sunnudagur, desember 19, 2010

19. desember 2010 - Vistarbönd?

Ég ætla ekki að tjá mig mikið um vistarbönd fyrri alda, vistarbönd þar sem fólk var haft í ánauð fyrri alda yfirvalda og var í reynd eign yfirvalda á hverjum stað, presta og stórbænda. Það stefnir í ný vistarbönd og ég hefi áhyggjur af þeim.

Á undanförnum árum hefur íslenska þjóðin lagt fram fé til samgöngubóta. Gerð hafa verið Hnífsdalsgöng, Fáskrúðsfjarðargöng og Héðinsfjarðargöng, öll á kostnað skattgreiðenda, aðallega bíleigenda og er það vel. Það má vissulega halda áfram og bæta samgöngur á sunnanverðum Vestfjörðum sem og á milli Austfjarða með göngum. Ein göng hafa þó verið undanskilin, Hvalfjarðargöngin í útjaðri höfuðborgarsvæðisins, en þar þarf fólk að greiða allt að þúsund krónum fyrir hverja ferð um göngin. Ég hefi látið það óátalið að greiða þetta gjald um tíma enda stórhrifin af þessari framkvæmd á sínum tíma og er enn, fer miklu oftar um Vesturland vegna tilkomu ganganna en annars væri, hefi verið áskrifandi að göngunum um nokkurra ára skeið og sé ekki eftir aurunum sem fara í þetta. Viðhald Hvalfjarðarganga kostar líka sitt og ég á erfitt með að sjá að hægt verði að fella niður gjaldið að fullu vegna þessa þótt hægt verði að lækka gjaldið verulega í framtíðinni.

Nú stendur til að bæta samgöngurnar á milli Reykjavíkur og Selfoss sem og frá Reykjavík að Hvalfjarðargöngum. Þá á allt í einu að leggja á sérstakt gjald á þá sem aka um þessa vegi. Það hefur komið fram í fréttum að slíkt gjald á milli Reykjavíkur og Hvalfjarðarganga væri ólöglegt en samt á að koma á dýru kerfi til að rukka þá sem fara um Hellisheiðina. Sjálf er ég algjörlega á móti slíku gjaldi.

Í umræðum um slíkt veggjald hefur verið bent á ýmis lönd sem taka slíkt veggjald, þar á meðal Svíþjóð. Í fyrra ferðaðist ég víða um Svíþjóð, samtals 2300 km án þess að greiða eina einustu krónu í veggjald. Mér er vissulega kunnugt um að greiða þarf veggjald fyrir að koma inn í miðborg Stokkhólms með einkabíl, en það segir ekki alla söguna. Þegar ég nálgast Stokkhólm legg ég bílnum, t.d. nærri brautarstöðinni í Jakobsberg og tek lestina síðasta spottann. Lestin fer á nokkurra mínútna fresti og er einungis tuttugu mínútur að Stockholm Central, en ég er um fjörtíu mínútur að aka þessa leið með bíl. Auðvitað legg ég bílnum í Jakobsberg og tek lestina, en frá Stockholm Central kemst ég allra minna ferða með neðanjarðarlestinni (tunnelbana)

Það er ekki um slíkt að ræða ef ég þarf að fara frá Selfossi til Reykjavíkur. Þar eru almenningssamgöngur ákaflega lélegar. Almenningsferðir fáar á sólarhring og geta auðveldlega stöðvast fyrirvaralaust vegna veðurs. Því gilda ekki sömu lögmál fyrir íbúa Jakobsberg og Selfoss ef þeir þurfa að fara til miðborgar höfuðstaðarins auk þess sem íbúar Selfoss eiga ákaflega fá erindi í miðborg Reykjavíkur. Þá ber þess að geta að Kringlan og Smáralind eru utan kvosarinnar.

Hið háa gjald sem rætt er um að þurfi að greiða fyrir að aka út fyrir höfuðborgina er því sem gömlu vistarböndin, glæpur gagnvart alþýðunni, misrétti þegnanna og vinnur auk þess gegn dreifðri byggð kragabæjanna umhverfis höfuðborgina, Selfoss, Hveragerðis, Akraness og Borgarness. Nóg er samt að þurfa að greiða í Hvalfjarðargöngin.

Við greiðum þegar of hátt gjald fyrir að eiga og reka bíla. Þessi aukaskattur á íbúa höfuðborgarinnar og nágrannasveitarfélaga verður því sem banabiti fyrir þá íbúa sem þurfa að sækja vinnu á milli sveitarfélaga á sama tíma og þeir þurfa að greiða fyrir að íbúar Siglufjarðar og Ólafsfjarðar fái að ferðast ókeypis um rándýr Héðinsfjarðargöng sem og íbúar Bolungarvíkur til Ísafjarðar.

Þessi mismunun brýtur gegn jafnaðarmennskunni og ég mun aldrei samþykkja hana né að styðja þá alþingismenn sem styðja þessa mismunun. Ég skal samþykkja hækkun á bifreiðagjaldi, á bensíngjaldi, á hverju sem er sem miðast við réttláta dreifingu gjaldanna. Ég er sömuleiðis tilbúin að hægja svo mjög á öllum samgöngubótum að ekki þurfi að búa til sérstök tollahlið , en ég mun aldrei samþykkja vistabönd af þessu tagi. Fremur mun ég segja skilið við Samfylkinguna ef hún styður þessi vistarbönd!

Þetta er grundvallaratriði!

föstudagur, desember 10, 2010

10. desember 2010 - Fuglar og ruslapokar

Um daginn heyrði ég í útvarpinu af fólki á suðurlandi sem kvartaði mjög yfir ásókn refa í heimasorpið. Ég fór beint í nostalgíugírinn og rifjaði upp gamlar minningar.

Það var sumarið 1994 að grein birtist í Hässelbytidningen, vikulegu bæjarblaði íbúanna í Hässelby þar sem kvartað var yfir sóðaskap á baðströnd íbúanna sem kölluð var Hässelby strandbad og var rétt hjá vinnustað mínum, Hässelbyverket. Það þyrfti svo sannarlega að ná í þessa þrjóta sem stunduðu það að tæma rusladallana umhverfis baðströndina á nóttunni og dreifa ruslinu um alla baðströndina baðvörðum og eftirlitsmönnum til ama á hverjum morgni er þeir þurftu að hefja dagsverkið á þrifum á baðströndinni.

Ég hló því ég þekkti sóðana. Ég átti reiðhjól sem ég notaði til og frá vinnu flesta daga og þegar ég þurfti að hjóla í vinnuna á morgunvaktina hjólaði ég gjarnan meðfram þessari sömu baðströnd á leið minni. Fyrir bragðið hafði ég iðulega séð til sóðanna og sökudólganna. Þetta voru fuglar, þeir hinir sömu sem á sænsku kallast skata, álíka stórir og krákur og aðeins minni en hrafnar. Í friðsæld næturinnar stunduðu þeir að tína ruslið upp úr rusladöllunum í leit að einhverju sem lyktaði betur og hirtu ekki um að tína upp eftir sig áður en íbúarnir vöknuðu og héldu á baðströndina.

mánudagur, desember 06, 2010

6. desember 2010 - Tækjadella

Það hefur löngum þótt eðalmerki sérhvers karlmanns að hafa gaman af græjum, helst einhverju með mörgum tökkum og blikkandi ljósum og flóknum aðgerðum án þess að notast sé við leiðarvísi, eða eins og einn vinnufélaginn orðaði hlutina einhverju sinni er einhver annar spurði hann um leiðarvísi:

“Þú þarft engan leiðarvísi. Karlmenn þurfa ekki leiðarvísi.”

Kannski er skreytingaþörfin fyrir jólin sem lítill angi af þessari tækjadellu. Karlarnir geta dundað sér tímunum saman við að greiða úr flækjunum á seríunum og leitað uppi bilaðar perur og bætt við seríum uns þeir verða sjálfir eins og enn einn upplýstur jólasveinninn.

Myndavélar eru enn einn anginn af þessari skemmtilegu tækjaþörf. Þegar konur eignast góða myndavél vilja þær fara á námskeið og læra að fá eins mikið út úr tækinu og hægt er. Þetta er aukaatriði fyrir karla. Þá verður stærð ljósops og hraði myndarinnar að meginmáli, en gæði niðurstöðunnar, þ.e. gæði myndanna, að aukaatriði. Ég rifja upp myndavéladellu sem gekk um borð í togara fyrir nokkrum áratugum og menn kepptust við að eignast sem flottustu myndavélarnar. Einn keypti sér ágæta myndavél af gerðinni Yashica með ýmsum sjálfvirkum stillingum sem í dag þykja sjálfsagðar í öllum myndavélum en voru nánast óþekktar á filmuvélum þess tíma. Þetta þótti ekki nógu fínt meðal karlpeningsins um borð hjá okkur og var miskunnarlaust hæðst að kappanum með Yashica myndavélina. Ekki bætti úr er fréttist að einn af framkvæmdastjórum Yashica framdi harakiri og um borð í íslenskum togara var myndavél skipsfélagans miskunnarlaust kennt um hrakfarir framkvæmdastjórans.

Tveir vinnufélagar mínir, skiptir ekki máli hvar né hvenær, voru báðir miklir áhugamenn um hljómtæki og voru duglegir að metast um hvor ætti betri græjur. Annar eignaðist hljómtæki af lítt þekktu merki fyrir hóflegt verð og þóttist heldur betur hafa gert góð kaup, hinn mátti ekki vera minni maður og keypti sér einnig hljómtæki, en af heimsþekktu gæðamerki sem kostaði offjár og fór að metast við hinn um gæðin. Fyrir venjulegt fólk heyrðist enginn munur og því var aðeins eitt að gera og það var gripið til skrúfjárnanna og tækin skoðuð að innan. Dýra tækið leit út að innan eins og fjöldi annarra tækja svipaðrar gerðar, en það ódýra reyndist hinsvegar svo pakkfullt af allskyns innyflum að ekki hefði verið hægt að bæta við skrúfu til viðbótar. Vonbrigðin urðu svo mikil fyrir kaupanda dýra tækisins að hann steinhætti að metast framar um gæði tækjanna sinna.

Ætli ástandið sé ekki svipað hjá tölvunördum nútímans?

sunnudagur, desember 05, 2010

5. desember 2010 - Líkur sækir líkan heim

Það voru stjórnlagaþingskosningar á íslandi um daginn. Ég held ég þurfi varla að lepja úrslitin upp aftur eftir að þau voru gerð heyrinkunn, en langar samt til að segja það að ég lenti í 43. sæti af um 522 frambjóðendum sem er harla góður árangur, ekki síst í ljósi þess að ég var sein til framboðs og eyddi engu í kosningabaráttuna, engar auglýsingar eða kynningar á annan hátt en þann sem fylgir vefmiðlum DV og Svipunnar sem og almennar kynningar frambjóðenda.

Kosningarnar báru með sér að flokksmaskínurnar voru ekki með í ráðum, þó að undanskildum einum stjórnmálaflokki sem sendi út tilmæli til sinna flokksmanna kvöldið fyrir kjördag um að kjósa vissa aðila. Sjálf hafði ég kosið utankjörstaðar og gat því ómögulega farið að breyta kjörseðli mínum til að má út einn sem þar hafði verið tilnefndur af skrýmsladeildinni. Sjálf dró ég aldrei dul á að ég væri flokksbundin í Samfylkingunni og neitaði því að skrifa undir yfirlýsingu um að ég væri óflokksbundin og væri ekki hagsmunatengd þótt aldrei fengi ég minnsta stuðning úr þeim ranni. Fjöldi fólks gerði þetta þó hvar í flokki sem það stóð.

Þegar ég skoðaði síðar tölurnar sem birtust með kosningaúrslitunum nokkrum dögum síðar kom ýmislegt forvitnilegt í ljós, þá fyrst og fremst hvernig fólk hafði raðað á lista. Þegar einhver yfirlýstur Samfylkingarmaður datt út komu fá atkvæði í minn hlut, þó fleiri en atkvæði Sjálfstæðis- og Framsóknarmanna sem voru í framboði og féllu út á undan mér. Sömu sögu var að segja um fólk sem telur sig sannkristið. Það var frekar að ég fengi atkvæði þegar fólk sem ég þekki persónulega datt út. Ef einhver gamall jaxl af sjónum datt út fékk ég atkvæði, en ekkert þegar Jón Valur datt út. Ég fékk síðan mörg atkvæði í minn hlut þegar Sigursteinn Másson og Stefán Pálsson féllu út.

Sjálf féll ég út skömmu á eftir þeim félögum. Þá brá svo við að Birna vinkona mín Þórðardóttir fékk 76 atkvæði í sinn hlut og Silja Bára Ómarsdóttir 54 atkvæði, en eins og flestir vita eru þau Stefán, Birna og Silja í öðrum flokki en ég, en með svipaðar áherslur í friðar- og mannréttindamálum. Eiríkur Bergmann Einarsson kom svo fast á eftir þeim stöllum með 45 atkvæði. Til samanburðar má þess geta að einungis eitt atkvæði féll í hlut Þorsteins Arnalds og þrjú féllu í hlut Maríu Ágústsdóttur sem svo hatrammlega barðist gegn einum hjúskaparlögum síðastliðið vor.

Þetta segir mér það að lífsskoðun fólks hafi haft meira að segja um viðmót fólks í þessum kosningum en flokkspólitíkin. Um leið er ljóst að þekkt andlit komust lengra en lítt þekkt andlit og því ljóst að fólk með lítið á milli handanna hafði ekki minnsta möguleika á að komast inn á stjórnlagaþing þótt það ætti þangað brýnt erindi.

Það þótti mér miður.

föstudagur, nóvember 26, 2010

26. nóvember 2010 - Kosningar nálgast

Ég var á fundi á fimmtudagskvöldið og hitti þá einn ágætan kjósanda sem var óánægður með undirbúning og framkvæmd kosninganna til stjórnlagaþings. Hann þyrfti að vinna alla daga og hefði ekki haft tíma til að undirbúa framboð til stjórnlagaþings, enda væri hann einyrki og fyrirtæki hans stæði og félli með honum nema með margra mánaða fyrirvara.

Ég lýsti yfir skilningi mínum á högum hans þótt ég væri ekki alveg sammála honum að öllu leyti, en um leið rifjaðist upp fyrir mér hve skamman tíma ég hefði haft til undirbúnings frá því mér bárust meðmæli um 40 einstaklinga innum bréfalúguna mína og þar til ég fór með framboðsgögnin niður á Alþingi sólarhring síðar. Var ég þó á vakt helming þess tíma sem ég hafði til stefnu.

Miðað við þetta er ég harla ánægð með þenn stuðning sem ég hefi hlotið, ekki síst fyrir þá sök að einasti kostnaðurinn minn við framboðið eru kaffisopi, tvær vínarbrauðslengjur og nokkrar pönnukökur með sultu og rjóma. Þá hefi ég reynt að vera heiðarleg í framboði mínu, gætt þess að segja þann sannleika sem ég veit bestan og valda engum deilum með framboði mínu.

Sjálf er ég ánægð með stöðu kosninganna fram að þessu. Það hefur verið mjög lítið um persónuníð vegna einstöku framboða þótt aðeins hafi borið á slíku síðustu dagana, en flestir reynt að reka sína kosningabaráttu heiðarlega og með lágmarkskostnaði.

Rétt eins og mestalla kosningabaráttuna er ég að vinna kosningahelgina og mun fátt geta gert til að hafa áhrif á kjósendur síðustu dagana, en trúi því um að leið að hógvær kosningabarátta mín skili sér í setu á stjórnlagaþingi á nýju ári.

-----

Að þora er að tapa fótfestunni um stund, að ekki þora er að tapa sjálfum sér.

þriðjudagur, nóvember 23, 2010

23. nóvember 2010 - Af hverju bauð ég mig fram?

