfi að fara mjög varlega í slíka lagasetningu.

Mín skoðun á þessu máli er einföld. Næst á eftir læknaeiðnum er þagnarskyldan nánast heilög. Með því að kjafta frá, eru þeir að storka örlögunum. Því er einfaldast og best að reglurnar skuli áfram vera svo harkalegar sem hingað til.

Ég hefi aldrei prófað sterkari fíkniefni en tóbak og brennivín. Ég hefi alla tíð verið mjög andvíg neyslu ólöglegra fíkniefna og ég þekki lítið til þeirra undirheima þar sem misnotkun fíkniefna ræður ríkjum. Eitt veit ég þó, eins og reyndar stór hluti almennings, að fíkniefnaheimurinn er harður og menn svífast þar einskis við að ná fram markmiðum sínum. Eitt og eitt mannslíf skiptir litlu máli fyrir þá sem þar ráða og fátt gert í þeim tilgangi að koma illa höldnum einstaklingum undir læknishendur ef eitthvað bjátar á eins og dæmin sanna sbr líkfundarmálið fyrir austan og fleiri mál þar sem menn svikust um að kalla á aðstoð ef einhver var við dauðans dyr.

Hvernig verður þá ástandið ef lög krefja lækna um að kjafta frá ef þeir komast að einhverju slíku í starfi sínu? Svarið er einfalt. Sjúklingarnir munu í flestum tilfellum verða látnir deyja drottni sínum frekar en að þeim verði komið til aðstoðar og líkfundarmálunum mun fjölga mikið.

Það eru vafalaust til svo illa þenkjandi einstaklingar sem hugsa sem svo, að með því að einhver dópsmyglarinn deyi, verði einum dópistanum færra. Ég lít hinsvegar svo á að lífið sé heilagt og að það sé ítrasti réttur sérhverrar manneskju. Allt sem gert er í þeim tilgangi að deyða manneskju eða að koma í veg fyrir að hún njóti sjálfsagðrar læknishjálpar er af hinu illa. Það er sama hversu illa einn einstaklingur er haldinn af fíkniefnaneyslu, það mun enginn aðstandandi geta hugsað sér að neytandinn deyi, hvað þá á jafn grimmilegan hátt eins og með stíflaða þarma.

Hversu mörg lík ætli liggi þegar innlinduð í svarta plastpoka á hafsbotni hringinn í kringum landið og hversu mjög mun þeim fjölga verði hugmyndir fíkniefnalögreglunnar að veruleika? Þá er nú betra að læknarnir afhendi efnin til lögreglu án þess að segja til smyglarans.

þriðjudagur, febrúar 07, 2006

8. febrúar 2006 - Af Múhameð spámanni

Það er sem að bera í bakkafullan lækinn að fjalla nú um myndirnar af Múhameð spámanni sem enginn veit lengur hvernig leit út, enda var hann uppi á sitt besta fyrir hartnær 14 öldum síðan og hafa myndir af honum ekki verið leyfðar í ríkjum múslíma síðan þá.

Múslímar og fleiri líta á myndir af spámönnum sínum sem skurðgoðadýrkun og ekki við hæfi. Þegar að auki er verið að hæðast að trúnni með skopteikningum af spámanninum og hann sýndur við óviðurkvæmilega þætti sem brjóta í bága við kennisetningarnar, er eðlilegt að fylgjendum hans sárni.

Biskup Íslands sárnaði þegar Spaugstofan gerði góðlátlegt grín að Jesús Kristi og kærði þá félaga fyrir guðlast. Sömu útreið fékk Úlfar Þormóðsson, en öfugt við Spaugstofuna var hann dæmdur af verkum sínu. Þó er kristni sú sem Jesús Kr. Jósefsson boðaði, öllu frjálslyndari en sú sem Múhameð boðaði. Hinsvegar hafa fylgjendur Jesús oft farið offari í túlkun á kristnidómnum. Ef íslenskir blaðamenn hefðu farið jafn frjálslega með kenningar kristninnar og danskir blaðamenn fóru með kenningar Múhameðs, hefði biskup vafalaust kært þá fyrir guðlast og krafist þyngstu refsingar sbr. kæruna gegn Úlfari Þormóðssyni.

