laugardagur, janúar 30, 2010

30. janúar 2010 - Lettneskir vinir

Mig minnir að það hafi verið árið 1991 sem Jón Baldvin Hannibalsson utanríkisráðherra tók þá ákvörðun fyrir Íslands hönd að tilkynna Eystrasaltsþjóðunum að viðurkennig Danmerkur á sjálfstæði þjóðanna frá 1919 hefði aldrei verið felld úr gildi af Íslands hálfu við innlimun landanna í Sovétríkin árið 1944. Með þessu gilti sú staðreynd að Ísland varð fyrst allra til að viðurkenna sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna við hrun Sovétríkjanna.

Þessu var fagnað víða um Eystrasaltslöndin, einnig meðal meðlima í Lettneska ungdomsförbundet í Sverige sem hafði samband við Isländska föreningen í Stockholm og vildi koma á sameiginlegri fagnaðarhátíð í tilefni af sjálfstæði Lettlands. Stórnir félaganna þar sem ég var í stjórn Íslendingafélagsins í Stokkhólmi sátu nokkra fundi áður en kom að hátíðinni sem tókst vonum framar. Sjálf kynntist ég þarna nágranna mínum í Jakobsberg sem var í stjórn Lettneska ungdomsförbundet, snaggaralegri stelpu sem lét ekkert vaða ofan í sig.

Síðar rekur stelpuna aftur á fjörur mínar. Hún vill ekkert vera stelpa, heldur strákur og ég vil ekkert vera strákur heldur stelpa og við erum saman í litlu félagi sem kallast Föreningen Benjamin, óbreyttir meðlimir sem vegna óánægju með störf félagsins förum að kvarta og það endar með því að á næsta aðalfundi verð ég formaður félagsins og félaginn sem ekki vill vera stelpa, verður gjaldkeri.

Næstu árin berjumst við saman fyrir réttlætinu og fyrir okkur sjálf, vorum nágrannar að auki og skemmtum okkur oft saman. Förum saman á fundi í Svíþjóð og til Lettlands og ég lendi í að gerast sáttasemjari á milli D. og móður hans sem á erfitt með að sætta sig við að dóttirin vilji frekar vera strákur og kemst að því að móðirin býr yfir gamalli lífsreynslu.

Hún var þriggja eða fjögurra ára gömul þegar Rússar losuðu Letta frá ægivaldi Þýskalands og nasismans með enn verri kúgun. Faðir hennar var ungur lögreglumaður og var fljótlega handsamaður og myrtur af sovéskum innrásaröflum og unga ekkjan óttaðist að verða send til Síberíu eða eitthvað enn verra. Hún ákvað að flýja og ásamt fleirum var haldið út á Eystrasalt í opnum árabát.

Þótt ekki sé löng leið að fara yfir Eystrasaltið á ferjum nútímans, skipti þessi ferð með árarnar einar að drifkraft dögum og enn var flóttafólkið fjarri ströndum er sænskt skip kom að þeim og flutti til Svíþjóðar.

Litla stúlkan ólst upp í Stokkhólmi. Síðar kynntist hún eiginmanni sínum sem hafði komið til Svíþjóðar í gegnum Kanada eftir að hafa flúið skip sitt og settust þau að í Jakobsberg norðan við Stokkhólm þar sem þau eignuðust einasta barn sitt, en skildu þegar einkabarnið var á unglingsaldri.
Ég minnist margra símtala sem móðir D. átti við mig. Þrátt fyrir allt elskaði hún barn sitt og vildi því allt hið besta, en átti erfitt með hlutskipti sitt og barns síns sem nú var orðinn fullorðinn transgender karlmaður og ég átti í talsverðum erfiðleikum við að sætta ólík sjónarmið. Faðirinn var öllu jákvæðari og vildi allt fyrir barn sitt gera og ég naut þess í lokin á veru minni í Svíþjóð.

Árið var 1995 og ég fór í aðgerð í apríl. D. fór í aðgerð skömmu á undan mér, en í lagfæringaraðgerð sama dag og ég og við vöknum upp nokkurn veginn samtímis á vöknunardeildinni á Karolinska sjúkrahúsinu í Stokkhólmi/Solna. Ári síðar flyt ég heim og nokkru síðar lést faðir D. þá orðinn starfsmaður Lettneska sendiráðsins í Stokkhólmi.

D. kom nokkrum sinnum til Íslands, en smám saman urðu sætti á milli hans og móðurinar og hitti ég þau síðast í nóvember er ég kom til Svíþjóðar og mitt fyrsta verk að fara til fundar við minn gamla vin.