Hægt er að velta fyrir sér hvaða fólk er hæft til setu á stjórnlagaþingi. Sumir leggja megináherslu á lagakunnáttuna, aðrir á reynsluna, enn aðrir á eitthvað allt annað. Sjálf er ég ekki mikið gefin fyrir að stæra mig af afrekum mínum. Þrátt fyrir það er nú nauðsyn á að auglýsa sig fyrir stjórnlagaþing og má þá ekki þegja yfir neinu.

Ég hefi boðið mig fram til stjórnlagaþings og þá aðallega vegna fjölbreyttrar reynslu minnar af samfélaginu. Ég hefi starfað til sjós og lands, hefi beðið dauðans á ögurstundu og átt þá ósk eina að báturinn færi upp en ekki niður eftir brotsjóinn, en hefi einnig verið með í að fylla eitt glæsilegasta nótaskip landsins á mettíma. Ég hefi verið fjölskyldufaðir og kannski amma, um það má deila, allavega hefi ég lifað bæði sem karl og sem kona, hefi kynnst fordómum í sinni verstu mynd en um leið kynnst jákvæðni og stuðningi í sinni bestu mynd. Ég hefi verið lamin vegna þess hver ég er, en einnig hyllt vegna þess hins sama.

Ég hefi verið fyrirlitin á Íslandi fyrir að vera hinsegin eða bara trans og ég hefi fengið viðurkenningu á Íslandi fyrir hið sama, að vera hinsegin og vera trans. Ég hefi þurft að berjast fyrir tilverurétti mínum en ávallt staðið upp aftur. Ég hefi meira að segja setið kúrs í stjórnskipunarrétti hjá Ármanni heitnum Snævarr, yndislegum rektor, Hæstaréttardómara og frábærum kennara.

Ég hefi búið í Reykjavík, Mosfellssveit, Vestmannaeyjum, Bíldudal, Järfälla og Södertälje, verið í Bolungarvík og á Eskifirði komið til hafnar við flestar hafnir landsins, Eyri í Ingólfsfirði, Borgarfirði eystra, Grindavík.

Ég er alin upp á barnaheimili sem hefur verið svartmálað í fjölmiðlum, lent í loftárás í Líbanon, búið í og kynnst kreppunni í Svíþjóð á tíunda áratugnum. Ég hafði áður kynnst kreppum á Íslandi, fiskveiðakreppunni 1967-1969, þegar fjöldi fólks flúði land til Svíþjóðar og Ástralíu, óðaverðbólgunni 1980-1983 þegar verðbólgan fór upp í 80%.

Samt hefi ég átt góða ævi og sé fram á góða elli eftir rúman áratug. Ég held samt að ég geti gefið af mér á stjórnlagaþingi sem einungis mun standa yfir í að hámarki fjóra mánuði.

Því bið ég ykkur öll að setja mig í fyrsta sæti svo ég hafi möguleika á að komast inn og miðla af reynslu minni á stjórnlagaþingi 2011 svo tryggt sé að við fáum betri stjórnarskrá en þá sem við höfum í dag.

sunnudagur, nóvember 21, 2010

21. nóvember 2010 - Enn um tengsl við hagsmunahópa

Fyrir fáeinum dögum fór fram undirskriftasöfnun meðal frambjóðenda til stjórnlagaþings þar sem þeir flykktust um að lýsa sig saklausa að tengslum við hagsmunahópa, sama hvar í flokki þeir stóðu. Þar sem ég reyni að vera trú sannleikanum eins og ég veit hann bestan, treysti ég mér ekki til að skrifa undir þessa undirskriftasöfnun. Ástæðan er einföld. Ég lít á mig sem fulltrúa ýmissa minnihlutahópa í samfélaginu, þá fyrst og fremst hinsegin fólks, homma, lesbía, tvíkynhneigðra, transfólks og intersex fólks, en einnig friðelskandi fólks og baráttufólks fyrir mannréttindum.

Ég viðurkenni þó að enginn hefur enn greitt eina einustu krónu í kosningabaráttu mína. Einn hópur ætlaði að hefja söfnun mér til handa, en ég afþakkaði pent vitandi að meðlimir hópsins þurfa miklu fremur á peningunum sínum að halda en ég. Með því að neita að skrifa undir, lýsi ég því um leið yfir að fólki er velkomið að auglýsa framboð mitt á nánast hvern þann hátt sem það kýs, þó án þess að bendla mig við neikvæð öfl í þjóðfélaginu.

Þegar undirskriftasöfnunin hófst lenti ég í netþrasi við einn meðframbjóðandann en hann hélt því fram að hann væri algjörlega óháður öllum hagsmunahópum, en eftir nokkuð þras okkar á milli viðurkenndi hann að hann væri meðlimur í Blaðamannafélaginu sem er að sjálfsögðu hagsmunafélag.

Ég fullyrti við hann og fullyrði við alla að enginn frambjóðandi er algjörlega óháður. Fólk þarf auðvitað ekki að vera á kafi í öllum hagsmunahópum eins og ég, en ég lít frekar á slíkt sem styrk að hafa tekið þótt í hinum fjölbreyttustu sviðum samfélagsins, hvort heldur er pólitík, frímerkjasöfnun, ættfræðigrúski, mannréttindabaráttu og öðrum félagsmálum.

Ég er löngu búin að setja upp minn lista í kosningum til stjórnlagaþings. Þar set ég sjálfa mig í efsta sæti, en næstur á eftir mér er friðarsinni sem er ekki í sama flokki og ég og aðeins neðar má finna pólitískan andstæðing sem ég þekki ekki persónulega, en er þekktur fyrir afburða þekkingu á stjórnskipun Íslands og annarra landa og sem ég vil sjá á stjórnlagaþingi. Þá er listinn minn ekkert sérstaklega jafnréttissinnaður, reyndar fremur feminiskur þar sem fimmtán konur eru á móti tíu körlum. Um leið er stærstur meirihluti frambjóðenda á listanum mínum fólk sem ég þekki persónulega og nægilega vel til að vinna nýrri stjórnarskrá brautargengi.

21. nóvember 2010 - Um friðarmál

Ég minnist dapra marsdaga árið 2003. Forsætis- og utanríkisráðherra höfðu tilkynnt um stuðning Íslands við innrás Bandaríkjanna og bandamanna þeirra í Írak og Samtök hernaðarandstæðinga tóku þátt í mótmælum framan við stjórnarráðið gegn innrásinni. Ég tók þátt í mótmælunum eftir því sem ég hafði tíma, en því miður varð ég oft að láta mér nægja stuðning í anda vegna vinnu minnar.

Þetta var ekki fyrsta skiptið sem ég tók þátt í mótmælum gegn hernaði. Löngu áður hafði ég gengið Keflavíkurgöngur, eina Straumsvíkurgöngu en einnig tekið þátt í mótmælum við fleiri tilfelli á áttunda áratug síðustu aldar (eitt sinn mætt skuggalegum náunga að nafni Richard Milhous Nixon á Skólavörðustígnum þar sem við vorum að bera skilti frá Iðnaðarmannahúsinu við Hallveigarstíg að Grettisgötu 3).

Friðarbarátta er svo nátengd mannréttindabaráttu að vart verður skilið á milli. Sem mannréttindasinni er ég einnig friðarsinni og á enga ósk heitari en þá að öll vopn verði eldi að bráð og friður og kærleikur ríki um heim allan. Um leið geri ég mér grein fyrir því að slík von er einungis draumur í hjarta. Við verðum þó að styðja þessa von.

Því hefi ég sett í kosningastefnu mína ákvæði um að Íslandi verði bannað að taka þátt, sem og að styðja innrásir í önnur ríki og bann við herskyldu á Íslandi, kannski fjarlæg krafa en raunhæf. Loks að Ísland verði lýst kjarnorkuvopnalaust land.

Er hægt að fara fram á minna?

laugardagur, nóvember 20, 2010

20. nóvember 2010 - Af hverju eitt kjördæmi?

Skipting landsins í kjördæmi á sér stað í einangrun sveitarfélaga og sýslurnar miðuðust oft við stórfljót sem einangruðu heilu sveitirnar. Því áttu t.d. Rangárvallasýsla lítið sameiginlegt með Árnessýslu vestan Þjórsár og sömuleiðis átti borgarskipulagið í Reykjavík lítið sameiginlegt með landbúnaðinum í Þingeyjarsýslum hinum megin á landinu. Þegar ég var að alast upp þótti eðlilegt að vera tíu tíma frá Reykjavík til Akureyrar þótt sumum tækist að fara þessa leið á átta tímum og einstöku ofurhugar á sex tímum

Eftir því sem leið á tuttugustu öldina bötnuðu samgöngur. Zoëgabeygjurnar hurfu fyrir betri brúm og síðar malbikuðum þjóðvegum og um leið eyddust mörk sýslanna og kjördæmin tóku við, sex að tölu. Smám saman hefur Alþingi orðið að láta í minni pokann fyrir flutningi fólks á suðvesturhornið með því að þrjú kjördæmi með talsverðan meirihluta þjóðarinnar eru á höfuðborgarsvæðinu, en hin þrjú eru stundum kölluð landsbyggðarkjördæmi.

Sumir alþingismenn telja sig vera þingmenn fyrir landsbyggðina og vinna ötullega fyrir sín kjördæmi á meðan aðrir vinna fyrir þjóðina alla. Þannig getur Kristján Möller ekki talist minn þingmaður sem landsbyggðarþingmaður á meðan Steingrímur J. Sigfússon er með áherslu sína á allt landið þótt hann sé ekki með sömu áherslur og ég í veigamiklum málum. Þá má velta fyrir sér hvort verslunarmenn á Akureyri eigi ekki meira sameiginlegt með verslunarmönnum í Reykjavík en bændum á Austurlandi, en á sama hátt hvort sjómenn í Reykjavík eigi ekki meira sameiginlegt með sjómönnum á Neskaupstað en kennurum á Egilsstöðum.

Það situr enn í mér slæmska síðan Halldór E. Sigurðsson var samgönguráðherra og allar leiðir lágu til Borgarness. Á þeim tíma var þjóðvegur númer 1 lagður í gegnum Borgarnes í stað þess að liggja meðfram Borgarnesi meðfylgjandi alvarlegri slysahættu fyrir börn í Borgarnesi, einungis til að kaupmenn í Borgarnesi fengju örlítinn skerf af ferðamannaumferðinni á leið norður í land.

Ég vil að alþingismenn séu þingmenn fyrir allt landið, ekki bara sín kjördæmi. Því vil ég eitt kjördæmi sem tryggir að þingmenn vinni fyrir allt landið en ekki einungis hreppsfélagið heima.

föstudagur, nóvember 12, 2010

12. nóvember 2010 - Kostnaður við framboð

Um daginn var mér boðið að taka þátt í framboðskynningu á vegum Bleika hnefans, aðgerðarhóps róttækra kynvillinga, en Bleiki hnefinn er, ásamt Q, félagi hinsegin stúdenta og Trans-Íslandi helstu stuðningsaðilar mínir auk vina og fjölskyldu. Þegar ég kom á staðinn sá ég söfnunarbauka þar sem ætlast var til að fólk safnaði í púkkið vegna kostnaðar við framboð mitt. Þegar ég hafði lokið kynningu á framboði mínu óskaði ég þess að fólk gæfi frekar í framkvæmdasjóð Samtakanna 78 en í kosningasjóð mér til handa. Ástæðan væri einfaldlega sú að Samtökin 78 þar sem ég er gjaldkeri í stjórn, berjast í bökkum eftir verulegan niðurskurð á fjárframlögum frá opinberum aðilum og því eðlilegast að Samtökin 78 fái að njóta fjárframlaga á fundi sem haldinn er í salarkynnum Samtakanna.

Ég ber fulla virðingu fyrir því fólki sem telur sig þurfa á sérstakri kynningu að halda í tengslum við framboð til stjórnlagaþings. Fjöldi fólks er algjörlega óþekktur flestum og eðlilegt að þeir frambjóðendur sem telja sig vera í þeim hópi kynni sig, t.d. með einföldum kynningum í formi ódyrra auglýsinga. Ef frambjóðendur eyða milljón eða meira í auglýsingar fer maður að efast um heilindin og fer að velta fyrir sér hvaða sérhagsmunasamtök styðja við bakið á frambjóðandanum. Það er einu sinni svo að launin fyrir setu á stjórnlagaþingi eru einungis lélegt þingfararkaup sem er, ef ég man rétt, aðeins 520.000 krónur á mánuði fyrir skatta.

520.000 krónur er mjög áþekkt því sem ég hefi í laun í dag, að vísu með vaktaálagi, yfirvinnu, bakvöktum og fleiri sporslum. Það eru því ekki launin sem ég sækist í, einungis viljinn til að láta gott af mér leiða fyrir framtíð afkomenda minna og annarra Íslendinga framtíðarinnar.

Sjálf hefi ég ekki hugsað mér að eyða miklum peningum í framboð mitt. Það má vera að ég hræri í pönnukökur handa gestum mínum sem álpast í heimsókn og aldrei að vita nema ég lumi á glasi af rauðvíni eða bjór handa þeim hinum sömu hafi þeir áhuga fyrir slíku, en meira verður það ekki. Ef fólk hafnar mér vegna fortíðar minnar, verður svo að vera, en um leið fagna ég því ef hæstvirtir kjósendur minnast verka minna á jákvæðan hátt með því að skrifa númerið 9068 á kjörstað.

Um leið minnist ég ónefnds frambjóðanda sem bauð sig fram í prófkjöri fyrir nokkrum árum og eyddi til þess nærri tíu milljónum króna. Kjósendur höfnuðu honum!

12. nóvember 2010 - Um vald forseta Íslands

Þegar forseti Íslands neitaði að undirrita fjölmiðlalögin árið 2004 þótti mér það miður. Það var þörf á fjölmiðlalögum, en þáverandi valdhafar töldu sig þurfa að ná sér niður á ákveðnum einstaklingum sem hegðuðu sér ekki í samræmi við vilja valdhafanna, en forsetinn þurfti á sama hátt að þakka þessum sömu einstaklingum fyrir veittan stuðning við sig og ná sér niður á andstæðingum sínum sem sátu í ríkisstjórn.

Með því að aðhafast ekkert í breytingu á stjórnarskránni eftir höfnun forseta á fjölmiðlalögunum viðurkenndu þáverandi stjórnarherrar tilvist 26. greinar stjórnarskrárinnar. Það var miður. Nú hefur lítill stjórnmálaflokkur sem á sæti á Alþingi farið fram á það við forseta Íslands að hann skipi utanþingsstjórn, vald sem er honum er óheimilt nema með samþykki þeirrar ríkisstjórnar sem hann á að reka úr embætti.

Með óskinni um utanþingsstjórn er í reynd verið að óska þess að forsetaræðið verði fest í sessi enn frekar en orðið er og þá styttist leiðin enn frekar í áttina að fáræði fáeinna einstaklinga eða eins forseta. Þessi leið hugnast mér alls ekki og er mér frekar ógeðfelld. Ég held að ég vilji frekar flytja af landi brott en að sjá slíkt gerast á Íslandi á 21. öldinni. Hvað sem segja má um núverandi ríkisstjórn, hefur hún meirihluta Alþingis á bakvið sig og hlaut til þess meirihluta atkvæða í síðustu alþingiskosningum fyrir einu og hálfu ári síðan. Það er ekki hægt að segja sömu sögu um forseta Íslands sem fékk aðeins stuðning um 40% kosningabærra aðila í síðustu forsetakosningum árið 2004, þótt hann hafi vissulega hlotið yfirburðakosningu sé litið til greiddra atkvæða.

Ég er ekki viss um að afnema beri forsetaembættið. Margt er það sem forseti Íslands getur gert á meðan hann eða hún er sameiningartákn fyrir þjóðina, sameiningartákn með þeim hætti sem fyrri forsetar lögðu sig fram um að sinna af hógværð og virðingu.