Frelsi í fjölmiðlun býður ekki að blaðamönnum sé frjálst að gera hvað sem þeim sýnist. Þeir verða að bera ábyrgð á því efni sem þeir setja fram og skammast sín ef þeir fara yfir strikið og taka afleiðingum gerða sinna. Blaðamenn Jyllandsposten fóru yfir strikið, en í stað þess að skammast sín og biðja múslíma afsökunar á frumhlaupi sínu, óðu þeir áfram eins og naut í flagi og þrættu fyrir að hafa gert neitt rangt. Forsætisráðherra Danmerkur bað ekki heldur afsökunar fyrir hönd dönsku þjóðarinnar. Það er eðlilegt. Hann er stór kall og er í stríði við múslímskar þjóðir og vill komast yfir hluta olíugróðans. Slíkur maður er of stór til að kunna að skammast sín, þó ekki sé nema fyrir hönd sinnar litlu þjóðar.

Af hverju eru þessir menn svona heimskir að kunna ekki að skammast sín, heldur halda áfram að þráast við eins og asnar? Þessi bjáni, Anders Fogh Rasmussen, átti einfaldlega að biðja múslímskar þjóðir afsökunar á frumhlaupi þegna sinna og vona að svona komi ekki fyrir aftur, síðan að óska þess við Jyllandsposten að þeir gæti hófsemi og stillingar í myndbirtingum sem gætu skaðað hagsmuni Danmerkur. En hann reyndist of þrár til að gera neitt af viti.

Ef ég hitti fyrir óánægðan viðskiptavin Orkuveitunnar sem telur Orkuveituna hafa svikist um afhendingu vatns eða rafmagns af ítrustu gæðum, þá ber mér skylda til að biðja þann hinn sama afsökunar á þessu og vísa viðskiptavininum á þann aðila innan Orkuveitunnar sem getur leyst úr máli hans. Viðskiptavininum kemur það svo ekkert við hvort ég sé sek af ætluðum vörusvikum eður ei. Hann á rétt á sinni vöru, vatni og rafmagni, en mér ber sem óbreyttum starfsmanni, að viðurkenna réttmætar kröfur hans. Anders Fogh Rasmussen ber öllu ríkari ábyrgð og á að biðja opinberlega afsökunar sem eitt helsta höfuð dönsku þjóðarinnar.

Það kemur svo málinu ekkert við hvert álit, ég eða Anders Fogh Rasmussen, höfum á íslamstrú.

7. febrúar 2006 - Bloggleti

Ég sit hér á aukalegri næturvakt í vinnunni. Svo eru allir svo vondir við mig, bara af því að ég held ekki með Silvíu Nótt í Júróvisjón. Ég fer bara grátandi heim.

Í hádeginu í gær er ég mætti í hádegismatinn í mötuneytinu, var talað um Silvíu Nótt á öðru hverju borði. Það kom mér reyndar ekki á óvart því að ég heyrði fólk lýsa yfir stuðningi við hana löngu áður en lagið hennar kom út á netinu. Ég fékk lagið sent, en ákvað að hlusta ekki á það fyrr en í sjónvarpinu. Svo er Silvía Nótt ekki í uppáhaldi hjá mér, ekki frekar en Hildur Vala sem þjáist af SilvíuNæturheilkenninu og finnst alveg ógisslega gaman að syngja með Stuðmönnum.

Mér er alveg sama hvað fólk segir um þetta ömurlega lag Silvíu alías Ágústu. Ég ætla að greiða Ragínu Ósk atkvæði mitt þótt peningunum sé kastað á glæ að tæpum tveimur vikum liðnum.

Hinsvegar fékk ég góða sendingu með póstinum í gær, dönsku skipaskrána 2006. Eins og allir vita sem hafa lesið bloggið mitt, er sögu íslenskrar kaupskipaútgerðar lokið, þökk sé stjórnvöldum. Við sem enn höfum gaman af að sjá fegurð þá sem fylgir mörgum farskipum, getum ekki lengur notið glæsileika íslenskra skipa. Glæsilegustu skipin sem sigla um heimshöfin eru frá Mærsk í Danmörku og einfaldasta ráðið til að fylgjast með þeirri glæsiútgerð er að kaupa reglulega skipaskrána með myndum sem nú er komin út í lit.

http://www.jtashipphoto.dk/Gudrun%20Maersk%20CH.jpg

Ég hefi því eitthvað til að gleðja augað á næturvaktinni.

mánudagur, febrúar 06, 2006

6. febrúar 2006 - Tapsár?

