laugardagur, júní 18, 2011

18. júní 2011 - Knattspyrna

Ég verð seint talin mikil áhugamanneskja um fótbolta, hefi ekki farið á fótboltaleik síðan Fram spilaði við Djurgården í Stokkhólmi í Evrópukeppninni árið 1990 og jafnvel þá var það einungis skyldumæting sem Íslendingur á erlendri grundu. Það er auðvitað mun lengra síðan ég fór á völlinn hér heima á Íslandi, sá Val spila við Benfica í sögufrægum leik á Laugardalsvelli í kringum 1970, en þar áður hefi ég væntanlega séð einhvern leik þar sem KR lék sér að andstæðingunum eins og köttur að mús.

Ekki fer heldur mikið fyrir eigin knattspyrnuiðkun. Ég tók þátt í einhverjum leikjum með Aftureldingu þegar ég var tíu eða ellefu ára, en glæsilegt tap í þeim leikjum varð til þess að ég lagði skóna á hilluna. Ég tók þá fram aftur þegar ég var á Bakkafossi og lék einn leik með áhöfninni gegn áhöfninni á norsku skipi í Norfolk í Virginiafylki sumarið 1976. Það var mjög harður leikur þar sem kokkurinn á norska skipinu sem lék stöðu markmanns var sendur með hraði á spítala en bátsmaðurinn okkar fór með til að losa tönn úr norska markmanninum úr sköflungnum á sér. Þarna sannfærðist ég um að knattspyrna og norskt áfengi eiga ekki saman.

Á undanförnum hefi ég gerst mun lítillátari, látið mér nægja að fylgjast með knattspyrnu úr sófanum og fagna því auðvitað innilega í hvert sinn sem Halifaxhreppur eða United of Manchester vinna sig upp um deild í enska boltanum eða þegar KR-ingar leika sér að andstæðingum sínum eins og köttur að mús og ekki má gleyma síðasta heimsmeistaramóti í krullu.

En þetta var þá. Nú liggur meira við. Suður á Jótlandsheiðum ætlar íslenska landsliðið að vinna Dani í fótbolta í kvöld með miklum yfirburðum. Þetta er kannski ekki aðallandsliðið, enda miðað við að leikmenn séu ekki eldri en 21 árs. En við förum ekkert að fást um slíkt smáræði. Auk þess heyrði ég lýsingu af einum leik og þar var sagt frá einum erlendum leikmanni sem væri 23 ára.

Það ætti ekki að vera erfitt verk að skora fjögur vesæl mörk hjá danska markmanninum og fá aðeins eitt á sig. Annað eins hefur skeð eins og í frægum leik við Dani sem fór 14-2. Ekki má heldur gleyma frægum leik við Dani mun fyrr á tuttugustu öld þegar Dönum var fagnað innilega og boðið í reiðtúr daginn fyrir leikinn.

Eitthvað er til af íslenskum hrossum á Jótlandsheiðum og vafalaust hafa eigendur þeirra boðið danska landsliðinu í reiðtúr svo að leikurinn í kvöld ætti að vera auðunninn .................................. eða hvað?

fimmtudagur, júní 16, 2011

16. júní 2011 - Kópavogsborg eða......?Framsóknarmaðurinn í Kópavogi hefur lagt til að nafni bæjarfélagsins verði breytt og að kauptúnið Kópavogur verði framvegis kallað borg. Ég verð að viðurkenna að ég er nokkuð hugsi yfir þessari tillögu ekki síst í ljósi þess að Reykjavík hefur fyrst nýlega komist í þá stærð að hægt sé að kalla hana borg, þ.e. eftir að mannfjöldinn í Reykjavík komst upp í hundrað þúsund og hún varð að raunverulegri smáborg, löngu eftir að hún hafði verið titluð höfuðborg.

Segjum sem svo að Kópavogsbær verði titluð borg. Einhverjum dytti kannski í hug að hefja leit að miðbænum og eftir mikla leit kæmi hann að Smáratorgi og teldi sig kominn á ákvörðunarstað. Ónei, þú verður að keyra upp brekkuna atarna yfir nokkrar hraðahindranir og þá kemstu vonandi að gjá einni þar sem Reykvíkingur komast hratt og örugglega til Hafnarfjarðar án viðkomu í Kópavogi og þá ertu kominn í miðbæ Kópavogs, afsakið til miðborgarinnar í Kópavogsborg!

Æ, nei, er þetta ekki bara gömul minnimáttarkennd sem er að taka sig upp hjá blessuðum Framsóknarmanninum?

Ég velti fyrir mér hvort ekki sé kominn tími til að hætta þessu borgartali, líka fyrir Reykjavík. Segjum svo að við tökum upp gömlu hreppamörkin frá því í byrjun tuttugustu aldar og þá myndu nú hlutirnir heldur betur skipta um heiti.

