laugardagur, maí 31, 2008

1. júní 2008 - Póstbáturinn


Ég skrifaði þessa frásögn á miðvikudaginn að beiðni 24 stunda í tilefni Sjómannadagsins. Blaðamaðurinn óskaði þess að fá að stytta greinina sem ég samþykkti fúslega. Á laugardagsmorguninn birtist svo frásögnin og hafði hún þá verið skorin niður við trog svo að neistinn í frásögninni var horfinn. Því tók ég mér það bessaleyfi að endurbirta frásögnina óstytta á blogginu mínu.

Ég var í mínum fyrsta túr til sjós á Jóni Þorlákssyni, gömlum nýsköpunartogara frá Reykjavík. Ég var fjórtán ára að aldri og enn blaut á bakvið eyrun. Jón Már, strákur ofan af Akranesi, nokkrum árum eldri en ég hafði tekið mig í kennslustund og varað mig við ýmsum þeim klækjum sem ég yrði örugglega beitt sökum reynsluleysis og aldurs. Fékk ég hjá honum ágæta fræðslu um hvernig ætti að trekkja upp togklukkur, sækja vakúm í fötu og gefa kjölsvínum og fleiri þau atriði sem nýliðar fengu gjarnan í sínum fyrsta túr.

Ekki fór ég varhluta af tilraunum skipsfélaga minna til að senda mig í allskyns erindi en sökum varnaðarorða Jóns Más tókst mér að víkja mér undan hrekkjunum.

“Póstbáturinn kemur í dag,” sagði mér einhver í heyranda hljóði.
“Já, já,” svaraði ég, “ég skal láta sem ég trúi þér.”
“Þetta er alveg satt. Póstbáturinn kemur alltaf á sunnudögum með nýjustu blöðin og selur okkur gos og sælgæti”

Svo leið sunnudagurinn og enginn kom póstbáturinn. Eitthvað hafa vaktfélagarnir fundið veikan blett á mér því þeir héldu áfram að klifa á póstbátnum vikuna á eftir, hann hefði ekki komist út vegna brælu og við fengjum bara tvöfaldan skammt af blöðum og nammi næsta sunnudag.

Svo kom annar sunnudagurinn á sjó. Ég fór í koju eftir morgunvaktina að venju, en þegar ég kom aftur í borðsal í kvöldmatinn áður en ég fór á næstu vakt, brá mér verulega. Menn sátu og voru að lesa nýjustu blöðin.

“Var þetta virkilega satt? Var póstbáturinn þá til eftir allt saman?” Ég fór að naga mig í handarbökin fyrir að hafa ekki trúað mínum kæru skipsfélögum sem sátu glottandi í borðsalnum með nýjustu blöðin fyrir framan sig.

Um kvöldið kom skýringin á nýjum dagblöðum. Skipverji á togaranum Surprise hafði veikst á útstíminu og verið sendur yfir til okkar sem vorum að ljúka veiðiferð svo hann kæmist fyrr undir læknishendur. Hann hafði að sjálfsögðu tekið blöðin með sér handa fréttaþyrstri áhöfninni á Jóni Þorlákssyni.

31. maí 2008 - Letingjar

Ég hefi verið að gæta tveggja fullorðinna fresskatta undanfarna daga á meðan eigendurnir skruppu til sólarlanda.

Annar þeirra er álíka duglegur og Garfield og kann best við sig sofandi með matardallinn við hliðina á sér. Þótt hann hafi verið settur út nokkra klukkutíma á dag nægir það ekki, því sökum letinnar þarf að bera hann út þegar kemur að útivistartíma, en hann er fljótur heim aftur þegar kallað er á hann.

Hinn kötturinn er enn furðulegri. Ekki er bara að hann hringar rófuna eins og íslenskur fjárhundur, heldur er hann svo mislyndur að hann snýr sér við og fer út aftur í fýlukasti þegar hann sér ekki eigendur sína. Ekki er það til að bæta úr að ég hefi gætt þess að hann valsi ekki um heimilið eins og kóngur í ríki sínu þegar ég hefi sett hann inn.

Eitt mega báðir kettirnir eiga. Þegar aðrir kettir í hverfinu ætla að ráðast á þá láta þeir sem ekkert sé og í versta falli ýta þeir hvæsandi köttum frá sér með annarri loppunni og geispa af leti.

föstudagur, maí 30, 2008

30. maí 2008 - Af jarðskjálftum

Síðasta vetur tók ég mig til og um leið og ég sneri öllu við í íbúðinni minni, festi ég allar háu bókahillurnar mínar að ofanverðunni. Ég veit ekki hvort slíkt hefði bjargað neinu fyrir austan, en slíkt hefði örugglega ekki aukið á skaðann á Selfossi í gær.

Þegar jarðskjálftinn 17. júní 2000 reið yfir var ég stödd þar sem ég bjó uppi á sjöttu hæð í blokk í Hólunum og það hristist rækilega, bækur duttu úr hillum og mér tókst með naumindum að bjarga tölvuskjánum mínum frá að fara í gólfið. Ég kveikti á sjónvarpinu og þar sáust fullorðnir karlmenn hlaupandi í ráðaleysi á grænu grasi, gjörsamlega viti sínu fjær og fólk alltum kring veinandi af skelfingu. Engar fréttir bárust í útvarpi til að byrja með og Ríkisútvarpið fékk falleinkunn, ekki bara hjá mér, heldur líka hjá fjölda fólks, nema þá helst forföllnum fótboltabullum.

Þegar jarðskjálftinn 29. maí 2008 reið yfir var ég í vinnunni þar sem ekkert alvarlegt skeði og allir unnu sína vinnu af festu og öryggi. Þegar kveikt var á sjónvarpi voru alþingismenn sýndir tala niður til þjóðarinnar. Síðan kom langt og mikið viðtal við Björn Bjarnason dómsmálaráðherra. Björn Bjarnason er ekki í hópi uppáhaldsræðumanna minna og því leið ekki á löngu uns hækkað var aftur í útvarpinu og lækkað í Birni Bjarnasyni. Ég held bara að hann hafi verið leiðinlegri en fótboltaleikurinn 17. júní 2000. Allavega man ég ekkert hvað hann sagði svo vart hefur það verið merkilegt.

Heilmiklar upplýsingar fengust fljótlega í útvarpi og í vefmiðlum auk veðurstofu svo ekki var mikið að sækja í sjónvarpið, né heldur í gegnum Boldið á Stöð 2.

fimmtudagur, maí 29, 2008

29. maí 2008 - Ég er í fýlu út í flokkinn minn!

Við borgarstjórnarkosningarnar 2006 tók ég í fyrsta sinn afstöðu gegn flokknum sem ég hafði stutt frá því Alþýðubandalagið var í reynd lagt niður. Þegar Vinstri hreyfingin, grænt framboð ákvað að yfirgefa R-listann í Reykjavík, var ég ekki með lengur og gekk á hönd Samfylkingunni og hefi verið flokksbundin þar síðan.

Samvinna mín við flokkssystkini mín hefur gengið framar vonum og þótt ég hafi ekki reynt að troða mér fram í flokksstarfi, hefi ég fundið fyrir trausti mér til handa innan Samfylkingarinnar. Um leið hefi ég reynt að beita gagnrýnni hugsun á flokksstarfið en þó í sátt við allt og alla. Fólk veit sem er, að ég er hrifin af iðnaðaruppbyggingu og auknu samstarfi við Evrópuþjóðir, helst innan Evrópusambandsins, atriði sem skildu mig og Vinstrigræna að.

