föstudagur, mars 31, 2006

1. apríl 2006 - Til Málmhaugahjáleigu

Á föstudagsmorguninn var haldið frá Genf. Það kom mér ekkert á óvart að það skyldi verða hálftímaseinkun á flugbrakinu frá SAS sem ég fór með. Þegar komið var til höfuðborgar Möggu smóks, var haldið þegar yfir sundið til hjáleigu þeirrar frá Málmhaugum í Málmhaugahreppi sem Exi (Oxie) kallast. Hún á þó fátt sameiginlegt með Exi í Suður-Múlasýslu nema ef vera skyldi fámennið.

Í Exi býr móðurbróðir minn. Hann hefur þó ákveðið að flytja úr þorpinu og í Eyvakot í Snålland innan tíðar. Það skil ég vel. Það var hryllilegt að koma úr þægilegum hlýindum í Sviss í kulda og trekk við Eyrarsund.

Ekkert meira af mér að sinni, enda eru engar fréttir taldar góðar fréttir.

31. mars 2006 - I´m singing in the rain...

Fimmtudagsmorgunn og það hellirignir. Ég fylgdist skelfingu er ég horfði út um gluggann og á umferðina fyrir neðan. Þar sást ekkert fólk, bara regnhlífar. Ekki gat ég dregið fram mína regnhlíf, því ég lánaði hana fyrr í vikunni og fékk hana til baka í tætlum. Mér tókst þó að bjarga nýrri í kaupfélaginu á næsta götuhorni.

Þar sem ég skoðaði umferðina á götunni fyrir neðan mig, fór ég að telja þá bílstjóra sem notuðu öryggisbelti. Eftir stuttan yfirlestur taldist mér til að á milli 30% og 40% notuðu slík þarfaþing hér í Genf. Ég hefi oft séð það verra og ferðast í huganum til gamalla tíma þar sem fólk notaði ekki öryggisbelti.

Umræðan um bílbeltin vekur hjá mér vangaveltur. Ég var á labbi hér í Genf og sá rauðan sjúkrabíl í útkalli álengdar þar sem sá hinn sami reyndi að komast leiðar sinnar í yfirfylltri umferðinni. Ég fór að fylgjast með hvernig bílstjórinn hélt sig á akreininni fjær, tók stefnuna yfir umferðareyju og á ranga akrein og svo aftur til baka á sína, allt eins og eftir fyrirmælum. Ég sagði bara VÁ, þvílíkur snillingur og væntanlegur arftaki Michael Schumacher. Um leið og sjúkrabíllinn fór framhjá mér, blasti bílstjórinn við mér. Hann reyndist vera hún.

Með þessu lýkur dvöl minni í Genf og ég held aftur á norrænar slóðir, kulda og trekk.

miðvikudagur, mars 29, 2006

30. mars 2006 - Coca Cola

Ég lenti á fyrirlestri í gær undir heitinu: “I was fired because I am gay”. Sá sem talaði var fyrrum einn af æðstu yfirmönnum Coca Cola í Mið-Ameríku, næststærstu verksmiðju fyrirtækisins í heiminum og með tugi þúsunda fólks í vinnu.

Roberto Mendoza þurfti að dvelja um tíma í Niqaragua vegna starfa sinna og af félagslegum ástæðum ákváðu hann að sambýlismaður hans að staðfesta samvist sína áður en haldið var á ótroðnar slóðir. Þá varð fjandinn laus. Allt í einu varð allt ómögulegt og nokkru síðar var honum sagt upp störfum hjá Coca Cola útaf léttvægum ástæðum.

Roberto Mendoza fór í mál við Coca Cola. Það var ljóst að einasta ástæða uppsagnar hans var hómófóbía og hann var sá maður að þora að berjast við ofureflið. Fram að þessu hefur hann unnið málið í undirrétti, en gerir sér ljóst að hann á enn langa baráttu fyrir höndum áður en fullnaðarsigur er unninn.

Þegar fyrirlestrinum var lokið og Roberto Mendoza hafði svarað fyrirspurnum frá yfir sig hneyksluðum áheyrendum sínum, var blásið til matarhlés á alþjóðaþingi ILGA í Genf. Þar sem ég og nokkrir fulltrúar Norðurlandanna höfðum sest til borðs með kjúklinginn okkar sagði einhver: “Jag tror vi gör ett stort fel” Mér var litið á drykkinn sem ég hafði valið mér með matnum og svo á drykk hinna og við skömmuðumst okkar.

Með ráðstefnunni um “Discriminating in Work Place” lauk fyrrihluta alþjóðaráðstefnu ILGA í Genf. Sjálf aðalráðstefnan er eftir. Ég tek ekki þátt í henni, en fékk leyfi frá Íslandi til að fá umboð til að kjósa skandinavískan ungan mann í aðalstjórn ILGA. Þessi strákur er kapteinn í sænska flughernum að nafni Krister Fahlstedt. Flottur strákur og blond eins og Þórður. Ég set inn mynd af honum á bloggið þegar ég kem heim til Íslands.

-----oOo-----

Ég átti gott samtal við Jamison Green í kaffihléi. Ég hafði kynnst honum á laugardaginn var á Pub Britannia hérna hinum megin við hornið en vissi þá ekki hvað hann hafði afrekað á bókmenntasviðinu. Ég innti hann eftir mjög svo jákvæðum ummælum Kate Bornstein um sig og hann viðurkenndi að hafa skrifað bókina “Becoming a Visible Man”. Þessi bók, árituð af höfundi, er auðvitað komin á náttborðið hjá mér. Alveg stórkostlegur náungi.

-----oOo-----

Mig langar til að láta vita af því að IBM hefur lofað stuðningi við LGBT fólk í heiminum. Gamla IBM fartölvan mín bilaði aldrei á meðan hún var í minni eigu og nú á ég nýja IBM ThinkPad. Ég vildi bara láta af þessu sem og að Nýherji hf selur IBM fartölvur. Og ég sem sat við hlið fulltrúa IBM allan gærdaginn og hann sagði mér ekkert um stuðninginn þótt við ræddum heilmikið saman um Kanada og Íslendingabyggðir vestra.

þriðjudagur, mars 28, 2006

29. mars 2006 - Enn í Genf

Ég er að velta einu fyrir mér eftir gönguferð dagsins í rigningunni beggja megin Rúðufljóts af hverju það er svo mikill munur á mannlífinu sinn hvoru megin við fljótið. Ég er á hóteli norðan við fljótið og þegar ég skoða kort af borginni virðist flest það sem er áhugavert vera norðan við fljótið og allt svo franskt og óskipulagt. Sunnan megin eru bara bankar og styttur af Kalvín gamla og Júlíusi Cesar, hornrétt stræti og skrúðgarðar og svo auðvitað háskólinn

Um leið og komið er yfir brýrnar til suðurhlutans, liggur peningalyktin yfir öllu, háir hælar og merkjavörur útum allt og gæta verður þess að verða ekki hlaupin niður af stressuðu fólki. Ég fæ á tilfinninguna að ég sé komin inn í svissneskan banka og ég hrökklast til baka til hins fátæka fólksins norðan megin sem ferðast um á vespum og Subaru eða þá bara með strætó.

Á korti sem ég eignaðist hjá Samtökunum 360° hér í borginni, þá eru talin upp mörg gayvinsamleg veitingahús, hótel og skemmtistaðir norðan árinnar, en örfá sunnan megin þótt flestir íbúarnir virðist búa þeim megin. Ekki sá ég neitt IKEA sunnan megin (reyndar ekki heldur norðan megin), en hið alþýðusinnaða Ferrari er auðvitað norðan sprænu.

Þetta er auðvitað allt bara ímyndun í mér. Eins og allir vita, þá er ég bara orðin svo heimóttarleg að ég sé ekki lengur muninn á Þingholtunum og Grafarvogi og get því ekki séð muninn á suðurbænum og norðurbænum í Genf.

-----oOo-----

Hetjurnar hugprúðu í Halifaxhreppi héldu uppteknum hætti í gær og lögðu hina hina veiklulegu Voking ákaflega veiklulega að velli í kvenfélagsdeildinni. Þær þráast enn við og neita að hlusta á góð orð mín um að láta ólympíuhugsunina gilda framar öllu.

-----oOo-----

Einn ágætur ræðumaður á ráðstefnunni í fyrradag ræddi aðeins um sjúklingavæðingu transgender fólks og þá áráttu “hinna” að vilja flokka transgender sem nokkurs konar geðsjúkdóm. Hann endaði ræðu sína með orðunum: “Einasti transsjúkdómurinn sem ég veit um er transfóbía”

mánudagur, mars 27, 2006

28. mars 2006 - Endalaus þrældómur

Ekki var mánudagurinn betri en sunnudagurinn. Það var haldið af stað frá hótelinu fyrir allar aldir og haldið á ráðstefnustað sem er á sömu slóðum og gamla Þjóðabandalagið og reyndar í sama húsi og leifarnar af EFTA (þ.e. Ísland, Sviss, Noregur og Liechtenstein). Það fór eins og mig grunaði. Allt var í ólagi með skráninguna og nokkrar tafir vegna þessa. Það kom fáum á óvart. Genf er jú í franska hluta Sviss og hugsunin virðist vera sú sama og hinum megin við landamærin. Kannski ekki alveg, því helsti framkvæmdaaðili ráðstefnunnar er ekki dæmigerður Frakki, lítill og horaður og alltaf á nálum. Það er því ljóst að ráðstefnan á mánudag mæddi mest á vesalings Armand.