Það má svo velta fyrir sér hvort það sé ekki frekar hlutverk forseta Alþingis að undirrita lög og stofna til stjórnarmyndanna!

fimmtudagur, nóvember 11, 2010

11. nóvember 2010 – Um skipan í dómstóla

Ég er hlynnt þrígreiningu ríkisvaldsins, skiptingu þess í löggjafarvald, framkvæmdavald og dómsvald. Ísland hefur ekki fylgt þessu nema að litlu leyti á undanförnum árum. Hér hefur framkvæmdavaldið ráðið yfir löggjafarvaldinu og ráðið dómarana sem síðan verða óvenjuvilhallir framkvæmdavaldinu í málum sem varða framkvæmdavaldið. Auk þess hefur forseti Íslands byrjað að láta til sín taka á undanförnum árum og leikið fjórða valdið, þvert á hefðir lýðveldisins.

Með framboði mínu til stjórnlagaþings er ég ekki að leggja fram tilbúnar tillögur um það hvernig stjórnarskráin eigi að vera í smáatriðum. Til þess er verið að velja á stjórnlagaþingið. Það er þó ljóst að ég verð seint hlynnt núverandi stjórnarskrá og tel að skerpa eigi á þrígreiningunnni í nýrri stjórnarskrá. Þar vil ég sjá að framkvæmdavaldinu, þ.e. ríkisstjórninni verði hlíft við því að þurfa að skipa dómara sem hefur verið mjög gagnrýniverður þáttur stjórnsýslunnar á undanförnum árum.

Í fljótu bragði tel ég eðlilegast að dómstólaráð sem í dag kveður úr um hæfni dómara, velji þessa hina sömu dómara en að slíkt val skuli jafnframt vera háð samþykki meirihluta Alþingis.

laugardagur, nóvember 06, 2010

6. nóvember 2010 - Um trúmál

Góð vinkona mín og samstarfskona til fleiri ára spurði mig um afstöðu mína til trúmála. Ég svaraði samkvæmt sannfæringu minni, að ég væri kristin og meðlimur í þjóðkirkjunni, en um leið væri ég hlynnt aðskilnaði ríkis og kirkju. Þessi afstaða mín varð til þess að hún tilkynnti mér að hún ætlaði ekki að styðja við framboð mitt til stjórnlagaþings.

Ég ber fulla virðingu fyrir afstöðu vinkonu minnar. Hún þekkir betur til sjóslysa og baráttunnar gegn þeim en flest annað fólk, án þess þó að hafa sjálf lent í slíku. Hún veit mætavel hve trúin getur verið sterk á örlagastundu þegar vonin virðist úti og ekkert eftir nema svartnætti síðustu andartaka lífsins áður en dauðinn veitir okkur síðustu líknarverkin á hafi úti fjarri ástvinum okkar. Ég hefi sömuleiðis kynnst slíku, séð fullorðna karlmenn gráta og biðja til guðs í örvæntingu sinni þegar öllu virtist lokið.

Meðal annars vegna þessarar reynslu minnar er ég kristin og get vart hugsað mér að fara yfir í annað trúfélag en hina evangelísku þjóðkirkju Íslendinga. Mér dettur hinsvegar ekki til hugar að þvinga trúarskoðunum mínum á annað fólk. Þetta var mín upplifun og mín reynsla sem ég upplifði og ég ætla að eiga hana með sjálfri mér og mínum nánustu. Mér dettur ekki til hugar að krefjast þess að aðrir Íslendingar deili þessari reynslu minni með mér. Þeirra er að eiga sína eigin trúarreynslu eða trúleysi án afskipta minna.

Þess vegna vil ég sjá aðskilnað ríkis og kirkju á Íslandi.

fimmtudagur, nóvember 04, 2010

4. nóvember 2010 –Um mannréttindaákvæði stjórnarskrár Íslands

Í 65 grein stjórnarskrár lýðveldisins Íslands segir svo:

Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti.

Konur og karlar skulu njóta jafns réttar í hvívetna.

Allt er þetta gott og gilt, en er þetta nóg?

Í stjórnskipunarlögunum frá 1995 er ekki einu orði minnst á kynhneigð eða kynvitund. Einungis ári síðar tókst að vinna mikilvægasta réttindamáli samkynhneigðra það mikinn stuðning að lög voru samþykkt um staðfesta samvist samkynhneigðra. Síðar tókst að leiða í lög ákvæði um ættleiðinar samkynhneigðra og síðastliðið vor voru loksins samþykkt ein hjúskaparlög, þrátt fyrir harða andstöðu nokkurra presta þjóðkirkjunnar þótt mikill meirihluti væri þeim samþykkur. Enn er ekki til lagakrókur um réttindi transfólks eða intersexfólks og ekkert í stjórnarkrá sem ýtir á slíka lagasetningu, ekki frekar en réttindi samkynhneigðra.

Réttindi samkynhneigðra eru ákaflega brothætt í lögum. Það er ekkert í stjórnarskrá sem verndar þau og reynslan frá Þýskalandi millistríðsáranna segir okkur að á þeim róstursömu tímum sem nú eru í íslensku samfélagi vilja minnihlutahópar gjarnan verða undir í slíkum átökum. Því er nauðsynlegt að tryggja slík réttindi svo fljótt sem orðið er.

Ég hefi aldrei reynt að draga dul á að stuðningur minn til stjórnlagaþings er að miklu leyti kominn frá hinsegin fólki sem hefur lengi þurft að berjast við veraldlegt sem geistlegt vald til að ná fram réttindum sínum. Ég mun að sjálfsögðu halda merkjum þeirra á lofti með kröfunni um umbætur í mannréttindakafla stjórnarskrár þar sem réttindi hinsegin fólks verði tryggð með að mannréttindaákvæðin nái einnig til kynhneigðar og kynvitundar.

laugardagur, október 30, 2010

30. október 2010 - Um tengsl frambjóðenda við hagsmunasamtök

Undanfarna daga hafa einhverjar gróusögur verið í gangi á Facebook þar sem fólk er hvatt til að sniðganga þá aðila sem kosta einhverju til kosningabaráttu sinnar til stjórnlagaþings, þá gjarnan til að útiloka þá aðila sem tengsl hafa við ákveðin hagsmunasamtök. Síðan lendir fólk í vandræðum ef skilgreina á þá aðila sem kosta einhverju til baráttunnar, hvort 3000 krónu kostnaður við auglýsingar á Facebook sé sambærilegur við hámarksupphæð þá sem leyfilegt er að eyða til baráttunnar. Það má um leið velta fyrir sér hvort fólk sem er tiltölulega óþekkt í samfélaginu þurfi ekki að kosta einhverju til að kynna sig og stefnumál sín? Ég ætla ekki að leggja dóm á slíkt og fólk verður að gera upp við samvisku sína hvort það kosti einhverju til að kynna sig eða láti slíkt ógert.

Ég viðurkenni alveg að ég hefi tengsl við fleiri hagsmunahópa. Ég er meðlimur í Félagi vélstjóra og málmtæknimanna, Ættfræðifélaginu, Samfylkingunni, Samtökum hernaðarandstæðinga, Trans-Ísland, Transgender Europe, Samtökunum 78 og Íslandsdeild Amnesty International og virk í mörgum þessara félaga. Um leið hefi ég ekki farið fram á stuðning frá neinu þessara félaga og þau hafa sömuleiðis ekki boðið mér neinn stuðning. Helsti stuðningurinn sem ég hefi fengið er frá Bleika hnefanum, aðgerðarhóp róttækra „kynvillinga“ og frá Q, félagi hinsegin stúdenta. Eins og gefur að skilja vaða þessir hópar ekki í peningum, enda aldrei ætlunin að þeir veiti mér neitt fjármagn til baráttunnar, en um leið er stuðningur þeirra mikils virði í baráttunni fyrir þeim málum sem ég stend fyrir. Því mun ég ekki kosta miklu, ef nokkru, til kosningabaráttunnar.

Framboð mitt til stjórnlagaþings er persónulegt og sjálfstætt, en um leið hvatning til að standa vörð um málefni friðar og mannréttinda fyrir hönd þeirra hópa sem styðja framboð mitt um leið og ég tel að fjölbreytt lífsreynsla mín geti komið að gagni á Stjórnlagaþingi.

Loks langar mig til að minna á auðkennistala mín í kosningum til stjórnlagaþings er 9068. Þessa tölu þarf að skrá á kjörseðilinn ef fólk ætlar að merkja við mig á kjördag.

fimmtudagur, október 28, 2010

28. október 2010 - Um kristniboðsfræðslu í skólum

Það er yndislegt að heyra hve trúmál geta valdið miklu fjaðrafoki í samfélaginu eins og umræðan um hvort banna skuli kristniboð í skólum. Sjálf velti ég þessum þætti tilverunnar fyrir mér, er mjög hlynnt algjöru trúfrelsi og aðskilnaði ríkis og kirkju, en hefi engan áhuga á að láta af trúnni og vil treysta kirkjunni minni fyrir sálu minni á efstu stundu.

Vegna umræðu um að kirkjunnar þjónar væru á kafi í trúboði í skólum, atriði sem ég minnist ekki að hafa verið áberandi í minni æsku, vil ég þó rifja upp eftirfarandi, þá sérstaklega eftir að ég neyddist til að þegja á fundi um kristnidómsfræðslu í skólum á fundi á miðvikudagskvöldið:

Það var minnir mig í tíu ára bekk að kennarinn okkar í Brúarlandsskóla fór á skíði í frítíma sínum, hann datt og fótbrotnaði. Þarna var úr vöndu að ráða. Það voru fáir kennarar við skólann og enginn gat bætt á sig kennslu Birgis og við sátum heima í nokkra daga á meðan reynt var að leysa úr málinu. Loks fékkst prestur sveitarinnar til kennslunnar og kenndi hann okkur í nokkrar vikur uns Birgir Sveinsson var orðinn það hress að hann gat hafið kennslu á ný. Ekki minnist ég þess að séra Bjarni Sigurðsson hafi haft neina tilburði í þá átt að auka við okkur kristinfræðikennsluna þessar vikur sem hann kenndi okkur eða reynt trúboð á annan hátt.

Loks kom okkar uppáhaldskennari aftur til starfa og allir glöddust, kennarar jafnt sem nemendur, ekki síst sjálfur séra Bjarni sem þurfti ekki lengur að mæta í Brúarlandsskóla á Landrovernum sínum á hverjum morgni.

Þessi stutta saga segir ekkert um hvort auka skuli eða draga úr kristnidómsfræðslunni í skólum landsins, miklu fremur hvort ekki beri að banna skíðaíþróttina á vetrum svo komið verði í veg fyrir að vinsælir kennarar slasi sig á skíðum í trássi við samþykki nemendanna!

mánudagur, október 25, 2010

25. október 2010 - Um Skotturnar

Á sunnudag var haldin ráðstefna í Háskólabíói um ofbeldi gagnvart konum og að því er mér skilst stóðu Skotturnar, samtök rúmlega tuttugu kvennasamtaka fyrir ráðstefnunni. Því miður komst ég ekki á ráðstefnuna vegna vinnu minnar, en vinafólk mitt sat ráðstefnuna alla, þó hvorki vegna Vigdísar Finnbogadóttur forseta né hins indverska fulltrúa Sameinuðu þjóðanna sem var kannski helsta skrautfjöður ráðstefnunnar.

Á fundinn hafði verið boðið Janice Raymond, en þótt hún hafi unnið mikið og vonandi gott starf gegn mansali og vændi, er hún frægust fyrir baráttu sína gegn transkonum. Í bókinni „The Transsexual Empire, the making of the she-male“ frá því 1979 dregur hún upp kolsvarta mynd af konum sem fæddust sem karlar og lýsir því hvernig þær eigna sér kvenlíkamann í neikvæðum tilgangi, eða eins og sagði í Morgunblaðinu á laugardag, „að þær séu útsendarar karlaveldisins sem ráðist inn í helgustu vé kvenna og eigni þannig körlum það sem konum er mikilvægast, að vera kona.“

Á ráðstefnunni kom Janice Raymond ekkert inn á sín hjartans mál og forðaðist að nefna baráttu sína gegn transkonum, enda væri eðlilegast að loka hana inni fyrir afstöðu sína, en samkvæmt 233 grein hegningarlaganna eru viðurlögin við skoðunum hennar allt að tveggja ára fangelsi. Sjálf get ég ekki sætt mig við að hún sem hatursmanneskja gegn manneskjum skuli fá að ganga laus á Íslandi á sama tíma og öfgafullur hvalverndunarsinni er sendur úr landi með fyrstu vél er hann kemur til landsins. Það er greinilegt að hvalir eru í meiri metum á Íslandi en manneskjur.

Í lok maí 2006 kom vinkona Janice Raymond að nafni Germaine Greer til Íslands og flutti erindi á ráðstefnu á vegum Tengslanets í þágu kvenna sem haldið var að Bifröst 1. og 2. júní 2006. Þar hélt hún miskunnarlaust fram skoðunum sínum og Janice Raymond gegn transkonum. Hún var hvorki handtekin né lokuð inni eftir hatursræðu sína, heldur var klappað fyrir henni þótt nær hefði verið að senda hana beint í beint í fangelsi eftir hatursáróður sinn.

Gott dæmi um hatursáróður Germaine Greer sjást á eftirfarandi síðu:

http://ai.eecs.umich.edu/people/conway/TS/Rogue%20Theories/Greer/Exorcism%20of%20the%20mother.html

Ég vona að Skottunum hafi yfirsést ferill þeirra vinkvennanna Janice og Germaine og að þær muni gæta þess í framtíðinni að kalla ekki aftur slíkt illþýði til Íslands sem þær Janice Raymond og Germaine Greer eru.

mánudagur, október 18, 2010

18. október 2010 - Framboð til Stjórnlagaþings

Ég, Anna Kristín Kristjánsdóttir, fædd 30. desember 1951 í Reykjavík, lýsi hér með yfir framboði mínu til stjórnlagaþings. Ég hefi þegar afhent nauðsynleg gögn til Landskjörstjórnar með 50 meðmælendum.

Með framboði mínu legg ég megináherslu á mannréttindi öllum til handa í stjórnarskrá lýðveldisins Íslands og þá sérstaklega í samræmi við baráttu minnihlutahópa fyrir réttindum sínum og að ekki megi leiða í lög mismunun gegn þessum sömu hópum. Sömuleiðis legg ég áherslu á friðarmálefni, að tryggt verði í stjórnarskrá að herskyldu megi aldrei leiða í lög né að Ísland taki þátt í hernaði á hendur öðrum þjóðum. Þá tel ég að virkja beri trúfrelsið með aðskilnaði ríkis og kirkju og kirkjan gerð sjálfstæð gagnvart ríkinu.

Ég vil aðskilnað lagavalds, framkvæmdavalds og dómsvalds á Íslandi. Þannig verði óheimilt að sami aðili sitji samtímis á Alþingi og í ríkisstjórn og að dómstólar starfi sjálfstætt og án afskipta framkvæmdavaldsins. Ísland verði eitt kjördæmi þar sem alþingismenn vinni með hag allrar þjóðarinnar að leiðarljósi.

Ég vil að Stjórnlagaþing finni ásættanlega lausn í náttúruverndarmálum Íslands sem hægt verði að festa í stjórnarskrá og miðað skuli við í störfum laga- og framkvæmdavalds.

Ég mun tjá mig frekar á næstu vikum um þessi málefni og önnur sem kunna að koma til umræðu í tengslum við kosningar til stjórnlagaþings.

-----

Ég er fædd í Reykjavík og ólst þar upp að hluta, en átti einnig góða æsku að barnaheimilinu að Reykjahlíð í Mosfellsdal þar sem ég dvaldi frá sjö til tólf ára aldurs. Ég fór til sjós á togara þegar ég var fjórtán ára og varð sjómennska hlutskipti mitt næstu áratugina á eftir, sem vélstjóri frá 1974. Ég settist á skólabekk í Vélskóla Íslands haustið 1972 og lauk þaðan námi vorið 1977 eftir að hafa tekið mér eins árs leyfi frá námi er ég tók þátt í að stofna fjölskyldu ásamt þáverandi maka.