En nú er ég í fýlu. Ekki er það einungis vegna framboðsins í Öryggisráðið sem ég tel hið versta mál, heldur fyrst og fremst lífeyrismál alþingismanna og ráðherra.. Ég get ekki með nokkru móti sætt mig við að lífeyrismálinu verði frestað í lengri tíma. Forystumenn Samfylkingarinnar hétu okkur því að þessi mál skyldu tekin til endurskoðunar á nýju þingi, en draga nú eyrun í málinu.

Lífeyrisfrumvarpið var keyrt í gegnum Alþingi á nokkrum dögum á sínum tíma. Það hlýtur að vera hægt að henda því jafnhratt og það komst á. Með þessu er ég ekki að halda því fram að niðurfelling þessara sérkjara alþingismanna eigi að vera afturvirk, sem er brot á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, en hver sú vika sem líður án þess að lögin verða felld úr gildi, þýða framhald spillingar stjórnmálanna.

Ég set niðurfellingu þessara ólaga ekki sem skilyrði fyrir áframhaldandi stuðningi við Samfylkinguna, en ég verð að krefjast þess að þetta mál verði annað þingmál á hausti komanda (á eftir fjárlagafrumvarpinu) og að það verði ekki svæft í nefnd!

þriðjudagur, maí 27, 2008

27. maí 2008 - Ég hitti strák á mánudagskvöldið

Orð mín má alls ekki túlka sem svo að ég hafi snúið frá villu míns vegar og farið að snúa mér að strákum, enda er orðið svo langt síðan ég stundaði ástarsambönd að slíkt heyrir nánast sögunni til. Samt hitti ég strák, engan venjulegan strák, heldur ungan pilt sem fæddist í röngum líkama og á sér þann draum æðstan að fá að vera strákur.

Mér finnst þetta vera hið versta mál. Þvílík firra. Ég get ekki ímyndað mér að nokkur vilji vera strákur, en samt, svona er lífið. Sumt fólk fæðist sem strákar og vilja vera stelpur en svo er líka fólk sem fæðist sem stelpur og vilja vera strákar. Við því er ekkert að gera.

Þótt umræddur strákur hafi vitað allt sitt líf að hann væri strákur í gervi konu, hefur hann enn ekki öðlast þá sálarró sem fylgir leiðréttingu á kyni. Um leið hreifst ég af opnu hugarfari hans og tjáningu. Þótt ég hafi haft það að reglu að hvetja engan til að halda áfram fyrr en allt er komið í óefni, gat ég ekki annað en hvatt hann til að halda áfram á sömu braut.

mánudagur, maí 26, 2008

26. maí 2008 - Hægri umferð

Það eru kannski tuttugu ár síðan ég sat í bíl hjá eldri manni á leið okkar suður í Kópavog. Þar sem maðurinn ók löturhægt á vinstri akrein á Kringlumýrarbrautinni eins og komin væri vinstri umferð á ný, spurði ég manninn af hverju hann héldi sig á vinstri akrein á þessum hraða?
„Það er til að halda niðri umferðarhraða,“ svaraði maðurinn án þess að blikna. Ég vil taka fram að þessi maður er löngu hættur að aka bíl.

Það væri sem að bera í bakkafullan lækinn að láta mig fjalla um daginn sem skipt var yfir í hægri umferð, enda var ég víðs fjarri góðu gamni úti á sjó þennan dag fyrir réttum 40 árum. Þá var ég ekki einu sinni komin með bílpróf, að vísu komin með skellinöðrupróf, en vantaði enn nokkra mánuði í að öðlast aldur til bílprófs. Um leið er ástæða til að minnast alls hins góða sem og hins slæma sem þessi breyting hafði í för með sér.

Árin fyrir breytinguna hafði umferðarslysum fjölgað illilega og það var ljóst að eitthvað þyrfti að gera. Flestir bílar hér á landi voru ætlaðir fyrir hægri umferð (fyrsti bíllinn minn var reyndar með hægri handar stýri fyrir vinstri umferð). Þar sem vitað var að margir ættu erfitt með að venjast hægri umferð var hámarkshraði lækkaður víða um tíma, umferðaráróður stóraukinn, en fólk var um leið hvatt til að brosa í umferðinni og sýna tillitssemi gagnvart því fólki sem átti erfitt með að venjast breytingunni.

Þetta gekk eftir. Þótt smáslysum fjölgaði eitthvað í kjölfar breytingarinnar, fækkaði alvarlegum umferðarslysum verulega fyrstu árin á eftir. Fólk notaði stefnuljósin, athyglin var í hámarki og fólk brosti. Í dag er sem allt sé komið í sama farið og var. Sumir vita ekki til hvers stefnuljósatakkinn er, blaðra endalaust í símann í akstri og halda að það sé komin vinstri umferð. Sumir hafa reyndar haldið sig á vinstri akrein allar götur síðan 1968 og telja það vera hið eina rétta.

Kannski þarf nýtt umferðarátak til að bæta umferðarmenninguna á Íslandi, þó ekki væri nema í minningu átaksins og breytingarinnar í hægri umferð frá 1968.

sunnudagur, maí 25, 2008

25. maí 2008 - Tinni kominn með stelpu?

Eins og allir Íslendingar vita á þessari stundu vann Ítalía Júróvisjón með því að vera ekki með, en Ísland lenti í 14. sæti, einu sæti neðar en lagið sem ég var að hæðast að í fyrradag. Samt lenti það tveimur sætum ofar en flottustu lögin sem Ísland hefur sent í keppnina og fjórum sætum ofar en það lag sem Íslendingar og Svíar höfðu spáð sigri svo þetta er kannski ekki eins slæmt og ætla má. :)

Þótt þessi slæmi árangur kæmi mér ekkert á óvart samanber færslur mínar síðustu dagana, þá gladdist ég helst yfir því að lettneska lagið lenti tveimur sætum ofar en það íslenska þrátt fyrir mjög neikvæð ummæli „virtra“ fjölmiðla í garð þess. Ég viðurkenni alveg að það var sem léleg kópía af lagi Mercedes Club og þess meiri ástæða til að velta fyrir sér hvort Ísland hefði ekki náð lengra með Barða og trumbuslögurunum heldur en þessu lagi.

Einhverju sinni las ég grein um teiknimyndapersónuna Tinna þar sem greinarhöfundur gat sér þess til að Tinni væri samkynhneigður. Ekki veit ég neitt um það né ástarævintýri þau sem honum og Kolbeini kaptein voru ætluð saman í laumi, en nú er komið babb í bátinn. Dagens nyheter í Svíþjóð hefur nefnilega uppgötvað að Tinni sé kominn með stelpu upp á arminn og kallar þar til sögunnar Friðrik Ómar og Regínu Ósk, eða svo vitnað sé beint í DN:

11. Island, Euroband, "This is my life"
Nu kan alla cyniker och/eller livsledsna personer lalla högljutt eller bara gå undan en stund. För låten bejakar livets låga stunder, det man får på köpet så att säga. Det som blir det blir. Och denna discodänga, framförd av Tintinkopia med tjej, är av må bra-slaget.
Ledord: E-Type. Regnbåge. Peptalk. Nittiotalsdisco. Livsglädje.

http://www.dn.se/DNet/jsp/polopoly.jsp?d=2198&a=772999

Ég verð að játa að það er svipur með Friðrik Ómar og Tinna.