Það voru mörg fróðleg erindi flutt á ráðstefnunni. Stephen Whittle er alltaf sami baráttujaxlinn sem og fólkið frá Tyrklandi og Austur-Asíu. Þá var mikið klappað fyrir frú Castró frá Kúbu, enda ástand heilbrigðismála transgenderfólks í betra ásigkomulagi þar en víðast annars staðar í Latínameríku. Ég veit svo ekkert um hvort frú Castró sem er ráðandi aðili í heilbrigðismálum Kúbverja er eitthvað skyld gamla höfðingjanum. Langt og leiðinlegt erindi fulltrúa WHO gaf ekkert af sér, enda voru þar notuð mörg orð um ekki neitt.

Það var gaman að bera saman skipulagið á ráðstefnunni í Genf og þeirri sem ég var á í Vín á síðasta hausti. Þar mátti ekki skeika neinu og allt skipulag stóðst út í ystu æsar. Dæmigerð þýsk nákvæmni. Hér virtist kaos ráða ríkjum. Jafnvel greinargerðir vinnuhópa voru í sama stíl. Júlía frá Berlín las upp fundargerð hópsins okkar, stutt, hnitmiðað og einfalt. Upplestur frá vinnuhóp sem samanstóð af fólki frá Latín-Ameríku var langur og ruglingslegur.

Þegar þessari ráðstefnu lauk, var haldið til aðalstöðva samtakanna Dialogai í Genf og snæddur léttur kvöldverður. Mér fannst lítið í hann varið og veit ég að einhverjir fóru á veitingastað á eftir í þeim tilgangi að fá sér eitthvert almennilegt í gogginn.

Ekki er hægt að kvarta yfir veðrinu, 17 stiga hiti og vor í lofti. Á þriðjudag á ég frí og tilvalið að skoða sig um með myndavélina áður en næsta ráðstefna hefst, en hún verður á miðvikudag og fjallar um “Discrimination in Work Place”

sunnudagur, mars 26, 2006

27. mars 2006 - Þrældómur

Ef einhverjir stýristrumpar suður í höfum halda að ég sé hér í fríi og sleiki sólina, þá er það rangt. Hér fær fólk að vinna sér til hita. Það var byrjað á fundi eldsnemma á sunnudagsmorguninn og ekkert slegið af allan daginn.

Það var þingað alveg til klukkan fimm, þá tekið tveggja tíma frí meðan skroppið var á kynningar á stöðu transgenderfólks í Asíu og svo var haldið áfram að funda til klukkan 21.00 þegar litið var upp úr pappírunum og sest að matborði á veitingastað hér í næsta nágrenni við hótelið. Eftir einn öl með matnum var svo farið beint upp á hótel að sofa því næsti fundur hefst klukkan átta á mánudagsmorgun, sjálf ráðstefnan um stöðu transgender fólks um víða veröld.

Sá fundurinn sem var mér mikilvægastur, er þó afstaðinn. Þar var rætt um baráttuna á næstu árum í Evrópu og nágrannasveitarfélögum og samþykktar tillögur sem varða stjórn og skipulag Evrópsku transgendersamtakanna, en einnig baráttuna á næstu árum. Að fundinum loknum var ákveðið að halda næsta fund í stýrihópnum 1. og 2. júlí í Manchester.

Ég gat ekki annað en brosað að Rosönnu þegar hún fór að kvarta yfir hitanum úti. Mjúkir vorvindar glaðir léku um okkur þegar við skruppum út til að anda að okkur fersku lofti og hún fór að kvarta yfir hitanum sem þó var undir tuttugu gráðum. Ekki fannst mér of hlýtt, bara þægileg vorangan. Kvörtunin er kannski eðlileg því Rosanna kemur frá hinni köldu Ítalíu, annað en ég sem bý við jarðhita.

Ég hefi enn ekki haft tíma til að leita uppi Gunnubúð hér í Genf til myndatöku, en ætti að hafa tíma til þess þegar mínum hluta ráðstefnunnar lýkur á miðvikudagskvöldið.

laugardagur, mars 25, 2006

26. mars 2006 - Ferðin til Genf


Það ætlaði ekki að ganga þrautalaust að komast alla leið til Sviss. Það gekk ágætlega að komast á Kastrup og var ég mætt þar meira en tveimur tímum fyrir brottför eins og mín er von og vísa og náði í brottfararspjaldið.

Ekki gat ég fengið mér neitt öl á meðan ég beið því að ég var búin að klára allt öl í Danmörku. Ég kom því við á einhverri kaffiteríu og fékk mér fulla könnu af sjóðandi heitu og ilmandi kaffi ásamt vínarbrauði. Þar sem ég rölti frá afgreiðslukassanum með tvær töskur í annarri hendinni og bakkann með kaffinu og vínarbrauðinu í hinni, tróð sér einhver framhjá mér með þeim afleiðingum að kaffikannan fór af stað og yfir mig alla. Eftir þetta ilmaði ég eins og heil kaffibrennsla alla leiðina til Genfar. Að auki er ég með brunablöðru á maganum eftir sjóðandi heitt kaffið.

Það var flogið með SAS með hræðilega lélegri rellu sömu gerðar og Æsland Express notar. Það var að vísu aðeins rýmra á milli sætanna í þessari vél en gerist hjá Æsland Express, en á móti kom að það varð klukkutíma seinkun á vélinni til Sviss. Þegar komið var til Genf, var byrjað á að logga sig inn á hótelið og svo á stjórnarfund hjá TGEU, en hann var fyrst haldinn á krá í einungis tveggja mínútna fjarlægð frá hótelinu. Þegar garnirnar fóru að gaula í hópnum færðum við okkur á víetnamskan veitingastað og síðan var bara að koma sér á hótelið að hvíla sig og sleikja sár sín eftir erfiða ferð. Svo verður að vona að öndin hafi ekki verið með fuglaflensu.

Það er langur og erfiður fundadagur framundan og það er vor í lofti. Það var ekki seinna vænna, enda að hefjast sumartími í Evrópu.

25. mars 2006 - Hvíldardagur

Það er sama sagan hjá mér. Ég hefi ekki haft tíma til að blogga sökum drykkju og vegna stífra kráaferða. Ég lofa betra bloggi á laugardagskvöld, enda þarf ég að láta renna af mér í nótt vegna ferðalaga. Ölið er búið hjá Möggu smók og ég útreykt án þess að hafa reykt eina einustu sígarettu í nærri sex ár.

föstudagur, mars 24, 2006

24. mars 2006 - Afsakið seinkunina


Eins og einlægir aðdáendur mínir hafa veitt athygli, þá komst blogg dagsins ekki á netið fyrr en klukkan var farin að ganga ellefu á föstudagsmorguninn. Skýringin er einföld. Ég datt í það í gærkvöldi.

Ég fór upp til Helsingör í gær til þess að horfa betur yfir til draumalandsins og til að skoða kirkjur og söfn eins og mín er von og vísa. Síðan var að sjálfsögðu fetað í fótspor Jónasar og haldið á Hviids vinstue og sötrað öl um sinn. Síðan var farið í heimsókn til fólks sem er að flytja heim til Íslands eftir nám hér, drukkið meira öl ásamt sterku og endað á hverfiskránni.

Slík drykkjukvöld enda oft með faðmlögum við Gustavsberg og svo fór einnig hjá mér.

-----oOo-----

Ég átti leið framhjá Gunnubúð og það gladdi mig mjög að sjá Gunnubúð og Jysk bäddlager tróna á sama skiltinu.

miðvikudagur, mars 22, 2006

23. mars 2006 – Í höfuðborg Möggu smóks

Ég held að kisurnar mínar hafi fundið á sér á miðvikudagsmorguninn að ég ætlaði að yfirgefa þær. Ég var rekin á lappir klukkan sex og enginn griður gefinn eftir það. Það var ágætt því fyrir bragðið hafði ég nægan tíma til að pakka og eins að skreppa í bæinn og skipta gallaðri snobbtösku sem ég hafði keypt.

Ef lítilsháttar seinkun á brottför á flugi er frátalin, gekk allt eins og í sögu. Á flugvellinum hitti ég Heiðar snyrti sem var að koma að utan. Alltaf jafn indæll og skemmtilegur. Ég var komin til Köben á tilsettum tíma og farin að drekka öl hálftíma síðar svo ljóst er að Magga smókur á til nægt öl í kofforti sínu. Nú er bara að finna eitthvað skemmtilegt til að skoða í dag, enda fólkið sem ég gisti hjá vel staðkunnugt og bílandi. Það verður hvort eð er ekki farið til Genf fyrr en á laugardag.

Það væri gaman að vita hverjir lesenda minna hlýddu ákalli mínu og fór að sjá mig í bíó.

-----oOo-----

Svo fær lítil prinsessa að nafni Margrét Rós hamingjuóskir með tveggja ára afmælið, 23 mars.

22. mars 2006 - Bíódagar

Ég fór í bíó í gærkvöldi. Er kerlingin alveg orðin snarvitlaus? kann einhver að spyrja. Þetta er í fjórða sinn á nýbyrjuðu ári sem hún fer í bíó. En nú var ástæða til þess að fara í bíó því að ég var í litlu hlutverki í stuttri heimildarmynd um líf transgender fólks á Íslandi og sem sýnd var sem aukamynd með aðalmyndinni á Hinsegin bíódögum sem hét “100% manneskja” og fjallaði um norska stelpu sem fæddist í strákslíkama.