Þá hefur Kristján Hreinsson stórskáld í Skerjafirði lagt fram stjórnsýslukæru gegn útvarpinu vegna lagsins hennar Ágústu Evu Erlendsdóttur alias Silvíu Nótt í íslensku útgáfunni af Júróvisjón. Það er eðlilegt að hann sé sár. Það er ákveðið að hún muni vinna keppnina rétt eins og að búið er að ákveða að Ragnhildur Steinunn mun vinna atkvæðagreiðsluna um kynþokkafyllstu konuna á konudaginn eftir nokkrar vikur.

Það er kannski ekki alveg hægt að bera þær tvær saman, Ragnhildi og Silvíu. Ragnhildur Steinunn er að því leyti verðugur arftaki fjarskyldrar frænku minnar að norðan sem ekki fékk að vinna þennan titil í fyrra, að hún er í sambúð með frænda mínum í fjórða lið af Varmadalsættinni, en unglingar Íslands ætla að kjósa Silvíu Nótt. Þeim er alveg sama um gæði lagsins sem mér finnst óttalega lélegt, eða er það söngkonan sem er léleg?

Í fyrra tók einhver Norðmaður í glansgalla og grín, þátt í Júróvisjón með eitthvert það lélegasta þungarokkslag sem ég hefi heyrt. Hann komst alla leið í lokakeppnina á sama tíma og Selma okkar Björnsdóttir féll úr undankeppninni með lag sem spáð hafði verið sigri. Af hverju ekki að grínast líka? Eftir tuttugu ár af alvöru og sigurvonum hefur ekkert gengið og kominn tími til að reyna eitthvað nýtt.

Fyrir tveimur árum söng náungi einn frá Austurríki um dýrin sín í Júróvisjón og var með mömmu sína á sviðinu. Íslenskir fjölmiðlar fóru háðulegum orðum um þetta ágæta framlag, en íslenska þjóðin gaf því tíu stig ef mig misminnir ekki og það fékk þrjár hringingar frá mér auk þess að það endaði mjög ofarlega í lokakeppninni.

Látum Kristján Hreinsson sigla sinn sjó. Þótt ég sé langhrifnust af laginu með Regínu Ósk, þá held ég að Silvía Nótt ásamt Homma og Namma fari alla leið í lokakeppni Júróvisjón.

sunnudagur, febrúar 05, 2006

5. febrúar 2006 - Enn af handboltanum

Það mætti ætla að ég væri mjög hrifin af handbolta þegar haft er í huga að þetta er þriðji dagurinn sem ég eyði plássi í þá ofbeldisíþrótt. Reyndin er þó sú að ég hefi lítinn áhuga fyrir íþróttinni og enn minna vit á henni.

Í gær birtust fréttir í Morgunblaðinu þess efnis að Viggó Sigurðsson hefði sagt upp störfum sem þjálfari handboltalandsliðsins. Í viðtali við Morgunblaðið kvartar hann sáran yfir fjölmiðlagagnrýni á sig, eða eins og vitnað sé til hans sjálfs, gagnrýni manna sem hafa sinnt þjálfun, en ekki náð merkilegum árangri sjálfir sem þjálfarar. Sjálfur var Viggó Sigurðsson manna óvægnastur við að gagnrýna aðra þjálfara áður en hann komst í núverandi stöðu sína.

Það má vera að umræddur Viggó geti stært sig af góðum árangri með handboltalandsliðið að undanförnu, þótt ekki teldi ég það góðan árangur að fimm leikmenn af innan við tuttugu skuli hafa meiðst á einni viku. Ég er ekki jafnviss um að leikmenn íslenska landsliðsins séu mér og Viggó sammála. Einn hefur tilkynnt að hann ætli sér ekki að leika aftur með liðinu á meðan Viggó sé þar þjálfari. Að auki lá við að Sigfús Sigurðsson færi heim í fýlu fyrir landsleikinn við Norðmenn og sér eftir því í dag að hafa ekki gert það, hafi ég skilið orð hans í Morgunblaðinu rétt. Þá er ljóst að fleiri leikmenn voru reknir útaf í refsingarskyni fyrir geðofsaköst þjálfarans gegn dómurum leikjanna.

Ég hefi ekkert vit á handbolta, en veit hve mannleg samskipti eru mikils virði. Því held ég að það sé í góðu lagi þótt landsliðsþjálfarinn taki pokann sinn í samræmi við uppsögn sína.

