laugardagur, nóvember 20, 2010

20. nóvember 2010 - Af hverju eitt kjördæmi?

Skipting landsins í kjördæmi á sér stað í einangrun sveitarfélaga og sýslurnar miðuðust oft við stórfljót sem einangruðu heilu sveitirnar. Því áttu t.d. Rangárvallasýsla lítið sameiginlegt með Árnessýslu vestan Þjórsár og sömuleiðis átti borgarskipulagið í Reykjavík lítið sameiginlegt með landbúnaðinum í Þingeyjarsýslum hinum megin á landinu. Þegar ég var að alast upp þótti eðlilegt að vera tíu tíma frá Reykjavík til Akureyrar þótt sumum tækist að fara þessa leið á átta tímum og einstöku ofurhugar á sex tímum

Eftir því sem leið á tuttugustu öldina bötnuðu samgöngur. Zoëgabeygjurnar hurfu fyrir betri brúm og síðar malbikuðum þjóðvegum og um leið eyddust mörk sýslanna og kjördæmin tóku við, sex að tölu. Smám saman hefur Alþingi orðið að láta í minni pokann fyrir flutningi fólks á suðvesturhornið með því að þrjú kjördæmi með talsverðan meirihluta þjóðarinnar eru á höfuðborgarsvæðinu, en hin þrjú eru stundum kölluð landsbyggðarkjördæmi.

Sumir alþingismenn telja sig vera þingmenn fyrir landsbyggðina og vinna ötullega fyrir sín kjördæmi á meðan aðrir vinna fyrir þjóðina alla. Þannig getur Kristján Möller ekki talist minn þingmaður sem landsbyggðarþingmaður á meðan Steingrímur J. Sigfússon er með áherslu sína á allt landið þótt hann sé ekki með sömu áherslur og ég í veigamiklum málum. Þá má velta fyrir sér hvort verslunarmenn á Akureyri eigi ekki meira sameiginlegt með verslunarmönnum í Reykjavík en bændum á Austurlandi, en á sama hátt hvort sjómenn í Reykjavík eigi ekki meira sameiginlegt með sjómönnum á Neskaupstað en kennurum á Egilsstöðum.

Það situr enn í mér slæmska síðan Halldór E. Sigurðsson var samgönguráðherra og allar leiðir lágu til Borgarness. Á þeim tíma var þjóðvegur númer 1 lagður í gegnum Borgarnes í stað þess að liggja meðfram Borgarnesi meðfylgjandi alvarlegri slysahættu fyrir börn í Borgarnesi, einungis til að kaupmenn í Borgarnesi fengju örlítinn skerf af ferðamannaumferðinni á leið norður í land.

Ég vil að alþingismenn séu þingmenn fyrir allt landið, ekki bara sín kjördæmi. Því vil ég eitt kjördæmi sem tryggir að þingmenn vinni fyrir allt landið en ekki einungis hreppsfélagið heima.


0 ummæli:







Skrifa ummæli