Árið 1984 gekk ég í gegnum hjónaskilnað. Ári síðar settist ég enn á ný á skólabekk í öldungadeild Menntaskólans við Hamrahlíð jafnframt því sem ég lauk sveinsprófi í vélvirkjun. Árið 1987 hætti ég til sjós, lauk stúdentsprófi 1988 og tók ágætan kúrs í stjórnskipunarrétti hjá Ármanni Snævarr og almennri lögfræði veturinn á eftir, en lét tilfinningar mínar stjórna lífi mínu árin á eftir, flutti til Svíþjóðar 1989, starfaði eitt ár við vélaprófanir hjá Scania í Södertälje, en fékk þá starf hjá Orkuveitu Stokkhólmsborgar þar sem ég starfaði næstu sex árin á eftir sem vélfræðingur við kraftvarmaverið í Hässelby í Stokkhólmi. Á þessum tíma gekk ég í gegnum erfiðustu lífsreynslu lífs míns, að koma opinberlega út úr skápnum sem transmanneskja og síðan að ganga í gegnum erfiðar aðgerðir til leiðréttingar á kynferði mínu.

Ég flutti heim aftur 1996, átti í nokkrum erfiðleikum með að fá vinnu á Íslandi, kannski vegna fordóma, en með hjálp góðs fólks á Eskifirði ákvað ég að dvelja um kyrrt á Íslandi um sinn, en fékk svo vinnu hjá Hitaveitu Reykjavíkur þá um haustið og er enn hjá arftaka Hitaveitunnar, Orkuveitu Reykjavíkur, þar sem ég starfa sem vélfræðingur í stjórnstöð OR.

Hjá Orkuveitu Reykjavíkur starfa ég við hjarta Reykjavíkur, fylgist með flæði heits og kalds vatns um hverfi borgarinnar og nágrannasveitarfélaga, en einnig með því sem Reykvíkingar og nærsveitungar skila frá sér, fráveitunni, auk framleiðslu á rafmagni á Nesjavöllum og Hellisheiði.

-----

Meðal helstu félagsmálastarfa minna er eftirfarandi auk starfa nemendafélaga:
Í skólanefnd Vélskóla Íslands 1976-1977
Í stjórn Íslendingafélagsins í Stokkhólmi 1990-1993
Í menningarnefnd Landssambands Íslendingafélaga í Svíþjóð 1991-1994
Formaður Föreningen Benjamin í Svíþjóð 1994-1996 (félag transsexual fólks í Svíþjóð)
Í stjórn Ættfræðifélagsins 2002-2006
Í stjórn Transgender Europe 2005-2008 (Evrópsku transgendersamtökin)
Í stjórn Samfylkingarfélagsins í Reykjavík frá 2009
Fulltrúi VM í Siglingaráði frá 2009
Í trúnaðarráði Samtakanna 78 frá 2009, í stjórn Samtakanna frá 2010
Auk þessa er ég virk í Íslandsdeild Amnesty International, tók þátt í stofnun félagsins Trans-Ísland árið 2007 og hefi haldið fjölda fyrirlestra um transgender bæði heima og erlendis og kynnt þau mál í viðtölum og blaðagreinum.

-----

Að þora er að missa fótfestuna um stund, að ekki þora er að tapa sjálfum sér.

laugardagur, október 16, 2010

16. október 2010 - Enn um stjórnlagaþing

Ég svaf á áskorunum sumra um framboð til stjórnlagaþings aðfaranótt föstudags og svaf bara býsna vel. Er ég vaknaði um morguninn var ég hress og endurnærð og tilbúin í nánast hvað sem er nema að bjóða mig fram til stjórnlagaþings.

Nú þegar eru komnir á annað hundrað frambjóðendur til verkefnisins og margir þeirra þurfa að finna sér starf við hæfi. Með þessu er ég ekki að halda því fram að frambjóðendurnir séu allir jafnhæfir til setu á stjórnlagaþingi því þar er auðvitað misjafn sauður í mörgu fé. Nokkrir eru samt vel hæfir til verkefnisins og er trúandi til að gera góða hluti, en á sama tíma efast ég um hæfileika annarra til að vinna af heilindum að betri stjórnskipan fyrir lýðveldið Ísland. Á listanum sá ég meðal annarra einn sem ætlar að bjóða sig fram vegna andstöðu sinnar við Evrópusambandið. Ég efast um að sá viti út á hvað stjórnarskrá gengur. Þá er ég ekki viss um heilindi tveggja guðfræðinga sem báðir teljast með öfgafyllri kennimönnum á sviði trúmála og sömu sögu verður að segja um aldraðan trésmið sem tók þátt í stofnun Kristilega lýðræðisflokksins árið 1995. Vafalaust eiga fleiri furðufuglar eftir að skjóta upp kollinum fyrir hádegi á mánudag sem gaman verður að fylgjast með næstu vikurnar.

Ég ætla samt að fara eftir sannfæringu minni og kjósa það fólk sem ég treysti til að vinna íslensku þjóðinni gagn með nýrri og betri stjórnarskrá.

föstudagur, október 15, 2010

15. október 2010 - Stjórnlagaþing

Undanfarna daga hafa nokkrar manneskjur komið að máli við mig og skorað á mig að bjóða mig fram til þátttöku í Stjórnlagaþingi. Ég hefi ekki tekið mikið mark á þessum áskorunum, enda veit ég um nokkra frábæra frambjóðendur sem hafa gefið kost á sér til fremur erfiðs þinghalds þar sem tekist verður á um grundvallarbreytingu á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands þar sem gamla stjórnarskráin sem að grunni til er frá 1874 á Íslandi og enn eldri í Danmörku og er að mörgu leyti barn síns tíma.

Ég hefi aldrei farið í grafgötur um áhuga minn fyrir stjórnarskrá Íslands, en tel um leið mikilvægt að þættir eins og barátta fyrir friði, hógværri náttúruvernd og mannréttindum til allra þjóðfélagsþegna eigi að vera bundnir í stjórnarskrá, þar með talin réttindi til fæðis og húsnæðis, auk sjálfsagðra þátta eins og aðskilnaði löggjafarvalds og framkvæmdavalds svo ekki sé talað um sjálfstæði dómstóla og virku trúfrelsi sem er vart til staðar í núverandi stjórnarskrá, en sjálf er ég meðlimur í þjóðkirkjunni og hefi ekki hugsað mér að yfirgefa hana þótt hún verði skilin frá ríkisvaldinu.

Í stað þess að gefa kost á nokkurri umræðu um hugsanlegt framboð mitt, hefi ég stutt eitt framboð með undirskrift minni, vitandi að umræddur frambjóðandi er mikill friðarsinni og um leið feministi og róttækur jafnaðarmaður. Samtímis erum við ekki flokksystkin í stjórnmálum. Ég vil ekki nefna frambjóðandann á þessari stundu.

Meðal helstu þátta sem ég tel vera andstæð framboði mínu er tímaleysi. Ég er í of mörgum stjórnum og nefndum félagasamtaka og ég hefi ekki haft þann tíma sem ég þarf til að ljúka mikilvægum skrifum sem ég þarf að ljúka sem fyrst. Samtímis kitlar hugmyndin um Stjórnlagaþing áhuga minn, ekki síst vegna þess hve mikilvægt það er að raddir hinsegin fólks fái að heyrast á Stjórnlagaþingi, þar á meðal okkar sem teljumst vera trans eða intersex. Ég fór því að endurskoða fyrri ákvörðun þegar mér bárust áskorun frá virkum hópum hinsegin fólks til væntanlegs framboðs míns.

Ef einhver kemur með áskorun undirritaða af 40 einstaklingum á meðmælalista skal ég bjóða mig fram af fullri alvöru með bleikt bros á vör. En það verður líka að vera tilbúið og skilað inn til viðeigandi yfirvalda fyrir hádegi þann 18. október 2010.

Ritað á 35 ára afmæli útfærslu fiskveiðilögsögu Íslands í 200 sjómílur.

miðvikudagur, október 06, 2010

6. október 2010 - TGEU

Transgender Europe er merkilegur félagsskapur. Í þessum félagsskap mætast persónur sem áður voru hataðar og fyrirlitnar um allan heim, barðar og myrtar og töldust vera verstu úrhrök sem fyrirfinnast á jarðríki. Eftir fjöldamörg morð og hundruð þúsunda misþyrminga komum við 128 transpersónur og stuðningsfólk saman í ráðhúsinu í Vínarborg árið 2005 og stofnuðum með okkur samtök, Transgender Europe, skammstafað TGEU og ég lenti í fyrstu stjórninni.

Fyrstu tvö árin voru erfið. Fyrsta stjórnarfundinn héldum við í Genf í Sviss og einungis níu af fyrstu stjórninni mættum til fundarins, ég sjálf, Stephen Whittle frá Englandi, Jo Bernardo frá Portúgal, Eva Fels og Jo Schedlbauer frá Austurríki, Julia Ehrt og Jane Thomas frá Þýskalandi, Justus Eisfeld frá Þýskalandi/Hollandi og Rosanna Viano frá Ítalíu. Allur tíminn fór í umræður um skipulag og stjórn TGEU og síðan var haldið á transgenderráðstefnu sem haldin var á vegum ILGA (International Lesbian and Gay Association) þar sem ég hitti fjölda baráttufélaga úr transgenderfjölskyldunni og félaga, þar á meðal Mariele Castro Espin, dóttur Raul Castro forseta Kúbu.

Jafnframt fyrstu tvístígandi skrefunum var baráttunni haldið áfram. Einhver í stjórninni gerðu heimildarkvikmynd um morðið á Gisbertu, brasilískri stúlku úr fjölskyldunni sem var misþyrmt og síðan myrt af unglingagengi í Portúgal. Á fundi í Manchester var Justus Eisfeld kosinn formaður og stóð sig með prýði. Þá voru komnar nýjar manneskjur í hópinn, Philippa James frá Írlandi og fleiri, en Jo Bernardo komin á nýjar vígstöðvar í lífi sínu. Áfram héldum við að hittast og ræða framtíðna, í Torino, Amsterdam og Berlin. Það fór að sjá á pyngjunni og ég sá fram á gjaldþrot ef ég héldi áfram sama hætti þótt árið 2007 væri ekki liðið.

Ég sótti um styrki í allar áttir og fékk næstum jafnmargar neitanir. Einasta ljósið í myrkrinu var Minningarsjóður Margrétar Björgólfsdóttur þaðan sem ég fékk hundrað þúsund króna styrk vegna fundarhalda á vegum TGEU. (Landsbankinn-Björgólfur Guðmundsson) Þrátt fyrir þennan styrk varð ég að draga saman seglin og tilkynnti fyrir annað þing TGEU í Berlín 2008 að ég gæti ekki haldið áfram starfi fyrir samtökin af fjárhagsástæðum.

Við annað þing TGEU í Berlín í maí 2008 tók ég að mér að gerast skoðunarmaður reikninga félagsins og sit enn með þá ábyrgð. Skömmu fyrir þingið bárust okkur þær kveðjur frá Evrópusambandinu að við værum samþykkt NGO alþjóðasamtök (NGO = No Goverment Organisation) og þar með fóru peningar að streyma inn og ég átti fullt með að samþykkja reikninga félagsins.

Þriðja þing TGEU var haldið í Malmö í Svíþjóð haustið 2010. Þingið sóttu um 240 manns og ég þurfti að svara fyrir einstök atriði í reikningum samtakanna, einhverra atriða sem aðeins voru pro forma er ég samþykkti að gerast endurskoðandi tveimur árum áður. Ég fékk mótframboð og allt í einu fann ég að baráttan fyrir réttindum transgender fólks var að vinnast.

Einungis Julia Ehrt er enn í stjórn TGEU nú sem formaður samtakanna, öll hin eru hætt eða búin að draga sig í hlé frá stjórninni, þar á meðal Stephen og ég. Baráttan er unnin en samtímis er hún rétt að hefjast. Á meðan transgender manneskja er myrt að meðaltali annan hvern dag vegna þess að hún er transgender erum við á byrjunarreit. En við gefumst ekki upp og munum sigra að lokum.

sunnudagur, september 19, 2010

19. september 2010 - Gaffalbitar!

Ég var að hlusta á þáttinn Rokkland í útvarpinu þar sem rætt var við þrjá meðlimi hljómsveitarinnar Gildrunnar frá Mosfellsbæ. Ólafur Páll stjórnandi kvartaði eitthvað yfir fjarveru Þórhalls bassaleikara og var honum þá bent á að Þórhallur væri búsettur austur á Eskifirði og lögregluvarðstjóri þar.

Upp í hugann kom slæmt mál frá því snemma árs 1997 að aðkomumaður að norðan gekk berserksgang á Eskifirði og ók meðal annars gaffallyftara á lögreglubíl með tveimur mönnum innanborðs og velti honum. Báðir lögreglumennirnir í bílnum slösuðust, annar þó mun meira og var einhverja mánuði frá vinnu af þeim sökum. Gárungarnir voru fljótir að taka við sér og voru lögreglumenn staðarins kallaðir gaffalbitar á eftir.

Nokkru eftir þetta var ég stödd á balli á Eskifirði og hitti þar Þórhall lögreglumann þar sem hann hélt uppi lögum og reglu á ballinu og spurði hann auðvitað hvað hann væri að gera þarna, hvort hann ætti ekki að liggja stórslasaður í rúminu heima?
”Nei nei, það er hinn gaffalbitinn sem liggur slasaður heima!”

fimmtudagur, september 16, 2010

16. september 2010 - Úti að aka!

Ég var á ferð um Miklubrautina seinnipart fimmtudagsins. Það var þung umferð í báðar áttir og þegar ég nálgaðist gangbrautina við Skaftahlíð skipti yfir á rautt ljós fyrir umferðina til vesturs og ég stoppaði eins og lög gera ráð fyrir. Eftir það fóru fimm bílar framúr mér við gangbrautina og yfir á rauðu ljósi áður en sá sjötti staðnæmdist við hliðina á mér.

Það voru margir úti að aka í umferðinni í Reykjavík í dag!

miðvikudagur, september 15, 2010

15. september 2010 - Skýrslan!

Nú er skýrsla Vistheimilanefndar um Reykjahlíð komin út. Ég efa það ekki að nefndin hafi unnið störf sín af kostgæfni og gert sitt besta til að sannleikurinn kæmi fram, en það er ekki alltaf nóg. Það er auðvelt að beita fólk þrýstingi svo ekki sé talað um að freista þess með mögulegum peningum. Í þessu ljósi verður að skoða skýrslur sumra þeirra aðila sem gáfu skýrslu fyrir Vistheimilanefnd, ekki síst þeirra aðila sem gáfu skýrslu eftir að farið var að tala um bætur í formi peninga.

Sjálf var ég á barnaheimilinu frá því snemma vors 1959 til hausts 1963 og átti þarna bestu stundir æsku minnar. Barnaheimilið að Reykjahlíð var heimili mitt á meðan ég ólst þar upp og þótt dvöl mín hafi ekki verið eilíf sæla, er ég sannfærð um að ævi mín hefði orðið öllu verri hefði ég alist upp hjá foreldrum mínum í sárri fátækt við vondar aðstæður í Reykjavík.

Þegar Rósa Svavarsdóttir kom fyrst fram í fjölmiðlum með ásakanir áhendur Sigríði Jónsdóttur og Ara Maronssyni (1911-1966) gaf hún mjög sterklega í skyn að hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi af hans hálfu og að hún og stöllur hennar hefðu orðið að festa sig við rúmstokkinn með beltum svo þeim yrði ekki rænt af Ara heitnum. Nú er ekki lengur talað um að festa sig við rúmstokkinn heldur er frásögnin orðin að belti og axlaböndum.