Íslenska aukamyndin sem hefur hlotið heitið “Transplosion” fjallar um fjórar transgender manneskjur á Íslandi, mig, Díönnu Ómel sem senn kemst í aðgerð, Valdísi sem stefnir að því að komast í aðgerð á næstu árum og loks “Karl”, transgender strák sem fæddist sem stelpa og flutti síðar til útlanda í þeim tilgangi að komast í aðgerð.

Þegar Halla Kristín Einarsdóttir hafði sambandi við mig og bað mig að vera með í myndinni, var ég ekkert of hrifin, hafði ákveðna vantrú á myndefninu og þó aðallega enn einni umfjölluninni um mig. Eftir á að hyggja verð ég að viðurkenna að Höllu tókst verkefnið ljómandi vel og ég er stórhrifin af myndinni þótt ég hefði gjarnan viljað vera aðeins minna áberandi í myndinni. En hvað á að gera þegar allt hitt fólkið bendir á mig og segir: Þetta er allt þér að kenna, þú byrjaðir. Og ég sem byrjaði alls ekki neitt.

Seinni sýning á myndunum “100% manneskja” og “Transplosion” verður í Regnboganum í kvöld, miðvikudagskvöld klukkan 20.00. Ég get alveg mælt með þessum myndum fyrir fólk sem vill læra eitthvað um tilfinningar.

-----oOo-----

Ef bílstjórinn á bifreiðinni RP-748 ætlar að reyna að selja mér bílinn sinn sem reyklausan bíl, þá gengur það ekki, því ég veit betur. Hinsvegar má sami bílstjóri hætta að nota götur sem ruslafötur.

-----oOo-----

Það gætu orðið sveiflur á bloggfærslum hjá mér næstu ellefu dagana. Ég fer til Kaupmannahafnar í dag og dvel næstu þrjá dagana á Hviids vinstue eða einhversstaðar þar í borg. Á laugardag fer ég svo til Genf á fundi og mannréttindaráðstefnur á vegum ILGA (International Lesbian and Gay Association), en stýrihópur evrópsku transgendersamtakanna ætlar að nota tækifærið og hittast og bera saman bækur sínar á undan og meðan á ráðstefnunni stendur. Um leið vil ég þakka Samtökunum 78 sem hafa veitt mér stuðning til þessarar ferðar. Sá hluti sem ég mun taka þátt í, er annars vegar ráðstefna um málefni transgender fólks en einnig hliðarráðstefna sem kallast “Discrimination in Work Place”

þriðjudagur, mars 21, 2006

21. mars 2006 - Rás 2


Ég var að hlusta á Poppland á Rás 2 í gær. Slíkt þykir ekkert í frásögur færandi þótt ég hlusti á útvarp, en mér fannst óvenju leiðinleg tónlistin sem spiluð var, meira og minna léleg bílskúrsbönd að spila sitt hráa og vanþróaða rokk. Kannski var tónlistin svona léleg í tilefni af því að ungi útvarpsþulurinn og ættarlaukur fréttastofunnar var að kynna Músiktilraunir 2006 sem mér skilst að hafi átt að vera um kvöldið eða kannski einhverntímann seinna. Að minnsta kosti ákvað hann að gefa fólki kost á að hringja inn og fá miða á þessa tónleika.

Það hringdi kona ein í stúdíóið, en í stað þess að þiggja miða á Músíktilraunir, hóf hún að hundskamma drenginn fyrir lélegan tónlistarsmekk. Fleiri komu á eftir og kvörtuðu sáran, meira að segja einn sem vildi meira af norðlenskri tónlist og nefndi Geirmund Valtýsson til sögunnar.

Ég verð að viðurkenna að fólkið hafði mikið til síns máls. Rás 2 er ekki bara fyrir unglinga undir tvítugu. Hún á að vera rás þar sem allar tónlistarstefnur þrífast, ekki bara hrátt bílskúrsrokk. Það eru til nokkrar útvarpsstöðvar sem spila hráa unglingatónlist allan sólarhringinn. Ég kann ekki að nefna þær útvarpsstöðvar því ég hlusta ekki á þær.

Það þýðir ekkert að vísa okkur á Rás 1. Þar er lítið um alhliða tónlist gamla sem nýja, popp og vandað rokk, íslenska tónlist í bland við erlenda, flestar tónlistarstefnur. Rás 2 á að þjóna þeim hlustendahópi sem vill hlusta á alla almenna tónlist hvort heldur er Spæs görls eða Pink Floyd. Svo mega þeir alveg kalla Gest Einar aftur inn á Rás 2.

Mig grunar að nokkrir miðar hafi ekki gengið út á Músíktilraunir 2006 eftir skemmtilegt innlegg reiðu konunnar.

mánudagur, mars 20, 2006

20. mars 2006 - Sóknarfæri


Allt frá því Bush og Rumsfeld ákváðu að kalla herinn heim frá Íslandi hefur mikið verið kvartað og kveinað á Suðurnesjum. Allt er orðið ómögulegt og við blasir auðn og tóm af því að herinn er að fara. Þetta væl minnir helst á kvartanir Siglfirðinga árin eftir að síldin brást um 1968. Þó var það vitað fyrir löngu að herinn færi fyrr en síðar og einungis tímaspursmál hvenær að því kæmi.

Af hverju sjá Suðurnesjamenn ekki sóknarfærin í þessum breytingum á háttum sínum? Þrátt fyrir að nokkrir hermenn fari og að ekki þarf lengur að þjónusta þá, þá standa mannvirkin áfram og bíða nýrra tækifæra, mikil flugskýli sem vel gætu hentað fyrir Landhelgisgæslu sem og aðra flugsækna starfsemi svosem innanlandsflug, gamla flugstöðin og ýmis önnur mannvirki sem nýta má í margvíslegum tilgangi auk annarrar starfsemi sem er bráðnauðsynleg á alþjóðaflugvelli sbr eftirlit og viðhald flugbrauta og slökkvilið.

Þá má ekki gleyma þeim möguleika sem felst í þúsundum brátt mannlausra íbúða sem hafa nýst hermönnum. Einhvern hluta þeirra má hugsanlega nota fyrir Byrgið sem ávallt er í húsnæðishraki. Einhver stakk upp á því að öryggisfangelsi yrði til húsa á þessu svæði og ekki má gleyma möguleikanum á gæsluvarðhaldsfangelsi. Möguleikarnir virðast vera óendanlegir og er bara að láta hugmyndaflugið ráða þar til við fáum þetta svæði í okkar hendur.

-----oOo-----

Þrátt fyrir yfirlýsta leti mína drattaðist ég framúr í morgun og kveikti á sjónvarpinu til að horfa á þessa keppni í saumavélaakstri austur í Sepang Malaysíu. Þótt keppnin væri þegar hálfnuð þegar ég kveikti á tækinu og ísklumpurinn frá Finnlandi fremstur ef marka má óskir sumra, þá sá ég hann hvergi. Ekki gat hann hafa bráðnað sísvona í forystunni, enda mun svalara í veðri en efni stóðu til.

Brátt varð mér það ljóst að hann var ekkert á staðnum, hafði villst af leið og fengið far heim með dráttarbíl. Sennilega hefur brotnað nál í kompásnum hjá honum.

Það á ekki að nota saumnál í stað kompásnálar! Spyrjið bara Þórð!

sunnudagur, mars 19, 2006

19. mars 2006 - Útifundur

Ég fór á útifund á gamla Hallærisplaninu sem nú heitir Ingólfstorg í gær. Tilefnið var ekkert slor, fögnuður yfir væntanlegri brottför hersins en jafnframt mótmæli við stríðið í Írak. Bush og Rumsfeld létu ekki sjá sig þótt þeir séu orðnir herstöðvaandstæðingar, ekki heldur Hjálmar Árnason sem er hættur að vera herstöðvaandstæðingur. Hinsvegar sá ég skuggalegan náunga á torginu sem líktist talsvert Geir H. Haarde. Ég vil ekki fullyrða að þetta hafi verið hann, en líkur var hann utanríkisráðherranum.

Það væri þá eftir öðru að hann væri orðinn herstöðvaandstæðingur. Ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafa löngum verið sem taglhnýtingar í ríkisstjórn Bandaríkjanna og eðlilegt að þeir taki upp hina nýju stefnu bandarísku ríkisstjórnarinnar sem gengur út á herlaust og friðlýst Ísland

Meðan á útifundinum stóð, tókst mér að móðga vin minn Jón Torfason skjalavörð með því að líkja honum við bókaverði, en hann tók mig í sátt eftir að ég hafði margfaldlega beðið hann afsökunar. Er nema von að ég hafi ruglast í ríminu? Ég hitti nokkra bókasafnsfræðinga á torginu og greinilegt að sú stétt er stéttvísari og meira friðelskandi en margar aðrar stéttir.

Í gær hélt ég því fram að dauðir Kanar í Írak væru 2313. Tölurnar voru frá því í fyrradag, því í gær voru þeir orðnir 2316. Að sjálfsögðu votta ég öllum sem láta lífið vegna brjálæðis Bush samúð mína, jafnt bandarískum borgurum sem íröskum.