Með þessu vona ég að ég þurfi ekki að tjá mig frekar um vondulagakeppnina aftur fyrr en á næsta ári.

föstudagur, maí 23, 2008

24. maí 2008 - Freymóðskar valkyrjur

Á tímum aukins frjálslyndis í ástarmálum í kringum 1970 heyrðust tvær hjárænar mótmælaraddir sem líktu sjáanlegum kvenmannsbrjóstum við klám af hinu versta tagi sem bæri að gera útlægt úr íslensku samfélagi hið bráðasta. Þessar tvær mótmælaraddir tilheyrðu þeim félögum Kristjáni Albertssyni rithöfundi og Freymóði Jóhannssyni sem einnig var kenndur við 12. september, listmálara og tónskáldi. Um tíma heyrðust þær raddir sem kölluðu mótmælin gegn kláminu freymóðsku. Ekki ætla ég að gerast svo djörf að geta mér þess til hvaða orð í íslensku máli átti að minna á freymóðskuna.

Í hádeginu á föstudag mættu nokkrar ungar og freymóðskar valkyrjur í Dómsmálaráðuneytið og hófu að þrífa þar innandyra. Þetta var þarft verk enda hefur ýmsu verið sópað út í horn og undir teppi þar á liðnum áratugum. Að sjálfsögðu mættu sjónvarpsmenn í ráðuneytið og filmuðu stúlkurnar við iðju sína, enda atlagan að ráðuneytinu þaulskipulögð.

Ekki var ég þó nógu ánægð með tiltektina. Það sem filmað var reyndist vera hálfgerður kattaþvottur og þá gleymdu þær að þvo ráðherranum á bak við eyrun, en vindþurrkaðir og veðurbarðir ættingjar mínir eiga á hættu allskyns sýkingar á milli eyrnanna í rokinu við Esjurætur, oft í marga ættliði.

-----oOo-----

Af gefnu tilefni vil ég taka fram að ég held með Ítalíu í Júróvisjón þetta árið.

fimmtudagur, maí 22, 2008

23. maí 2008 - Til hamingju Ísland, við erum búin að vinna Júróvisjón....

....söng Silvía Nótt um árið og var snarlega send heim úr undankeppni Júróvisjón. Nú er Ísland komið í hóp þeirra 25 ríkja sem munu keppa úrslitakvöldið eftir nokkurra ára fjarveru frá úrslitakvöldi keppninnar.

Í útvarpi allra landsmanna er lagið sem erfitt er að muna spilað í öllum fréttatímum og látið með það eins og það sé búið að vinna Júróvisjón. Mér finnst það samt ekkert hafa lagast þrátt fyrir hinn glæsilega árangur Regínu og Friðriks, (ekki Nínu og Friðriks).

Kannski verð ég bara að fara niður í geymslu og leita að þjóðrembugeninu. Það hlýtur að vera þarna einhvers staðar. Það var allavega til staðar þegar Ísland lenti í 4. sæti árið 1990.

Kannski er skýringar að leita þegar nokkrir Íslendingar söfnuðust saman á krá á Södermalm í Stokkhólmi vorið 1996 og ætluðu að fylgjast með Júróvisjón og frábæru lagi íslenskrar söngkonu sem enginn hafði heyrt. Þegar hún hafði sungið lagið sitt, misstu Íslendingarnir áhugann á keppninni og snéru sér að öldrykkju og hafa sennilega týnt þjóðrembunni í ölæðinu í kjölfarið.

22. maí 2008 - Júróvisjónkjaftæði

Ef einhver heldur því fram að hann eða hún horfi ekki á Júróvisjón, þá er það kjaftæði. Á leið minni til vinnu á fimmtudagskvöldið voru göturnar steindauðar og jafnvel byggingasvæðið, þar sem verið er að byggja nýja heilsugæslustöð langt fram eftir öllum kvöldum, var lokað og enginn að vinna. Það er kannski eðlilegt því sumir byggingarverkamannanna gætu verið frá Austur-Evrópu.

Ég verð að viðurkenna að ekkert þeirra laga sem ég hefi heyrt er af þeim gæðum að ég geti greitt þeim atkvæði mitt, þar með talið íslenska lagið. Hinsvegar mega skipuleggjendur passa sig á að láta ekki vindvélina hennar Carólu Häggqvist brenna yfir svo mikið var hún ofnotuð í fyrstu lögum kvöldsins.

Ég sakna þess að heyra ekki HoHoHo we say HeiHeiHei án þátttöku Guðrúnar Gunnarsdóttur í keppninni í kvöld.

22. maí 2008 - Suzuki Vitara

Ég vil taka fram í upphafi að ég hefi ekkert á móti Suzuki Vitara, enda þekki ég bílinn ekki neitt, en í tilefni af auglýsingum að undanförnu þar sem Sveppi hefur verið að auglýsa Suzuki Vitara, kemur upp í huga mér gamall brandari sem ég heyrði fyrir löngu og var hann notaður óspart á einn vinnufélagann sem var yfirmáta ánægður með Vitarann sinn.

Það var eitt sinn sem Vitara og asni mættust á þröngum vegi.
„Góðan dag jeppi“ segir asninn við Vitara.
„Já góðan dag asni“ svarar Vitara.

Fór þá asninn að hágráta og inn á milli gráthviðanna heyrðist hann stynja:
„Úr því ég kallaði þig jeppa hefðir þú alveg getað kallað mig hest!“

miðvikudagur, maí 21, 2008

21. maí 2008 - Öldungadeild MH

Í hillunum fyrir aftan mig er lítið kver, viðurkenning sem er árituð af Örnólfi Thorlacius fyrrum rektor Manntaskólans við Hamrahlíð ásamt dagsetningunni 21. maí 1988.

Það var 1985 sem mér fannst gamla Vélskólanámið ekki gefa mér þá lífsfyllingu sem ég sóttist eftir og því ákvað ég að setjast á skólabekk að nýju og þótt vélstjórnarnámið væri talið vera talsvert fleiri eininga virði en menntaskólanám fékk ég það einungis metið til 36 eininga í menntaskóla og þá aðallega í raungreinum. Því var ekki um annað að ræða en að byrja í öldungadeild MH með áherslu á bókleg fög.

Námið gekk þolanlega og ég lauk því á þremur árum. Ég var að vísu úti á sjó einn vetur af þessum þremur og því var verkefnum bjargað með hjálp póstsins og svo með því að hagræða fríium með tilliti til prófa. Ég bætti það svo upp síðasta veturinn enda frá vinnu stóran hluta vetrarins vegna slyss sem ég hafði orðið fyrir um sumarið. Ofan á allt var ég svo virk í félagslífi öldungadeildar jafnframt því sem ég vann í eigin málum með hjálp sálfræðings sem starfaði við skólann. Ég lauk svo náminu vorið 1988 eins og lög gera ráð fyrir með 13 einingar umfram tilskilinn fjölda til stúdentsprófs.

Við útskriftina 21. maí 1988 þurfti ég að mæta þrisvar í pontu í hátíðarsal MH, fyrst til að taka við einkunnablaðinu, síðan til að taka við bókinni góðu úr hendi Örnólfs og loks til að halda þakkarávarpið fyrir hönd nemenda.

Síðan þetta var hefi ég tvisvar haldið kynningar í MH, um áratug síðar í Norðurkjallara á lagningadögum og loks nú í vor í sálfræðitíma þar sem margir voru að útskrifast rétt eins og ég fyrir tuttugu árum.