Móðir D. fékk heilablóðfall snemma í janúar og kom D. að henni á heimili sínu tveimur dögum síðar er hann kom til Stokkhólms frá Bretlandseyjum og kom henni á sjúkrahús. Það dugði þó ekki til og lést hún um síðustu helgi eftir erfiða ævi. Á Íslandi minnist ég hennar helst sem erfiðrar mömmu, en jafnframt sem konu sem vildi allt gera fyrir barn sitt um leið og hún hafði sjálf upplifað bernsku sem hlýtur að vera erfiðari bernsku annarra

laugardagur, janúar 02, 2010

2. janúar 2009 - Ekki er sopið kálið þótt í ausuna sé komið

Það þýðir lítið að horfa einungis á fortíðina á áramótum. Þá er meira mál að horfa fram á veginn á þau tækifæri sem gefast.

Ég er bjartsýn. Ég trúi því að nýja árið verði betra en hið liðna, að fjárhagur minn verði enn betri en undanfarin ár þrátt fyrir skattahækkanir og kreppu, að heilsan verði ágæt að venju og að lífið brosi við mér á nýju ári, vonandi án argaþras og Icesavekjaftæðis Framsóknarflokksins.

Ég á frí í maí og júní. Mig langar til að hressa upp á gamla reynslu af sjónum og skreppa einn eða tvo túra á sjó, en um leið langar mig til að heimsækja Stokkhólm, Berlín og Austurríki á árinu, ganga á fjöll og njóta lífsins í hópi vina og ættingja. Þá mun ég fara til Malmö í september á þriðja þing Transgender Europe og ég er ákveðin í að ferðast meira um Ísland í sumar en oft áður, ganga meira og njóta þess besta sem Ísland hefur upp á að bjóða.

Ég mun geta tekið þátt í Gay Pride þetta árið og jafnvel Gay Pride í Stokkhólmi helgina á undan ef áætlanir mínar ganga eftir, en ég á mér lítinn draum sem mig langar til að láta rætast á nýju ári, ef ekki á þessu nýja ári, þá á hinu næsta. En hver veit hvenær eða hvort draumarnir rætast?

Það er spurningin!

föstudagur, janúar 01, 2010

1. janúar 2010 - Nú árið er liðið í aldanna skaut

Síðasta ár var ákaflega þægilegt fyrir mig í flestu tilliti. Kreppan sem spáð hafði verið lét lítið á á sér kræla og góður tími til að undirbúa sig undir hið versta.

Heilsan var góð allt árið. Í ársbyrjun fór ég í veigamikla hjartarannsókn sem skilaði engu slæmu, en staðfesti gott heilsufar að öðru leyti en lélegu þoli. Ég held þó að þolið hafi verið mun betra í lok ársins en í upphafi þess vegna reglulegra gönguferða, ýmist ein eða með öðru fólki. Ég fór þó ekki nema einu sinni á Esjuna og einu sinni Selvogsgötuna og einhverja fleiri hóla, en fór á engar nýjar slóðir í gönguferðum mínum.

Vinnan var ákaflega hefðbundin og róleg, fáar eða engar aukavaktir á árinu og veit ég ekki hvernig hefði farið ef ég hefði ekki álpast á sjóinn í sumarfríinu, fyrst eina ferð á Goðafoss og síðan nokkra daga á Herjólf.

Aðeins var farin ein ferð til útlanda að frátalinni ferðinni með Goðafossi, en ég hélt til Svíþjóðar í tvær vikur í nóvember. Meðan á ferðinni stóð ók ég í um 2300 km í bílaleigubíl sem þykir ágætis árangur, en svona fer ef á að gleypa allt landið í einum munnbita og hitta sem flesta á sem stystum tíma. Reyndar fann ég mér ókeypis bílastæði og notaðist við tunnelbanan í Stokkhólmi

Ein móðursystir og ein mágkona dóu á árinu og eitt barnabarn fæddist. Þá seldi ég minn gamla trygga vinstrigræna Subaru og fékk mér jeppa í staðinn, enda hefi ég alltaf verið þekkt fyrir að fara á móti straumnum og í kreppu eyði ég meiru en annars, enda hefur kreppan lítil áhrif á fólk sem þarf að draga fram lífið á lélegum launum í góðæri, en heldur laununum að miklu leyti þegar samfélagið þarf að draga saman seglin.