Reyndin er þessi. Stelpunum þótti Ari býsna stór og ruddalegur sem hann virkilega var. Og oft angaði hann af áfengi er hann kom í heimsókn þótt forstöðukonan byrjaði á að loka hann inni ef hann kom í þessu ástandi. Einn strákur á heimilinu sem er um sjö árum eldri en Rósa, skrökvaði því að stelpunum að Ari ætti það til að ræna litlum stelpum og stinga af með þær. Hann ráðlagði þeim því að festa sig með beltum við rúmstokkinn svo Ari gæti ekki náð þeim. Nú er þetta orðið að belti og axlaböndum.

Sjálfri fannst mér Ari leiðinlegur. Hann forðaðist krakkana, drykkfelldur og var fremur þumbaralegur í framkomu, ekki ósvipuð manngerð og Gunnar Huseby, en vei mér ef þessir menn hefðu nokkru sinni lagt hönd á börn. Nei, þeir voru frekar af þeirri gerðinni sem forðaði sér frá börnum.

Rósa hélt því fram í sjónvarpsviðtali að einhver sextán ára stelpa hefði verið send til vistunar í Reykjahlíð og sú hefði kennt henni að stela. Skrýtið! Ég var í Reykjahlíð á sama tíma og ég man ekki eftir neinni þjófóttri sextán ára stelpu sem hafði verið send þangað. Börn voru venjulega send í burtu þegar þau voru sextán ára, ekki öfugt. Einustu tilfellin sem börn voru á heimilinu eftir fimmtán ára aldur voru þegar börn ólust upp á barnaheimilinu og voru einfaldlega ekki farin þaðan. Á mínum tíma voru aðeins tvö börn þarna sem þetta átti við um, bæði strangheiðarleg og bindindissöm.

Allt tal Rósu um miða í rútuna sem hún hélt fram öðru sinni í sjónvarpi á miðvikudagskvöldið er bull. Krakkarnir í sveitinni notuðu enga miða í rútuna. Skólataskan var nægur farareyrir. Börn á leið í og úr skóla fóru einfaldlega í rútuna og fengu sér sæti.

Sigríður forstöðukona frá 1961 fær slæma dóma í skýrslunni. Nokkur börn eru neikvæð í hennar garð, þá helst Rósa Svavarsdóttir. Ég minnist hegðunar Sigríðar ekki sem harkalegt, heldur sem ákveðið. Hún lét ekkert vaða ofan í sig og þarf að svara fyrir það í dag hátt í hálfri öld síðar.

Ég ætla ekki að halda því fram að allt hafi verið fullkomið í Reykjahlíð, en það ágæta barnaheimili var eins fullkomið og efni og aðstæður gátu leyft því að vera.

Eftir að farið var að tala um bætur var auðvelt að fá fólk til að tala illa um æskuheimili mitt. Mitt í skýrslutökunum samþykkti Alþingi að greiða börnunum bætur. Þá var að vísu orðið of seint fyrir mig að sækja um bætur þar sem ég hafði tjáð mig opinberlega um heimilið áður, en ég hefði alveg getað hugsað mér að fá sex milljónir í bætur fyrir það ranglæti sem örlögin í formi foreldra sem þótti brennivínið gott, ollu mér.

þriðjudagur, september 14, 2010

14. september 2010 - Um Landeyjahöfn

Ein ástæða þess hve illa hefur gengið að byggja upp Vestmannaeyjar að nýju eftir gosið 1973 eru samgöngurnar. Fólk sem var sífellt sjóveikt eða flughrætt átti mjög erfitt með að búa í Eyjum svo ekki sé talað um ef það leið sömuleiðis af innilokunarkennd á lítilli eyju þótt hátt sé til loft og glæsileg sýn til sjávar og fjalla. Ég er ekki viss um að þröng göng á sprungusvæði með hættu á eldgosum og jarðhræringum hefði hjálpað mikið upp á.

Með tilkomu Landeyjahafnar og þess mikla árangurs sem fyrstu vikurnar af Landeyjahöfn báru með sér, er ljóst að Landeyjahöfn er það sem koma skal. Með einungis rúmlega hálftíma ferð á milli lands og Eyja á Herjólfi ná þeir sem verst eru haldnir af sjóveiki vart að verða sjóveikir nema þá í haugabrælu.

Þessir byrjunarerfiðleikar sem há ferjusiglingum á milli lands og Eyja munu vonandi heyra sögunni til, kannski ekki strax, en alveg örugglega innan nokkurra ára. Sjálf er ég farin að hlakka til að geta skroppið dagsferð til Eyja þegar mér sýnist rétt eins og að skreppa vestur á Snæfellsnes eða á næsta fjall.

Það má vel vera að nauðsynlegt verði að lengja hafnargarðana eða gera einhverjar þær framkvæmdir sem koma í veg fyrir sandburð fyrir hafnargarðinn eins og hefur verið undanfarnar vikur, en til þess eru vandræðin að læra af þeim og gera betur næst.

Þá er ég sannfærð um að eftir að þessum byrjunarerfiðleikum lýkur, muni mannlífið í Eyjum blómstra sem aldrei fyrr og að Eyjamenn geti sannanlega haldið áfram að telja ”Norðurey” sem stærstu eyjuna í Vestmannaeyjum.

mánudagur, september 13, 2010

13. september 2010 - Landflótta!

Í eina tíð þótt ég ekkert betri en fjöldi annarra Íslendinga hvað fordóma varðar. Ég var sjálf uppfull af þeim og er kannski enn að einhverju leyti. Ég hefi þó lært ýmislegt, t.d. hætti ég með fordóma gagnvart hinsegin fólki þegar ég kom sjálf útúr skápnum og ég hefi aldrei getað skilið hvar eigi að setja mörk þess hvar eigi að setja mörkin þegar um kynþætti er að ræða, þ.e. ef setja á mörk á milli okkar og þeirra. Þess vegna er einfaldast að sleppa mörkunum og líta á alla sem jafningja.

Nú eru hafnar kynþáttaofsóknir á Íslandi. Íslenskir feðgar af kúbönskum uppruna eru flúnir land vegna aðgerða ofstækismanna. Ástandið er alvarlegt og ljóst að ef gerningsmönnunum verður ekki refsað af ítrustu hörku, en í samræmi við lagabókstafinn, munu kynþáttahatarar vaða uppi hér á landi í framtíðinni.

Bjóðum feðgunum aftur hingað aftur og stöndum vörð um þá og réttindi þeirra gegn hatursmönnum þeirra. Svo skulum við koma í veg fyrir fordómana og kennum þeim sem ala á fordómum, að skoðanir þeirra eru ekki æskilegar meðal siðaðs fólks.

laugardagur, september 11, 2010

11. september 2010 – Kærðir ráðherrar

Nú hefur meirihluti þingmannanefndarinnar svokölluðu lagt til að fjórir fyrrum ráðherrar verði dregnir fyrir landsdóm vegna brota í embætti í hruninu og að þeir verði dæmdir, ef ekki fyrir ráðherraábyrgð skv 4. gr laga um landsdóm, þá fyrir brot á 141. gr hegningarlaganna. Ég er þessu ósammála.

Það má vel vera að ég sé hlutdræg í málinu þar sem ég er málkunnug Björgvin Sigurðssyni en þekki Ingibjörgu Sólrúnu orðið sæmilega allt frá þeim tíma er hún stjórnaði Reykjavíkurborg með miklum sóma. Það breytir ekki því að ég tel málshöfðun fyrir landsdómi var mjög varhugaverðan kost í þessu tilfelli, ekki síst vegna þess að hrunið er afleiðing nýfrjálshyggjunnar og stjórnarstefnu ársins 2002 þegar bankarnir voru einkavinavæddir.

Það má vel vera að hægt verði að sakfella fjórmenningana fyrir landsdómi, en ég tel litlar líkur ef nokkrar á að slíkur dómur stæðist fyrir mannréttindadómstól Evrópu. Þarna á að dæma fólk til refsingar fyrir einföldu dómstigi án möguleika á áfrýjun til æðra dómsstigs innanlands, en það er annað verra. Alþingi kærir ráðherrana, en skipar jafnframt meirihluta dómara í sama máli, en ég hélt að slíkur málatilbúningur væri ólöglegur með dómi mannréttindadómsstólsins fyrir tuttugu árum síðan.

Að ráðherrakærunum frátöldum er ég sammála niðurstöðu þingmannanefndarinnar að svo miklu leyti sem ég hefi lesið um málið.

P.s. Ætli fyrirsögn Moggans í kvöld hafi verið tilviljun eða gleymdi Mogginn Geir Haarde viljandi:
http://mbl.is/mm/frettir/innlent/2010/09/11/alvarleg_vanraeksla_a_starfsskyldum/

föstudagur, september 10, 2010

10. september 2010 - Röng viðbrögð við slysi?

Ég man eftir einum ágætum verkstjóra á næsta verkstæði við það sem ég var að vinna á fyrir einhverjum áratugum. Eitt sinn varð starfsmaður hjá honum fyrir því að klemmast alvarlega á hendi og úlnlið og leið hræðilega illa ef dæma mátti af sársaukaviðbrögðunum. Mikið fát greip verkstjórann og hann hóf að leita að einhverjum sem gæti keyrt hinn slasaða upp á slysadeild áður en einhver benti honum á að best væri að hringja beint í sjúkrabíl. Í framhaldi af kalli verkstjórans á sjúkrabíl komu fulltrúar frá lögreglu og Vinnueftirliti á staðinn og gerðu nauðsynlegar skoðanir og gerðu sína skýrslu.

Þetta atvik kom upp í hugann þegar ég heyrði af brunaslysi hjá veitingastofu KFC í Kópavogi á fimmtudagskvöldið.

Ekki ætla ég ásaka einn né neinn fyrir röngu viðbrögðin sem virðast hafa átt sér stað. Meginskýringin felst í ókunnugleika, ókunnugleika hverjum ber að tilkynna um slysið, en einnig ókunnugleika sem stafar af æfingaskorti. Hversu víða eru framkvæmdar neyðaræfingar á vinnustöðum á Íslandi? Hvernig hefðu vinnubrögðin orðið ef starfsfólkið á KFC hefði fengið nauðsynlega og rétta öryggisfræðslu er það hóf störf hjá fyrirtækinu? Hvað með öll hin fyrirtækin?

Hversu víða er til réttur búnaður á heimilum eða á vinnustöðum gegn brunaslysum, smáum eða stórum? Það eru vissulega víða til sjúkrakassar, en hversu víða eru til brunavarnarefni í sjúkrakössum, t.d. á veitingastöðum og annars staðar þar sem stöðugt er verið að bjástra með sjóðandi feiti og vatn?

Ég fullyrði að margir vinnustaðir og flest heimili séu án nauðsynlegs búnaðar gegn brunaslysum sem ættu þó að vera skylda á hverju heimili, sérstaklega þar sem börn eru. Þá er ég að tala um brunavarnarefni eins og BurnFree, BurnRelief og önnur slík efni og sem fást í flestum eða öllum apótekum.

Ég efast um að þessir fáu sem lesa bloggið mitt kíki í sjúkrakassann sinn og hlaupi svo út í apótek eftir nauðsynlegum efnum til að bæta öryggi barna sinna og annarra á heimilinu!

P.s. Það eru til ánægjulega undantekningar frá öryggisleysinu hjá nokkrum stórum vinnustöðum, t.d. hjá álverunum í Straumsvík og á Reyðarfirði auk OR og einhverra fleiri þar sem reynt er að minnka áhættuna eins og hægt er.

miðvikudagur, september 08, 2010

8. september 2010 - Lýður Oddsson

Jón Gnarr er snillingur á sínu sviði. Það þarf ekki að grafa lengi til að sjá að hann var á réttri hillu sem leikari hvort heldur er í sjónvarpsþáttum eða kvikmyndum og auglýsingagerðarmaður er hann af Guðs náð. Hver man ekki eftir Júdasi í frægum auglýsingum frá Símanum eða þá Lýð Oddssyni lottóverðlaunahafa? Þá má ekki gleyma Georg Bjarnfreðarsyni sem er með fimm háskólagráður frá Uppsala Universitet. Með öllum þessum hlutverkum hefur Jóni Gnarr tekist að ávinna sér sess í hjörtum íslensku þjóðarinnar svo eftir er tekið.

Það gerir ekki málin verri að Jón Gnarr var tengdasonur hins ágæta Jóhanns Gíslasonar, eins skemmtilegasta vélstjóra sem siglt hefur á skipum Eimskipafélags Íslands og var þar yfirvélstjóri í fjölda ára, en hann lést snögglega síðastliðið vor nokkru fyrir kosningarnar.

Nú má greina slæman afturkipp á íslenskum auglýsingamarkaði. Jón Gnarr hefur haslað sér völl á nýjum vettvangi. Vafasamar auglýsingar hafa heltekið auglýsingatímana þar sem Steindi sýnir sínar verstu hliðar og Síminn lætur þekkta leikara drekka bensín af stút eins og sælgæti væri. Á sama tíma felst bætt hverfalýðræði í því að trésmiður í vesturbæ Reykjavíkur og fallkandídat í borgarstjórnarkosningum er gerður að formanni hverfarás Árbæjar og annar fallkandídat, sá úr Skerjafirðinum, er gerður að formanni hverfaráðs Kjalarness. Þá eru gjaldskrár borgarfyrirtækja miskunnarlaust hækkaðar af slíku miskunnarleysi undir stjórn Besta flokksins að verstu handrukkarar blikna í samanburði.

Af einhverjum ástæðum fæ ég á tilfinninguna að bæði íbúar Reykjavíkur og auglýsinga- og skemmtanamarkaðurinn hafi þurft að líða fyrir þessi vistaskipti Jóns Gnarr.

þriðjudagur, september 07, 2010

7. september 2010 - Jenis av Rana

Jenis av Rana er starfandi heimilislæknir í Færeyjum, formaður Miðflokksins á Straumey og áhrifamaður í sértrúarsöfnuði þar. Hann hefur nú gert okkur þann heiður að neita að sitja kvöldverðarboð til heiðurs Jóhönnu Sigurðardóttur og eiginkonu hennar Jónínu Leósdóttur.

Þótt mér þyki miður að Jenis av Rana skuli hafa verið boðið í svo gott boð sem með þeim Jóhönnu og Jónínu, þá fagna ég því að hann skuli hafa afboðað sig við umrætt boð. Hann hefur ekki aðeins barist hatrammlega gegn mannréttindum í Færeyjum, heldur hefur hann og brotið gegn færeyskum barnaverndalögum sem kveða á um upplýsingaskyldu fólks sé brotið gegn þeim. Í því dæmi sem ég hefi heyrt um, ákvað hann að vernda söfnuð sinn gegn upplýsingaskyldunni er hann komst að því árið 2006 að fjölskyldufaðir hefði gert sig sekan um kynferðisofbeldi gegn dóttur sinni. Hann hafði ekki samband við yfirvöld sem honum bar lögum samkvæmt að gera og stóð auk þess með föðurnum gegn kæru dótturinnar gegn honum.

Að slíkum viðbjóði af manneskju skuli vera boðið að sitja til borðs með forsætisráðherra okkar er móðgun við íslenska þjóð, en sem betur fer hafnaði hann sjálfur boðinu.

Daginn sem færeyska þjóðin losar sig við öfgamann sem Jenis av Rana úr sviðsljósi stjórnmálanna verður stór dagur fyrir mannréttindabaráttu fólks um allan heim.

mánudagur, september 06, 2010

6. september 2010 - Á að slá út lekaliðanum?

Þessa dagana er hvatt til þess á Facebook og víðar að fólk sameinist um að slá út lekaliðum sínum í fáeinar mínútur til að mótmæla verðhækkunum á rafmagni. Það að mótmæla með því að hætta að versla tiltekna vöru eða versla í tileknum verslunum er skiljanlegt, en þessi mótmæli eru samt öllu vafasamari.