-----oOo-----

Björn Bjarnason telur að nýja leyniþjónustan hans sé ekki leyniþjónusta, heldur greiningardeild innan lögreglunnar. Þá vitum við það. Þetta er ekki leyniþjónusta, heldur greiningardeild.

Ég bíð spennt eftir næstu kvikmynd um njósnara greiningardeildar hennar hátignar, James Bond.

-----oOo-----

Ekki gekk betur hjá hetjunum okkar í Halifaxhreppi í gær. Þær lentu í því að spila gegn greyjunum hans Kidda litla og ætluðu sér að spila upp á þægilegt tap til að halda sér í kvenfélagsdeildinni. Það fór þó öðruvísi en ætlað var, því strákarnir hans Kidda litla kunnu bara ekki að skjóta á mark og því endaði leikurinn með steindauðu jafntefli.

Því sitja hetjurnar okkar enn í öðru til þriðja sæti í kvenfélagsdeildinni og mega þær nú fara að örvænta.

laugardagur, febrúar 04, 2006

4. febrúar 2006 - Af öryggismálum

Fjarskyldur ættingi minn lagði fram hugmyndir sínar að öryggislögreglu eða leyniþjónustu á Íslandi, eitthvað í skyldleika við KGB, CIA , MI5 eða þá SÄPO á ríkisstjórnarfundi í gærmorgun. Sjálf get ég ekki séð mikla ástæðu til að koma á slíkum leynilögregluher sem á væntanlega að starfa með lagaboði en samt í felum.

Stærsta hættan sem steðjar að íslensku þjóðinni er ekki skæruliðaárás eða bylting, heldur þátttaka Íslands í stríðinu í Írak og sleikjuháttur ríkisstjórnarinnar gagnvart bandarískum yfirvöldum. Því er raunverulega nóg að losa þjóðina við hættuna sem stafar af slíku frekar en að espa upp hernaðarhyggju landans, t.d. með því að losa þjóðina við fjórar einskis nýtar orrustuþotur af landinu og taka Keflavíkurflugvöll alfarið undir þarfir borgaralegrar starfsemi.

Ég get því miður ekki losað mig við umræddan ættingja úr ættinni á sama hátt og ég losaði mig við nafna hans sem er aðstoðarmaður einhvers svokallaðs forsætisráðherra því ættareinkennin leyna sér ekki. Bæði erum við grettin og vindþurrkuð, jafnt að innan sem utan af margra alda roki sem leggur meðfram Esjunni, en slíkur ljótleiki einkennir fólk sem er ættað af Kjalarnesinu.

----oOo----

Það er ekki mikið að frétta af mér þessa dagana. Það hefur verið rólegt í vinnu og ekkert spennandi að ske í kringum mig. Rétt eins og allt annað er tíðindalítið, var ég á öryggisnefndarfundi í gærmorgun þar sem uppkast að slysaskýrslu síðasta árs var yfirfarið. Samkvæmt slysaskýrslunni höfðu sextán slys átt sér stað síðasta ár á þessum vinnustað með samtals 560 starfsmenn, flest minniháttar með vinnutap í örfáa daga, tognun, fingurbrot eða flís í auga. Fyrir bragðið fór mikill tími í að ræða eitt alvarlegt slys þar sem verktaki (ekki starfsmaður) varð fyrir bíl og slasaðist illa.

Því miður sér öryggisnefndin ekki um öryggismál íslenska landsliðsins í handbolta. Þar voru fjögur slys á tuttugu manna hópi á einni viku, heilahristingur, rifbeinsbrot, axlarmeiðsli og kjálkabrot. Þá hefðum við orðið að gera ráðstafanir í samræmi við hættumatið á mannskapnum og miðað við fengna reynslu. Leikmenn hefðu að sjálfsögðu allir fengið hjálma og uppháa öryggisskó, andlitshlífar, axlarhlífar, legghlífar og punghlífar. Þá hefðu þeir fengið betri búninga með endurskinsborðum og vettlinga við hæfi.

Ég er sannfærð um að með slíkum ráðstöfunum og kröfum um notkun þessa öryggisbúnaðar, mætti koma í veg fyrir flest eða öll þau meiðsl sem hafa verið að hrjá íslenska landsliðið. Það er svo önnur saga hvort þeim tækist að vinna leik í slíkum búningum.

föstudagur, febrúar 03, 2006

3. febrúar 2006 - Handbolti?