Í dag er vélstjórnarnámið metið um 70 einungum hærra en stúdentsprófið.

mánudagur, maí 19, 2008

20. maí 2008 - Hrefnuveiðar



Það er af sem áður var þegar ríkisstjórn Íslands fékk bandaríska setuliðið á Miðnesheiði til að gera loftárásir á háhyrningsvöður á miðunum til að fækka þeim aðeins, enda olli háhyrningurinn talsverðu tjóni á veiðarfærum (reknetum á síldveiðum?)

Ef ég man rétt var Keikó metinn á 60.000 kjötbollur handa hungruðum heimi. Þegar haft er í huga að hrefnur eru miklu stærri en háhyrningar, hvað geta þá 56.000 hrefnur gert í sama tilgangi? Ástæða þess að ég nefni þennan fjölda er sú að samkvæmt talningu árið 2004 var áætlað að 56.000 hrefnur væru á íslenska landgrunninu, en 184.000 í norður- og mið-Atlantshafi. Þetta þýðir með öðrum orðum að auðveldlega má tífalda veiðarnar frá þeim 40 hrefnum sem nú hefur verið gefið leyfi fyrir að veiða án þess að gengið sé á hrefnustofninn, sem offjölgar sér þessi misserin sökum lélegrar sóknar.

Utanríkisráðherra hefur sagt að verið sé að fórna meiri hagsmunum fyrir minni með hrefnuveiðum sumarsins. Ég er ósammála. Nær væri að hætta að eyða stórfé í tilgangslausan lobbýisma fyrir sæti í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna og nota það fé sem sparast í að kynna sjávarútvegsstefnu Íslands, þar á meðal hvalveiðar. Ísland verður hvort eð er ekki annað en taglhnýtingur Bandaríkjanna í öryggisráðinu á meðan Sjálfstæðisflokkurinn ræður í ríkisstjórninni.

Með þessu legg ég til að heimilt verði að veiða allt það magn sem hægt er að selja af hrefnu þó að hámarki 300 hrefnur á ári fyrstu árin.

http://is.wikipedia.org/wiki/Hrefna

19. maí 2008 - Júrótrash!

Síðan ég vaknaði í morgun hefi ég heyrt hvert hallærislagið á fætur öðru í útvarpinu, svo hallærislegt að ætla mætti að Júrótrashkeppnin væri á döfinni. Og ég sem hélt í sakleysi mínu að henni hefði lokið þegar Íslendingar höfnuðu lagi sem hafði möguleika á sigri í keppninni og sendu Guðrúnu Gunnarsdóttur í þess stað til Belgrað.
Annars hafði ég lúmskt gaman af fréttum sem berast okkur þessa dagana frá Belgrað. Íslensku keppendurnir í Júrótrashkeppninni hittu krónprinsessu lýðveldisins Serbíu í þarlendu sjónvarpi á dögunum og var boðið í hanastél hjá henni.
„Ha, krónprinsessa lýðveldisins Serbíu?“
„Hvaða rugl er í gangi?“
„Er Serbía hætt að vera lýðveldi og orðið konungsríki?“

Sem betur fer er ástandið ekki orðið svona slæmt þótt íslenskir keppendur í Júrótrash séu enn sömu royalistarnir og þeir voru fyrir 1944. Þeim til upplýsingar skal þess getið að alþýðulýðveldið Júgóslavía var stofnað 29. nóvember 1945 og síðan eftir sundurliðun Júgóslavíu, sambandslýðveldið Serbía og Montenegro frá 2003 og lýðveldið Serbía frá 2006.

Það má svosem vel vera að einhverjir einstaklingar vilji eignast Serbíu í krafti erfða sinna, en serbnesku þjóðarinnar vegna verður þeim vonandi aldrei að ósk sinni og Boris Tadic forseti Serbíu getur varpað öndinni léttar.

sunnudagur, maí 18, 2008

18. maí 2008 - Dúa athugasemd

Það var tiltektardagur í lóðarfélaginu okkar á laugardaginn undir vökulum augum Dóru lóðarfélagsformanns sem sýndi okkur enga linkind. Þar sem ég var að hamast við að hreinsa undir rólunum spurði mig ein nágrannakonan:
“Ert þú Anna bloggari?”
Ekki gat ég neitað því þótt ég reyndi að gera sem minnst úr bloggskrifum mínum.
“Ég er Dúa,” segir konan um leið og hún fyllti plastpokann með laufblöðum frá því í fyrra.
“Ha, Dúa dásamlega?”
“Nei, nú er ég Dúa athugasemd eftir að ég sneri mér einvörðungu að því að gera athugasemdir við færslur annarra.”
Í gegnum hugann fóru meinlegar athugasemdir Dúu dásamlegu þegar ég hafði einhverju sinni hlaupið á mig í bloggfærslum mínum.
“Hvar býrð þú”, spurði ég.
“Beint á móti þér”
Dúa reyndist búa eftir allt hinum megin við garðinn, svo nálægt mér að við hefðum getað kallað athugasemdirnar yfir garðinn í stað þess að senda allt í gegnum netið.

laugardagur, maí 17, 2008

17. maí 2008 - Allt á afturfótunum? Ekki alveg!

Þótt ég hafi verið virk í Amnesty International í nokkur ár, hefi ég ekki verið virk í hópastarfi nema í rúmt ár, eða frá því starfshópur um mannréttindi LGBT einstaklinga sem kallar sig Verndarvættirnar tók til starfa. Auk mánaðarlegra funda þar sem hópnum er úthlutað verkefnum þar sem við sendum bréf til stjórnvalda hinna ýmsu landa þar sem réttindum LGBT hópa er ábótavant, vorum við með öflugan hóp í Gleðigöngunni í fyrra þar sem ég ók á undan fótgönguliðinu á flottum Ford pickup skreyttum blöðrum og stóreflis hnattlíkani.

Auk verkefna frá Amnesty höfum við einnig tekið að okkur verkefni á vegum IGLHRC sem starfar alþjóðlega að sömu markmiðum og Verndarvættirnar. Ef lesendur mínar vita ekki hvað IGLHRC er, er bara að gúggla á svarið.

Það hafði rignt yfir mig tölvupóstsendingum frá meðlimum Verndarvættanna. Fundurinn er klukkan 17.15 og hann verður haldinn niðri á Laugavegi. Ég skráði þetta vandlega í dagbókina mína með margra daga fyrirvara og þegar ég taldi fundartímann nálgast hélt ég að heiman bölvandi umferðinni á föstudagseftirmiðdegi. Eftir langa mæðu komst ég loks niður í miðbæ og fann öllum að óvörum stæði rétt við Fríkirkjuna. Þegar ég ætlaði að greiða stöðumælagjaldið uppgötvaði ég mér til hrellingar að ég hafði gleymt veskinu heima, krossaði mig í huganum enda Almættið nálægt og læddist þaðan upp á Laugaveg.

Talsverður fjöldi var á ferðinni og flestir töluðu útlensku. Ég slapp þó framhjá þeim öllum og alla leið upp á Laugaveg, fimm mínútum á eftir áætlun. Þar var enginn og fundurinn átti að vera löngu byrjaður. Ég hringdi í hópstjórann.
“Ha, fundur núna? Ég boðaði fund þann 23. maí klukkan 17.15.”

