þriðjudagur, nóvember 23, 2010

23. nóvember 2010 - Af hverju bauð ég mig fram?

Hægt er að velta fyrir sér hvaða fólk er hæft til setu á stjórnlagaþingi. Sumir leggja megináherslu á lagakunnáttuna, aðrir á reynsluna, enn aðrir á eitthvað allt annað. Sjálf er ég ekki mikið gefin fyrir að stæra mig af afrekum mínum. Þrátt fyrir það er nú nauðsyn á að auglýsa sig fyrir stjórnlagaþing og má þá ekki þegja yfir neinu.

Ég hefi boðið mig fram til stjórnlagaþings og þá aðallega vegna fjölbreyttrar reynslu minnar af samfélaginu. Ég hefi starfað til sjós og lands, hefi beðið dauðans á ögurstundu og átt þá ósk eina að báturinn færi upp en ekki niður eftir brotsjóinn, en hefi einnig verið með í að fylla eitt glæsilegasta nótaskip landsins á mettíma. Ég hefi verið fjölskyldufaðir og kannski amma, um það má deila, allavega hefi ég lifað bæði sem karl og sem kona, hefi kynnst fordómum í sinni verstu mynd en um leið kynnst jákvæðni og stuðningi í sinni bestu mynd. Ég hefi verið lamin vegna þess hver ég er, en einnig hyllt vegna þess hins sama.

Ég hefi verið fyrirlitin á Íslandi fyrir að vera hinsegin eða bara trans og ég hefi fengið viðurkenningu á Íslandi fyrir hið sama, að vera hinsegin og vera trans. Ég hefi þurft að berjast fyrir tilverurétti mínum en ávallt staðið upp aftur. Ég hefi meira að segja setið kúrs í stjórnskipunarrétti hjá Ármanni heitnum Snævarr, yndislegum rektor, Hæstaréttardómara og frábærum kennara.

Ég hefi búið í Reykjavík, Mosfellssveit, Vestmannaeyjum, Bíldudal, Järfälla og Södertälje, verið í Bolungarvík og á Eskifirði komið til hafnar við flestar hafnir landsins, Eyri í Ingólfsfirði, Borgarfirði eystra, Grindavík.

Ég er alin upp á barnaheimili sem hefur verið svartmálað í fjölmiðlum, lent í loftárás í Líbanon, búið í og kynnst kreppunni í Svíþjóð á tíunda áratugnum. Ég hafði áður kynnst kreppum á Íslandi, fiskveiðakreppunni 1967-1969, þegar fjöldi fólks flúði land til Svíþjóðar og Ástralíu, óðaverðbólgunni 1980-1983 þegar verðbólgan fór upp í 80%.

Samt hefi ég átt góða ævi og sé fram á góða elli eftir rúman áratug. Ég held samt að ég geti gefið af mér á stjórnlagaþingi sem einungis mun standa yfir í að hámarki fjóra mánuði.

Því bið ég ykkur öll að setja mig í fyrsta sæti svo ég hafi möguleika á að komast inn og miðla af reynslu minni á stjórnlagaþingi 2011 svo tryggt sé að við fáum betri stjórnarskrá en þá sem við höfum í dag.


0 ummæli:







Skrifa ummæli