laugardagur, mars 11, 2006

11. mars 2006 - Transgender studies ofl.

Áður en ég byrja minn eiginlega pistil, langar mig til að biðja Guðrúnu Völu afsökunar á að hafa ekki áttað mig á henni um leið og ég hitti hana. Það er ófyrirgefanlegt og ég skammast mín ofan í tær.

Ég er sárfætt. Ég átti að mæta í morgun í rjómatertu í tilefni af því að ég hafði verið kosin úr öryggisnefnd Orkuveitunnar, en ég sá mér ekki fært að mæta í aftöku mína sökum anna. Ég geri lúmskt grín að þessu, en eftir nærri fjögurra ára setu í nefndinni, sá starfsfólkið ástæðu til að endurnýja öryggisnefndina og losa sig við leiðinlegri hlutann af henni. Hvað ég get verið starfsfólkinu sammála, þótt ég hafi verið kosin í burtu. Ég er viss um að leiðinlegri öryggistrúnaðarmaður starfsfólksins finnst ekki.

Í stað þess að mæta á fundinn góða fór ég í klippingu, síðan niður í Hlíðahverfi og sótti aðra bloggvinkonu, Kristínu V. og héldum við saman á fyrirlestur Susan Stryke í Odda, húsi félagsvísindadeildar Háskóla Íslands. Eftir fyrirlesturinn hitti ég fjölda fólks, m.a. Guðrúnu Völu, tókst naumlega að bjarga mér frá viðtali við Stöð 2 og hélt síðan ásamt Susan Stryke á Þjóðminjasafnið. Ekki var dvölin þar löng, því ég var vart búin að borga fyrir okkur inn á safnið þegar hringt var í mig frá Sjónvarpinu sem vildi fá Susan í viðtal eftir hálftíma. Það var haldið upp í sjónvarp. Þar hitti ég fjarskylda frænku mína að nafni Ragnhildur Steinunn, mun skyldari Kristínu V. en mér og tókst að fræða hana heilmikið um ættarsögu hennar og makans um leið og Susan var í viðtali.

Eftir sjónvarpið fór ég með Susan á gistiheimilið þar sem hún vildi fá sér smáhvíld fyrir næstu törn, en hélt síðan upp í NFS. Þar byrjaði ég á að heilsa upp á Guðrúnu Helgu, enn eina bloggvinkonu mína áður en ég lenti í viðtali á NFS ásamt Hrafnhildi Gunnarsdóttur formanni Samtakanna 78.

Um kvöldið var svo farið í bíó. Þar sá ég forsýningu kvikmyndarinnar Screaming Queens eftir margumrædda Susan Stryke og fleiri. Ég verð að viðurkenna að fyrir kynni mín af Susan Stryke hafði ég aldrei heyrt talað um upphafið, sjálft upphafið þremur árum fyrir Stonewall þegar nokkrar transsexual konur gerðu óvart uppreisn gegn yfirvöldum sem höfðu gengið alltof langt í afstöðu sinni gegn transsexual fólki. Myndin var góð og vona ég að sjónvarpið taki myndina til sýninga sem fyrst. Allavega sé ég ástæðu til að senda bréf til Ríkissjónvarpsins þar sem ég hvet til aðgerða.

Nú er ég búin að fara tvisvar í bíó á árinu 2006 og sjá tvær amerískar kvikmyndir. Báðar fjalla þær um transsexual konur sem vildu sækja rétt sinn. Skrýtinn þessi kvikmyndaáhugi minn!


0 ummæli:Skrifa ummæli