-----oOo-----

Hetjurnar hugumstóru í Halifaxhreppi létu sér nægja jafntefli á útivelli gegn Cambridge í gær. Þær sitja nú í þriðja sæti kvenfélagsdeildarinnar þegar einungis átta umferðir eru eftir. Af þessum átta leikjum eru fimm á heimavelli og greinilegt að verr þenkjandi hlutanum er farið að dreyma um spilun í langneðstu deild í haust. Ég ætla samt að lifa í voninni fram á vorið.

laugardagur, mars 18, 2006

18. mars 2006 - Þrjú ár og Sasha

Í dag eru liðin þrjú ár síðan tveir þjónustulundaðir ráðherrar á Íslandi ákváðu að setja okkur hin á lista yfir hinar myrðandi þjóðir í Írak. Í krafti þessa stuðnings Davíðs og Halldórs þorðu Bandaríkjamenn loksins að ráðast inn í Írak með skelfilegum afleiðingum, því frá 19. mars 2003 hafa þeir misst 2313 hermenn í stríðinu, en minnst 17.000 særða. Þá eru ótaldar nærri fjórar tugþúsundir Íraka sem fallið hafa í stríðinu og er spurningin hvort Bush hafi þegar tekist að myrða fleiri Íraka en Saddam Hussein tókst á 35 ára valdatíma sínum. Það er ljóst að Halldór og Davíð hafa mikið á samviskunni.

Ekki man ég hve ég hefi oft farið í göngur og á útifundi gegn hersetu og vopnavaldi. Þó held ég að ég hafi ekki gengið nema eina Keflavíkurgöngu, en auk þess ýmsar aðrar stuttar göngur eins og Straumsvíkurgöngu og göngu og útifund gegn þeim kumpánum Nixon og Pompideau er þeir funduðu í Reykjavík. Ég þætti sennilega léleg sem atvinnumótmælandi.

En batnandi mönnum er best að lifa. Eftir öll þessi ár af Keflavíkurgöngum gegn Eisenhower og Kennedy og Johnson og Nixon og Ford og Carter og síðar fundum gegn þeim sem á eftir þeim komu, þá gerðist George Dobbljú Bush herstöðvaandstæðingur og rak herinn burt. Eftir sátu þeir Davíð og Halldór með langt nef eins og kjánar, búnir að fá þjóðina upp á móti sér með fáránlegum stuðningi við ofbeldið í Írak.

Það er eitt neikvætt við brottför hersins. Það er óttinn um að hann verði notaður í alvöru stríðsrekstur. Vitað er að Bandaríkin eru að undirbúa hernað á hendur Íran og til slíks hernaðar þarf meira bandarískt blóð. Það er fátt hægt að gera að sinni til að fækka þeim hermönnum sem eru í Írak eða Afganistan og því verður að sækja þá hermenn sem eru staðsettir á svæðum sem minna mæðir á, til undirbúnings árásinni á Íran. Þess vegna fór herinn frá Íslandi. George Dobbljú Bush er skítsama. Fyrir honum eru Davíð og Halldór billeg skítseyði og lélegt þjónustuþý sem hægt er að fara með að vild og hann þarf að nota þessa hermenn sína.

Þegar þessi undirbúningur að innrás í Íran er hafður í huga, er full ástæða til að mæta á Hallærisplanið klukkan 15.00 í dag og minnast aumingjaskapar Davíðs og Halldórs frá því fyrir þremur árum er þeir samþykktu að draga okkur inn í sóðalegt stríðið.

-----oOo-----

Þá er hann Sasha dáinn. Jónas var ákaflega merkileg persóna. Hann var kvæntur og tveggja barna faðir á yngri árum, en kom út úr skápnum á fullorðinsaldri. Hann var mér ákaflega mikill andlegur stuðningur þegar ég gægðist út úr skápnum fyrir tveimur áratugum síðan. Ég man ekki eftir honum öðruvísi en ávallt hlæjandi, daðrandi, ögrandi, en gerði engum mein og var vinur allra. Löngu síðar bjó ég í sömu blokk og hans fyrrverandi eiginkona og dætur. Yndislegt fólk.

Tvisvar varð Sasha fyrir alvarlegum líkamsárásum vegna kynhneigðar sinnar og bar ekki barr sitt eftir seinni árásina. Samt hélt hann áfram að hlæja og daðra og njóta lífsins sem honum frekast var unnt. Hann dó sem hann lifði, á kjötkveðjuhátíð á Kanaríeyjum, naut lífsins til hinstu stundar, einungis 62 ára gamall er hann yfirgaf okkur. Ég er þess fullviss að Almættið muni taka hlýlega á móti honum.

föstudagur, mars 17, 2006

17. mars 2006 - Enn af Landhelgisgæslunni

Í gær kallaði ég Íslendinga aumingja. Ég held að ég verði að þrengja hugtakið “aumingjar” verulega. Aumingjaskapurinn virðist nefnilega einskorðaður við ríkisstjórnina og þá helst Björn Bjarnason mjög fjarskyldan ættingja minn af Kjalarnesinu.

Björn Bjarnason hélt því blákalt fram á Alþingi að Bandaríkjamenn væru þeir einustu sem ættu eldsneytisflugvélar og gætu tankað þyrlur á flugi. Það getur vel verið að það sé rétt hjá honum þótt ég efist um það. Ef svo er, er slíkt eingöngu vegna þess að aðrar þjóðir telja sig ekki hafa not fyrir áfyllingarbúnað. Þetta er tiltölulega einfaldur búnaður sem þarf til að hægt sé að fylla þyrlur af eldsneyti á flugi og vafalaust hægt að komast yfir gamla herflugvél fyrir lítinn pening með áfyllingarbúnaði, sé hann ekki settur í flugvél sem er í eigu Landhelgisgæslunnar. Orð Björns eru því bull og vitleysa og ég vísa þeim til föðurhúsanna. Skömm ríkisstjórnarinnar er hinsvegar mikil að hafa ekki eignast fleiri öflugar björgunarþyrlur fyrir löngu. Meira að segja ég sem ber enga ábyrgð á þyrlukosti Landhelgisgæslunnar hefi séð aumingjaskapinn fyrir löngu og haldið uppi áróðri fyrir bættum þyrlukosti á blogginu í 18 mánuði. Þó er gáfnafarið ekki meira en Guð gaf mér.

Þegar ég er að tala um bætta Landhelgisgæslu, er ég ekki að gæla við einhver stríðstól og sama gildir um bættan skipakost Landhelgisgæslunnar. Það er nauðsynlegt að fá öflugt varðskip sem er nógu öflugt til að geta dregið skip á borð við Baldvin Þorsteinsson af strandstað, en jafnframt nógu gangmikið til að komast út að ystu mörkum efnahagslögsögunnar á stuttum tíma, skip með þyrluskýli og þyrlu af svipaðri gerð og þyrlur danskra varðskipa.

Nú er tækifærið. Herinn er að fara og kveðjum hann með skilnaðarkossi, ekki eins og einhver hóra sem grátbiður hann að vera áfram eins og ríkisstjórnin og látum eins og fjórðung af spítalapeningunum í bætta björgunarþjónustu.

Mér finnst leiðinlegt að tala um ríkisstjórnina. Að auki eru þeir tveir alþingismenn sem teljast fjarskyldir ættingjar mínir, báðir í ríkisstjórn. Ég pissa ekki nærri mínu eigin greni, ekki fremur en refurinn og því er mér illa við að tala illa um ríkisstjórnina. Álit mitt á þessum er að vísu mismunandi. Ég nota hvert tækifæri til að skamma dómsmálaráðherrann fyrir embættisfærslur hans, en hrífst mjög af embættisfærslum iðnaðarráðherrans sem er sexmenningur við mig, báðar komnar af Brigittu Þorvarðardóttur í Stíflisdal í Þingvallasveit í beinan kvenlegg.

Það á að taka rafmagnið af mér eftir nokkrar mínútur og því hefi ég stutt blogg hér í kvöld.

-----oOo-----

Í kvöld sá ég hugljúfa spænska kvikmynd á hinsegin bíódögum í Regnboganum sem jafnframt er opnunarmynd Hinsegin bíódaga. Myndin heitir Cachorro og þýdd sem bangsalingur. Það læddist örlítið tár út skömmu fyrir lok myndarinnar, en svo áttaði ég mig á því þegar ljósin höfðu verið kveikt, að ég hefði getað beðið prestinn sessunaut minn um táraþurrku. Yndisleg mynd.

fimmtudagur, mars 16, 2006

16. mars 2006 - .....og herinn á brott.


Bandaríska ríkisstjórnin hefur ákveðið að flytja herinn á brott eigi síðar en á hausti komanda. Þetta kemur fáum á óvart og alls ekki mér sem elska friðinn og lítt hrifin af hervaldi hverju nafni sem það nefnist. Því vil ég óska hermönnunum sem eftir eru, góðrar heimferðar. Ég vil taka fram að ég hefi ávallt átt ágæt persónuleg samskipti við þá hermenn á Keflavíkurflugvelli sem ég hefi átt samskipti við. Ég hefi reynt að koma fram við þá að virðingu og þeir hafa sömuleiðis komið fram við mig af virðingu. Afstaða mín gegn hernum hefur ávallt verið á pólitískum forsendum. Þá hefi ég ávallt borið sérstaklega mikla virðingu fyrir þyrlubjörgunarsveit hersins, hefi notið gestrisni hennar sem og bandarískra yfirvalda á Keflavíkurflugvelli sem hafa greitt götu mína á þeim slóðum.

