mánudagur, júní 27, 2016

27. júní 2016 – Landsleikur í fótboltaÍ kvöld, á 47 ára afmæli Stonewall uppreisnar hinsegin fólks í Bandaríkjunum, á tuttugu ára afmæli fyrstu löggjafar Íslands um hinsegin málefni, sex ára afmæli hjónabandslöggjafar hinsegin fólks og fjögurra ára afmæli fyrstu löggjafar Íslands um málefni transfólks, spilaði landslið Íslands fótboltaleik gegn stórveldi Englands í fótbolta og Ísland vann ótrúlegan sigur tvö mörk gegn einu í sextán liða úrslitum Evrópukeppninnar í fótbolta.

Ég var á vaktinni þegar fyrri hálfleikur var spilaður og óttaðist hið versta og ekki lagaðist heilsan þegar England fékk víti eftir einungis fjórar mínútur og ég sá fyrir mér landsleikinn við Dani í ágúst árið 1967 þegar Danir unnu Ísland á Idrætsparken með fjórtán mörkum gegn tveimur. Það var ekki falleg minning fyrir Íslendinga. Íslendingar voru fljótir að svara fyrir sig og jöfnuðu og skömmu síðar skoruðu annað mark og þannig fór leikurinn. Engin mörk voru skoruð í seinni hálfleik og Ísland náði glæsilegasta árangri sem íslenskt knattspyrnulið hefur náð fyrr og síðar.

Það er vissulega rétt sem Wayne Rooney sagði í viðtali fyrir leikinn að á vellinum voru ellefu menn í hvoru liði, engu að síður er ljóst að laun liðsmanna Englands eru margfalt meiri en íslensku landsliðsmannanna, en vafalaust aukast tekjur Íslendinganna margfalt þar sem þeir spila með erlendum liðum. Þeir eiga það svo sannarlega skilið


Ég hefi löngum haldið með Svíum í boltaíþróttum enda hafa Íslendingar sjaldnast riðið feitum hesti frá hópíþróttum og hefur þá fótboltinn verið sérstaklega slæmur. Nú voru vinir mínir Svíar reknir heim eftir riðlakeppnina og þó. Einn Svíi varð eftir í Frakklandi, Lars Lagerbäck landsliðsþjálfari Íslands sem ásamt Heimi Hallgrímssyni hefur leitt íslenska landsliðið á þá miklu sigurbraut sem enn stendur yfir.

Í fyrrinótt fagnaði ég nýjum forseta Íslands og sagði við hvern sem var, Til hamingju Ísland. Nú gleðst ég með Íslendingum og fagna sigrum þeirra, sigrum „strákanna okkar“ orða sem ég hefi aldrei lagt mér í munn.

Nú segi ég, Til hamingju Ísland, aftur!


laugardagur, júní 25, 2016

25. júní 2016 - Bretar og Evrópusambandið.Bretar hafa sagt skilið við Evrópusambandið. Fyrir mig eru það ekki góð tíðindi. Vissulega munu vinir mínir í Grimsby fá aftur fiskimiðin sín frá Evrópusambandinu en kannski er það hið eina jákvæða í stöðunni.

Stephen Whittle vinur minn í Manchester og fyrrum stjórnarmaður í Transgender Europe og formaður þar um skeið hefur bent á einfalda staðreynd sem þessar kosningar um úrgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu geta haft í för með sér. David Cameron hefur þegar lýst því yfir að hann muni láta af embætti í haust í kjölfar þessara kosningaúrslita. Hver verður eftirmaðurinn? Boris Johnson? Sá hefur barist hatrammlega gegn veru Bretlands í Evrópusambandinu en hann hefur einnig barist hatrammlega gegn réttindum hinsegin fólks í Bretlandi. Einhver dyggasti stuðningur sem hinsegin fólk hefur fengið er frá Evrópusambandinu. Evrópusambandið hefur staðið með okkur, hvatt okkur áfram, veitt okkur styrki og eflt baráttu okkar og nú kemur þetta bakslag, hugsanleg kreppa í Bretlandi, afturkippur í mannréttindabaráttu, sundrung og hugsanleg upplausn ríkisins Stóra-Bretlands og hugsanlega Boris Johnson sem forsætisráðherra.

