laugardagur, febrúar 11, 2017

11. febrúar 2017 - Forseti Íslands
Ég hefi aldrei gengið með þá þrá í hjarta að fá að henda forseta Íslands í sjóinn. Vissulega hefi ég verið ósátt við einstöku embættisfærslur forsetans, þá helst þess sem sat á Bessastöðum á undan núverandi forseta, en aldrei svo að ég óskaði honum dauða og djöfuls, þvert á móti.

Þegar kom að neyðarkallsdeginum 2017, þ.e. 112 deginum þurfti ég að vera með sem vélstjóri á björgunarskipinu Ásgrími S. Björnssyni og verkefnið var aðallega eitt, að henda forseta Íslands í sjóinn undir öruggum formerkjum. Þar sem við lágum utan á varðskipinu Þór og biðum forsetans læddust að mér illar grunsemdir um þá áhættu sem forseta getur beðið við slíkar aðstæður, en svo kom hann til okkar í viðurkenndum flotgalla og tilbúinn í hvað sem er.

Allt gekk eins og í sögu. Þegar kom að því að forseta yrði hent í sjóinn varð ég dálítið smeyk. Myndi Maggi átta sig á að skipið þyrfti að vera stopp áður en fólki yrði hent í sjóinn? Hann áttaði sig á slíku, stoppaði skipið og beið þess sem verða vildi. Fyrstur út var sigmaður frá Landhelgisgæslunni og síðan lét forseti Íslands vaða, stökk út á eftir sigmanninum með tilþrifum. Enn einu sinni staðfesti Guðni Th. Jóhannesson með verkum sínum af hverju ég kaus hann til forseta Íslands.

Hífingin í þyrluna gekk vel og við gátum haldið heim á leið ánægð í skapi eftir vel heppnaðan 112 dag.


sunnudagur, janúar 01, 2017

1. janúar 2017 - Flakk um heima og geymaÞað er erfitt að halda því fram að ég hafi víða farið. Fimmtán ára gömul komst ég í fyrsta sinn til útlanda, var á gömlum togara sem sigldi með aflann til Bremerhaven í Þýskalandi. Síðar sama vor náði ég því að koma til annarra fiskibæja erlendis, Cuxhaven, Grimsby og Hull. Um sumarið kom ég í fyrsta sinn á ævinni til Akureyrar er mér var boðið með í ferð norður á gömlum Landrover jeppa og gist á tjaldsvæðinu ofan við miðbæinn á Akureyri.

Svo liðu árin og ég bætti við mig höfnum bæði á Íslandi og erlendis. Sumarið 1983 ók ég í fyrsta sinn í gegnum Vík í Mýrdal. Áður hafði ég náð því að koma til hafna í Norður-Afríku, Miðausturlöndum og Norður-Ameríku auk flestra hafna á Íslandi og margra hafna í Evrópu beggja megin gamla járntjaldsins.

Það hafa ekki mörg ríki bæst við eftir að ég hætti til sjós, en nokkur, Írland, Sviss, Austurríki, Slóvakía, samanlagt kannski 40 ríki. Árin sem ég hefi lifað eru líka orðin 65.

Ég á sex barnabörn. Yngsta barnabarnið verður sex ára gömul á þrettándanum. Þegar ég var á hennar aldri hafði ég aldrei komist út fyrir suðvesturland, hafði vissulega komið austur í Biskupstungur og út á Kjalarnes, en ekki mikið meira en það. Sonardóttir mín hefur ferðast víða um Ísland, komið til Kanaríeyja, býr í Skotlandi ásamt foreldrum sínum þar sem hún gengur í skóla, talar tvö tungumál fyrirhafnarlaust.

Hvernig á ég að geta verið henni og níu ára bróður hennar fyrirmynd þegar ég veit að þau eru löngu orðin heimsborgarar? Lífsreynsla þeirra er orðin allnokkur. Þau eru að ná því að verða fyrirmynd fyrir mig sem kom til útlanda í fyrsta sinn á gömlum togara þegar ég var fimmtán ára gömul. Þau eru öfundsverð af hlutskipti sínu, en um leið hefi ég kannski ýmislegt annað að gefa þeim, reynslu af fátækt, af unglingaþrældóm, af misskiptingu, en ekki síst af þjóðfélagi sem enn var í fjötrum hafta og þvingana um árabil. Af heimsmenningunni geta þau kennt mér, ekki öfugt.