Ef fjöldi fólks slær út lekaliðanum hjá sér í fáeinar mínútur verða áhrifin hverfandi, jafnvel þótt við ímyndum okkur að fimmtíu þúsund heimili á Reykjavíkursvæðinu slái út lekaliðanum hjá sér í hálftíma eða klukkutíma að kvöldi til. Einustu áhrifin sem það veldur eru að álagstoppurinn að kvöldi verður mun seinna en annars verður og því betri dreifing á sólarhringsnotkuninni fyrir dreifingaraðila rafmagnsins. Margir geta hinsvegar skapað sér vandræði, t.d. ef þeir gleyma að slökkva á borðtölvum og öðrum mjög viðkvæmum raftækjum áður en þeir slá út lekaliðanum svo ekki sé talað um blessaðar vekjaraklukkurnar sem margar fara í núllstillingu í hvert sinn sem rafmagnið fer af.

Það er einu sinni svo að hinir stóru notendur rafmagns eru miklu stærri í heildarnotkuninni en nokkrar ljósaperur. Um kvöldmatarleytið eru margar verksmiðjur og iðnfyrirtæki stopp en aðrar þar sem unnin er vaktavinna, munu ekki tefja framleiðsluna með slíku ótímabæru stoppi. Einn bræðsluofn í álveri er stærri en öll rafmagnsnotkun í Reykjavík og útsláttur á slíkum ofni hefur áhrif á rafkerfið, ekki aðeins í Reykjavík, heldur um land allt. Fáeinar ljósaperur segja ekkert í slíku sambandi, ekki einu sinni allar ljósaperur á Íslandi.

Því kostar það aðeins vandræði fyrir mótmælendur ætli þeir sér að mótmæla með því að slá út lekaliðanum. Það er því best að finna sér aðrar aðferðir til að mótmæla og sleppa lekaliðanum.

sunnudagur, september 05, 2010

5. september 2010 - Af klaufaskap biskups

Gunnar Sigurjónsson prestur tjáði sig um starf biskups í sjónvarpsfréttum í kvöld, taldi orð hans klaufaleg en ekki svo að ástæða væri fyrir hann að segja af sér. Ég er sammála Gunnari um að biskup sé enginn sökudólgur í kynferðisbrotamálum meðal kirkjunnar þjóna. Klaufaskapur er hinsvegar réttlæting fyrir kröfu um afsögn.

Biskup tjáði sig ákaflega klaufalega í sjónvarpsviðtali um daginn um kynferðisbrotamál forvera síns í embætti og það er ekki nógu gott. Hann reyndi að sigla á milli skers og báru þegar nauðsynlegt var að taka skýra afstöðu gegn kynferðisafbrotum í þeim tilgangi að vernda látinn kollega sinn. Sá sem gegnir æðsta trúarlega embætti landsins verður að kunna skil á réttu og röngu og því brást biskup í þetta sinn. Það er um leið tæplega ástæða fyrir úrsögnum úr þjóðkirkjunni að fjölmiðlar hafi lagt kirkjuna í einelti eins og sá ágæti guðsmaður Örn Bárður Jónsson orðaði svo skemmtilega í messu sunnudagsins. Ástæðan er miklu fremur umræðan á Facebook og sú hjarðhegðun sem þar á sér stundum stað.

Eins og gefur að skilja var ekki búið að finna upp Facebook árið 1996 þegar síðustu fjöldaúrsagnir voru úr þjóðkirkjunni og sjálft netið reyndar enn að slíta barnsskónum. Þegar ofbeldisverk fyrrum biskups komust í hámæli öðru sinni fjórtán árum eftir hið fyrra hafði margt breyst í netheimum og auðvelt að kalla saman þjóðfund án atbeina fjölmiðla. Afleiðingin varð að fjöldaúrsögnum úr þjóðkirkjunni án þess að kirkja eða formlegir fjölmiðlar hefðu nokkuð um slíkt að segja.

Um það má svo deila hvort kirkjan verði nokkuð bættari með afsögn biskups þegar haft er í huga að einn þeirra sem stundum eru kallaðir svartstakkar er einmitt staðgengill biskups og vígslubiskup, séra Sigurður Sigurðsson í Skálholti.

föstudagur, september 03, 2010

3. september 2010 - Af eldhúsi OR

Eftirfarandi yfirlýsing hefur borist fjölmiðlum frá Benedikt Jónssyni yfirmatreiðslumanni OR og birtist hér óbreytt:

Rangtúlkun fjölmiðla

Starfsfólk og aðbúnaður

Það hefur sennilega ekki farið fram hjá mörgum þær fréttir að eldhús Orkuveitu Reykjavíkur sé ekkert nema bruðl og flottræfilsháttur. Starfsfólki eldhússins finnst nauðsynlegt að koma á framfæri leiðréttingu á þessari rangtúlkun. Hluti starfsfólksins hefur starfað í þessu eldhúsi frá því að það var sett á laggirnar í byrjun árs 2003 og veit því vel hvað þar hefur farið fram undanfarin ár.

Fyrst ber að leiðrétta að starfsmenn eldhússins eru samtalst 17 en ekki 31 eins og komið hefur fram í fjölmiðlum. Af þessum 17 eru 3 í hlutastarfi. Þessi starfsmannafjöldi skiptist á þrjár starfsstöðvar fyrirtækisins sem eru Nesjavellir, Hellisheiði og Bæjarháls. Meðalfjöldi starfsmanna í hádegismat er 520.

Þegar ákveðið var að byggja eldhúsið á sínum tíma var haft að leiðarljósi að Orkuveitan myndi hætta að kaupa tilbúinn bakkamat en í staðinn skyldi allur matur eldaður á staðnum. Það yrði ódýrara, heilnæmara og auðveldara að stjórna gæðunum. Í eldhúsið voru keypt hefðbundin eldhústæki sem voru valin eftir opið útboð. Þau tæki sem urðu fyrir valinu eru ekki merkilegri en hver önnur eldhústæki í stóreldhúsum og sem dæmi eru ofnarnir hefðbundnir gufusteikingarofnar og eldavélin er orkusparandi spansuðuvél.

Í eldhúsinu er starfrækt vottað gæðakerfi þar sem öllum reglum er framfylgt og önnur sambærileg fyrirtæki hafa haft sem fyrirmynd. Það er því leiðinlegt að umræðan sé þannig að það sé kallað bruðl þegar aðeins er verið að framfylgja lögum um matvælaeftirlit og hollustuhætti. Fjöldi starfsmanna Orkuveitunnar vinnur við heitt og kalt vatn daglega og því mikilvægt að ekki komi upp matarsýking/eitrun sem gæti gert starfsmenn óhæfa við störf sín.

Mikill misskilningur er að þetta sé á einhvern hátt tölvustýrt eldhús. Ofnarnir eru tengdir við HACCP gæðakerfi sem skráir allar aðgerðir, mælir og geymir kjarnhitastig sem er mjög mikilvægt þegar verið er að steikja t.d. kjúkling sem þarf að ná ákveðnu hitastigi við eldun. Þeir sem ekki vita hvað HACCP merkir þá er það innra eftirlit með kerfisbundinni aðferð sem notuð er í þeim tilgangi að tryggja gæði, öryggi og hollustu matvæla og að matvælin uppfylli að öðru leyti þær kröfur sem til þeirra eru gerðar. Innra eftirlit miðar að því koma í veg fyrir (þ.e. að fyrirbyggja) að matvæli skemmist eða mengist og geti þannig valdið heilsutjóni eins og matareitrun eða matarsýkingu.

Flestir ofnar hafa þennan möguleika á tölvutengingu en fáir matreiðslumenn hafa viljað tileinka sér þessa aðferð við skráningu mælinga og geymslu gagna, sem sagt enginn aukakostnaður við þetta aðeins hagræðing og meira öryggi við skráningu nauðsynlegra gagna. Í þessum ofnum er hægt að baka brauð eins og í flestum ofnum. Ekkert sérstakt bakarí er í eldhúsinu þó svo að öll brauð séu bökuð á staðnum og er það mikill sparnaður.

Myndbandið og leiðrétting á misfærslum

Myndbandið sem gert var um eldhúsið var að frumkvæði matreiðslumanna sem starfa í eldhúsinu. Mikill áhugi var á meðal fagfólks í matvælaiðnaði með að skoða aðstöðuna en erfitt þótti að sýna eldhúsið þar sem takmarkaður aðgangur var leyfður. Það má alveg deila um hvort það hafi verið nauðsynlegt eða ekki að gera myndbandið en tilgangurinn var sá að sýna öðrum fagmönnum hvernig eldhús OR var að gera hlutina. Kostnaður OR við myndbandið var 100 þús. kr og var vinna þess unnin að mestu í frítíma starfsmanna. Myndbandið hefur komið mörgum að góðum notum og álíka eldhús verið byggð á fyrirmynd þess, einkum vegna hagræðingar og góðra vinnuhátta.

Í myndbandinu er sýnt hvernig silungur er reyktur í hitaskáp. Þessi reykskápur er venjulegur hitaskápur sem ekkert stóreldhús getur verið án, þá má líka nota þessa skápa til þess að reykja fisk/kjöt ofl. Því er sú umræða um að keyptur hafi verið sérstakur reykskápur á villigötum.
Einnig hefur grænmetisþvottavélin fengið sinn skammt af gagnrýni. Það er grundvallarregla við meðhöndlun grænmetis og ávaxta að skola vel upp úr hreinu vatni áður en þess er neytt, minni eldhús geta notast við vask og handvirka salatvindu en í stóreldhúsum eru önnur lögmál. Þetta tæki hefur sparað mörg handtökin. Þeir vinnustaðir sem skola ekki sitt grænmeti bjóða hættunni heim vegna hættu á óæskilegum aðskotadýrum og örverum.

Í myndbandinu er sagt frá því að 15.000 gestir hafi þegið veitingar árið 2003. Stór hluti af þessum fjölda er tilkominn vegna vígslu höfuðstöðva fyrirtækisins árið 2003 þegar fyrirtækið var með opið hús fyrir almenning sem taldi 10.200 manns. Aðrir hópar gesta voru t.d grunnskólanemar, háskólanemar, eldri borgarar og fólk sem sótti vikulega deildarfundi. Árið 2009 var þessi fjöldi 3215 og árið 2010 er fjöldinn óverulegur.

Í kvöldfréttum stöðvar 2 þann 1. september var viðtal við matreiðslumann á veitingastað. Þar bar hann saman eldhúsið sitt við eldhús OR. Ekki er réttlátt að bera saman þessi tvö eldhús þar sem þau þjóna engan veginn sama tilgangi. Eldhús veitingastaða er allt annar flokkur eldhúsa en stór framleiðslueldhús og því á engan hátt hægt að bera saman þessi tvö eldhús vegna ólíkra aðferða.

Í sömu frétt er verið að bera saman eldhús OR við skólamötuneyti þar sem einn matreiðslumaður eldar fyrir 500 börn með ófullnægjandi aðstöðu. Vinnuumhverfið í eldhúsum skólanna ætti í raun frekar að vera fréttaefnið. Munurinn á eldhúsi OR og mörgum öðrum er fólgin í því að mikil áhersla er lögð á að maturinn er eldaður frá grunni á staðnum, engir tilbúnir réttir eru aðkeyptir, grænmetið er skorið og eldað á staðnum og áhersla lögð á hollustu og réttar matreiðsluaðferðir.

Starfsfólki eldhússins finnst afar dapurt að fjölmiðlar hafi dregið upp þá mynd af eldhúsinu að þar sé bruðlað í aðbúnaði og hráefni þegar meginmarkmið eldhússins hefur alltaf verið að fara eftir reglum um aðbúnað, hagkvæmni og aðferðir. Starfsfólkið telur að þessi góði vinnustaður hafi skaðast vegna rangs og óréttláts fréttaflutnings undanfarinna daga. Það er bæði rangt og óréttlátt að halda því fram að eldhúsið sé það sem mestu skiptir þegar rætt er um slæma fjárhagsstöðu Orkuveitunnar.

Fyrir hönd starfsfólks eldhúss Orkuveitu Reykjavíkur
Benedikt Jónsson
Yfirmatreiðslumeistari

fimmtudagur, september 02, 2010

2. september 2010 - Voðaverk Kristjáns Möller

Ég er ekki sátt. Kveðja Kristjáns Möller til handa landsmönnum síðustu mínutur sínar í ráðherraembætti er eins og hnífur í bak friðarsinna og kann ég honum engar þakkir fyrir. Það má vel vera að nýfrjálshyggjuþrjótarnir sem seldu útsæðið úr eigin garði á Suðurnesjum og eru nú á hvínandi kúpunni með stuðningi innfæddra fagni innilega komu þessa málaliðafyrirtækis til Suðurnesja, en þeir verða vonandi einir um það.

Reyndar grunar mig að ekki muni líða langur tími uns Suðurnesjamenn sjái einnig þvílíkan harmleik er verið að framkvæma með þessu glapræði og sjálf vona ég að jafnaðarmenn losi sig við fráfarandi samgönguráðherra úr liði sínu svo fljótt sem verða má eftir þessi svik við jafnaðarstefnuna og friðarvonir í heiminum.

Það er fleira sem gerir mig ósátta við ríkisstjórnina. Ég er ósátt við brotthvarf Rögnu Árnadóttur úr ríkisstjórn. Það má vera að einhverjum þyki sem sæti Ögmundar Jónassonar í ríkisstjórn sé málamiðlun svo hægt sé að skapa frið meðal VG. Þeir sem halda slíkt vaða villu og reyk. Fyrsta merki hins nýja klofnings meðal kattanna í VG er þingsályktunartillaga Ásmundar Einars gegn samningaviðræðunum um Evrópusambandið.

Einhvern veginn fæ ég á tilfinninguna að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur sé í andarslitrunum nema til komi nýr stuðningur úr öðrum áttum en frá VG.

Því miður.

þriðjudagur, ágúst 31, 2010

31. ágúst 2010 – Eru Pólar-verðlaunin til fólks á eftirlaunum?

Ég heyrði í dag af sænsku Polar verðlaununum sem í þetta sinn féllu í hlut íslensku söngkonunnar Bjarkar Guðmundsdóttur. Ég viðurkenni að hafa lítið fylgst með þessum verðlaunaveitingum frá fyrstu árunum sem þau voru veitt og ekkert velt þeim fyrir mér síðan ég flutti heim frá Svíþjóð 1996.

Ég fór hinsvegar að velta fyrir mér hverskonar fólk hefur fengið verðlaunin. Oftast eru það gamlir tónlistarmenn sem fá þau allt frá því Paul McCartney fékk þau 1992, 22 árum eftir andlát Bítlanna og þar til Pink Floyd fékk þau 2008, þrjátíu árum eftir útgáfu tímamótaverksins The Wall og aldarfjórðungi eftir að samstarfi Roger Waters og hinna lauk. Svipaða sögu er að segja um marga hinna 38 tónsnillinga sem hafa fengið verðlaunin sem bæði eru af sviði sígildrar tónlistar sem og dægurlaga, margir aðframkomnir sökum ellihrumleika þótt einn og einn reyni að viðhalda æskuþokkanum með hjálp lýtalæknisfræðinnar.

Af einhverjum ástæðum fæ ég á tilfinninguna að verið sé að verðlauna fólk á eftirlaunum fyrir gott ævistarf fremur en að verið sé að hvetja það til nýrra dáða á tónlistarsviðinu.

mánudagur, ágúst 30, 2010

30. ágúst 2010 – Drottingarviðtöl við grunaða glæpamenn

Fréttablaðið eyddi nokkrum blaðsíðum í drottningarviðtal við Sigurð Einarsson fyrrum stjórnarformann í Kaupþingi eða hvað sá banki hét á meðan hann stjórnaði honum. Ég viðurkenni alveg að ég nennti ekki að lesa í gegnum allt viðtalið, en af fyrirsögnum má ætla að hann krefjist opinberrar rannsóknar á störfum sérstaks saksóknara.