Með því að þoturnar fara, fer einnig einasti þátturinn í hernaðarmættinum sem ég hefði viljað halda eftir hér á landi. Þyrlubjörgunarsveitin. Íslendingar eru slíkir aumingjar að þeir geta ekki haldið einni góðri björgunarþyrlu gangandi, hvað þá tveimur. Stóra þyrlan er í pörtum og ekki má vinna við hana öðruvísi en í dagvinnu af því að ekki eru til neinir peningar til að klára þyrluna í hvelli. Ef eitthvað lítilræði kemur fyrir litlu þyrluna verður að kalla til herinn á meðan hann er hér, en eftir það danska herinn. Á sama tíma er ákveðið að reisa tónlistarhöll fyrir tólf milljarða og spítalamonster fyrir 40 milljarða.

Það má ekki líta svo á að ég sé á móti stórri og fínni tónlistarhöll. Ég tel hinsvegar að slík höll megi kosta nokkrum milljörðum minna en þessa tólf og geta samt þjónað hlutverki sínu. Á sama hátt er ég ekkert á móti heilbrigðisþjónustu á Íslandi. En ég vil ekki að allir peningarnir til heilbrigðisþjónustunnar fari í steinsteypu þar sem hún kemur að ófullnægjandi notum. Á móti kemur að það á skilyrðislaust að auka fjarveitingar til Landhelgisgæslu umtalsvert þannig að hún geti haldið úti minnst einu öflugu varðskipi auk varðbátanna Ægis og Týs, minnst tveimur öflugum björgunarþyrlum með búnaði til eldsneytisáfyllingar á flugi auk einhverra minni þyrla af svipaðri stærð og Sif og loks þarf eina sæmilega flugvél með gott flugþol.

Suður í Keflavík vantar störf í stað þeirra sem tapast þegar herinn fer. Það er til prýðisaðstaða fyrir flugkost Landhelgisgæslunnar suður á Keflavíkurflugvelli og Landhelgisgæslan getur vel sinnt hlutverki sínu frá höfnum í Reykjanesbæ. Ef það dugir ekki til, má alltaf létta álaginu á Reykjavíkurflugvelli með því að færa innanlandsflugið til Keflavíkur, t.d. í gömlu flugstöðina sem notuð hefur verið fram að þessu fyrir flug tengt hernaðinum. Svo má reisa tónlistarhöllina hans Stefáns Jóns suður í Vatnsmýri.

Þegar ég les eigin skrif kvöldsins fæ ég á tilfinninguna að ég sé búin að leysa lífsgátuna :)

-----oOo-----

Í fórum mínum á ég miða á tónleika uppáhaldstónlistarmannsins míns sem aldrei sá föður sinn, þar sem sá yfirgaf þetta jarðlíf á styrjaldartímum. Tónlistarmaðurinn heitir Roger Waters.

miðvikudagur, mars 15, 2006

15. mars 2006 - Stórmennskubrjálæði?


Nú er senn að fara að stað einhverjar brjáluðustu byggingaframkvæmdir í Reykjavík. Það á að byggja úrelt spítalamonster á gömlu Landsspítalalóðinni og rífa einhverjar af nýlegum byggingum sem fyrir eru. Það á að setja nærri tvo milljarða í að gera við Þjóðleikhúsið og það á að herma eftir Dönum og byggja nýja tónlistarhöll ofan í höfninni.

Eru þessir menn orðnir gjörsamlega veruleikafirrtir? Við erum að tala um framkvæmdir sem munu kosta nærri 60 milljarða eða 200 þúsund krónur á hvert einasta mannsbarn í landinu og megnið af þessu í snobbhýsi sem munu skila litlum arði en geysilega miklu tapi til framtíðar. Á sama tíma er ekki hægt að halda uppi lágmarksbjörgunarþjónustu í landinu vegna fjárskorts. Allt er orðið gert til að apa eftir Dönum.

Þegar nýja bókasafnsbyggingin í Kaupmannahöfn er skoðuð spyr ég mig þess hvort arkitektarnir hafi verið að herma eftir ónefndu húsi í Reykjavík? Það stenst reyndar ekki af þeirri einföldu ástæðu að hið ónefnda í Reykjavík var byggt á eftir konunglega bókasafninu í Kaupmannahöfn. Þá fæ ég svipaða tilfinningu af hugmyndum að nýja tónlistarhúsinu þegar nýja óperuhúsið í Kaupmannahöfn er skoðað.

Svo var Stefán Jón Hafstein fljótur að “þiggja” hugmyndina að ljósatyppinu í Viðey. Ég held það sé tími til kominn að nýtt fólk taki við stjórnartaumunum, bæði hjá ríki og Reykjavíkurborg.

þriðjudagur, mars 14, 2006

14. mars 2006 - Enn eitt aumt blogg


Enn sem fyrr hefi ég ekkert að segja af bloggi. Ekkert það hefur skeð að ástæða sé til að blogga neitt og samt eyði ég plássi í fréttir sem engar eru.

Ekki get ég skrifað um Alþingi. Þar eru þingmenn enn að þrasa um vatn og enginn Árni Johnsen til að vanda um fyrir fólki að þingmannasið. Það munaði reyndar litlu að sjómaðurinn Guðjón Arnar (AddiKiddiGauj) hefði kynnt einum stuttbuxnadrengnum fyrir þingmannahnefa. Hann hefði mátt gera það fyrir mér. Það hefði enginn skaði orðið þótt Heimdellingurinn hefði fengið væga hirtingu. En bara væga!

Jú, eitt get ég sagt. Myndin af henni Hrafnhildi er orðin nokkurra mánaða gömul. Hrafnhildur er nú orðin sæl og feit, hjálpar mér með þvottinn og gætir heimilisins á meðan ég er í burtu. Því set ég inn nýrri mynd af henni en í gær.

Ég lenti í spjalli við unga blaðakonu í gærkvöldi. Mér til gleði reyndist hún skrifa með réttri hendi eins og Leónardó da Vinci, Victoria drottning, Julia Roberts og ég.

mánudagur, mars 13, 2006

13. mars 2006 - Aumt blogg


Ég átti víst að skrifa hér heilmikið um reynslu dagsins, en af því að ég hefi ekkert að segja, get ég ekkert skrifað. Ég svaf til hádegis í gær, datt í hug að kveikja á sjónvarpinu og minn maður í saumavélaformúlunni var í öðru sæti og hélt því til loka. Ekki man ég hver lenti í þriðja sæti, vafalaust einhver auli frá Suður-Ameríku.

Ég fékk heimsókn, sjálf Susan Stryker frá Ameríku kom í heimsókn og var mikið spjallað. Í mörg ár fannst mér ég vera ein á Íslandi. Nú er ég ekki ein, ég er orðin hluti af hóp. Við vorum nokkrar sem þótti ástæða til að ræða um okkar hjartans mál.

Kisan Hrafnhildur var heldur betur höll undir Susan Stryker. Ég fer að verða afbrýðissöm!

sunnudagur, mars 12, 2006

12. mars 2006 - Formúla Pfaff


Eins og fáum er kunnugt um, þá var ég algjör formúluáhugamanneskja og vakti heilu næturnar vitandi af uppáhaldsökumanninum mínum við keppni í Japan eða Ástralíu. Svo rammt kvað að þessu að ég missti ekki af einni einustu tímatöku í fleiri ár. Allt miðaðist við að ná næstu keppni í sjónvarpinu og þess vandlega gætt að fara ekki úr færi við sjónvarpstæki þá daga sem keppt var í góðakstrinum. Þetta voru líka taldir vera kraftmestu og hraðskreiðustu bílar sem framleiddir höfðu verið.

Síðan eru liðin allmörg ár. Ekki veit ég hvort það var með eða án leiðbeininga Sigurðar Helgasonar hjá Umferðarstofu sem stjórnendur Formúlunnar fóru að fyrirskipa allskyns hömlur á afl bílana svo þeir kæmust ekki svona hratt. Strokkunum fækkað niður í tíu og afgastúrbínurnar fjarlægðar, hvorutveggja löngu fyrir minn áhuga og svo allskyns minniháttar regluverk sem öll miðuðust við að draga úr afli bílanna auk þess sem lagðar voru fjöldi af nýjum beygjum á brautirnar til að draga enn meira úr hraðanum.

Vestur í henni Ameríku hélt þróunin áfram og brátt sigu bæði Cart (Indycar) og Nascar fram úr Formúlunni hvað afl snerti. Þeir tóku aukabeygjurnar af brautunum til að auka hraðann enn meir. Þessi mikli hraði og afl í amerísku keppnisíþróttunum hafa einnig leitt af sér háan fórnarkostnað. Það hafa orðið alvarleg slys þar, en mér er ókunnugt um hvort eða hversu mörg banaslys hafa orðið þar á undanförnum árum. Í Formúlunni hafa ökumenn ekki látið lífið síðan 1994, fáir slasast, en öryggisbúnaður verið bættur verulega síðan þá svo ekki er það skýringin á þessar miklu áherslu á að minnka vélarnar.

Nú hefur stórt skref verið stigið í að minnka vélarnar í Formúlubílunum. Frá og með þessu nýja keppnistímabili má einungis nota átta strokka saumavélamótora í Formúlunni. Nú eru það ekki lengur öflugar alvöruvélar, heldur Husqvarna og Necchi og Pfaff og Singer sem syngja fyrir okkur á meðan meistararnir aka sinn hefðbundna sunnudagsbíltúr. Ég held ég sleppi því að vaka yfir bíltúrnum í dag, þótt ég viti af uppáhaldsökumanninum og sjöfalda heimsmeistaranum á ráspól þegar ég kem heim eftir næturvaktina.

