föstudagur, nóvember 26, 2010

26. nóvember 2010 - Kosningar nálgast

Ég var á fundi á fimmtudagskvöldið og hitti þá einn ágætan kjósanda sem var óánægður með undirbúning og framkvæmd kosninganna til stjórnlagaþings. Hann þyrfti að vinna alla daga og hefði ekki haft tíma til að undirbúa framboð til stjórnlagaþings, enda væri hann einyrki og fyrirtæki hans stæði og félli með honum nema með margra mánaða fyrirvara.

Ég lýsti yfir skilningi mínum á högum hans þótt ég væri ekki alveg sammála honum að öllu leyti, en um leið rifjaðist upp fyrir mér hve skamman tíma ég hefði haft til undirbúnings frá því mér bárust meðmæli um 40 einstaklinga innum bréfalúguna mína og þar til ég fór með framboðsgögnin niður á Alþingi sólarhring síðar. Var ég þó á vakt helming þess tíma sem ég hafði til stefnu.

Miðað við þetta er ég harla ánægð með þenn stuðning sem ég hefi hlotið, ekki síst fyrir þá sök að einasti kostnaðurinn minn við framboðið eru kaffisopi, tvær vínarbrauðslengjur og nokkrar pönnukökur með sultu og rjóma. Þá hefi ég reynt að vera heiðarleg í framboði mínu, gætt þess að segja þann sannleika sem ég veit bestan og valda engum deilum með framboði mínu.

Sjálf er ég ánægð með stöðu kosninganna fram að þessu. Það hefur verið mjög lítið um persónuníð vegna einstöku framboða þótt aðeins hafi borið á slíku síðustu dagana, en flestir reynt að reka sína kosningabaráttu heiðarlega og með lágmarkskostnaði.

Rétt eins og mestalla kosningabaráttuna er ég að vinna kosningahelgina og mun fátt geta gert til að hafa áhrif á kjósendur síðustu dagana, en trúi því um að leið að hógvær kosningabarátta mín skili sér í setu á stjórnlagaþingi á nýju ári.

-----

Að þora er að tapa fótfestunni um stund, að ekki þora er að tapa sjálfum sér.


0 ummæli:Skrifa ummæli