Það fór fram handboltaleikur í gær. Ég er algjör fanatík á íþróttir og þoli ekki þjóðarrembing, hvort heldur hann er íslenskur eða sænskur. Ég skal þó viðurkenna að ég hefi átt það til að hrífast með.

Ég hreifst með íslenska landsliðinu í handbolta þegar það vann einhverja keppni B-þjóða árið 1989 og ég hoppaði hæð mína af fögnuði þegar Svíþjóð lenti í 3. sæti í heimsmeistarakeppninni í fótbolta árið 1994. Auðvitað fagnaði ég líka frábærum árangri Völu Flosadóttur þegar hún náði sér í ólympíubrons árið 2000. Þar með er fögnuði mínum lokið.

Ég á sænskt vegabréf. Ég hefi notað það óspart þegar Ísland og Svíþjóð eru að keppa í handbolta en heldur ekkert umfram það. Ég hefi haft vegabréfið mitt góða með mér í vinnuna hér á Íslandi til að storka Íslendingum, veifa sænskum passanum framan í sára Íslendingana bölvandi í sand og ösku eftir tap gegn Svíum og sagt: “Strákarnir okkar unnu”.

Nú var ekki um slíkt að ræða. Svíþjóð var ekki með í þessari keppni sem háð var. Ég veit ekki af hverju. Ég þurfti því ekki að taka passann með mér í vinnuna. Ég horfði ekki heldur á neinn leik í þessu móti. Stundum hafði ég kveikt á útvarpinu og heyrði útsendinguna og hve dómararnir voru alltaf á móti Íslendingum.

Ég heyrði í fréttum að einn hefði skaddast á öxl og annar hefði fengið heilahristing. Verra þótti mér að heyra að einn hefði rifbeinsbrotnað og einn kjálkabrotnað. Svo var einhver fjöldi Íslendinga rekinn útaf fyrir óvæginn leik og svo fengu allir hinir minniháttar meiðsli. Hvort voru drengirnir að spila handbolta eða taka átt í fjöldaslagsmálum?

Ég held að Íslendingar væru betri í skák og snóker, en í guðanna bænum, hættið að spila handbolta, eða var þetta handbolti? Af lýsingum að dæma virtist þetta eiga lítið skylt við handbolta, fremur fjöldaslagsmál.

fimmtudagur, febrúar 02, 2006

2. febrúar 2006 - Loksins vaknaði Alþingi af Þyrnirósarsvefni

Í gær fóru fram umræður utan dagskrár á Alþingi um stöðu íslenskra kaupskipaútgerða. Málshefjandi var Guðmundur Hallvarðsson stýrimaður og alþingismaður sem var skipverji á íslenskum kaupskipum á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar og fyrrum formaður Sjómannafélags Reykjavíkur svo honum ætti að vera málið kunnugt. Benti Guðmundur á að Íslendingar væru að tapa þekkingu og reynslu af kaupskipaútgerð vegna sinnuleysis íslenskra stjórnvalda.

Þetta eru orð í tíma töluð. Þeim hefði bara átt að koma á framfæri miklu fyrr. Íslenskri kaupskipaútgerð hefur farið hnignandi í aldarfjórðung fyrir framan augun á íslenskum ráðamönnum og enginn gert neitt né sagt neitt, nema Sturla Böðvarsson sem fagnaði nýju skipi Færeyinga með forráðamönnum Samskipa fyrir einu ári.

Guðmundur beindi máli sínu fyrst og fremst að Árna Mathiesen fjármálaráðherra og kom að tómum kofanum í svörum ráðherrans sem hafði ekkert gert til að kynna sér málin, en ætla hefði mátt að samgönguráðherra hefði átt að hafa forgöngu um slíkt hagsmunamál íslenskra farmanna. Mér er hinsvegar ókunnugt um að Sturla Böðvarsson samgönguráðherra hafi opnað munninn við þessa umræðu, nema þá til að geispa.

Þegar Eimskipafélag Íslands var stofnað 1914, var það sannarlega óskabarn íslensku þjóðarinnar sem sá siglingar með íslenskum farskipum og íslenskum farmönnum sem mikilvægan hornstein í sjálfstæði þjóðarinnar. Nú eru siglingarnar komnar úr höndum Íslendinga á meðan Alþingi horfir á og gerir ekki neitt.