Af einhverjum ástæðum spyr ég hver tilgangurinn er hjá ritstjóra Fréttablaðsins, hvort verið sé að undirbúa endurnýjaða nýfrjálshyggju af þeim toga sem kom Íslandi á hausinn fyrir aðeins tveimur árum. Það er alveg ljóst, hvort sem Sigurður verður dæmdur sakamaður eður ei, að hann átti þátt í, ásamt nokkrum tugum annarra fjárglæframanna, að koma fjármálakerfi heillar þjóðar á hausinn og slíkur glæpur yrði hvergi annars staðar í heiminum talinn bjóða minna en nokkra áratugi upp á vatn og brauð á bakvið rimla.

Nú bíð ég þess að næsta drottningarviðtal Fréttablaðsins verði við Lalla Johns þar sem hann hraunar yfir saksóknara og fangelsisyfirvöld. Hann er örugglega með skemmtilegri frásagnargáfu en Sigurður Einarsson!

þriðjudagur, ágúst 24, 2010

24. ágúst 2010 - Uggur og ótti

Ekki ætla ég að byrja hér á að endurtaka kafla úr bók Sörens Kierkegaard „Frygt og bæven“ frá 1843, enda þykir mér bókin býsna tyrfin aflestrar í útgáfu Bókmenntafélagsins. Hins vegar á titill bókarinnar ágætlega við um það andlega ástand íslensku þjóðarinnar sem skapaðist hér á land við hrunið haustið 2008, allan þann fjölda fólks sem missti vinnuna við hrunið, oft á tíðum það sem kallaðist örugga vinnu og ævistarf. Sjálf hóf ég að hressa upp á atvinnuréttindin mín þótt ég væri í pottþéttri vinnu allt til starfsloka og er enn að öllu óbreyttu.

Það var þó ekki vegna atvinnuöryggis sem ég hóf að hlaupa á öll þau námskeið sem ég þarf að mæta á reglulega til að viðhalda atvinnuréttindunum, fremur vegna ótta við slíkar skattaálögur og hækkanir á útgjöldum að mér yrði ekki vært á Íslandi ef hrunið leiddi til ríkisgjaldþrots og slíkra álaga að ekki yrði líft á Íslandi lengur. Vissulega hafa allar álögur stóraukist, en þær hafa þó ekki leitt til persónulegs greiðslufalls þótt laun hafi verið lækkuð tímabundið.

En offjárfestingar áranna 2000 til 2008 láta þó ekki að sér hæða og sumsstaðar ganga starfsmenn um ganga þessa dagana, niðurlútir og áhyggjufullir. Hvað verður um okkur, verður einhverjum sagt upp, verða launin lækkuð niður í eitthvað sem gerir annars gott starf einskis virði? Hverjir munu eiga fyrirtækið eftir eitt ár, hvað tekur langan tíma að rétta úr kútnum? Óvissan er algjör, en þeir sem öllu ráða hafa ekkert sagt okkur enn sem komið er.

Ætti ég kannski að sækja um á togara og losa mig þannig við áhyggjurnar sem aðrir sköpuðu mér?

mánudagur, ágúst 23, 2010

23. ágúst 2010 - Um þjóðkirkjuna

Undanfarna daga hefur fjöldi fólks tjáð sig á Facebook með yfirlýsingar í þá veru að það ætli sér að segja skilið við þjóðkirkjuna vegna gamalla atburða og nýrra.

Vissulega eru ”hendur” kirkjunnar blóði drifnar og mörg eru glæpaverkin sem hafa verið framin í nafni kirkjunnar í gegnum aldirnar. Það hafa þó ávallt verið menn sem hafa mistúlkað trúarboðskapinn sem hafa verið að baki þessum óhæfuverkum og sjálfsagt að rannsaka slíka glæpi og dæma eftir þeim lögum sem eru í samfélaginu hverju sinni, en ekki vera með tvenn landslög í gangi hverju sinni.

Sjálf hefi ég oft verið í andstöðu við hegðunarmunstur kirkjunnar þjóna. Þá á ég ekki einungis við ásakanir á hendur prestum og biskupum fyrir ætluð sifjabrot, heldur og harða andstöðu þeirra gegn samkynhneigðum og síðast en ekki síst orð þáverandi biskups í minn garð haustið 1994. Hið síðastnefnda leystist farsællega með bréfaskriftum okkar á milli og verður ekki endurtekið frekar.

Það er um leið ástæða til að taka fram að flestir þeir prestar og kirkjunnar þjónar sem ég hefi átt samskipti við hafa verið prýðisfólk, hafa unnið af heilindum og virt baráttu okkar fyrir betra lífi, nú síðast með því að nærri hundrað guðfræðingar skrifuðu undir áskorun um að lögleiða ein hjúskaparlög fyrir alla.

Ef ég myndi segja mig úr þjóðkirkjunni, væri ég um leið að taka afstöðu gegn þessu ágæta fólki sem hefur stutt okkur og fylgja braut meðvirkninnar sem nú er í gangi. Ég tel því best að lofa þessu góða fólki að smám saman ná yfirhöndinni í þjóðkirkjunni og koma afturhaldsöflum og svartstökkum til hliðar með hógværð sinni og jákvæðni. Ég mun því halda áfram að vera í þjóðkirkjunni, mæta örsjaldan til kirkju en, kveðja þetta líf á efsta degi í sátt við guð og menn en fá hinstu blessun að leiðarlokum frá kirkjunnar þjóni.

föstudagur, ágúst 20, 2010

20. ágúst 2010 - Fjallaferðir

Ég fór á fjall í gær. Slíkt þykir vart í sögur færandi þegar haft er í huga að þetta var tuttugasta fjallaferðin á sumrinu, en samt verður hver ferð dálítið sérstök. Svo átti þetta að vera mjög einföld ferð, fyrst á eitt fjall og síðan hækka mig upp í næsta fjall rétt hjá hinu.

Þegar ég ók inn Hvalfjörðinn gat ég ekki annað en dáðst að þessum tveimur fjöllum og því hve þetta yrði einföld ganga, fyrst Þyrill og svo Brekkukambur. Ég lagði bílnum við Hvalfjarðarbotn neðan við Síldarmannabrekkur og hélt af stað. Klukkan var ekki orðin tvö og brekkurnar voru góðar við mig og brátt var ég komin upp að Síldarmannagötum og hélt þegar til vesturs út á Þyril.

Það var farið að hvessa og bætti í vindinn eftir því sem vestar dró. Þegar ég kom að gestabókinni þorði ég ekki að fara út á ystu nöf af ótta við að missa jafnvægið, lagði grjót á gestabókina á meðan ég skrifaði í hana, tók myndir og hélt svo til austurs til að krækja fyrir Litlasandsdalinn. Áður en ég vissi af var ég komin inn á Síldarmannagöturnar. Ég hélt þær áfram uns ég sá glitta í Tvívörður í fjarska, en hélt þá til vesturs upp hægan stíganda á móti Brekkukamb sem er 649 metrar. Ekki þurfti ég að hafa áhyggjur af að ganga of langt enda hækkaði landslagið framundan.

Landslagið þarna uppi var ósköp eymdarlegt, laust grjót svo minnti á Leggjabrjót og mýraflákar. Ekki bætti úr að hvassviðrið var búið að berja á mér svo klukkutímum skipti og ég fór að finna til þreytu. Þegar ég var loksins komin á þann topp sem ég vissi nákvæmastan, fór ég því að velta fyrir mér hvort ekki væri til þægileg leið niður án þess að fara sömu leið til baka. Eftir að hafa velt þessu fyrir mér ákvað ég að halda nánast sömu leið til baka og ég kom, þriggja tíma göngu eftir algjörri vegleysu, ekki einu sinni kindagötur að fara eftir fyrr en komið var niður að Síldarmannagötum.

Ég komst niður og það var lúin manneskja sem settist í bílinn að aflokinni átta og hálfs tíma án þess að mæta einni manneskju. Þótt nokkrar séu harðsperrurnar er ég samt reiðubúin að halda til fjalla á ný hið fyrsta, reyndar þegar búin að smyrja nestið og gera klárt í bakpokann fyrir göngu laugardagsins.

fimmtudagur, ágúst 19, 2010

19. ágúst 2010 – Að slasast í útlöndum

Það var í ágúst 1987. Okkur hafði seinkað á leið okkar yfir hafið og þegar við komum að lóðs við Humberfljót í Englandi var komið sunudagskvöld og ég var á vaktinni í vélarúmi. Eitthvað eyddi ég eftirmiðdeginum í að leita að leka í lensikerfi vélarrúmsins og tekið upp gólfpalla í þeim tilgangi þegar síminn úr brúnni hringdi og tilkynnt var um lóðs innan fáeinna mínútna.

Ég hætti vinnu minni við leit að leku röri í lensikerfinu og skipti vélunum yfir á léttolíu og gerði allt klárt fyrir komu til hafnar. Skyndilega heyrði ég hvernig stóra ljósavélin fór að hiksta og þrátt fyrir ítrustu aðgerðir drap hún á sér og skipið varð rafmagnslaust. Ég hafði þá þegar komið aukavél í gang og í myrkrinu á leið minni frá vélinni að rafmagnstöflunni missté ég mig þar sem ég hafði tekið upp gólfplötu, féll á milli gólfplatna og fann fyrir hræðilegum sársauka í hægri öxl.

Skipið var á viðkvæmasta stað sem hægt er að hugsa sér, um hundrað skip í kring og enginn tími til að vorkenna sér. Ég beitti því ítrasta mætti til að koma mér upp og að rafmagnstöflunni og sló inn rafmagninu og kúplaði síðan inn þeim dælum sem eru nauðsynlegar hverju skipi á keyrslu.

Einhverntímann hafði ég heyrt að ein manneskja geti komið handlegg í lið með því að leggjast á gólf, lagðist á vélarúmspallana með bilaða handlegginn hangandi niður og fann hvernig handleggurinn dróst að öxlinni og tilfinningin færðist í hann. Síðan hélt ég áfram vinnu þrátt fyrir sársaukann og hélt að hann liði hjá fljótlega.

Við komum til Immingham seint um kvöldið og eftir stutt stopp var haldið áfram áleiðis til Antwerpen. Ég var á vakt alla nóttina, þorði ekki að segja nokkrum manni frá klaufaskapnum í mér og um sexleytið morguninn var lóðs utan Humberfljótsins sleppt ég komst í koju, ennþá sárþjáð í hægri handleggnum.

Það varð lítið um svefn og enn minna um vinnu. Þegar komið var til Antwerpen hélt ég því til læknis og eftir röntgenmyndatökur var ljóst að axlarliðurinn hafði sprungið og ég sett í gifs frá háls og niður að mitti. Þá fyrst byrjaði ævintýrið!

Það var sumar í Evrópu og margar eiginkonur skipverja voru með okkur, þar á meðal eiginkonur yfirvélstjóra og annars vélstjóra. Það var því ljóst að einhver varð að taka vaktina í Rotterdam og ég taldi mig fara létt með slíkt, brotin á annarri. Vandamálið var bara að við þurftum að taka á móti olíu, bæði svartolíu og gasolíu. Ég tók vaktina, samdi við dagmanninn um að aðstoða mig við olíutökuna og hinir vélstjórarnir fóru í land með eiginkonum sínum.

Þegar olían kom, neituðu bunkergæjarnir að dæla olíunni um borð í fyrstu, en eftir að ég hafði sýnt þeim að ég væri með fullu þreki (þrátt fyrir hræðilegan sársauka) samþykktu þeir að byrja dælingu og allt fór vel.

Daginn eftir komum við til Hamborgar þar sem nýr maður kom um borð sem leysti mig af og ég komst heim í veikindafrí. Miðað við ástandið á mér, gat ég ekki borið mikið og því tók ég aðeins eina stresstösku með, fyllti hana af áfengi en skorðaði flöskurnar með sígarettukartonum og þannig fór ég heim með flugi, sem var beint frá Hamborg til Keflavíkur.

Eftir að heim er komið er sjálfsagt að kaupa sér tollvarning. Ég gat einfaldlega ekki borið meira en ég hafði þegar, en náði samt að versla löglegan varning af öli og brennivíni í glænýrri flugstöðinni, en þar sem engar voru kerrurnar komnar, rölti ég út í toll og bar mig aumlega. Ónefnd manneskja í tollinum sá aumur á mér og bar allt draslið mitt út úr flugstöðinni og ég þakka henni til æviloka fyrir að hafa aldrei skoðað í töskuna mína.

Síðan eru liðin mörg ár, en þetta skemmtilega ævintýri í flugstöðinni átti sér stað 20. ágúst 1987. Þann dag hætti ég til sjós og hefi verið landkrabbi flesta daga síðan þá!

mánudagur, ágúst 16, 2010

16. ágúst 2010 – Fjallganga

Einhver sú asnalegasta íþrótt sem ég veit er fjallganga. Það er lagt í rándýran útbúnað, gönguskó sem kosta tugi þúsunda, hlífðarfatnað sem kosta annað eins, stafi, bakpoka, GPS, áttavita og annað það sem telja verður bráðnauðsynlegt eins og kort og sjúkragögn, ekið óravegalengd að einhverju fjalli og svo er arkað af stað.

Á leiðinni upp getur ýmislegt skeð, fjallgöngumaðurinn rennur í skriðum, fer vitlausu megin við auðveldu leiðina, grípur í handfestu sem reynist svo vera laus steinn og misstígur sig í ójöfnum. Áfram er samt haldið og eftir því hærra verður komist, lekur meiri sviti af fjallgöngumanninum uns komið er á hæsta topp, þá venjulega gjörsamlega úrvinda af þreytu og lofar sjálfum sér því að fara aldrei aftur á fjall.

Síðan eru teknar nokkrar myndir á toppnum, þó með því skilyrði að toppurinn sé ekki hulinn skýjum og síðan er labbað niður aftur.

Látið mig þekkja þetta. Í sumar er ég búin að fara í 19 fjallgöngur, þó aðeins á fjórtán mismunandi fjöll. Síðasta fjallið var í dag, en þá var ráðist á Geitafellið vestan við Þrengslaveg.

Ég hafði lesið mig til um fjallið, sagt vera auðvelt uppgöngu nánast hvar sem var og þar sem ég nálgaðist fjallið horfði ég á þverhnípta hamraveggina. Ég ákvað því að rölta suður með fjallinu uns ég kom að gili einu og óð af stað upp gilið. Ekki leið á löngu uns ég fór að angra ákvörðun mína um að fara upp á þessum stað svo laust var grjótið við gilið og engin handfesta í sprungnu móberginu. Ég gafst þó ekki upp og hélt áfram og komst ofar og ofar og lét hvorki rok né regn stöðva mig.

Að lokum stóð ég á toppnum, blásandi eins og fýsibelgur, sá fátt af fjöllum vegna regnskúra og hélt niður aftur.

Enn einu fjallinu hafði verið bætt við afrekaskrá mína og nú má hefja leit að næsta fjalli sem verður lagt að fótum mér.

sunnudagur, ágúst 15, 2010

15. ágúst 2010 - Drykkjuskapur?

“Þetta eru nú ljótu bytturnar!”

Þessi orð og önnur álíka neikvæð voru oft látin falla á sjötta og sjöunda áratug tuttugustu aldar þegar glertimbraðir embættismenn voru á ferðinni á mánudögum og mættu hressum togarasjómönnum sem höfðu komið í land um morguninn eftir fleiri vikna túr á Grænlandsmiðum eða af Halanum og byrjuðu landveruna á að koma við í Ríkinu og fá sér eina bokku í tilefni af eins til tveggja daga leyfi.