Ég fann hvernig teygðist á eyrunum. Ég flýtti mér til baka að Fríkirkjunni og að bílnum. Mér létti. Alltjent hafði Almættið bænheyrt mig því engin lapplísa hafði hengt stöðumælasekt á bílinn minn og ég komst heil heim.

föstudagur, maí 16, 2008

16. maí 2008 - Góðir grannar

Það var tiltektardagur í blokkinni þar sem ég bý á fimmtudagskvöldið. Flestir íbúarnir tóku til hendinni, þrifu og skrúbbuðu, máluðu og löguðu hitt og þetta. Slík var samstaðan að börn og jafnvel heimiliskettir tóku þátt í atinu þótt lítið gagn yrði að þeim síðarnefndu og þá fremur ógagn.

Að minnsta kostu urðu nágrannar mínir fyrir neðan mig ekkert hrifnir þegar Hrafnhildur ofurkisa bauðst til að aðstoða mig við að mála svalahandriðið hjá þeim en svört kisan skildi eftir hvít klóspor frá svölunum og yfir allt parketið á íbúðinni þeirra.

Það er viðbúið að ruslakarlarnir fái ofbirtu í augun þegar þeir sækja ruslið á föstudagsmorguninn. Þá má ekki gleyma að sumir nágrannarnir fylgdust í laumi með aðförunum á númer 56 og langaði til að vera með, eða öllu heldur, að slík væri samstaðan í þeirra stigagangi að allir legðust á eitt um að gera sinn stigagang betri. En óttist eigi, á laugardag verður lóðarhreinsidagur og þá verður nóg af verkefnum fyrir alla sem vilja taka þátt í að gera nágrennið aðeins betra en áður.

Með samstöðunni og góðum nágrönnum getum við gert nærumhverfið mun hlýlegra en áður og verið öðrum til hvatningar :)

fimmtudagur, maí 15, 2008

15. maí 2008 - Make my day!

Ég átti erindi út á pósthús á miðvikudagseftirmiðdaginn þar sem ég átti sendingu geymda. Konan sem afgreiddi var hvers manns hugljúfi, bauð öllum góðan daginn og kvaddi sérhvern viðskiptavin með persónulegri kveðju. Ég var í fremur syfjuðu skapi, þoldi illa að yrt væri á mig eftir síðustu næturvakt og vildi helst flýta erindi mínu og án neinna óþarfa bragða.

Þegar ég gekk út úr pósthúsinu fann ég hvernig ég var orðin miklu léttari í skapi. Einhvernveginn var deginum bjargað og allt leit miklu betur út en áður en ég fór og sótti sendinguna á pósthúsið.

Getur það virkilega verið að einfaldur hlýleiki í mannlegum samskiptum geti haft svona mikið að segja?

-----oOo-----

Svo finnst mér að bifreiðarstjórinn á bifreiðinni RO-038 mætti tala aðeins minna í gemsann sinn og einbeita sér þess í stað að umferðinni. Þá myndi umferðin einnig ganga miklu betur.

þriðjudagur, maí 13, 2008

13. maí 2008 - Fordómarnir mínir!

Ég hafði verið beðin, ásamt fleira fólki, að gerast sýningargripur í útskriftarverkefni stúlku einnar sem var að ljúka námi í Listaháskóla Íslands. Ég tók að sjálfsögðu vel í beiðnina og mætti upp að Korpúlfsstöðum á annan í hvítasunnu þar sem gjörningurinn átti að fara fram. Ég vissi fátt um það sem átti að fara fram annað en að verkefnið og gjörningurinn áttu að vera áminning til okkar um að heimurinn er ekki bara í hvítu og svörtu og alls ekki þegar um er að ræða kynferði og kynhneigðir.

Svo hófst gjörningurinn þar sem sýningargestir áttu að leysa af hendi nokkur einföld og saklaus verkefni. Þótt ég sæi ekki nema það sem fór fram í næsta nágrenni við mig, brosti ég samt í byrjun að hegðun sumra gestanna er þeir leystu hinar ýmsu þrautir. Sumir létu sig jafnvel hafa það að taka nokkrar leikfimisæfingar undir kristilegri leiðsögn af dvd-diski. Aldrei léti ég hafa mig út í svona lagað!

Bíddu nú hæg. Hvað voru krakkarnir að gera rangt? Flestir voru gestirnir ungir að árum, gjarnan á milli tvítugs og þrítugs. Raunverulega gat ég ekki annað en dáðst að þeim fyrir þorið, að framkvæma þær þrautir sem fyrir þá höfðu verið lagðar. Ég hugleiddi eigin unglingsár þegar svona lagað hefði verið útilokað, enda hermdu þá allir eftir þeim sem bar sig best hverju sinni og öll frávik frá meðalmennskunni voru bannfærð um leið og bólaði á þeim.

Hugsunin breyttist eftir 1968. Það kom fram ný kynslóð unglinga sem hættu að vera stereótýpur af hverjum öðrum og heimurinn verður aldrei samur á eftir. Sem betur fer.

Ég held að ég hafi uppgötvað örlítinn vott af mínum eigin fordómum þar sem ég sat í hópi ungs fólks á Korpúlfstöðum á annan í hvítasunnu.

mánudagur, maí 12, 2008

12. maí 2008 - Af bókabrennum fyrir 75 árum

Þegar ég vaknaði á hvítasunnudagsmorguninn og hlustaði á morgunfréttirnar í útvarpinu var sagt frá því að á laugardag hefði verið minnst 75 ára frá bókabrennunum í Berlín, en þær fóru fram 10. maí 1933. Þar var brennt bókum eftir hina ýmsu höfunda sem ekki voru Þriðja ríkinu hliðhollir, gyðinga, sósíalista, og fleiri. Þá var þess sérstaklega getið að verstur hefði Karl Marx verið, en hann var bæði frumkvöðull kommúnismans og gyðingur.

Þegar Transgenderþinginu lauk í Berlín um síðustu helgi, ætluðu sumir þátttakenda að dvelja áfram í Berlín, en einhverjir ætluðu sér að vera viðstaddir vígslu minnismerkis um Magnus Hirschfeld og Institut für sexualwissenschaft sem starfaði í Berlín á árunum 1919 til 1933. Safninu var lokað af nasistum 6. maí 1933 og bókasafnið brennt með bókabrennunum miklu 10. maí, en það af starfsfólkinu sem ekki komst undan var sent í útrýmingarbúðir, þeirra á meðal Dorchen sem hafði farið í aðgerð til leiðréttingar á kyni tveimur árum áður og önnur manneskjan í heiminum sem hafði farið í gegnum leiðréttingarferli.

Sjálfur hafði stofnandi Institut für Sexualwissenschaft, Magnus Hirschfeld læknir og kynfræðingur (sexolog) verið í fyrirlestraferð um heiminn og gat einungis fylgst með ógnarfréttunum frá Berlín úr fjarlægð þar sem hann var staddur í París. Hann átti aldrei afturkvæmt til Þýskalands og lést í Nice í Frakklandi tveimur árum síðar. Í augum nasista þótti hann ugglaust enn verri en Karl Marx þar sem hann var gyðingur, sósíalisti og hommi og hafði skrifað bækur um rannsóknir sínar í kynfræðum.

Fyrir nokkrum árum síðan gerði Rosa von Praunheim leikna heimildarkvikmynd um Hirschfeld og stofnun hans í Berlín undir heitinu Der Einstein des Sexes og var myndin sýnd hér á landi við litla aðsókn á hinsegin kvikmyndahátíð snemma árs 2004. Það var synd því kvikmyndin var nokkuð góð sem heimildarkvikmynd og að mestu leyti laus við yfirdramatíseríngu bandarískra kvikmynda.

http://ruv.is/heim/frettir/frett/store64/item206016/

laugardagur, maí 10, 2008

11. maí 2008 - Gáfaðir Kópavogsbúar í kexinu

“Kópavogsbúar eru gáfuðustu íbúar landsins ef marka má úrslitin í Útsvari, spurningakeppni sveitarfélaganna sem fram fór í gærkvöldi. Lið Kópavogs og Reykjavíkur kepptu til úrslita í hörkuspennandi keppni. Það var spurningin um Sæmund á sparifötunum sem færði Kópavogi sigurinn en Reykjavíkurliðið gataði á svarinu. Það er kremkex frá Fróni.”