Breska þjóðin hefur valið og hún veðjaði á rangan hest.

Bretar voru alltaf sér á parti innan Evrópusambandsins. Þeir höfnuðu Evrunni og þeir höfnuðu Schengen. Þeir fengu að vera sér á parti innan Evrópusambandsins en nú er því lokið. Kreppan er framundan. Þeir munu ekki lengur geta sótt um endalausar undanþágur frá reglum Evrópusambandsins og ef þeir vilja komast aftur inn úr kuldanum verða þeir að sætta sig sömu kjör og aðrir nýliðar.  

Hvað verður um Skotland og Norður-Írland? Verður Skotland frjáls og fullvalda þjóð innan Evrópusambandsins von bráðar? Mun Írland sameinast eftir að hafa búið við undirokun og klofning af hálfu Bretlands í nærri hundrað ár? Mun Stóra-Bretland breytast í Little-Britain? Ég veit ekki but the computer says no.

Mér þykir vænt um Englendinga, á fjölda ættingja á Bretlandseyjum þar á meðal afkomendur. Þá á ég nokkra góða vini á Bretlandseyjum, fólk á borð við Stephen Whittle mannréttindalögfræðing í Manchester sem löngum var einn helsti baráttumaður fyrir mannréttindum transfólks í Evrópu en hefur orðið að láta undan á síðustu árum vegna sjúkdóms síns.

Mér mun halda áfram að þykja vænt um alla Breta, líka þá sem Íslendingar börðust við í síðasta þorskastríði enda er ég löngu læknuð af þjóðrembu. En mér þykir miður að horfa á eftir Englandi úr evrópskri samvinnu og bíð þess með óþreyju að sjá sjálfstætt Skotland ganga í Evrópusambandið
J

föstudagur, júní 24, 2016

24. júní 2016 - Forsetakosningar 2016


Fyrstu forsetakosningarnar sem ég man eftir voru kosningarnar 1968. Þótt ég hefi verið fædd þegar Ásgeir sigraði 1952 var það lítið meira en svo. Þó hafa kosningarnar 1952 ávallt haft áhrif á allar forsetakosningar eftir það. Þá tóku stjórnmálaflokkarnir opinbera afstöðu með eða á móti frambjóðendum og bæði Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur tóku afstöðu með forsetaframbjóðandanum séra Bjarna Jónssyni, en flestir aðrir studdu Ásgeir Ásgeirsson þar á meðal Gunnarsarmur Sjálfstæðisflokksins enda var hann tengdasonur Ásgeirs.

Þegar kom að forsetakosningunum 1968 og Ásgeir hafði tilkynnt að hann léti af embætti enda kominn á áttræðisaldurinn, komu fram tvö framboð, Gunnar Thoroddsen og síðan Kristján Eldjárn. Stjórnmálaflokkarnir gættu þess í þeim kosningum að taka ekki opinbera afstöðu með einum frambjóðanda, en dagblöðin gerðu það í þeirra stað, Morgunblaðið studdi Gunnar sbr leiðara blaðsins nokkru fyrir kosningarnar og mig minnir að Þjóðviljinn hafi studd Kristján. Ekki man ég hvorn hin blöðin studdu, en stjórnmálaflokkarnir héldu að sér höndum og var það vel. Þá voru engar skoðanakannanir fyrir kosningarnar og því birtust fyrstu tölur sem vönduð skoðanakönnun og Kristján sigraði með miklum mun, hlaut um tvo þriðju atkvæða en Gunnar þriðjung. Þótt ég hafi stutt Kristján þótt enginn væri kosningarétturinn á þeim tíma varð ég málkunnug Gunnari síðar er ég var á kafi í námsmannapólitíkinni og voru það góð kynni. Gunnar var maður sem átti auðvelt með að hrífa fólk með sér og stóð fyrir skoðunum sínum, íhaldsmaður af gamla skólanum, annað en nútíma frjálshyggjupostular. Eitt var þó ámælisvert í kosningarbaráttunni 1968. Þegar sjónvarpið tók drottningarviðtal við Gunnar eins og það gerði við báða frambjóðendur og þar sem frambjóðendur gátu lagt fram spurningar sem þeir vildu að þeir yrðu spurðir um, fékk Gunnar spurninguna um áfengisneyslu sína og hann svaraði þungri röddu eitthvað á þessa leið:
„Ég vil taka fram að hvorki ég né Kristján erum bindindismenn“.
Með orðum sínum lagði hann fram einustu leiðindin í þeirri kosningabaráttu. Í stað þess að tala um sig og sín hugðarefni var hann farinn að tala um andstæðinginn og slíkt var ekki til velfarnaðar. Þetta voru samt hógvær orð, en misstu marks.

