föstudagur, mars 18, 2016

18. mars 2016 - Ýsa eða karfi?Ég átti það til í eina tíð að kaupa mér ýsu í raspi úti í búð. Þetta voru svona fjögur ýsustykki í raspi í bláum bökkum sem seld voru í Krónunni og Bónus og víðar. Þetta var fljóteldað, brugðið á pönnuna og tilbúið á augabragði og það fór ekkert á milli mála að þetta var ýsa í raspi eins og maður vill hafa hana og því bjargaði ég stundum matseldinni á þennan einfalda hátt. Eitt sinn er ég keypti svona tilbúna ýsubita í raspi var allt annað bragð af ýsunni. Bragðið minnti helst á karfa og ef ýsan bragðast eins og karfi, þá er það karfi. Ég var ekki ánægð, frysti það sem ég hafði ekki þegar eldað til athugunar síðar og viku síðar keypti ég aftur „ýsu“ í raspi og aftur var sama óbragðið af „ýsunni“. Í millitíðinni sagði ein vinkona mín frá því að hún hefði fengið karfa sem sagður var ýsa í raspi í Nettó, einnig í svona bláum bökkum.

Ég spurðist fyrir um rannsóknir á fiski, bæði við Matís og Matvælastofnun, en hvorug stofnunin virtist hafa áhuga á að kanna raunveruleikann á svindli fyrir einhvern vesaling úti í bæ og ekki er ég meðlimur í Neytendasamtökunum og hafði því ekki samband við þau, lét mér nægja að kvarta við verslunarstjórann í Krónunni þar sem ég hafði keypt „ýsuna“. Eftir einhverja mánuði henti ég frosnum fiskstykkjunum við tiltekt í frystinum hjá mér, en hefi ekki keypt aftur „ýsu“ í raspi í bláum bökkum.

Í morgun var sagt frá því í útvarpinu að gerð hefði verið könnun meðal veitingastaða. Þar var hlýri orðinn að steinbít, keila að skötusel og ódýrar tegundir af túnfisk orðnar að dýrustu gerðinni. Þetta kom mér ekkert á óvart því þegar reynt er að svindla á okkur sauðsvörtum almúganum sem erum alin upp við sjávarfang er ekki hægt að búast við miklum kvörtunum hjá saklausum ferðamönnum sem eru lítt vanir bragðtilbrigðum hinna ýmsu fisktegunda.

En hver man eftir nautabökunum sem ekkert nautakjöt var í?

Þetta er ekkert einsdæmi á Íslandi. Frægt er svindlið í Evrópu er hrossin gerðust dýrindis nautakjöt og ekki gleymi ég því er ég sá mynd á Facebooksíðu gamalla breskra togarajaxla af þverskornu ýsustykki í plasti í breskri verslun og á miðanum stóð „Skinless and boneless cod fillet“. Því miður gleymdi ég að vista myndina og finn hana ekki aftur.

Ekki veit ég hvernig tekið yrði á svindlinu hjá siðmenntuðum þjóðum, en ljóst samt að mikið var gert úr svindlinu í Evrópu og einhverjir dregnir til ábyrgðar. Á Íslandi var maðurinn með nautabökurnar án nautakjöts sýknaður vegna ónógra sönnunargagna og er almenningur áfram  gjörsamlega ráðþrota enda vonast yfirstéttin til þess í lengstu lög að fólk haldi áfram að vera fífl.   
  

þriðjudagur, mars 15, 2016

15. mars 2016 - Konur í karlastörfumEigandi myndar: Einar Örn Jónsson.


Það urðu einhver læti á vefmiðlum í dag vegna tveggja kvenna sem eru saman á vakt hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins. Einhverjir tjáðu sig og töldu þetta vera of langt gengið, konur gætu ekki dröslað meðvitundarlausum mönnum úr brennandi húsum og guð má vita hvað. Þeir hinir sömu voru sem betur fer snarlega kveðnir í kútinn. Því miður gleymdi ég að kanna hjá hvaða vefmiðli þetta var, en það kemur ekki að sök.

Ekki efa ég að þessar tvær konur sem eru saman á vakt hafa gengið í gegnum mikla og erfiða þjálfun áður en þær voru settar á vaktir og því tilbúnar í hvað sem er, þar á meðal réttu handtökin við að koma manninum út úr hættulegum aðstæðum og eru því eins hæfar og karlarnir. Reyndar er það eðli kvenna að beita öðrum aðferðum við kraftlyftingar en margir karlar gera og sleppa því við allskyns stoðkerfisvandamál síðar á æfinni eins og margir karlar sem eru sínkt og heilagt með hryggskekkju og bakverki eftir ranga líkamsbeitingu á unga aldri sem eyðilagði í þeim bakið.

Ég mætti einhverju sinni ungri stúlku sem ók átján hjóla vöruflutningabíl. Ég taldi reyndar ekki hjólin undir bílnum og eftirvagninum, enda svo hrifin af því sem ég sá, en stúlkan virtist lítil og pervisin þar sem hún ók þessu risastóra farartæki og fór mjög vel með. Þessi sýn hefði verið óhugsandi fyrir fáeinum áratugum, ekki vegna þess að stúlkan hefði ekki ráðið við bílinn, heldur vegna fordóma í garð kvenna því rétt eins og að konur ráða ekki við að lyfta níðþungu hjóli af vörubíl, þá gildir hið sama um karla og því eru til allskyns tjakkar og annar lyftibúnaður til að spara fólki erfiðið.

