fimmtudagur, júní 16, 2011

16. júní 2011 - Kópavogsborg eða......?



Framsóknarmaðurinn í Kópavogi hefur lagt til að nafni bæjarfélagsins verði breytt og að kauptúnið Kópavogur verði framvegis kallað borg. Ég verð að viðurkenna að ég er nokkuð hugsi yfir þessari tillögu ekki síst í ljósi þess að Reykjavík hefur fyrst nýlega komist í þá stærð að hægt sé að kalla hana borg, þ.e. eftir að mannfjöldinn í Reykjavík komst upp í hundrað þúsund og hún varð að raunverulegri smáborg, löngu eftir að hún hafði verið titluð höfuðborg.

Segjum sem svo að Kópavogsbær verði titluð borg. Einhverjum dytti kannski í hug að hefja leit að miðbænum og eftir mikla leit kæmi hann að Smáratorgi og teldi sig kominn á ákvörðunarstað. Ónei, þú verður að keyra upp brekkuna atarna yfir nokkrar hraðahindranir og þá kemstu vonandi að gjá einni þar sem Reykvíkingur komast hratt og örugglega til Hafnarfjarðar án viðkomu í Kópavogi og þá ertu kominn í miðbæ Kópavogs, afsakið til miðborgarinnar í Kópavogsborg!

Æ, nei, er þetta ekki bara gömul minnimáttarkennd sem er að taka sig upp hjá blessuðum Framsóknarmanninum?

Ég velti fyrir mér hvort ekki sé kominn tími til að hætta þessu borgartali, líka fyrir Reykjavík. Segjum svo að við tökum upp gömlu hreppamörkin frá því í byrjun tuttugustu aldar og þá myndu nú hlutirnir heldur betur skipta um heiti.

Kópavogur myndi hverfa (hét hann ekki annars Digraneshreppur á tímabili?) og verða lagður undir Seltjarnarneshrepp ásamt Breiðholtinu öllu að Elliðaám. Þá fer að verða spurning um hvort hinn forni Seltjarnarneshreppur færi ekki að nálgast borgarheiti með kannski sextíu þúsund manna fjölgun og vesalings maðurinn sem villtist í leit sinni að miðborg Kópavogs ætti ekki í neinum vandræðum að finna miðborgina nærri Valhúsahæð. Allt svæðið austan við Elliðaár færi að sjálfsögðu undir Mosfellshrepp, þar á meðal Árbæjarhverfi, Grafarholt og Grafarvogshverfi.

Með þessum breytingum yrði íbúatala Reykjavíkurhrepps komin niður í hæfilegar sjötíu þúsund sálir og vart ástæða til að kalla Reykjavík borg lengur. Stærsti kosturinn væri samt sá að búið væri að þurrka Kópavog út af kortinu og að íbúarnir þar yrðu eftir það Seltirningar og þyrftu ekki lengur að þjást af minnimáttarkennd og gætu byrjað að hegða sér með sæmd þeirri sem hæfir, samanber ljóðið góða eftir meistara Þórberg:

Seltjarnarnesið er lítið og lágt.
Lifa þar fáir og hugsa smátt.
Aldrei líta þeir sumar né sól.
Sál þeirra er blind eins og klerkur í stól


0 ummæli:







Skrifa ummæli