-----oOo-----

Það eru fleiri íþróttafréttir í gangi og ágætlega í samræmi við Formúlu Pfaff, en hetjurnar hugprúðu í Halifaxhreppi unnu enn einn leikinn í gær, hinn fjórða í röð. Með sigri sínum á Útgönguborg (Exeter City) í kvenfélagsdeildinni eru þær á góðri leið að tryggja sig í umspil um að komast í langneðstu deild á hausti komanda. Það verður örugglega eftirsjá að þeim úr kvenfélagsdeildinni ef þær verða svo óheppnar að lenda í ölþambaradeildinni.

laugardagur, mars 11, 2006

11. mars 2006 - Transgender studies ofl.

Áður en ég byrja minn eiginlega pistil, langar mig til að biðja Guðrúnu Völu afsökunar á að hafa ekki áttað mig á henni um leið og ég hitti hana. Það er ófyrirgefanlegt og ég skammast mín ofan í tær.

Ég er sárfætt. Ég átti að mæta í morgun í rjómatertu í tilefni af því að ég hafði verið kosin úr öryggisnefnd Orkuveitunnar, en ég sá mér ekki fært að mæta í aftöku mína sökum anna. Ég geri lúmskt grín að þessu, en eftir nærri fjögurra ára setu í nefndinni, sá starfsfólkið ástæðu til að endurnýja öryggisnefndina og losa sig við leiðinlegri hlutann af henni. Hvað ég get verið starfsfólkinu sammála, þótt ég hafi verið kosin í burtu. Ég er viss um að leiðinlegri öryggistrúnaðarmaður starfsfólksins finnst ekki.

Í stað þess að mæta á fundinn góða fór ég í klippingu, síðan niður í Hlíðahverfi og sótti aðra bloggvinkonu, Kristínu V. og héldum við saman á fyrirlestur Susan Stryke í Odda, húsi félagsvísindadeildar Háskóla Íslands. Eftir fyrirlesturinn hitti ég fjölda fólks, m.a. Guðrúnu Völu, tókst naumlega að bjarga mér frá viðtali við Stöð 2 og hélt síðan ásamt Susan Stryke á Þjóðminjasafnið. Ekki var dvölin þar löng, því ég var vart búin að borga fyrir okkur inn á safnið þegar hringt var í mig frá Sjónvarpinu sem vildi fá Susan í viðtal eftir hálftíma. Það var haldið upp í sjónvarp. Þar hitti ég fjarskylda frænku mína að nafni Ragnhildur Steinunn, mun skyldari Kristínu V. en mér og tókst að fræða hana heilmikið um ættarsögu hennar og makans um leið og Susan var í viðtali.

Eftir sjónvarpið fór ég með Susan á gistiheimilið þar sem hún vildi fá sér smáhvíld fyrir næstu törn, en hélt síðan upp í NFS. Þar byrjaði ég á að heilsa upp á Guðrúnu Helgu, enn eina bloggvinkonu mína áður en ég lenti í viðtali á NFS ásamt Hrafnhildi Gunnarsdóttur formanni Samtakanna 78.

Um kvöldið var svo farið í bíó. Þar sá ég forsýningu kvikmyndarinnar Screaming Queens eftir margumrædda Susan Stryke og fleiri. Ég verð að viðurkenna að fyrir kynni mín af Susan Stryke hafði ég aldrei heyrt talað um upphafið, sjálft upphafið þremur árum fyrir Stonewall þegar nokkrar transsexual konur gerðu óvart uppreisn gegn yfirvöldum sem höfðu gengið alltof langt í afstöðu sinni gegn transsexual fólki. Myndin var góð og vona ég að sjónvarpið taki myndina til sýninga sem fyrst. Allavega sé ég ástæðu til að senda bréf til Ríkissjónvarpsins þar sem ég hvet til aðgerða.

Nú er ég búin að fara tvisvar í bíó á árinu 2006 og sjá tvær amerískar kvikmyndir. Báðar fjalla þær um transsexual konur sem vildu sækja rétt sinn. Skrýtinn þessi kvikmyndaáhugi minn!

föstudagur, mars 10, 2006

10. mars 2006 - Susan Stryker


Ég var úti að aka í gær þegar hringt var í mig og ég svaraði á næsta rauða ljósi. Það var vinkona mín sem fór í aðgerð fyrir tæpum áratug og tilkynnti mér að hún væri með eina stöllu okkar uppi í Perlu. “Ég verð þarna eftir tvær mínútur” svaraði ég að bragði, en náði ekki að tala meira því komið var grænt ljós og ég þurfti að aka af stað.

Tveimur mínútum síðar var ég komin upp í Perlu á mínum vinstrigræna Subaru og hitti vinkonuna og sjálfa Susan Stryker nýkomna frá San Fransisko og fengum við okkur snæðing uppi í Perlu og höfðum margt og mikið að spjalla um. Það var greinilegt að við áttum margt sameiginlegt, ekki einungis það að við fórum allar í aðgerð til leiðréttingar á kyni, hver í sínu landinu en einungis þrjú ár liðu frá því sú fyrsta okkar fór í aðgerð þar til sú síðasta lagðist undir hnífinn. Það sem sumum þætti kannski merkilegt, er að við erum allar örvhentar. Spurningin er nú hvað hinn örvhenti Bill Clinton tekur sér fyrir hendur ef hann kemst að sem “First Lady” í Hvíta húsinu?

Ég hvet alla sem geta til að mæta á ódýra kvikmyndasýningu í Regnboganum klukkan átta í kvöld á myndinni Screaming Queens (Skrækjandi drottningar) sem Susan Stryker á heiðurinn af, en auk þess mun hún flytja fyrirlestur um transgender studies í Odda stofu 101 kl 12.00 sem er öllum opinn á meðan húsrúm leyfir.

-----oOo-----

Sæbjörn Valdimarsson kvikmyndagagnrýnandi Morgunblaðsins hringdi í mig í gær og vildi biðjast afsökunar á orðum sínum í gagnrýni sinni á kvikmyndina Transamerica. Ég get ekki annað en tekið afsökunarbeiðni hans til greina þótt hans villa sé ekki stór. Hann notaðist bara við leiðinlega þýðingu á texta kvikmyndarinnar sem birtist á hvíta tjaldinu og biður afsökunar á því. Ég segi bara. Ef allir gerðu eins og Sæbjörn Valdimarsson með þessu símtali, væri heimurinn miklu betri.

fimmtudagur, mars 09, 2006

9. mars 2006 - Af Þjóðleikhúsi

Enn er kostnaðurinn við viðgerðir á Þjóðleikhúsinu í umræðunni. Fyrir tæpum mánuði síðan taldi Þjóðleikhússtjóri að kostnaðurinn við viðgerðir á Þjóðleikhúsinu gæti verið nærri tveimur og hálfum milljarði króna. Mér létti því er ég heyrði að menntamálaráðherra áætlaði kostnaðinn einungis sextán hundruð milljónir.

Í reynd gat ég ekki með nokkru móti séð hernig hægt væri að kosta tveimur og hálfum milljarði í viðgerðir á Þjóðleikhúsinu ef ekki stæði til að gullhúða húsið að utan. Með þessari nánasarlegu upphæð fæst vart meira en gullklósett handa Þjóðleikhússtjóra í nýendurbyggðu Þjóðleikhúsinu.

Í alvöru, er ekki hægt að gera við Þjóðleikhúsið fyrir talsvert minni upphæð?

miðvikudagur, mars 08, 2006

8. mars 2006 - Mér finnst þetta táknrænt....

....fyrir okkur friðelskandi þjóð, sagði Stefán Jón Hafstein um ljósatyppi Yoko Ono í síðdegisútvarpi Rásar 2 í gær þar sem ræddar voru hugmyndir sem komið hafa fram um að reisa eitt stykki ljósatyppi úti í Viðey henni til heiðurs. Síðan bætti Stefán Jón Hafstein því við að Yoko Ono gæfi hugmynd að myndverki, ekki myndverkið sjálft.

Mér fannst þetta síðasta nokkuð gott. Einhver gömul og rík kelling fær þá hugmynd að reisa ljósatyppi úti í Viðey og þá hlaupa borgarfulltrúar upp til handa og fóta eins og hlýðnir rakkar og henda milljónum í gæluverkefnið. Miðað við þessa undanlátsemi borgarfulltrúans vænti ég þess að hann bjóði Roger Waters að reisa múr úti í Viðey í minningu The Wall þegar hann kemur í sumar. Til að tryggja sem minnst náttúruspjöll, má reisa múrinn umhverfis ljósatyppið svo að múrinn geti verið í nálægð og kallast á við typpið. Þá þarf typpið allavega ekki lengur að kallast á við nýja tónlistarhúsið eins og Stefán Jón ræddi svo fjálglega um fyrir nokkrum dögum. Það er hvort sem er svo langt á milli, að úr slíkum köllum kæmi aldrei annað en vesældarlegt mjálm sem drukknar í öldugjálfrinu.