Svona hljóðaði fréttin af úrslitakeppninni í Útsvari á föstudagskvöldið þegar hún var lesin upp í sjónvarpsfréttum á laugardagskvöldið.

Um leið og ég vil óska laganemunum ungu, ásamt Erni Árnasyni sem er álíka mikill Kópavogsbúi og ég sem á heima í Árbænum, til hamingju með sigurinn vil ég nefna að þetta er að sjálfsögðu allt gott og blessað og að mestu leyti rétt, þó ekki alveg. Það var ekki bara að hvorugt liðið vissi svarið við spurningunni um kexið og að spurningunni var beint að Kópavogsbúum sem götuðu á svarinu, heldur er nafnið Sæmundur tilkomið þannig að forstjóri kexverksmiðjunnar Esju var heiðursmaðurinn og fyrrum sjómaðurinn Sæmundur Elías Ólafsson fæddur 7. apríl 1899 og látinn 24. júlí 1983, en hann tók við rekstri Esju árið 1939. (sjá Bergsætt-I-174) Löngu síðar yfirfærðist nafnið Sæmundur á framleiðslu beggja verksmiðjanna, Esju og Fróns. Því er rétta svarið, kremkex frá Esju.

Það er svo allt annað mál að bæði liðin brugðust mér einnig með því að vita ekki nafnið á höfuðstaðnum á Sardiníu og þótt ég öskraði svarið á sjónvarpið mitt, nennti enginn að hlusta. Það er kannski eðlilegt að ég muni nafnið á þessum bæ því ég var einhverju sinni á ferð með innanlandsflugi á Ítalíu og fór af í Genúa, en farangurinn minn hélt áfram til Cagliari þaðan sem ég endurheimti hann tveimur dögum síðar.

Þessi færsla var í tilefni lokadags vetrarvertíðar 11. maí :)

föstudagur, maí 09, 2008

10. maí 2008 - Jakob Frímann Magnússon

Tónlistarmaðurinn Jakob Frímann Magnússon er sagður hinn mesti andans maður. Ekki veit ég neitt um það, því þótt ég hafi mikið álit á öðrum núverandi og fyrrum Stuðmönnum á borð við Egil Ólafsson og Valgeir Guðjónsson, hefur mér ávallt fundist maðurinn fremur sjálfhverfur.

Fyrir nokkrum árum síðan bauð Jakob Frímann sig fram í prófkjöri til þingstarfa fyrir hönd Samfylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmum. Þrátt fyrir geysilegan kostnað og mikið umstang hlaut hann ekki þá vegsemd sem hann sóttist eftir og sennilega enn verri kosningu en nokkurn gat órað fyrir. Ekki veit ég af hverju, en kæmi ekki á óvart þótt umrædd sjálfhverfa hafi átt þar hlut að máli auk mikillar hrifningar hans á Tony Blair þáverandi forsætisráðherra Bretlands.

Aftur bauð hann sig fram fjórum árum síðar og þá í suðvesturkjördæmi og hlaut álíka útreið. Í kjölfarið sagði hann sig úr Samfylkingunni. Ekki ætla ég að velta því fyrir mér hvort umrædd sjálfhverfa átti þar hlut að máli eða hrifning hans á “hægrikratanum” Tony Blair sem mér finnst ómögulegt að líkja við jafnaðarmennsku.

Það var stofnaður “hægrigrænn” flokkur og enn fór Jakob Frímann í framboð og náði því nú að verma fyrsta sætið í Suðvesturkjördæmi fyrir Íslandshreyfinguna. Það dugði honum þó ekki því enn á ný var honum hafnað af kjósendum.

Skyndilega birtist Jakob Frímann á sjónarsviðinu á ný, í þetta sinn sem embættismaður borgarinnar án þess að hafa til þess stuðning borgarbúa, reyndar ekki frekar en sá blörraði sem réði hann, en sá hlaut einungis að hámarki 6527 atkvæði. Skelfing hvað þessi 6527 atkvæði eru búin að vera okkur dýr.

Það má svo velta því fyrir sér hversu mörg af þessum 6527 atkvæðum voru hugsuð til stuðnings Margréti Sverrisdóttur en ekki þeim blörraða.

Með þessum orðum ætla ég að ljúka vangaveltum mínum um þann blörraða þar til hann fremur nýtt klúður.

-----oOo-----

Svo fær Brynja frænka hamingjuóskir með hálfa tuginn, þótt ég geti ómögulega munað hvort hún er orðin hálfþrítug eða hálffertug.

9. maí 2008 - Enn af stefnuljósanotkun

Eins og þessar fáu lesendur mínar sem eftir eru vita, þá er ég mjög fylgjandi bættri notkun stefnuljósa, reyndar svo mjög að jaðrar við þráhyggju. Þannig reyndi ónefnd sendibifreið að kyssa afturstuðarann á bílnum mínum um daginn þar sem ég ók eftir einföldum hluta Keflavíkurvegarins og komst ekki hraðar vegna bifreiðanna á undan mér, en ég steinhætti við að tilkynna atferlið til yfirvalda þegar ökumaður sendibifreiðarinnar gaf stefnuljós og fór síðan í aðra átt.

Um daginn var ég stödd í Þýskalandi og veitti því þá athygli að Bensar og Bimmar sem framleiddir eru fyrir innanlandsnotkun þar í landi eru útbúnir með stefnuljósum, annað en þeir Bensar og Bimmar sem fluttir eru til Norðurlandanna. Ég sá engar Toyotur 200 eða Rangerovera og get því ekki dæmt um hvort þeir séu líka búnir stefnuljósum sem seldir eru á þýskum markaði.

Það ætti kannski að flytja Bensa til Íslands sem eru ætlaðir þýskum markaði!

fimmtudagur, maí 08, 2008

8. maí 2008 - Af fótboltaspili


Að undanförnu hefi ég verið svo upptekin af að skrifa um leiðinlegt lið í borginni að ég hefi gleymt að skrifa um eitthvað skemmtilegt. Frekar en að eyða orðum mínum í enn einn lúserinn í borginni sem var reyndar síðast í framboði í kraganum án mikils árangurs, en náði feitu embætti gegnum blörraða spillingu, ætla ég að skrifa um fótbolta.

Eins og aðdáendur mínir vita er ég einlægur aðdáandi tveggja liða í ensku knattspyrnunni, jafnvel heimsótt annað liðanna, Halifaxhrepp í Vestur-Jórvíkurskíri. Þrátt fyrir einlægan stuðning minn gekk veturinn illa fjárhagslega og fór svo á miðjum vetri að liðið lenti í greiðsluerfiðleikum og var því refsað með tíu stiga frádrætti. Þar með var Halifaxhreppur kominn í bullandi fallhættu í kvenfélagsdeildinni (5. deild). Að lokum fór samt svo að því rétt tókst að halda sér áfram í deildinni með einu stigi umfram næsta lið fyrir neðan sem féll niður í 6. deild.