----o----

Eins og allir vita hafa fjölmiðlar alveg sérlega gaman af að fjalla um sjálfa sig í fjölmiðlum. Tvær slíkar smáfréttir hafa borist eyrum landsmanna síðasta sólarhringinn. Annars vegar er það “sigurlagið” í íslenska hluta Júróvisjón sem reyndist hafa farið á flakk á netinu. Svei mér þá ef ég fékk það ekki líka þótt ég hefi ekki nennt að hlusta á það ennþá auk þess sem Silvía Nótt er ekki í neinu uppáhaldi hjá mér. Ég fæ að heyra það hvort eð er á laugardagskvöldið. Ég er hinsvegar mjög efins í hvort telja beri þennan netflutning lagsins “Til hamingju Ísland” með Silvíu Nótt sem opinberan flutning þar sem lagið hefur ekki verið kynnt opinberlega ennþá. Þegar haft er í huga að fjöldi fólks er búinn að ákveða að kjósa þetta lag án þess að hafa heyrt það, skil ég vel að aðrir keppendur vilji losna við það úr keppninni.

Hin fjölmiðlafréttin er um Guðmund Magnússon. Einhversstaðar sá ég að hann hefði verið rekinn af Fréttablaðinu fyrir að fjalla um DV málið á “ótilhlýðilegan” máta og fengið tiltal fyrir frá yfirritstjóranum Gunnari Smára Egilssyni sem einnig er lærlingur Eiríks Jónssonar yfirsóða á DV sem enn situr á sínum skítuga rassi og heldur áfram að ausa viðbjóði yfir landslýð. Af hverju lét stjórn 365 miðla ekki Gunnar og Eirík fara um leið og Jónas og Mikael? Ég skil það ekki. Allavega mun ég ekki opna DV aftur á næstunni nema með sótthreinsuðum hönskum.

miðvikudagur, febrúar 01, 2006

1. febrúar 2006 - Lýðræðissjónarmið?

Fyrir nokkru fóru fram kosningar í Palestínu. Þegar ljóst var að Hamas samtökin höfðu unnið kosningarnar með talsverðum meirihluta, ráku ríkisstjórnir nokkurra landa upp ramakveim og byrjuðu samstundis að bera fram hótanir gegn þeim sem sigruðu kosningarnar.

Ég er ekkert sérstaklega hrifin af þessum nýju valdhöfum Palestínu. Ég er ekki hrifin af þessari ögrandi harðneskjulegu stefnu Hamas gagnvart Ísrael, en um leið geri ég mér fulla grein fyrir samtryggingarkerfi Palestínuþjóðarinnar sem Hamas hefur haldið gangandi á sama tíma og Fatah hafa verið uppteknir af að viðhalda öryggishagsmunum yfirstéttar Palestínu Mér ber samt að virða úrslit þessara kosninga, enda var slíkur fjöldi vestrænna embættismanna viðstaddur á kjörstöðum, að kosningasvindl hefði verið illframkvæmanlegt.

Ég velti fyrir mér hverskonar lýðræði það er sem vesturveldin sjá fyrir sér í Palestínu ef flokkurinn sem vinnur fyrir fólkið í landinu má ekki vinna kosningar? Er það í anda bandarískra stjórnvalda og þeirra lýðræðishugmynda sem hafa nú hafið linnulausan áróður gegn Hamas, rétt eins og þeir héldu uppi linnulausum áróðri gegn Salvadore Allende um þriggja ára skeið uns þeir studdu valdagráðugan fjöldamorðingja til valda, mann sem nú er fyrirlitinn og hataður af stórum hluta chileönsku þjóðarinnar? Þetta er kannski rétta aðferðin við næstu forsetakosningar í Bandaríkjunum, að neita að viðurkenna þann sem vinnur forsetakosningar þar í landi ef sá hinn sami er öfgafullur hægrimaður af sama meiði og George Dobbljú Bush.

Ég held að vesturveldin verði að gefa Hamas tækifæri, í stað þess að hefja hótanir í garð þeirra um leið og ljóst var að sigurinn var þeirra. Ég virði meira að segja úrslitin í prófkjöri Framsóknarflokksins þótt Björn Ingi Hrafnsson hafi unnið og ónefndur Gestur hafi reynt að smala sínu fólki til að greiða atkvæði utankjörstaðar, enda er ég ekki í Flokknum, ekki frekar en stuðningshópur Gests sem kaus utankjörstaðar.

----o----

Á morgun kemur síðasti jólasveinninn til byggða, sjálfur Kortaklippir.