sunnudagur, maí 25, 2008

25. maí 2008 - Tinni kominn með stelpu?

Eins og allir Íslendingar vita á þessari stundu vann Ítalía Júróvisjón með því að vera ekki með, en Ísland lenti í 14. sæti, einu sæti neðar en lagið sem ég var að hæðast að í fyrradag. Samt lenti það tveimur sætum ofar en flottustu lögin sem Ísland hefur sent í keppnina og fjórum sætum ofar en það lag sem Íslendingar og Svíar höfðu spáð sigri svo þetta er kannski ekki eins slæmt og ætla má. :)

Þótt þessi slæmi árangur kæmi mér ekkert á óvart samanber færslur mínar síðustu dagana, þá gladdist ég helst yfir því að lettneska lagið lenti tveimur sætum ofar en það íslenska þrátt fyrir mjög neikvæð ummæli „virtra“ fjölmiðla í garð þess. Ég viðurkenni alveg að það var sem léleg kópía af lagi Mercedes Club og þess meiri ástæða til að velta fyrir sér hvort Ísland hefði ekki náð lengra með Barða og trumbuslögurunum heldur en þessu lagi.

Einhverju sinni las ég grein um teiknimyndapersónuna Tinna þar sem greinarhöfundur gat sér þess til að Tinni væri samkynhneigður. Ekki veit ég neitt um það né ástarævintýri þau sem honum og Kolbeini kaptein voru ætluð saman í laumi, en nú er komið babb í bátinn. Dagens nyheter í Svíþjóð hefur nefnilega uppgötvað að Tinni sé kominn með stelpu upp á arminn og kallar þar til sögunnar Friðrik Ómar og Regínu Ósk, eða svo vitnað sé beint í DN:

11. Island, Euroband, "This is my life"
Nu kan alla cyniker och/eller livsledsna personer lalla högljutt eller bara gå undan en stund. För låten bejakar livets låga stunder, det man får på köpet så att säga. Det som blir det blir. Och denna discodänga, framförd av Tintinkopia med tjej, är av må bra-slaget.
Ledord: E-Type. Regnbåge. Peptalk. Nittiotalsdisco. Livsglädje.

http://www.dn.se/DNet/jsp/polopoly.jsp?d=2198&a=772999

Ég verð að játa að það er svipur með Friðrik Ómar og Tinna.

Með þessu vona ég að ég þurfi ekki að tjá mig frekar um vondulagakeppnina aftur fyrr en á næsta ári.


0 ummæli:Skrifa ummæli