Ég rifja upp í huganum þegar verið var að endurnýja safnæð frá borholum í Mosfellsdal að dælustöðinni í Reykjahlíð. Þar var að verki verktaki ofan úr Hvalfirði sem var með bróður sinn og tvær dætur við verkið auk suðumanna. Þegar verið var að moka yfir rörin og laga jarðveginn eftir endurnýjun þeirra sáu dæturnar um verkið og þær léku sér að skurðgröfunum eins og væru þær saumavélar og árangurinn var slíkur að eftir var tekið, ekki aðeins snyrtileg vinnubrögðin heldur og allur frágangur verksins. Það er óhætt að fullyrða fæstir karlar hefðu unnið verkið jafnvel og gullfallegar heimasæturnar frá ónefndum sveitabæ í Hvalfirði.

Stúlkurnar tvær sem eru saman á vakt hjá slökkviliðinu eru heppnar. Þær njóta leiðsagnar frábærra karlkyns félaga sinna þar sem minnst einn hefur hlotið eldskírn í alvarlegum brunum á sjó og er auk þess þrælvanur björgunarsveitarmaður og skemmtilega laus við fordóma og frábær leiðbeinandi.

Ég vonast reyndar til þess að þurfa aldrei á aðstoð þessara ágætu kvenna hjá slökkviliðinu að halda, en ef ég lendi í þeirri slæmu aðstöðu, treysti ég þeim fullkomlega til að koma mér til hjálpar.


mánudagur, mars 14, 2016

14. mars 2016 - LífsreynslaUm huga minn fer viðburður. Haustið 2005 var haldið fyrsta þing Transgender Europe sem þá var enn óstofnað en var stofnað á þinginu sem haldið var í ráðhúsi Vínarborgar í Austurríki. Þarna mættu rúmlega 120 manns, flest það sem kallað er trans, þ.e. fólk sem hafði upplifað sig af öðru kyni en því meðfædda. Þar sem ég horfði yfir samkomuna velti ég fyrir mér reynslu þessa fólks og í viðtölum kom í ljós að mörg þeirra, kannski flest, höfðu upplifað, höfnun, ofstæki og og jafnvel ofbeldi og barsmíðar af hálfu fólks sem taldi sig eðlileg en þau óeðlileg.

Ég hefi nokkrum sinnum síðan þá setið viðlíka ráðstefnur, kynnst fólki frá fjarlægum löndum sem hafði hroðalegar sögur að segja af samskiptum sínum við eðlilega fólkið og við yfirvöld. Tvær eða fleiri manneskjur sem ég hefi kynnst á þessum þingum og ráðstefnum hafa verið myrtar fyrir það eitt að vera trans. Ég þekkti tvær, kannski fleiri.

Ég hugsa til ungs manns sem lést í kuldakasti í Reykjavík fyrir fáeinum árum síðan. Horst var frá Lettlandi, var fæddur sem kona en vildi ekki vera kona og flutti til Íslands í von um að finna réttlæti en fann það ekki og lést sem útigangsmanneskja. Hann hafði erfiða sögu að segja en þrátt fyrir stuðning fáeinna manneskja á Íslandi, var honum hafnað og hann lést og jarðsettur í kyrrþei án þess að sumir vinir hans fengju að koma nærri.

Ég geri ekki mikið af því að ganga um kirkjugarða og velta fyrir mér lífi fólksins sem liggur þarna, en á það samt til að gera það, stoppa við einstakt leiði og velta fyrir mér lífi fólksins sem þar hvílir og það er flest gleymt öllum nema nánustu ættingjum. Í gröfum sem teknar hafa verið í nútíma, síðustu 30 árin eða svo hvilir fólk sem fékk hinstu kveðju frá ættingjum og vinum í minningargreinum í Morgunblaðinu, aðrir fengu ekki neitt, ekki einu sinni útför sem sæmdi þeim.

Hvar er saga alls þessa fólks? Og hvað um sögu hinna sem fæddust, ólust upp, unnu sína vinnu og létust í ellinni? Ég velti fyrir mér sögu margra sem þarna hvíla auk allra þeirra sem hvíla í votri gröf. Ég hugsa til manns sem hét Ásgrímur Guðjónsson og var togarasjómaður. Á efri árum eignaðist hann trúnaðarvin í loftskeytamannum um borð sem ritaði um hann fallega minningargrein í Morgunblaðið árið 1990. Ásgrímur var hetja og ég náði því að kynnast honum þegar við vorum samskipa á Þorkeli mána 1967. Hann var einn af fáum skipverjum á Þorkeli mána sem héldu áfram til sjós eftir Nýfundnalandsveðrið mikla í febrúar 1959 þegar togarinn Júlí fórst með allri áhöfn og áhöfninni á Þorkeli mána tókst með harðfylgi áhafnarinnar og þá sérstaklega útsjónarsemi og afreki ungs yfirvélstjóra að bjarga skipinu frá sömu örlögum. Ásgrímur var þá miðaldra af togarasjómanni að vera þótt hann væri einungis 35 ára gamall. Þegar ég kynntist honum var hann á fimmtugsaldri og einn eftir um borð af áhöfninni frá Nýfundnalandsveðrinu mikla átta árum áður. Síðar fór hann á skuttogara áður en hann hætti til sjós vegna aldurs, en saga hans væri flestum gleymd ef ekki væri fyrir litla minningargrein eftir andlátið sem rituð var af Þorsteini Gíslasyni loftskeytamanni.

Hversu mörg æviágrip hafa farið forgörðum vegna þess að enginn hafði fyrir því að skrá þau? Hvað dreif á daga Ásgríms heitins áður en hann byrjaði á Þorkeli mána? Hvers missum við af lífsreynslu þessa manns sem hafði lifað lífinu, barist við dauðann og sigrað og lést loks á sóttarsæng nærri sjötugu að aldri. Hvað um alla hina, þá sem ekki náðu landi eða þá hina sem náðu landi og hættu á sjó?

Þarf ekki að halda utanum skráningar á ævi fólks?