Mín hugmynd er öllu betri og ódýrari. Þegar gengið er að einu helsta glæsihýsi Reykjavíkur, þá standa sex ljósatyppi í röð fyrir framan aðalinnganginn. Það má bara kenna eitt þeirra við friðinn, annað við Lennon og svo aðra Bítla í röð og loks hið síðasta við forsöngvarann í stóru englahljómsveitinni, sjálfan Elvis Aaron Presley. Þannig geta Bítlarnir kallast á með stuttu millibili og sungið Give Peace a Change í kór og með Elvis í broddi fylkingar.

-----oOo-----

Þessa daga halda nokkir þingmenn uppi málþófi á Alþingi til að mótmæla því að eignarréttur geti náð yfir vatn. Ég skil ósköp vel að það þurfi að mótmæla slíku þótt annað geti gilt um vatnsréttindi sem fylgja jarðeignum, vatnsréttindi á borð við virkjanaréttindi eða veiðiréttindi. Hinsvegar er ég ósammála þessum baráttuaðferðum. Að tala og tala og tala um ekki neitt er ekki í minni þágu. Einungis málefnaleg umræða gagnast mér, en málþóf af þessu tagi sem nú fer fram á Alþingi, verður þess valdandi að ég finn mér eitthvað betra til að gefa atkvæðið mitt, ef ég þá yfirleitt nenni að mæta á kjörstað.

-----oOo-----

Loks fá allar konur baráttukveðjur í tilefni dagsins.

þriðjudagur, mars 07, 2006

7. mars 2006 - Öll egg í sömu körfu?

Það hefur lengi loðað við Íslendinga að þeir vilji hafa öll egg í sömu körfu. Lengi vel stjórnaðist efnahagur þjóðarinnar af sjávarútvegi. Mikill meirihluti þjóðarteknanna kom frá sjávarútvegi og aflabrögð og verð aflans á heimsmarkaði stjórnaði hér öllu eins og hér væri ein allsherjar verstöð og fátt annað. Svo kom álver á tíma þegar allt var á leið til andskotans sökum þess að saman fóru hrun síldarstofnsins og verðhrun á fiskmörkuðum erlendis. Þrjátíu árum síðar kom álver númer tvö og nú álver númer 3. Nú er farið að tala um að verið sé að setja öll eggin í sömu körfuna.

Ástæða þess að ég skrifa þetta núna, er gagnrýni á pistil minn frá því í gær. Þar nefndi ég klúðrið í Landspítalamálinu, um “Jón Kristjánsson sem ætlar að eyða milljarðatugum í svokallað hátæknisjúkrahús, sjúkrahús sem er á vitlausum stað, óþarflega dýrt og gjörsamlega úr takt við framtíðina.”

Það er vissulega mjög sniðugt útfrá hagkvæmnissjónarmiði að byggja eitt stórt spítalamonster sem rúmar rúmlega alla sjúklinga þjóðarinnar og þar sem allir verkferlar heilbrigðisþjónustunnar rúmast undir sama þaki. Þetta er alveg stórsniðugt í milljónasamfélögum þar sem sjúklingafjöldinn er hundraðfalt meiri en hér á landi. Til þess að það borgi sig að reisa slíkan spítala verður því að hundraðfalda sjúklingafjöldann. Ég held að það sé ekkert sniðugt að fjölga sjúklingunum svona mikið. Hvað ef eitthvað kemur fyrir umræddan spítala og hann verður ónothæfur vegna bruna, jarðskjálfta eða hryðjuverka? Þá er enginn spítali eftir til að taka á móti sjúklingunum sem hugsanlega slasast í sama jarðskjálfta. Semsagt, svona monster á ekki rétt á sér í litlu landi eins og okkar. Það væri nær að dreifa áhættunni.

“Hátæknisjúkrahúsið” er á vitlausum stað. Miðborg Reykjavíkur er löngu orðin að úthverfi og fjarri helstu umferðaræðunum í átt til Reykjaness og Vesturlands. Í miðborginni býr einungis lítill hluti íbúa Reykjavíkur. Það væri nær að byggja spítala á öðrum stað, t.d. í námunda við Vífilsstaði og annan nærri norðausturhverfum borgarinnar og síðan efla sjúkrahúsin annars staðar á landinu, en viðbúið er að sjúkrahúsin á landsbyggðinni verði látin gjalda fyrir ósómann sem fylgir monstrinu. Þá gæti Landsspítalinn þjónað ágætlega sem hverfissjúkrahús fyrir þessa fáu íbúa sem eftir eru vestan við Elliðaár. Þannig yrði íbúunum best þjónað. Því er hugmyndin um monstrið bæði á vitlausum stað og úr takt við framtíðina.

Það er rætt um að henda milljarðatugum í steinsteypu. Sjúkrahús landsmanna hafa lengi verið í fjárhagslegu svelti og vart til aurar til að reka spítalana. Ég get ekki séð að monstrið bæti þar úr. Hinsvegar er sú hættan að heilbrigðisstarfsfólki verði sífellt núið um nasir að það fékk nýjan spítala og nú þurfi að herða sultarólina enn frekar. Monstrið mun því svelta heilbrigðiskerfið enn frekar en nú er og hindra eðlilegan rekstur spítalanna.

Það hefur lengi loðað við Íslendinga að þeir vilji hafa öll eggin í sömu körfu. Ég óttast afleiðingarnar þegar þetta verður líka látið gilda um sjúkrahúsin á Íslandi, þegar þau verða að mestu leyti komin undir sama þak.

-----oOo-----

Nágranni minn í næsta húsi gleymdi að setja beinskipta bílinn sinn í gír þegar hann yfirgaf bílinn í gær. Þegar hann var farinn inn til sín rann bíllinn af stað afturábak og niður á næstu bílastæðaröð fyrir neðan. Þar rétt slapp hann við að rekast á vinstrigrænan Subaru og hafnaði uppi á kanti á milli bílastæða. Þetta er annar bíllinn frá sömu blokk sem fer mannlaus af stað og í báðum tilfellum munaði litlu að þeir stórskemmdu eðalvagninn minn. Ætli nágrönnum mínum í næstu blokk sé eitthvað illa við mig?

mánudagur, mars 06, 2006

6. mars 2006 - Af Framsókn

Ég ætlaði að skrifa hér langan og þarflegan pistil um Framsóknarmenn, en einhver tölvuklár Framsóknarmaður sendi vírus í borðtölvuna mína svo hún er ónothæf eins og er.

Á síðastliðnu hausti fékk Árni Magnússon félagsmálaráðherra ádrepu frá Hæstarétti er hann fékk dóm á sig fyrir hegðun sína í starfi. Voru þá uppi háværar kröfur þess efnis að hann segði af sér. Nú hefur hann sagt af sér, ekki endilega vegna þessa máls, en hann tók ábyrgð gerða sinna og gekk út. Ekki ætla ég að fjölyrða mikið um það mál. Hinsvegar er spurningin hvort Árni hefði átt að ganga fyrstur út.

Í stól Árna sest Jón Kristjánsson sem ætlar að eyða milljarðatugum í svokallað hátæknisjúkrahús, sjúkrahús sem er á vitlausum stað, óþarflega dýrt og gjörsamlega úr takt við framtíðina. Kosturinn við að losna við Jón er þó sá að hann hefur ekki haft fullkomið vald á samskiptum sínum við öryrkja og aldraða.

Í stól Jóns sest svo Siv Friðleifsdóttir sem ég held að ráði sæmilega við þessa málaflokka ef hún fær einhverju ráðið. Hún sýndi það ágætlega í rjúpumálinu að hún vinnur á og betur að hún hefði setið einu ári lengur á stól umhverfisráðherra í stað húsfreyjunnar úr kvæði Jónasar sem nú situr þar eins og hrukkótt Barbie.

Best hefði svo auðvitað verið ef Halldór hefði sagt af sér fremur en Árni. Það er óþolandi að hafa jafn stríðsóðan mann í embætti forsætisráðherra og Halldór Ásgrímsson.

-----oOo-----

Minningarbókin um Gisbertu brást eitthvað í gær og því birti ég slóðina aftur núna:

http://www.tgeu.net/Gisberta/CondolenceBook/index.cgi

sunnudagur, mars 05, 2006

5. mars 2006 - Gisberta, lokaorð


Ég ætla að ljúka umfjöllun minni um Gisbertu að sinni með því að benda á minningarbók um hana sem er komin á netið. Um leið hvet ég ykkur sem viljið sýna virðingarvott við minningu Gisbertu, að skrá ykkur í minningarbókina.

Það er hvatt til þess að haldin verði vaka til minningar um Gisbertu frammi fyrir kaþólskum kirkjum á miðvikudag. Ég veit ekki hvort það er nægilegur stuðningur við slíka minningarvöku, en vil heyra frá fólki um það mál, t.d. ef reynt yrði að hittast á Landakotstúni klukkan 21.00 um kvöldið. Ef ekki, er hægt að sameinast um slíka minningarathöfn í einhverri kirkju í kringum 19. nóvember 2006.

Ég læt bréfið sem ég fékk frá TGEU í gær óbreytt hingað inn.


Decide to support the appeal for a Vigil for Gisberta in your group and sign online at http://tgeu.net/:
(http://tgeu.net/Gisberta/VigilSupport/sign.cgi)

Maybe some groups could organise Vigils for Gisberta on 9th March in front of the local Dioceses / catholic churches in alliance with local L&G-groups?

The Steering-Committee of the European TransGender Network sent a protest letter to all the addresses suggested by aT. and Panteras Rosas yesterday.
Read it online at:
http://tgeu.net/Gisberta/Languages/Gisberta_News.htm -> "Protest Letters".