Þarna voru tvær þjóðir í sama landi með andúð á hvorri annarri á yfirborðinu þótt hvorug gæti án hinnar verið, en höfðu takmarkaðan skilning á þörfum hvorrar annarrar.

Nú er ég komin með hugsunarhátt embættismannsins, því eitthvað þessu líkt fór í gegnum kollinn á mér í morgun er ég fékk mér morgungöngu um regnvott Árbæjarhverfið. Ekkert fólk sást á gangi, en einn og einn leigubíll skaust inn í hverfið með illa haldna farþega sem voru á leið heim úr samkvæmi næturinnar þar á meðal einn þar sem farþegarnir skjögruðu úr bílnum að einu húsinu. Ekki var við það komandi að ég færi að rifja upp gamlar minningar af sjálfri mér er ég var að koma heim úr viðlíka samkvæmum fyrr á árum, en fremur reynt að hneykslast yfir umræddu fólki.

Ég ætti kannski að hætta að hneykslast og reyna að læra af reynslu áratuganna.

laugardagur, ágúst 14, 2010

14. ágúst 2010 - Um mann með einfaldan smekk.

Að undan hefur umræðan um þverrandi dagskrá ríkissjónvarpsins verið mjög til umræðu og eru flestir á því að alvarlegir meinbugir séu á dagskrárstefnu sjónvarpsins og vilja breytingar á dagskránni. Ég er þessu ósammála.

Páll Magnússon útvarpsstjóri veit hvað er þjóðinni fyrir bestu. Hann gerir sér fulla grein fyrir aulabröndurum og guðlasti Spaugstofunnar sem og mannskemmandi háði þeirra í garð fyrirmanna þjóðarinnar og ekki þarf að ræða mikið um þann drykkjuskap sem fram fer fyrir framan sjónvarpsskjáinn í hvert sinn sem jaðaríþróttin handbolti er á dagskrá. Ekki er heldur ástæða til að eyða skattpeningunum okkar í hörmulega íslenska dagskrárgerð eins og kvikmyndir á borð við Blóðrautt sólarlag og Fiskur undir steini.

Páll og forverar hans hafa sömuleiðis gætt vandlega að öryggisþáttum þjóðarinnar og gæta þess vandlega að senda ekki út æsifréttir sem valdið gætu áhyggjum þegar eldgos og jarðskjálftar ríða yfir þjóðina samanber 17. júní árið 2000 þegar sýnt var frá bráðnauðsynlegum fótboltaleik einhverra fótboltaliða suður í heimi til að veita hugsuninni frá jarðskjálfta sunnanlands. Sömuleiðis gættu þeir þess vandlega að segja ekki frá eldgosi á Fimmvörðuhálsi fyrr en gjörvallir netheimar að netfjölmiðlum meðtöldum höfðu tjáð sig um gosið, enda hefði slíkt getað valdið óþarfa hræðslu hjá íbúum nærri Eyjafjallajökli sem voru þegar á flótta frá heimilum sínum eftir boð um slíkt frá lögreglu.

Páll vill að sjálfsögðu gæta að menningararfi þjóðarinnar, kenna okkar að meta Íslendingasögurnar á fornmálinu, iðka glímu og önnur þjóðleg fangbrögð, drekka mjólk í stað mjaðar og ganga okkur til hressingar í stað þess að öskra okkur vitfirrt yfir handbolta. Hann hefur vald til að gera þetta, t.d. með því að hætta að sýna ömurlega skemmtilega sjónvarpsþætti á borð við Spaugstofuna, Little Britain og Formúluna og sýna oss þess þá heldur myndarlega menn með einfaldan smekk í sjónvarpsfréttum.

Sjálf hefi ég lært mikið af hinni þjóðlegu hugsun útvarpsstjórans. Ég er að mestu hætt að horfa á íslenska ríkissjónvarpið þar á meðal lélegar auglýsingar sem eru sýndar með sviknum loforðum um bætta dagskrá. Heilsan er orðin miklu betri með heilnæmum gönguferðum og hannyrðum í baðstofunni á kvöldin undir lýsingu af grútarlampanum og get ég notið lífsins með því að gömlu góðu dagarnir þegar ekki var neitt sjónvarp eru komnir aftur.

Ef ég fæ fráhvarfseinkenni hefi ég aðgang að 60 erlendum sjónvarpsstöðvum sem ég get horft á, margar lausar við illa gerðar auglýsingar þar sem einhverjir bjánar hella bensíni upp í hvern annan á vegum Símans eða slefa eins og hálfvitar á vegum svipaðra fyrirtækja, svo ekki sé talað um vandaðar og hlutlausar fréttir án þular með einfaldan smekk!

P.s. Ætli ég geti fengið sjónvarpsskattinn minn endurgreiddan?

sunnudagur, júní 27, 2010

27. júní 2010 - Regnbogamessa í Fríkirkjunni

Síðan ég var kosin í stjórn Samtakanna 78 í mars síðastliðnum hefur mér auðnast fyrir, hönd Samtakanna, að taka þátt í samstarfi þeirra við við hin geistlegu yfirvöld, þ.e. þjónandi presta sem flestir eru á okkar bandi. Upphaf þessa var með símtali Sr. Sigríðar Guðmarsdóttur í Guðríðarkirkju við mig er hún vildi kynna sér skoðanir Samtakanna fyrir prestastefnu í vor.

Þegar stjórn Samtakanna ræddi hverja ætti veita mannréttindaviðurkenningar Samtakanna, kom einhver með þá snilldarhugmynd að þakka þessum tæplega hundrað guðfræðingum fyrir baráttu þeirra og eðlilegt að sr. Sigríður Guðmarsdóttir tæki við fyrsta eintakinu á regnbogamessunni í Fríkirkjunni að kvöldi 27. júní. Það breytir ekki því að allir þeir sem hvöttu til þess að ein hjúskaparlög giltu í landinu áttu þessa viðurkenningu skilið og fá hver sitt eintak af viðurkenningunni.

Regnbogamessan var stórkostleg. Hreiðar Ingi, Bergþór, Páll Óskar, Sigga Beinteins, Lay Low, Maríus Hermann, Hörður Torfason og Andrea Gylfadóttir sungu, Ragna Árnadóttir dóms- og mannréttindaráðherra flutti ávarp. Svana flutti ritningalestur og veitti viðurkenningar og ekki má gleyma hetjum Fríkirkjunnar, þeim sr. Hirti Magna og sr. Bryndísi Valbjörnsdóttur.

Takk, þetta var ógleymanleg stund.

föstudagur, júní 25, 2010

26. júní 2010 - Íbúar Árbæjar treggáfaðri en aðrir?

„Hefurðu séð Fréttablaðið í dag? Formaður hverfaráðs Árbæjarhverfis býr ekki einu sinni í hverfinu“
Nágrannakona mín var óðamála er hún hóf upp raust sína.
„Þetta hefur maður upp úr því að kjósa ykkur í Samfylkingunni.“
Ég varð að benda konunni á að ég hefði ekki einu sinni verið í framboði, hvað þá að ég hefði nokkuð með hverfaráðs Árbæjarhverfis að gera, enn síður að hlustað væri á mig og umkvörtunarefni þau sem ég hefði lagt fram við borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, en benti henni á að það væri kominn nýr málefnasamningur Samfylkingarinnar og Besta flokksins þar sem ætti að auka valdið i hverfum borgarinnar.
(Sjálf vildi ég ekki viðurkenna að ég hefði ekki einu sinni séð þessa nýju tilhögun.)

Brátt bættist önnur nágrannakona í hópinn og var hún síst sáttari við hinn nýja formann hverfaráðsins en hin fyrri.

Fljótlega eftir að ég hafði lent í rimmunni við nágrannakonurnar náði ég í Fréttablaðið og þar stóð það svart á hvítu að formaður Hverfaráðs Árbæjarhverfis væri Þorleifur Gunnlaugsson trésmiður og búsettur í vesturbæ Reykjavíkur og fallkandidat í prófkjöri Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs og síðan einnig í borgarstjórnarkosningunum í vor. Ég sendi fyrirspurn um þetta mál til stjórnar hverfafélags Samfylkingarinnar í Árbæjarhverfi, en þegar þessi orð eru rituð hefur ekkert svar borist mér nærri tveimur sólarhringum síðar.

Í samstarfssamning Samfylkingarinnar og Besta flokksins stendur eftirfarandi:

Hverfastefna
Aukin verkefni og fjárráð flytjist til hverfaráðanna.
Í samráði við íbúa og starfsfólk verði útfærðar tillögur um hvernig best sé að draga úr miðstýringu og auka sjálfstæði hverfanna með eflingu hverfaráða, hverfatengdrar þjónustu og forgangsröðun í rekstri innan hverfis.

Þetta var þá efndin á loforðunum sem ég tók þátt í að samþykkja einungis tíu dögum fyrr. Var virkilega enginn íbúi í Árbæjarhverfi með nægilegan félagsþroska til að geta tekið að sér stjórn þessa hverfaráðs? Eru Kjalnesingar virkilega svo treggáfaðir að sækja þarf fallkandidat úr Sjálfstæðisflokknum, búsettan í Skerjafirði til að stýra hverfaráði Kjalarness?

Það má vel vera að borgarfulltrúar Samfylkingarinnar sem allir segjast vera aldir upp í Árbæjarhverfi, en sömuleiðis allir löngu búnir að koma sér í burtu úr hverfinu og tveir fluttir í þriðja minnsta hverfið með hinum borgarfulltrúunum, séu ánægðir með þessa tilhögun mála, en ég er ekki sátt fremur en nágrannar mínir sem hafa tjáð sig um þetta mál við mig. Þessi ákvörðun borgarstjórnar segir mér það að hún fyrirlíti íbúa Árbæjar og Kjalarness og telji þá treggáfaðri en aðra íbúa Reykjavíkur. Ég get ekki mætt þessu á annan hátt en þann að óska mér betri og faglegri forystu til að stjórna Reykjavík að fjórum árum liðnum en þá sem nú er komin til valda í Reykjavík.

fimmtudagur, apríl 29, 2010

29. apríl 2010 - Um Prestastefnu 2010

Því yrði seint haldið fram að niðurstaða Prestastefnu um hjúskaparmál samkynhneigðra kæmu mér á óvart. Þó vonaðist ég eftir jákvæðum viðbrögðum miðað við að meirihluti prestastéttarinnar virðist kominn á þá skoðun að best sé og heillavænlegast að sömu hjúskaparlög gildi fyrir alla í stað þess að flokka þau niður eftir því hverjum fólk sefur hjá. Því miður fór málið á annan veg og fjölmargir hlýddu kalli biskups um að svæfa málið í nefnd.

Einn helsti baráttumaðurinn gegn jafnrétti á Prestastefnu var Halldór Gunnarsson í Holti sem vitnaði til ónefnds sóknarbarns síns sem fannst núverandi hjúskaparlög ganga of langt. Þetta kom mér á óvart. Sem kennimaður og sérfræðingur í sálgæslu hefði hann átt að leiða sóknarbarnið af villu síns vegar og kenna því að við erum öll jöfn fyrir Guði. Þess í stað hóf hann upp raust sína á Prestastefnu og hóf að básúna út fordómafull orð sóknarbarnsins eins og væru þau hans eigin. Kannski er hann sjálfur sóknarbarnið sem hann vitnaði til, enda trúi ég því ekki að mörg sóknarbarna klerks séu jafn fordómafull og hann virðist vera, ef marka má orð hans á Prestastefnu.

Við getum þó huggað okkur við að Halldór Gunnarsson á einungis fáeina mánuði eftir í sjötugt og mun því láta af prestþjónustu áður en langt um líður. Með eftirlaunum hans mun svartstakkahópurinn innan prestastéttarinnar sem taldi um 15 manns við síðustu Prestastefnu vera kominn niður í tölu sem telja má á fingrum annarrar handar.

laugardagur, apríl 24, 2010

24. apríl 2010 - Goodbye Cruel World

Það eru komin fimmtán ár síðan ég lá í sjúkrarúmi á leið niður á skurðstofu Karólinska sjúkrahússins í Solna (Stokkhólmi). Ég held að ég geti fullyrt að 24. apríl 1995 sé stærsta stund lífs míns, dagurinn sem mér tókst að verða ég sjálf með hjálp læknisfræðinnar og frábærra aðila sem studdu mig á örlagastundu. Enn er ég minnug þess er ég sönglaði fyrir hjúkkurnar lagstúfinn góða frá Pink Floyd, Goodbye Cruel World í þann mund sem svæfingarlyfin fóru að hafa áhrif, ég gleymdi gömlu lífi og nýtt líf tók við nokkrum stundum síðar.

Óhikað get ég sagt að árin á eftir voru erfið, fyrstu ár mín sem konu. Þau voru þó hátíð við hliðina á þeim árum sem þegar voru liðin.

Í dag er ég sátt við lífið og tilveruna. Ég hefi öðlast viðurkenningu á sjálfri mér frá samfélaginu og við erum eitt. Stundum brosi ég að tímabundnum erfiðleikum, en umfram allt er ég sáttari í dag en nokkru sinni fyrr.

sunnudagur, apríl 11, 2010

11. apríl 2010 - Er RÚV að hvetja til óeirða?

Á morgun verður „skýrslan“ gerð opinber. Það kemur ekki á óvart því hennar hefur verið beðið í marga mánuði. En breytir hún einhverju?

Ef marka má fréttatíma RÚV, þá reikna þeir fastlega með því að fólk ryðjist út á göturnar um leið og skýrslan verður birt og leggi undir sig opinberar stofnanir eða reynir að lemja á embættismönnumhvar sem til þeirra næst. Ég get ekki skilið málflutning fréttastofu RÚV á annan hátt. Hvernig er öðruvísi hægt að skilja heimskulegar spurningar þeirra til lögregluþjóna og dómsmálaráðherra?

Sjálf óttast ég ekkert að sinni. Útrásarræningjarnir ganga ennþá lausir og vaða í peningunum okkar og almenningur á Íslandi er ekki enn farinn að aflífa þá fáu sem enn búa hér á landi. Það bendir til óvenjulegrar stillingar almennings eða jafnvel þrælsótta þessa hins sama almennings.

Það sem helst er að óttast er að RÚV, sem brást öryggishlutverki sínu 17. júní 2000 og aftur aðfararnótt 20. mars s.l., bregðist þjóðinni einu sinni enn og geri sig að fíflum, en nú með því að blása upp loftbólur vegna skýrslunnar.

Það er kannski eðlilegt að Bláskjár óttist að missa sig í bræði sinni!

laugardagur, apríl 10, 2010

10. apríl 2010 - Glæpamenn í sókn

Stundum ofbýður mér hegðunin hjá þeim er síst skyldi. Einn slíkur er í hópi útrásarræningjanna sem settu íslensku þjóðina á hausinn og kunna ekki að skammast sín. Sá er nú búinn að stefna fréttamanni sjónvarpsins fyrir að hafa fjallað um þjófnaði hans frá íslensku þjóðinni.

Umræddur þjófur kemst kannski upp með hegðun sína því svo mjög tókst að afnema reglur um fjármálastarfsemi á gróðærisárunum að glæpamenn af hans tagi gátu stolið að vild án þess að eiga neinar refsingar á hættu. Þessi glæpamaður getur því flaggað í því skjólinu að hann hafi ekki brotið nein lög er hann setti íslensku þjóðina á hausinn ásamt örfáum öðrum glæpamönnum sem flestir lifa nú í vellystingum erlendis fyrir fé sem þeir stálu af íslensku þjóðinni.

Umræddur glæpamaður verður samt glæpamaður. Það er óþarfi að hylma yfir honum því hans rétti staður er gapastokkur á Lækjartorgi eða Austurvelli. Sjálf er ég hætt að versla við einasta fyrirtækið sem hann enn eftir á Íslandi þrátt fyrir virðingu mína fyrir starfsfólki fyrirtækisins og vona í lengstu lög að fyrirtækið verði tekið af honum sem fyrst.