Hitt uppáhaldsliðið er svo auðvitað United of Manchester, þetta snilldarlið sem var stofnað fyrir þremur árum þegar gamla móðurfélagið lenti í höndunum á einhverjum fjárglæframanni vestur í nýlendunum. Fóru þá nokkrir brennheitir stuðningsmenn í fýlu og stofnuðu nýtt samvinnufótboltafélag þar sem hver meðlimur er eitt atkvæði. Þeir hófu svo að spila í tíundu deild haustið 2005 og unnu hana með glæsibrag. Ári síðar var níunda deildin lögð að velli og nú bættist enn ein dollan í safnið með öðru sæti í áttundu deild og sigri í úrslitakeppni annars til fimmta sætis. Það er því áframhaldandi sigurganga þar sem lið sjöundu deildar bíða skjálfandi í hnjáliðunum og styttist nú verulega í að gamla móðurfélagið verði lagt að velli, ekki nema svona 7 ár.

miðvikudagur, maí 07, 2008

7. maí 2008 - Það hlýtur að vera erfitt....

.....að vera hluti af sexmenningaklíkunni og þurfa sífellt að réttlæta bjánaskapinn í þeim blörraða sem hefur minna en tíu prósent á bakvið sig eða að hámarki 6527 atkvæði. Þetta gildir bæði um orð hans um skipulag Vatnsmýrarinnar sem og stöðu mannréttindafulltrúa Reykjavíkur svo ekki sé talað um fúatimbrið sem hann lét mig kaupa á 580 milljónir.

Um leið er það furðulegt að sá blörraði þykist vera á móti mengun en berst hatrammlega fyrir hávaðamengun í miðborg Reykjavíkur.

Fyrir nokkru síðan las ég grein um Brommaflugvöll í Stokkhólmi og þess getið hversu nálægur hann væri miðborginni. Í greininni sem ég las í Morgunblaðinu var ákveðinna atriða ekki getið, enda um áróðursgrein fyrir áframhaldandi hávaðasamri flugvallarstarfseminni að ræða. Flugvöllurinn er samt nokkra kílómetra fjarlægð frá þinghúsinu auk þess sem aðflug frá suðaustri að flugvellinum er ekki leyft, þ.e. yfir miðborgina. Þú verður að lenda frá norðvestri þannig að lífið í miðborginni truflist ekki af flugumferð. Á minni stöðum í Svíþjóð er flugumferð ekki leyfð á kvöldin og nóttunni ef truflun stafar af, t.d. í Umeå. Í miðborg Reykjavíkur er erfitt að halda útifundi eða innifundi með opna glugga vegna flugumferðar.

Hvenær skyldu Hanna Birna og Gísli Marteinn skilja það að stuðningur þeirra við þann blörraða skaðar ímynd þeirra sem fulltrúa Reykvíkinga í borgarstjórn Reykjavíkur?

þriðjudagur, maí 06, 2008

6. maí 2008 - Make human rights work


Ofangreind orð voru yfirskrift annars þings Evrópsku transgendersamtakanna sem haldið var í Berlín 2 - 4. maí 2008. Þau eru um leið áminning til allra um að mannréttindi eru víða fótum troðin, ekki einungis í þróunarlöndunum, heldur eru þau einnig þverbrotin víðast hvar í heinum vestræna heimi gagnvart transgender einstaklingum, ekkert einvörðungu af hálfu stjórnvalda, heldur almennt í samfélaginu.

Fólk er rekið úr vinnu, það fær ekki eðlilega læknisþjónustu, er sagt upp húsnæði, fyrirlitið og lagt í einelti fyrir þá sök eina að vilja vera það sjálft í samræmi við tilfinningar sínar. Það er rætt um það í hæðnistón, gert grín að því og mjög oft talað niður til þess í fjölmiðlum. Löggjafarvaldið tekur ekki tillit til þess í fjölmörgum ríkjum og setur því jafnvel slík takmörk að ómögulegt er að lifa upp til óska laganna og einasti kosturinn verður sá að leggjast í felur og læsa sig inni í skáp og gleypa lykilinn.

Nokkrar tilraunir hafa verið gerðar til að bindast samtökum á alþjóðlega vísu með misjöfnum árangri og var enn ein slík tilraunin gerð í Vínarborg í nóvember 2005 er nærri 130 transgender einstaklingar hittust í ráðhúsinu í Vín á fyrsta transgenderþinginu og bundust samtökum, Evrópsku transgendersamtökunum. Síðan þetta var hefur stjórn samtakanna unnið að uppbyggingu samtakanna. Það er ekki létt verk sem við tókumst á hendur á fjölmörgum fundum okkar, ýmist beint eða á símafundum því taka þarf tillit til margra sjónarmiða. Þannig eru viðhorfin í Austur-Evrópu gjörólík því sem er í Vestur-Evrópu og sömu sögu má segja um muninn á Norður-Evrópu og Suður-Evrópu, svo ekki sé talað um muninn á Evrópusambandinu og landanna sem eru utan þess. Þrátt fyrir þetta eigum við sameiginlegt markmið, að fá að lifa óáreitt og í sátt við sál og líkama og samfélagið allt.

Til að efla samhuginn hittumst við, rúmlega 180 einstaklingar frá 36 ríkjum, allt frá Íslandi til Kirgístan auk gesta frá Rómönsku-Ameríku og ræddum hugðarefni okkar í þrjá daga í Schöneberger rathaus í Berlín nú um helgina og reyndum að efla samkennd og samhug, hitta gamla og nýja vini og leggja línurnar fyrir baráttu næstu ára.

Ein af niðurstöðum þingsins var sú að við höfðum ekki unnið neina sigra frá fyrsta þinginu, en heildarþróunin er jákvæð og stefnan er í átt að auknu umburðarlyndi fyrir fólki hvers kyns eða kynhlutverks sem það er.

Á þinginu var minnst tveggja transgenderpersóna, þeirra Gisbertu og Lunu sem báðar voru frá Brasilíu en höfðu reynt að öðlast betra líf í Evrópu. Báðar voru þær myrtar í Portúgal á hrottafenginn hátt af hatursfólki í okkar garð, Gisberta í Porto í febrúar 2006 en Luna fannst myrt í ruslagám í Lissabon tveimur árum síðar.

Baráttunni fyrir mannréttindum er ekki lokið. Við erum rétt að byrja.

mánudagur, maí 05, 2008

5. maí 2008 - Skemmtiatriði óskast í Reykjavík á 17. júní.

Auglýsingu þess efnis mátti heyra fyrir og eftir útvarpsfréttir nú í kvöld og jafnframt tekið fram hvar þessa auglýsingu væri að finna. Auglýsandinn var Þjóðhátíðarnefnd.

Ég er með hugmynd í þessu sambandi. Í Reykjavík finnst maður einn sem talinn er ákaflega húmorslaus. Ég legg til að þessi maður sem þykir svo leiðinlegur að hann hefur verið sýndur blörraður í Spaugstofunni til að fæla ekki áhorfendur frá þættinum, verði kallaður til og látinn segja brandara á Lækjartorgi á 17. júní. Með því móti slær hann tvær flugur í einu höggi, í fyrsta lagi, sýnir Reykvíkingum að hann sé ekkert leiðinlegur og í öðru lagi gerir hann eitthvað af viti, en slíkt er ekki hægt að segja um starf hans sem borgarstjóri Reykjavíkur.