1980 var það Vigdís Finnbogadóttir sem varð fyrir barðinu á andstæðingunum, einhleyp, einstæð móðir en samt svo töfrandi og fékk að finna fyrir því. Þegar hún ákvað að bjóða sig fram ákvað ég þegar í stað að styðja hana eins og reyndar stór hluti sjómannastéttarinnar. Með hispursleysi sínu varð hún eiginkona okkar allra og móðir allra barna íslenskrar sjómannastéttar. Hún varð sem holdgervingur allra sjómannskvenna sem þurftu að sjá fyrir börnum og heimili á meðan eiginmaðurinn var fjarverandi við störf sín og hún sigraði með naumindum. Það sem ég varð kannski mest hissa á var gamli maðurinn faðir minn sem þá var jafngamall og ég er núna og átti sama afmælisdag og Guðni forsetaframbjóðandi. Alltaf fannst mér faðir minn vera maður gamalla viðhorfa í pólitík, en þarna sýndi hann á sér nýtt andlit sem ákafur stuðningsmaður Vigdísar Finnbogadóttur. Það var að sjálfsögðu hið besta mál að taka undir orð hans.

Ég fylgdist lítið með kosningunum 1996. Bjó erlendis framanaf en flutti heim í miðri kosningabaráttu og ákvað þegar í stað að greiða Guðrúnu Pétursdóttur atkvæði mitt. Hún brást mér og því fór atkvæði mitt á það sem ég áleit vera næstbesta kostinn sem var Guðrún Agnarsdóttir „hvals“ Guðmundssonar skipstjóra. Eftir á að hyggja held ég að það hafi verið góð skipti enda hefur álit mitt á Guðrúnu Agnarsdóttur vaxið mikið í gegnum tíðina. Ég minnist ég þess er Agnar faðir hennar fór eitt sinn sem farþegi með okkur á Álafossi eina ferð og hann átti ekki orð yfir hneykslan sína yfir hegðun dóttur sinnar að fara á Alþingi í stað þess að rækta læknaeiðinn sem hún væri menntuð til að sinna. Ekki þóttu mér orð hans göfugmannleg þegar haft er í huga að Guðrún Agnarsdóttir var á þeim tíma meðal brautryðjenda í íslenskri kvennabaráttu með veru sinni í Kvennalistanum og á Alþingi.

Á árunum frá aldamótum til 2006 tók ég virkan þátt í kosningum með setu í kjörstjórn í Breiðholtshverfum. Forsetakosningarnar 2004 voru ógeðslegar. Misklíðin og hatrið á milli fólks hneykslaði mig og marga. Sem fulltrúi hverfiskjörstjórnar þurfti ég að hafa kjörkassann lokaðan og einungis opna hann er menn komu úr kjörklefanum svo þeir hentu ekki seðlinum ómerktum beint í kassann eftir að hafa fengið hann afhentan og hatrið beindist einvörðunu að nú fráfarandi forseta. Hinir frambjóðendurnir voru sem núll og nix og áttu aldrei möguleika.

2012 snerist þetta við. Þeir sem verst létu 2004 hömpuðu skyndilega sama manni sem sínum manni, en svívirðingarnar á báða bóga héldu áfram og voru einkum einum frambjóðenda til skammar ef borið er saman við forsetakosningarnar 1968. Sá hafði samt sigur. Sjálf hafði ég ákveðið að kjósa einn kvenkyns frambjóðanda en er kom að kjördegi skipti ég um skoðun og kaus annan kvenkyns frambjóðanda í þeirri veiku von að geta fellt þann eina sem var með pólitísk leiðindi en hafði ekki erindi sem erfiði.