Jo (TransX)
Webmaster European TransGender Network
http://tgeu.net/ * tgeurope@tgeu.net

***

VIGIL FOR GISBERTA IN LISBON

Gisberta was tortured and sexually abused for days and then brutally murdered. The media have distorted her life story and have refused to show a photograph of her face. We can't allow her face, nor the nature of this crime, to be so easily forgotten as if it were an everyday occurrence.

She was a homeless, transsexual, HIV-positive, immigrant drug-abuser and sex-worker who was killed by young men and boys from a residence facility for at-risk youth. The nature of Gisberta's vulnerabilities and the so-called system of protection of minors in Portugal bring fully to light the pervasive marginalization and longstanding discriminatory attitudes that characterize Portuguese society.

A simple reaction of lowering the age of criminal liability is nothing more than the government washing its hands of the issue. Let the government take on the responsibility for at-risk youth that it has so far refused, instead of abandoning them to religious institutions and the inferior guidance they receive there. And let the government prosecute those who are of legal age.
But this hideous crime should not be minimized by focusing arguments just on the age of the perpetrators.

laugardagur, mars 04, 2006

4. mars 2006 - Erfiður pistill

Þessi pistill sem ég skrifaði í gær var erfiður og helst hefði ég kosið að þurfa aldrei að skrifa svona pistla á bloggið mitt. Ég leit hinsvegar svo á að það væri óumflýjanlegt að koma þessum atburði í dagsljósið á Íslandi rétt eins og víða annars staðar í heiminum.

Börnin fjórtán sem frömdu þennan hryllilega verknað eru fórnarlömb, ekki eins og sú myrta, en þau eru fórnarlömb mannfyrirlitningar, haturs og fordóma samfélagsins. Þeim er að auki gert að snauta heim eftir þessa atburði sem hafa vafalaust brennt sig í sálu þeirra til lífstíðar og þau fá enga aðstoð við að vinna sig útúr þeim sálarkvillum sem fylgja verknaði af þessu tagi. Einungis elsta barnið sett inn á bak við lás og slá og þarf að svara til saka fyrir glæpinn. Á sama tíma sleppur sjálfur sökudólgurinn.

Sökudólgurinn er samfélagið sem lætur slíkan viðbjóð viðgangast án þess að fyllast reiði og sjálfsásökun. Sökudólgurinn er kaþólska kirkjan í Portúgal sem í stað þess að fordæma verknað sem þennan, reynir að réttlæta hann með því að líkja transsexual fólki við barnaníðinga. Sökudólgurinn eru portúgalskir fjölmiðlar sem þegja yfir raunverulegum ástæðum morðsins sem er áunnið hatur og fyrirlitning á öllu því sem sker sig úr samhengi við meðaljóninn, en reyna þess í stað að koma sökinni á sjálft fórnarlambið.

Á fimmtudagskvöldið varð mér á að stilla á sjónvarpsrásina Ómega eftir að Gettu betur var búið í Ríkissjónvarpinu. Þar var Guðmundur Örn Ragnarsson sjónvarpsprédikari að flytja hugvekju sína og gerði sérstaklega að umræðuefni það sem hann kallaði kynvillu og orð 3. Mósebókar þar sem hvatt er til þess að samkynhneigt fólk skuli líflátið. Með því að slíta Biblíuna úr samhengi við sjálfa sig, gerði hann sig sekan um glæp fordómanna, við 233 grein hegningarlaganna. Það ríkir vissulega málfrelsi á Íslandi, en fólk verður að bera ábyrgð orða sinna. Líka Guðmundur Örn Ragnarsson. Því finnst mér sjálfsagt að orð hans verði skoðuð gagnvart 233. grein hegningarlaganna. Ekki veit ég hver refsingin er við því þegar einhver hvetur til manndrápa í ræðu eða riti.

Á undanförnum árum hefur verið haldinn minningardagur um það það fólk sem flokkast sem transgender eða transsexual og fallið hefur fyrir morðingja hendi síðasta árið. Þessi minningardagur var síðast haldinn 20. nóvember síðastliðinn víða um heim í minningu þeirra 28 transgender manneskja sem fallið höfðu fyrir morðingja hendi síðustu tólf mánuðina á undan. Það er greinilega orðin full ástæða til að virkja þennan dag á Íslandi einnig.

http://www.gender.org/remember/day/index.html

föstudagur, mars 03, 2006

3. mars 2006 - Gisberta


Í síðustu viku var framið morð suður í Portúgal. Slíkir voðaatburðir þykja ekki fréttaefni úti í hinum stóra heimi, en þetta morð var óvenju ruddalegt.

Gisberta, var brasilísk transsexual kona og innflytjandi í Oporto í Portúgal, heimilislaus, eyðnismituð, eiturlyfjaneytandi og og stundaði vændi sér til framfæris. Hinn 19. febrúar síðastliðinn komu fjórtán drengir af upptökuheimili sem rekið er af kaþólsku kirkjunni inn í ófullgert hús þar sem Gisberta hélt til, bundu hana og kefluðu og hófust svo handa við að misþyrma henni með grjótkasti, spörkum og höggum með spýtum. Hópurinn viðurkenndi einnig að hafa stungið spýtum upp í endaþarm hennar.

Næstu tvo dagana héldu þeir uppteknum hætti og pyntuðu Gisbertu meðal annars með logandi sígarettum, en aðfararnótt 22. febrúar síðastliðinn köstuðu þeir henni ofan í 10 metra djúpa gryfju þar sem hún virðist hafa drukknað. Lík Gisbertu fannst svo sama dag og voru drengirnir af upptökuheimilinu þegar grunaðir um verknaðinn og játuðu þeir fljótlega að hafa orðið Gisbertu að bana. Út frá játningum þeirra kom atburðarás þessa hræðilega glæps í ljós og eins að fórnarlambið hafði oft áður orðið fyrir aðkasti þessara drengja.

Drengirnir fjórtán eru á aldrinum tíu til sextán ára gamlir og einungis einn þeirra telst sakhæfur samkvæmt portúgölskum lögum og situr hann nú í gæsluvarðhaldi. Hinir þrettán voru sendir heim á upptökuheimilið.

Það sem er kannski sorglegast við þennan atburð er ekki einungis ungur aldur drengjanna, heldur fremur neikvæð umfjöllun portúgalskra fjölmiðla um fórnarlambið þar sem gefið er í skyn að hún eigi sjálf sök á því hvernig fór. Fjölmiðlar festu ekkert vægi við þá staðreynd að Gisberta var transsexual og að hér var um dæmigert hatursmorð að ræða. Þeir höfðu meiri áhuga fyrir því sem prestur þeirrar stofnunar sem gerningsmennirnir komu frá, sagði er hann lýsti því yfir að drengur frá viðkomandi stofnun hefði verið misnotaður af barnaníðing og að það réttlætti glæpinn að einhverju leyti.

Portúgölsk LGBT samtök á borð við Panteras Rosa og transgendersamtökin a.trans, gáfu út yfirlýsingar sem útskýrðu hugtakið transsexualisma og persónueinkenni fórnarlambsins. Í yfirlýsingunum var einnig krafist aðgerða, jafnt þjóðfélagslega sem og lagalega, gegn glæpum sem eru framdir vegna fordóma, kynferðis, þjóðfélagslegrar stöðu, sjúkdóma eða þjóðernis. Þessar yfirlýsingar samtakanna, þar sem einnig var farið fram á að transsexualismi fórnarlambsins væri nefndur, og að transfóbía væri mjög líkleg ástæða fyrir glæpnum, voru algjörlega hunsaðar af fjölmiðlum.

Transgendersamtök víða í Evrópu hafa hafið bréfaskriftir til portúgalskra stjórnvalda og annarra þeirra sem málið varðar. Þar eru gerðar athugasemdir við sinnuleysi portúgalskra stjórnvalda sem og ábyrgðarleysi kirkjunnar og neikvæðri umfjöllun portúgalskra fjölmiðla mótmælt.
Enn sem komið er hafa engin viðbrögð borist, ekki fremur en búist var við, en Gisbertu verður ekki gleymt í okkar hópi og full ástæða til að minna á örlög hennar hvar og hvenær sem tækifæri vinnst til.

Ítarlegri upplýsingar:

http://www.tgeu.net/

fimmtudagur, mars 02, 2006

2. mars 2006 - Um lýðræðið

Þótt ég nenni ekki að skrifa neitt í kvöld, ætla ég samt að vekja athygli á frétt sem birtist í Morgunblaðinu í gær. Þar er sagt frá heimsókn George Dobbljú Bush Bandaríkjaforseta til Afganistan. Í fréttinni kemur fram að Afganar séu öðrum þjóðum fyrirmynd og hvatning, lýðræðið að styrkjast og veröldin að verða frjálsari og óðum friðvænlegra í heiminum.

Ég segi bara: Ætli afganskar konur viti af þessu?

Að aflokinni heimsókninni til Afganistan fer Bush svo í heimsókn til tveggja nágrannaríkja Írans, en öfugt við þau tvö sem eru í miklu vinfengi við Bandaríkin, þá á Íran engin kjarnorkuvopn.

Að öðru leyti læt ég lesendur sjálfa um að skemmta sér yfir fréttinni í Morgunblaðinu.

http://www.mbl.is/mm/frettir/erlent/frett.html?nid=1188048