laugardagur, júní 18, 2016

18. júní 2016 - Skólaskipið Sæbjörg



Það er nánast komin hálf öld frá því ég byrjaði til sjós. Fljótlega eftir að ég byrjaði í því sem kalla mátti ævistarf mitt reiknaði ég út hversu miklar líkur væru á því að lifa af hálfa öld til sjós. Niðurstöðurnar voru skelfilegar.

Þegar ég byrjaði til sjós sumarið 1966 voru sjóslys algeng og banaslys á sjó voru reiknuð í tugum á hverju ári, náðu hundraðinu sum ár. Niðurstaða reikningslistar minnar var einfaldlega sú að miðað við hálfa öld á sjó voru líkurnar fyrir því að slasast á sjó, eitt slys fyrir hver tíu ár til sjós en að farast á sjó einungis 50%, þ.e. ég átti einungis 50% líkur á að lifa af hálfa öld á sjó en mátti reikna með því að vera fimm sinnum flutt í land vegna slyss á þessari sömu hálfu öld.

Ég var heppin. Ég fórst aldrei á sjó, aldrei lenti ég í strandi né í svo alvarlegu sjóslysi að skip færist undan mér. Ég náði heldur aldrei hálfri öld á sjó, slasaðist og fór í land þegar rúmir tveir áratugir voru liðnir þótt vissulega hafi ég náð nærri þremur áratugum til sjós í heildina. Engu að síður taldist sjómennska vera ævistarfið og miðað við 30 ára sjómennsku breytast líkurnar úr helmingi í þriðjungslíkur á því að farast á sjó.

Eins og fram kemur hefi ég aldrei lent í alvarlegu sjóslysi þótt vissulega hafi munað litlu nokkrum sinnum þá sérstaklega eitt sinn árið 1969 þar sem skipsfélagar mínir báðu til almættisins er við héldum að okkar síðasta stund væri upprunnin, en við komumst að landi við illan leik. Ég hefi ekki alltaf verið svona heppin. Slasaðist einu sinni og send á spítala í erlendri höfn og síðan send heim með flugi.

Þótt ég lenti ekki í neinu alvarlegu varð það ekki hlutskipti sumra félaga minna sem kvöddu þetta líf þar sem þeir börðust fyrir lífi sínu þar sem skipið fórst fjarri ströndum. Einhvern tímann taldist mér til að nærri hundrað félagar mínir hefðu farist á sjó á árunum frá 1966 til 1990.

En eitthvað breyttist. Jú, það breyttist verulega en ekki fyrstu árin mín til sjós en eftir tvo áratugi breyttist allt. Rannsóknarnefnd sjóslysa var vissulega stofnuð snemma á áttunda áratugnum, en það var ekki fyrr en Slysavarnaskóli sjómanna var stofnaður um miðjan níunda áratuginn sem eitthvað raunverulegt gerðist og það komu þyrlur sem gátu sótt slasaða sjómenn á haf út og jafnvel bjargað þeim úr hafsnauð og það komu flotgallar um borð í skip. Allt atriði sem skiptu verulegu máli í lífi sjómannsins og tölur um slys hrundu niður. Það sem skipti kannski mestu máli var að með Slysavarnaskóla sjómanna kom breytt hugarfar í öryggismálum sjómanna og menn fóru að hugsa öðruvísi um öryggi sitt og annarra um borð.  

Í dag vinnur enginn maður á þilfari án þess að vera með hjálm, víðast hvar er reglulega fylgst með öryggisbúnaði og menn æfa sig í að nota öryggisbúnaðinn, hreyfa og prófa lífbáta, setja á sig reykköfunartækin og reyna að setja met í að klæðast flotgallanum á sem skemmstum tíma.

Í dag má segja að líkurnar fyrir því að farast á sjó fyrir mann sem hefur gert sjómennskuna að ævistarfi sínu séu hverfandi og líkurnar fyrir því að slasast á sjó hafa sömuleiðis minnkað svo mjög að sjómennskan er lítið hættulegri en t.d. vinna í byggingariðnaði. Hjá Mærsk, einu stærsta sjóflutningafyrirtæki heims eru líkurnar fyrir því að slasast eða farast á sjó orðnar minni en störf í byggingariðnaði.

Af hverju skyldi ég vera að vekja máls á þessu? Jú, Slysavarnaskóli sjómanna hefur ekki efni á að koma Sæbjörgu, skipi Slysavarnaskólans í haffært ástand. Haffærisskírteinið er útrunnið og það þarf að kosta til verulegar viðgerðir á skipinu til þess að það öðlist haffærisskírteini á ný.  Sem fyrrverandi sjómaður og sem vélstjóri á björgunarskipi í sjálfboðavinnu hefi ég tekið virkan þátt í æfingum Slysavarnaskóla sjómanna undanfarin ár og þannig séð hve æfingarnar mælast vel fyrir meðal sjómanna sem öðlast þannig reynslu í sjóbjörgun með þessum tiltölulega erfiðu æfingum.

Ef ekki verður hægt að nota Sæbjörgu áfram sem skólaskip í slysavörnum verður hætta á að verkefni Slysavarnaskólans flytjist í land og þá verði ekki eins auðvelt að leika eftir raunverulegar aðstæður sem geta komið upp á um borð í skipi á hafi úti sem og að fara á milli hafna og halda námskeið fyrir starfandi sjómenn. Því verður að gera þá kröfu til ríkisvaldsins og útgerðarfyrirtækjanna að lagt verði fram fjármagn svo að hægt verði að koma Sæbjörgu aftur í haffært ástand og gera það sem allra fyrst.


0 ummæli:







Skrifa ummæli