Nú er komið að forsetakosningum 2016. Upphaflega hafði ég veðjað á Salvör Nordal eða Rögnu Árnadóttur sem minn frambjóðanda, en hvorug vildi bjóða sig fram sem ég skil mjög vel þegar svívirðingarnar á frambjóðendur eru hafðar í huga. Þegar allt var uppí loft eftir sjónvarpsþáttinn um Panamaskjölin, blasti við á skjánum maður sem virtist þekkja leikreglurnar út í ystu æsar án þess að hafa nokkru sinni tekið þátt í þeim. Ég hafði vissulega hitt Guðna einu sinni á kynningu um bók hans um hrunið og líkað vel og eignaðist bókina og var honum hjartanlega sammála um að bókin hefði fremur átt að heita „Helvítis fokkings fokk“
Frá þeim degi hefi ég verið einlæg stuðningsmanneskja Guðna Thorlacius Jóhannessonar samanber pistil minn á Facebook frá því mánuði áður en hann bauð sig fram, en þetta setti ég fram á Facebook mánuði áður en Guðni bauð sig fram:
Er ekki verið að leita að heppilegum forsetaframbjóðanda? Hvað um Guðna Th. Jóhannesson? Hann er fræðimaður með mikla pólitíska þekkingu!!!!
Þið heyrðuð það fyrst hér.

Guðni bauð sig fram á afmælisdegi konu sinnar þann 5. maí og ég var þar og fagnaði. En mikið skelfing hefur mér liðið illa að heyra allskyns ávirðingar á Guðna, jafnvel verri en aðdáendur Ólafs Ragnars höfðu á hendur Þóru Arnórsdóttur árið 2012. Allt í einu var skrýmsladeildin sameinuð um að rakka Guðna niður og sverta hann á alla kanta, hann var ýmist kommi eða Samfylkingarmaður, EU-sinni og stundum argasta íhald og guð má vita hvað. Þessi kosningabarátta er búin að vera ógeðsleg! Það grátlegasta er að Guðni á engan þátt í viðbjóðnum, hefur ávallt gætt þess að halda andlitinu og þá er honum borið á brýn að vera litlaus. Þótt ég þekki ekki Davíð Oddsson persónulega veit ég að þar fer maður sem er vandur að virðingu sinni þótt hann hafi misst ýmislegt úr sér sem ekki er honum sæmandi sem frambjóðanda til embættis forseta Íslands, en stuðningsmannaliðið, hin svonefnda skrýmsladeild hefur tekist að rífa af honum fylgið með virkilega niðurdrepandi áróðri gegn Guðna og öðrum frambjóðendum, en fyrst og fremst Guðna. Megi þeir hafa skömm fyrir að hafa fælt kjósendurna frá Davíð og að einhverju leyti frá Guðna og til annarra frambjóðenda.

Nú er komið að kosningum. Ég mun að sjálfsögðu styðja Guðna Th. Jóhannesson, mann sem hefur þekkinguna, mann sem hefur hæfileikana, er vel kvæntur, er umburðarlyndur og fordómalaus og er Íslendingur á jákvæðan hátt. Í upphafi kosningabaráttu sinnar lagði hann áherslu á að koma fram að heiðarleika og jákvæðni og ég vona að ég hafi staðið við orð hans og ekki talað mjög illa um aðra frambjóðendur þótt mér hafi stundum runnið í skap við orð þeirra.

Ég kynntist afa Guðna árið 1970. Hann var þá skipherra á Árvakri, ég var smyrjari á Þór. Kallinn var svo jákvæður og flottur að ég minntist hans ávallt síðan sem skipherrans sem kom eins fram gagnvart smyrjurum og messaguttum og öðrum skipherrum. Þess má og geta að Guðmundur skipherra Kjærnested og Jóhannes faðir Guðna voru systrasynir.

Á sunnudag vona ég að Guðni Thorlacius Jóhannesson verði nýr forseti Íslands á afmælisdegi sínum og afmælisdegi föður míns heitins. Ég ætla að vera með og vonandi fagna með nýjum forseta. Hann hefur sýnt það og sannað að hann er réttur maður í embættið.

Loks mælist ég til þess að GuðniThorlacius Jóhannesson sjái til þess að Þórður Guðlaugsson yfirvélstjóri fái afreksverðlaun íslenska lýðveldisins.

fimmtudagur, júní 23, 2016

23. júní 2016 - Hvað gerðist?


