sunnudagur, nóvember 21, 2010

21. nóvember 2010 - Enn um tengsl við hagsmunahópa

Fyrir fáeinum dögum fór fram undirskriftasöfnun meðal frambjóðenda til stjórnlagaþings þar sem þeir flykktust um að lýsa sig saklausa að tengslum við hagsmunahópa, sama hvar í flokki þeir stóðu. Þar sem ég reyni að vera trú sannleikanum eins og ég veit hann bestan, treysti ég mér ekki til að skrifa undir þessa undirskriftasöfnun. Ástæðan er einföld. Ég lít á mig sem fulltrúa ýmissa minnihlutahópa í samfélaginu, þá fyrst og fremst hinsegin fólks, homma, lesbía, tvíkynhneigðra, transfólks og intersex fólks, en einnig friðelskandi fólks og baráttufólks fyrir mannréttindum.

Ég viðurkenni þó að enginn hefur enn greitt eina einustu krónu í kosningabaráttu mína. Einn hópur ætlaði að hefja söfnun mér til handa, en ég afþakkaði pent vitandi að meðlimir hópsins þurfa miklu fremur á peningunum sínum að halda en ég. Með því að neita að skrifa undir, lýsi ég því um leið yfir að fólki er velkomið að auglýsa framboð mitt á nánast hvern þann hátt sem það kýs, þó án þess að bendla mig við neikvæð öfl í þjóðfélaginu.

Þegar undirskriftasöfnunin hófst lenti ég í netþrasi við einn meðframbjóðandann en hann hélt því fram að hann væri algjörlega óháður öllum hagsmunahópum, en eftir nokkuð þras okkar á milli viðurkenndi hann að hann væri meðlimur í Blaðamannafélaginu sem er að sjálfsögðu hagsmunafélag.

Ég fullyrti við hann og fullyrði við alla að enginn frambjóðandi er algjörlega óháður. Fólk þarf auðvitað ekki að vera á kafi í öllum hagsmunahópum eins og ég, en ég lít frekar á slíkt sem styrk að hafa tekið þótt í hinum fjölbreyttustu sviðum samfélagsins, hvort heldur er pólitík, frímerkjasöfnun, ættfræðigrúski, mannréttindabaráttu og öðrum félagsmálum.

Ég er löngu búin að setja upp minn lista í kosningum til stjórnlagaþings. Þar set ég sjálfa mig í efsta sæti, en næstur á eftir mér er friðarsinni sem er ekki í sama flokki og ég og aðeins neðar má finna pólitískan andstæðing sem ég þekki ekki persónulega, en er þekktur fyrir afburða þekkingu á stjórnskipun Íslands og annarra landa og sem ég vil sjá á stjórnlagaþingi. Þá er listinn minn ekkert sérstaklega jafnréttissinnaður, reyndar fremur feminiskur þar sem fimmtán konur eru á móti tíu körlum. Um leið er stærstur meirihluti frambjóðenda á listanum mínum fólk sem ég þekki persónulega og nægilega vel til að vinna nýrri stjórnarskrá brautargengi.


0 ummæli:Skrifa ummæli