Ég tek fram að ég á enga blörraða mynd af honum og þori því ekki birta óblörraða mynd til að fæla ekki lesendur mínar í burtu.

laugardagur, maí 03, 2008

4. maí 2008 - Stephen Whittle

Professor Stephen Whittle er ótrúlegur persónuleiki. Allt frá því hann fór í aðgerð til leiðréttingar á kyni, aðeins 19 ára gamall árið 1975, hefur hann talað opinskátt um reynslu sína og verið öðru transsexualfólki til fyrirmyndar og síðar transgender fólki. Hann er í fullu starfi sem prófessor í lagadeild við Háskólann í Manchester jafnframt öðrum hugðarefnum sínum sem fjölskyldufaðir, formaður bresku transgendersamtakanna Press for Change og sem forseti WPATH. (World Professional Association for Transgender Health sem og stjórnarmaður í Evrópsku transgendersamtökunum (TGEU) þar sem ég hefi einnig átt sæti. Ekki má heldur gleyma að hann hefur fengið sérstaka heiðursviðurkenningu úr hendi Bretadrottningar fyrir störf sín í þágu transgender fólks um allan heim. Þessi mikli baráttumaður er illa haldinn af MS-sjúkdómnum.

Þegar leið á seinnihluta aðrar ráðstefnu Evrópsku transgendersamtakanna (TGEU) sem haldin er í Berlín fyrstu daganna í maí árið 2008 í Schöneberg Rathaus, þessum fræga stað þar sem John F. Kennedy þóttist vera Berlínarbúi vorið 1963, var haldinn aðalfundur samtakanna. Ég baðst undan að vera kosin áfram í stjórn, enda illa haldin af peningaleysi þrátt fyrir ánægjulegan styrk frá Minningarsjóði Margrétar sem gerði mér kleift að sækja ráðstefnuna og aðalfundinn. Fyrir orð Stephen Whittle samþykkti ég að taka áfram þátt í starfi TGEU, þó án beinnar þátttöku í aðalstjórn. Á aðalfundinum hlaut ég samt 70 atkvæði til áframhaldandi setu í stjórn þegar sá sem hlaut flest atkvæðin hlaut 88 atkvæði og hefði ég lent í fjórða sæti af níu í stjórninni ef ég hefði samþykkt áframhaldandi setu í aðalstjórn. Með þessari kosningu hlaut ég afgerandi kosningu sem varamanneskja og "auditor"
Það sem bar þó af á aðalfundinum var að Justus Eisfeld formaður TGEU kaus að yfirgefa stjórnina vegna flutnings síns til Bandaríkjanna og á hann bestu þakkir skildar fyrir störf sín. Í hans stað var einróma kosinn formaður sá sem endalaust getur bætt á sig verkefnum, MS-sjúklingurinn sjálfur, Stephen Whittle.

-----oOo-----

Það var haldið teiti TGEU í Berlín á laugardagskvöldið. Að sjálfsögðu var ég í teitinu sem og opinni skemmtun á eftir, þrátt fyrir klukkutíma ferðalag suður til Schönefeld á hótelið sem er skammt frá flugvellinum. Ég sleppti því einfaldlega að skipta um föt í millitíðinni.

Þegar ég var nýkomin inn á skemmtistaðinn hitti ég Stephen Whittle og tókum við tal saman. Kom þá einhver glæsileg drottning labbandi framhjá okkur, Stephen horfði á hana og svo á mig og spurði af hverju ég væri ekki í pilsi eins og allar trönsurnar sem og hinar sem voru vel til hafðar.
“Því get ég svarað,” svaraði ég um leið og horfði niður eftir sjálfri mér í bol og leðurjakka og gallabuxum að neðan, “það er vegna þess að ég er ordinary transsexual”

Þá hló Stephen Whittle.

föstudagur, maí 02, 2008

2. maí 2008 - Aðalsteinn Jónsson

Það var um sumarið 1996 sem ég flutti til Íslands eftir áralanga dvöl í Svíþjóð uppfull bjartsýni og taldi mig færa í flestan sjó eftir að hafa lokið erfiðleikum mínum í lífinu, óvitandi að þeir voru kannski rétt að byrja. Ekki fór þó allt eftir bókinni og fyrsta mánuðinn gerði ég lítið meira en að sækja um störf, naga á mér neglurnar og velta fyrir mér hvort ekki væri best að koma sér út aftur.

Þá var það sem útgerðarstjórinn hans Alla ríka hringdi og bað mig að kom austur á Eskifjörð til afleysninga. Ég var síðan í afleysningum á skipum Hraðfrystihúss Eskifjarðar (síðar Eskju) að nokkru leyti um sumarið og haustið og síðan öðru hverju næstu árin til ársins 2000 er ég hætti alfarið að leysa af á sjó. Miðað við hvað hafði gengið á í atvinnumálum mínum mánuðinn á undan, fer enginn að segja mér að Emil Thorarensen hafi ekki ráðfært sig við Aðalstein áður en hann hringdi í mig.

Eftir þetta þegar ég var á Eskifirði rakst ég oft á Aðalstein, oft á bryggjunni þegar hann fór morgunrúntinn eða var að fylgjast með skipunum að koma í land, en stundum á skrifstofunni sem og einu sinni á árshátíð fyrirtækisins. Þótt hann virkaði dálítið stífur á mig í upphafi fór ekkert á milli mála að hann mat vinnandi hendur meira en einhverjar kjaftasögur um mig og virtist um leið hafa lúmskt gaman af þeirri lífsreynslu sem ég hafði gengið í gegnum.

Eitt má þó vera ljóst. Hefði ég ekki verið kölluð austur á Eskifjörð þennan júlídag árið 1996, hefði ég sennilega farið aftur af landi brott dagana á eftir og ósennilegt að ég hefði komið til baka næstu árin á eftir.

Með þessum orðum vil ég votta fjölskyldu Aðalsteins Jónssonar samúðarkveðjur mínar.

fimmtudagur, maí 01, 2008

2. maí 2008 - Úlfur Hróðólfsson alias Wolfgang Müller

Sagt hefur verið um Íslendinga að þeir séu venjulega fljótir að þefa uppi landa sína þegar þeir eru á ferð erlendis. Ég hefi farið aðra leið, reynt að forðast þá en stundum er vart hjá hlutunum komist.

Fyrsta maí hitti ég tónlistarmanninn og rithöfundinn Wolfgang Müller. Ég veit ósköp vel að Wolfgang Müller er ekki íslenskur, fæddur í heimahéraði Volkswagen í Wolfsburg, kom út úr skápnum þegar slíkt var fátítt í hinu frjálslynda Þýskalandi og talar sáralitla íslensku. Um leið er hann betri Íslendingur en margur sá sem aldrei hefur farið út fyrir landsteinana. Hollusta hans gagnvart Íslandi lýsir sér kannski best í því að hann hefur komið minnst 25 sinnum til Íslands á tuttugu árum. Ekki er það til að draga úr ágætunum að hann er ákaflega kynþokkafullur og trönsurnar vinkonur mínar héldu vart vatni yfir honum.

Á síðasta ári kom út bók hans Neues von der Elfenfront - Die Wahrheit über Island og sjálf er ég ákaflega stolt yfir bókinni enda tvær myndir af mér í henni auk eins kafla af efni, allt samið af nærgætni og hógværð.

Það var því vart hægt annað en að fá að sjá þennan ágæta Íslandsvin um leið og skráningin á ráðstefnu TGEU fór fram í Berlin.

Um leið verður að taka það fram að litlar sem engar óeirðir voru á 1. maí í hverfinu hans Wolfgangs, Kreuzberg, en þess meiri í Hamborg.

http://www.wolfgangmueller.net/content/