Einu sinni var íslenska landsliðið í fótbolta meðal þeirra lélegri í heiminum. Ef það tók þátt í alþjóðlegri keppni endaði það venjulega neðst og var sent heim og allir voru sáttir. Íslendingar gátu haldið áfram að benda á að vegna fámennis þjóðarinnar væri nánast ómögulegt að koma upp almennilegu landsliði þar sem einn eða tveir landsliðsmenn spiluðu með erlendum liðum og allir hinir væru bara áhugamenn í fótbolta sem spiluðu fótbolta á kvöldin eftir að hafa lagt frá sér hamarinn eða pennann að afloknum vinnudegi.

Hugsunarháttur fórnarlambsins hélt áfram þótt eilíflega væri verið að skipta um þjálfara og allir landsliðsmennirnir væru orðnir atvinnumenn. Um leið og kom að einhverri undankeppni héldu þeir áfram að tapa og ávallt var afsökunin sú að íslensk þjóð væri svo fámenn. Samt voru jafnmargir menn á vellinum í íslenska landsliðinu eins og öllum hinum landsliðunum.

Í handbolta þar sem vissulega gilti sama regla um fjölda leikmanna inni á vellinum sem og í öðrum íþróttum voru Íslendingar orðnir nokkuð framarlega, stundum með þeim bestu þrátt fyrir fámenni þjóðarinnar svo ekki stóðst sú regla alveg. Þá hafði kvennalandsliðið staðið sig  með ágætum þrátt fyrir fámenni þjóðarinnar. Ávallt var svarið hið sama, við værum þrátt fyrir allt langbest í heiminum miðað við fólksfjölda! Ekki stóðst það alveg þegar árangur er skoðaður í frjálsum íþróttum sem og í vetraríþróttum, en Íslendingar voru lakastir Norðurlandaþjóða þrátt fyrir fólksfjöldaviðmiðun lengi vel, en kannski breyttist það aðeins þegar hópur Íslendinga fékk silfur í handbolta á ólympíuleikunum í Peking árið 2008 og Ísland varð stórasta land í heimi.

Svo réði Knattspyrnusamband Íslands sænskan þjálfara fyrir landsliðið og þá gerðist eitthvað. Ísland fór að vinna landsleiki. Með Lars Lagerbäck kom einhver nýr andi í landsliðið og það fór að vinna sum sterkustu landslið Evrópu! Eitthvað gerðist. Þetta voru sömu landsliðsmennirnir og fyrrum, en allt í einu fara þeir að spila á allt annan hátt og vinna leiki. Nú fer ég að hugsa til gríska landsliðsins sem urðu Evrópumeistarar með hundleiðinlegri varnartaktík árið 2004.

Ég ætla ekki að tjá mig um þá taktík sem er viðhöfð í fótboltaleikjum enda hefi ég ekkert vit á fótbolta, en það breytir ekki því að Lars Lagerbäck er búinn að lyfta Grettistaki með íslenska landsliðið í fótbolta og er það vel og ekki er verra að vita að útum allan heim er fólk að fagna pínulitla liðinu sem vann stóru sigrana og sló út þeim stóru og komst áfram í 16 liða úrslit gegn öllum spádómum þeirra sem vit hafa á fótbolta. Það fer enginn að segja mér að það eitt að pakka saman í vörn og reyna að beita skyndisóknum sé einasta herbragð íslenska landsliðsins til að komast áfram. Það hlýtur að vera eitthvað miklu meira.

Sonur nágrannakonu minnar er atvinnumaður í fótbolta og var lengi í íslenska landsliðinu. Eftir að Lars Lagerbäck tók við landsliðinu þurfti hann allt í einu að kveðja fjölskylduna fleiri dögum fyrir landsleiki og halda í vinnubúðir fyrir landsliðsmenn í fótbolta. Ekki veit ég hvað gekk á, en ljóst er að Lars Lagerbäck tókst að sýna íslenskum landsliðsmönnum í fótbolta fram á að þeir væru jafnmargir á vellinum og andstæðingarnir og gætu jafnmikið.

Ég ætla að vona að Heimir Hallgrímsson sem væntanlega mun taka við landsliðinu af Lars Lagerbäck hafi lært það mikið af honum að hann geti haldið áfram að leiða landsliðið áfram á sama hátt og Lars hefur gert. Það verða nefnilega áfram jafnmargir leikmenn í íslenska landsliðinu í hverjum leik og andstæðingarnir.