Kópavogur myndi hverfa (hét hann ekki annars Digraneshreppur á tímabili?) og verða lagður undir Seltjarnarneshrepp ásamt Breiðholtinu öllu að Elliðaám. Þá fer að verða spurning um hvort hinn forni Seltjarnarneshreppur færi ekki að nálgast borgarheiti með kannski sextíu þúsund manna fjölgun og vesalings maðurinn sem villtist í leit sinni að miðborg Kópavogs ætti ekki í neinum vandræðum að finna miðborgina nærri Valhúsahæð. Allt svæðið austan við Elliðaár færi að sjálfsögðu undir Mosfellshrepp, þar á meðal Árbæjarhverfi, Grafarholt og Grafarvogshverfi.

Með þessum breytingum yrði íbúatala Reykjavíkurhrepps komin niður í hæfilegar sjötíu þúsund sálir og vart ástæða til að kalla Reykjavík borg lengur. Stærsti kosturinn væri samt sá að búið væri að þurrka Kópavog út af kortinu og að íbúarnir þar yrðu eftir það Seltirningar og þyrftu ekki lengur að þjást af minnimáttarkennd og gætu byrjað að hegða sér með sæmd þeirri sem hæfir, samanber ljóðið góða eftir meistara Þórberg:

Seltjarnarnesið er lítið og lágt.
Lifa þar fáir og hugsa smátt.
Aldrei líta þeir sumar né sól.
Sál þeirra er blind eins og klerkur í stól

miðvikudagur, júní 15, 2011

15. júní 2011 - Íslenskir hermenn

Í bókasafni mínu á ég tvær bækur sem fjalla um íslenska hermenn. Eldri bókin var gefin út í Winnipeg árið 1923 og heitir því virðulega nafni Minningarrit íslenzkra hermanna og segir frá hundruðum íslenskra hermanna sem tóku þátt í fyrri heimsstyrjöldinni í Evrópu með herjum Bandaríkjanna og Kanada. Í síðasta kafla bókarinnar er sagt frá þeim sem féllu í styrjöldinni, en í bókinni eru æviágrip 144 Íslendinga sem féllu í styrjöldinni.

Hin bókin heitir Veterans of Icelandic Decent World War II. Hún er einnig gefin út í Winnipeg og fjallar um hermenn af íslenskum ættum sem tóku þátt í seinni heimsstyrjöld, Kóreustríði og Víetnamstríðinu. Öfugt við þá íslensku hermenn sem nú berjast við þjóðir Íraks og Afganistan voru margir áðurnefndra hermanna sendir í stríðið í almennri herkvaðningu.
   
Rúffið flutti okkur þá frétt í gær að minnst tíu Íslendingar væru málaliðar í norska hernum í Afganistan. Slíkt þarf ekkert að koma okkur á óvart. Íslenskir strákar hafa ávallt verið tilbúnir í ævintýri úti í heimi, áður fyrr gjarnan í siglingar á erlendum skipum sem sigla um allan heim eða að skrá sig til herþjónustu. Þessir piltar sem nú eru í Afganistan eða Írak eru ekki hetjur af sama toga og þeir sem börðust í heimsstyrjöldunum. Þeir eru í ævintýraleit, en eru í reynd fallbyssufóður í árásarstríði gegn þjóðunum eystra.

Sem friðarsinni ber ég enga virðingu fyrir þessum piltum sem nú berjast í Írak og Afganistan og set stórt spurningamerki við erindi þeirra og tel það vera í andstöðu við friðarsýn fjölmargra Íslendinga. Það er hinsvegar hræðilega erfitt að banna ungum drengjum að láta drepa sig úr því þeir fara sjálfviljugir út á vígvöllinn með leyfi til að drepa eða verða drepnir.

mánudagur, júní 13, 2011

13. júní 2011 - Cyndi Lauper

Ég álpaðist á tónleika á sunnudagskvöldið. Þetta voru engir venjulegir tónleikar með Eagles eða Roger Waters, heldur var nú snillingurinn Cyndi Lauper komin til Íslands og söng fyrir mörlandann. Auðvitað mætti ég og átti sæti á fimmta bekk.

Ég viðurkenni að aldrei hefi ég komist jafnnær stórstjörnu og þetta kvöld í Hörpu þar sem Cyndi stóð upp á sætinu fyrir framan mig, söng fyrir fjöldann og ég beið þess að hún dytti í fangið á mér. Það varð aldrei af slíku því miður, en Cyndi var frábær.

Eftir þetta kvöld þakka ég enn og aftur fyrir að Harpa er risin. Um leið fagna ég stórhuga fólki sem nú er úthrópað sem glæpamenn fyrir að hafa stuðlað að byggingu Hörpu. Harpa er stórkostlegt stórhýsi umhverfis tónlistina og sem býður okkur hinum möguleika á að sjá og heyra listamenn á borð við Cyndi Lauper.

Hverjum hefði dottið til hugar að fyrrum kaffistofa Togaraafgreiðslunnar ætti eftir að verða að stórkostlegasta mannvirki Íslandssögunnar á 21. öld með hjálp Björgólfs Guðmundssonar?

fimmtudagur, júní 09, 2011

9. júní 2011 - Hraðasekt á reiðhjóli?