Ég þarf ekkert að vita hvað gerðist, en ef leikmennirnir vita hvað breyttist, hvað gerðist hjá íslenska landsliðinu í fótbolta þá er ég ánægð. Ég er ánægð og fagna hverjum sigri Íslands í fótbolta og það nægir mér.

Um leið óska ég íslenskri þjóð sem og landsliðinu þess að láta ekki þjóðrembuna taka völdin yfir tilfinningunum. Verum íslensk þjóð með stolti og hógværð og án þjóðrembu og okkur mun vel farnast.

miðvikudagur, júní 22, 2016

22. júní 2016 - Hálf öldMyndin er fengið að láni frá Tryggva Sigurðssyni. Myndin er tekin nokkru eftir mína tíð um borð.

Í dag, 22. júní 2016, er liðin hálf öld frá því ég byrjaði til sjós sem hálfdrættingur á gömlum nýsköpunartogara. Vissulega hefi ég ekki verið til sjós nema rúmlega helming þess tíma síðan ég byrjaði, en engu að síður eru þetta ákveðin tímamót.
Að minnsta kosti fékk ég bréf frá lífeyrissjóðnum þegar ég varð sextug þess efnis hve mikil skerðingin væri ef ég færi á eftirlaun við sextugt. Það voru nefnilega samþykkt lög frá Alþingi á sínum tíma sem gáfu sjómönnum sem haft höfðu sjómennsku að ævistarfi réttindi til að fara á eftirlaun við sextugt. Til að uppfylla þetta skilyrði þurftu viðkomandi að hafa verið til sjós aðalstarfi í minnst 25 almanaksár og ég var vel yfir þessum viðmiðum. Alþingi gleymdi bara að láta fjármagn fylgja þessum bættu lífeyrisréttindum og því eru þau lítils virði.

Jón Þorláksson RE-204 var gamall nýsköpunartogari, smíðaður 1949 og annar díeseltogari Íslendinga. Aðbúnaðurinn þótti fremur bágborinn um borð þótt hann hafi þótt ágætur er skipið kom nýtt árið 1949 enda mikil framför frá gömlu togurunum sem komu á árunum á milli heimsstyrjalda. Þarna þurfti fólk að hírast á frívöktum í sex manna klefa frammi í lúkar þar sem kojur voru fyrir á þriðja tug háseta í fjórum klefum og hver maður hafði sinn skáp til geymslu á persónulegum munum. (Til samanburðar má geta þess að síðar var ég sem vélstjóri á farskipum með eigið rými sem var allt að 35 fermetrum með setustofu, skrifstofu, svefnherbergi og baðhergi.) Það voru tvö vatnssalerni frammí og tvær sturtur auk lítillar setustofu þar sem hægt var að hafast við þegar lítið var um að vera á toginu. Samt var reynt að gera þetta eins vistlegt og mögulegt var og snyrtipinnarnir í brúnni voru duglegir að reka á eftir okkur að þrífa alla klefana og setustofuna vel og vandlega á heimstíminu.

Aftur í káetu voru svo minni klefar fyrir einn til tvo menn hver og aðeins betri aðbúnaður þar, en einnig voru þar borðsalur og eldhús. Miðskips voru svo herbergi skipstjóra undir brúnni og loftskeytamanns í loftskeytaklefanum aftan við brúna.

Fyrsta ferðin til sjós gekk með ágætum. Það var blíðskaparveður allan túrinn og við náðum fullfermi en mikið skelfing var erfitt að venjast vöktunum fyrir fjórtán ára gamalt barnið og fyrir bragðið virkaði hver sólarhringur sem tveir. Annað sem var til ama var stöðugt áreiti um að trekkja upp togklukkuna eða gefa kjölsvíninu, en ég hafði verið rækilega vöruð við slíku í upphafi ferðar og því þurftu menn að beita öðrum brögðum til að hrekkja hálfdrættinginn og menn hófu að benda á að póstbáturinn kæmi alltaf á sunnudögum með blöðin auk þess sem hægt væri að kaupa þar ýmislegt. Ég hafði aldrei heyrt um neinn póstbát á miðunum áður og tók ekkert mark á stríðnispúkunum, enda kom enginn póstbátur fyrri sunnudaginn sem við vorum í túrnum. Er ég kom aftur í á kvöldvaktina seinni sunnudaginn og kvöldið áður en við fórum í land voru allir á kafi að lesa nýjustu dagblöðin auk þess sem maður sem ég hafði aldrei séð áður sat í borðsalnum og lét lítið fara fyrir sér.
Ha, er það þá satt með póstbátinn?  
Auðvitað ekki, maðurinn hafði veikst á öðrum togara sem var nýkominn á miðin og þurfti að komast í land og undir læknishendur og hafði tekið blaðabunka með sér um leið og hann kom yfir til okkar.
Ég sjálf við stýrið á Jóni Þorlákssyni RE-204

Í þriðja túr um borð þótti ég heldur betur karl í krapinu er ég fékk fullan hásetahlut og var aldrei aftur hálfdrættingur. (Það má svo deila um hvort það var vegna eigin verðleika eða skyldleika við skipstjórann móðurbróður minn sem ég komst svo snemma á heilan hlut.) Það breytir ekki því að Pétur Þorbjörnsson skipstjóri reyndist mér ávallt mjög vel sem og Eyjólfur sonur hans sem var 2. stýrimaður um borð og síðar var ég í nokkur ár vélstjóri hjá Eyjólfi sem skipstjóra á Vestmannaey VE-54.

En sumarvinnan varð að nærri þremur áratugum til sjós og má nú deila um það hversu vel hálfrar aldar vinna þar af erfiðisvinna í mörg ár skilar miklu í lífeyristekjur.

Jón Þorláksson RE-204 var í eigu Bæjarútgerðar Reykjavíkur þar til í ársbyrjun 1974 er skipið var selt, fékk nafnið Bylgja RE-145 og sent út á loðnuveiðar með flottroll. Skipið sökk 14. febrúar 1974 og Salómon Loftsson vélstjóri fórst með því en hinir ellefu björguðust um borð í Þórunni Sveinsdóttur VE-401.

Hver vill ráða fjórtán ára gamalt barn til sjós í dag?

Ég var heppnari en sumir sem byrjuðu til sjós á eftir mér. Gott dæmi um slíkt er frásögn Þorsteins Gíslasonar loftskeytamanns:
Einn örfárra sk­ipverja á Þork­eli m­ána sem­ treystu sér til að halda áfram­ til sjós eftir Nýfundnalandsveðrið m­ik­la 1959 var Jóhann Ásgrím­ur Guðjónsson háseti (1923-1990) sem­ hélt áfram­ störfum­ á sjó í m­örg ár eftir þetta. Er hann lést árið 1990 ritaði Þorsteinn Gíslason loftsk­eytam­aður m­inningar- grein um­ Ásgrím­ þar sem­ hann k­om­st svo að orði um­ fyrstu sjóm­ennsk­u-reynslu sína sem­ háseti á Þork­eli m­ána:

Það hefur ek­k­i alltaf verið auðvelt líf fyrir unga m­enn að byrja sín fyrstu störf á sjó og þannig var það lík­a m­eð mig. Þegar búið var að senda m­ig niður til að gefa kjölsvínunum­ og sæk­ja lyk­ilinn að togk­luk­k­unni, var ég ófáanlegur til að gera nok­k­urn hlut. Þá k­om­ til m­ín einn af dek­k­inu og sagði: “Þú sk­alt ek­k­i vera að trúa þessum­ lygurum­. Trúðu m­ér.” Síðan var farið í k­affi og þegar inn í borðsal var k­om­ið k­úrði ég m­ig upp að m­ínu tryggðatrölli, Jóhanni Ásgrím­i Guðjónssyni. Þegar k­affitím­anum­ lauk­ var farið aftur út á dek­k­ og þá sagði Ási við m­ig: “Kom­du hérna, góði m­inn,” og teym­di m­ig fram­undir hvalbak­ og þar lét hann m­ig blóðga stórufsa, láta blóðið renna í fötu og tak­a frá lifrina, þar sem­ k­ok­k­urinn, Tóti Mey, ætlaði að búa til blóðm­ör og lifrarpylsu!
  


Ég að fíflast úti á dekki