Í hádegisfréttum á Rúffinu var sagt frá manni sem hlaut sem svarar 27.000 íslenskum krónum í sekt fyrir að hjóla í gegnum Storgatan í Tranås norðan við Jönköping á 58 km hraða.

http://www.ruv.is/frett/hjolreidamadur-fekk-hradasekt

Þessi saga sýndi ágætlega hve Svíar eru harðir gagnvart umferðarbrotum og var víða hlegið að Svíum og fréttinni um hinn óheppna hjólreiðamann á Íslandi og víðar þar sem hún birtist, en í reynd var hún enn eitt dæmið um óvandaðan fréttaflutning og ósönn með öllu.

Fréttin kom til á þann hátt að fréttamaður fréttablaðs þeirra Tranåsbúa „Tranås Tidning“ hafði rætt við umferðarlögreglumann sem hélt því fram að dæmi þess að hjólreiðamenn væru sektaðir kæmu fyrir einu sinni til tvisvar á ári. Fréttamaðurinn birti fréttina í stað þess að kanna sannleiksgildi hraðasektarinnar og hún rataði beinustu leið inn á sameiginlega fréttastofu fjölmiðlanna (Tidningarnas Telegrambyrå) sem dreifði henni um alla Svíþjóð og til annarra landa. Rúffið á Íslandi tók fréttinni fagnandi og birti hana í hádegisfréttum minnst klukkustund eftir að hún hafði verið borin til baka í Svíþjóð og leiðrétt, m.a. í Dagens nyheter.

http://www.dn.se/nyheter/sverige/nyheten-om-cyklistens-fortkorningsboter-inte-sann

En sagan var góð :o)

miðvikudagur, júní 08, 2011

8. júní 2011 - Orka og veita?

Eins og flestir Íslendingar vita var lögleidd uppskipting veitufyrirtækja í framleiðslufyrirtæki og dreifingarfyrirtæki fyrir fáeinum árum. Ég var tæplega sátt við þessa uppskiptingu á þröngum og afmörkuðum orkumarkaði og var sannfærð um að hægt hefði verið að fá undanþágu frá þessari kröfu í EES-samningnum vegna sérstöðu Íslands. Engu að síður voru lögin keyrð í gegn á stjórnartíma Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks sem nú berjast eins og naut í flagi gegn samningaviðræðum Íslands við Evrópusambandið.

Eitt fyrsta fyrirtækið til að skipta sér upp í samræmi við nýju lögin var Hitaveita Suðurnesja sem varð eftir breytinguna að fyrirtækjunum HS-Orka og HS-Veitur. Ekki leið á löngu uns HS-Orka var einkavædd og seld og sjálf tel ég að einkavæðingin hafi verið óheillaspor.

Lengi hefur staðið til að stærsta veitufyrirtæki landsins verði skipt upp á sama hátt og Hitaveita Suðurnesja og heyrst hafa raddir þess efnis að skiptingin muni verða um næstu áramót. Verði af þeirri skiptingu vona ég svo sannarlega að nafngift Hitaveitu Suðurnesja verði ekki flutt óbreytt yfir á OR því það væri skelfilegt fyrir félaga mína á Hellisheiði og á Nesjavöllum að viðurkenna að þeir ynnu hjá OR-orku (Ororku, sem má lesa sem Örorku) og fyrir okkur hin væri lítt betra að vera hjá OR-veitum (Orveitum eða Örveitum)  

föstudagur, júní 03, 2011

3. júní 2011 - Maður eyðileggur hús

Fyrir tæpum tveimur árum réðist maður einn að húsi sem hann hafði sjálfur byggt og síðan misst úr höndunum sökum eigin fjárglæfra í hendur bankans og braut niður með hjálp gröfu einnar. Nú, nærri tveimur árum síðar er loksins komin fram ákæra á hendur manninum fyrir skemmdarverkin.

http://www.visir.is/akaerdur-fyrir-ad-eydileggja-husid-sitt/article/2011110609733

Í fréttum Vísis er sagt frá því að maðurinn sé ákærður fyrir að eyðileggja húsið sitt. Ég er fréttinni ósammála því húsið var boðið upp á nauðungaruppboði haustið 2008 þar sem bankinn eignaðist húsið.

Fyrstu dagana eftir að maðurinn reif húsið hlaut hann almenna samúð meðal almennings, ekki síst í ljósi kreppunnar. Þó mátti vera ljóst að ef hús fer á uppboð í byrjun kreppu er um að ræða miklu eldri skuld en svo að kenna má kreppunni um gjaldþrotið. Það tekur venjulega minnst ár og í flestum tilfellum miklu lengri tíma frá því einhver lendir í vanskilum og þar til að húsið lendir á uppboði. Því er ljóst að umræddur maður lenti í vanskilum ekki síðar en glæfraárið 2007. Auk þess kom í ljós að fleiri manns áttu um sárt að binda vegna viðskipta við þennan sama mann.

Mér finnst því rangt að tala um að maðurinn hafi eyðilagt húsið „sitt“. Með hegðun sinni skapaði hann hinsvegar hættulegt fordæmi að skemmdarstarfsemi sem ekki varð nema að litlu leyti sem betur fer.